TÁR, BROS OG TAKKASÍMAR

Jæja, umsókn um listamannalaun 2025 hefur verið lögð inn. Ég ýtti á „senda inn“ takkann í síðustu viku, eftir að hafa dútlað mér eins lengi og ég gat við að endurskrifa og styrkja ritsýnin sem ég lét fylgja umsókninni. Umsóknin sjálf var frekar lítið breytt frá því í fyrra, skiljanlega þar sem ég fékk enga úthlutun fyrir 2024 og tíminn til að skrifa hefur því verið takmarkaður undanfarið ár, á meðan ég hef verið í fullu starfi og notið góðs af öllum þeim fríðindum sem því fylgja að fá launaseðil í hverjum mánuði sem er nú þegar búið að borga alla skatta og öll gjöld af. Ég fékk meira að segja að kíkja í heimsókn til hans Jóa í Bara bækur um daginn til að ræða um dagvinnuna mína, og hann klippti samtalið okkar til eins og honum einum er lagið og lét mig til að hljóma eins og ég vissi alveg upp á 10 um hvað ég væri að tala. Því til viðbótar má nefna að ég var líka í Endastöðinni í þar síðustu viku, en þar var ég meira bara að gasa um listir og skrif almennt, svo ég sé það meira sem hluta af höfundastarfinu mínu (eða hobbíinu, eftir því hvar ég sæki laun mín hverju sinni).

Maður er samt farinn að vera ansi lunkinn í að stela klukkutíma hér og klukkutíma þar til þess að skrifa á kvöldin eða eftir vinnu. Ein blessunin sem fylgt hefur túristafaraldrinum er það að einhver af kaffihúsunum standa opin frá klukkan 7 á morgnanna um helgar, til að taka á móti túristunum áður en þeir fara í dagsferðirnar sínar, þannig að núna þegar maður er meira og minna hættur að drolla á barnum og farinn að fara snemma í bólið getur maður rifið sig á fætur fyrir allar aldir á laugardögum eða sunnudögum og náð góðri törn þar áður en borgin vaknar. Þetta eru samt allt bráðabirgðalausnir. Fyrr eða síðar þarf maður að finna leið til að eyða lengri samhangandi tíma með handritinu, svo maður missi ekki tilfinninguna á milli lotna. Og til þess þarf maður peninga.

Ætli ég verði ekki að viðurkenna að ég hafi mögulega verið aðeins of mikil Pollýana gagnvart óörygginu og brasinu sem því fylgir að þurfa að „sækja um vinnuna sína aftur á hverju ári“, eins og EÖN kallar það, í skrifum mínum hérna. Þetta er fyrirkomulag sem er ekki í boði fyrir neinn annan en örvæntingarfullt fólk sem hefur, meðvitað eða ómeðvitað, hagað lífi sínu á þann máta í gegnum árin að það er fært um að þrífast í þessu viðvarandi fjárhagslega óöryggi sem því fylgir að treysta á styrki fyrir afkomu sína og afköst.

Ég er þó bara að reyna að gera það besta úr stöðunni, finna einhverja sköpunargleði í þessu blessaða umsóknarferli, nota það sem vettvang til að plana bækurnar sem mig langar að skrifa í framtíðinni – eitthvað sem ég er almennt frekar ragur við að gera í sjálfu skrifferlinu af ótta við að gera út af við dulúðina og uppgötvunarferlið sem fylgja því að renna temmilega blint í sjóinn. Mér finnst nefnilega best að gefa sjálfum mér nægilegt svigrúm til að geta uppgötvað eitthvað óvænt í skrifunum sjálfum; eitthvað sem ég átti ekki von á og hef ekki hugmynd um hvaðan kom. George Saunders hefur skrifað mikið um þetta uppgötvunarferli, um að skrifa eins og maður sé lesandi sem er að uppgötva textann jafnóðum. Ég er með bút úr viðtali við hann vistaðan í einni af möppunum þar sem ég geymi hina ýmsu skjávara sem birtast tilviljanakennt á öllum átta desktoppunum sem ég nýti hérna í tölvunni í mismunandi tilgangi. Þar stendur:

…be open to whatever energy your text is actually presenting as opposed to what you think it’s presenting.

Í sömu möppu hef ég líka vistað þetta heilræði frá Rebeccu Solnit til þeirra sem vilja gerast rithöfundar:

Live below your means and keep your means low.

Ég tók skyndiákvörðun um daginn og keypti mér takkasíma. Fyrr um daginn hafði ég snúið öllu við hér heima í leit að gömlum Nokia-síma sem ég vissi að ég ætti í fórum mínum, en þegar ég fann hann loksins reyndist batteríið vera svo úttútnað að það var ekki lengur hægt að loka bakhliðinni á honum. Ég rölti því niður í Elko úti á Granda og greiddi 12.990 kr. fyrir glænýjan takkasíma. Nýi síminn er líka Nokia, rauður, með Snake og Tetris og einhverjum fleiri leikjum, frumstæðum vafra sem rétt dugar (með töluverðri þolinmæði) til að fletta upp opnunartímum verslana, niðurteljara og vekjaraklukku, rafrænum skilríkjum, bluetooth, 0,2 mb myndavél og slotti fyrir sd-kort þar sem ég vistaði nokkrar plötur sem ég hef keypt af Bandcamp í gegnum tíðina og get spilað á frumstæða MP3-spilara sem er líka að finna á tækinu.

Nýja tryllitækið

Ég var svosem búinn að vera að gæla við þessa hugmynd lengi, en útslagið var þetta nýlega viðtal við Zadies Smith, sem sjálf hefur aldrei átt snjallsíma, ef undanskildir eru þrír mánuðir árið 2010, þegar hún sá í hendi sér að hún myndi aldrei skrifa aðra bók ef hún héldi áfram að ganga með þessa græju í vasanum.

Þetta var kannski svosem ekkert svo stórt stökk fyrir mig, þar sem ég hef ekki verið með neina samfélagsmiðla á símanum mínum í nokkur ár, en ég var farinn að taka eftir því að jafnvel án samfélagsmiðla var ég farinn að kíkja ótæpilega mikið á símann til þess eins að skoða fréttamiðla á borð við Vísi eða Guardian í leit að einhverju til að fanga athyglina. Þannig var ég ennþá að missa af litlu glufunum í deginum þegar maður hefði í eina tíð bara starað út í loftið og mögulega rifjað upp löngu gleymt samtal við einhvern sem manni er annt um, eða kannski bara munað eftir brandara úr gömlum Simpson-þætti sem maður skildi aldrei sem krakki en fattar allt í einu núna þegar honum er skyndilega endurvarpað í huganum á meðan maður bíður eftir græna gönguljósinu á Hringbrautinni.

Eins og Zadie Smith orðar það:

I don’t want to talk through emotional hysteria. I just talk about the facts, and the facts of this technology is that it was designed as and is intended to be a behavior modification system. That is the right term for it. When you wake up in the morning and you turn to your social app, you are being instructed on what the issue of the day is, what to be interested in. The news has always played some element in doing that but this is total. So I might wake up in the morning and what interests me is an idea I’ve had or something I see out my window or what’s happening locally in front of me, what’s happening in my country, but the phone tells me exactly what to think about, where to think about it and often how to think about it.

And it’s not even to me the content of those thoughts. Like, there’s a lot of emphasis put on the kind of politics that are expressed on these platforms to the right or to the left. To me it’s the structure. It’s not the content of what’s on them, it’s that it’s structured in a certain way. That an argument is this long, that there are two sides to every debate, that they must be in fierce contests with each other, is actually structuring the way you think about thought. And I don’t think anyone of my age who knows anyone they knew in 2008 thinks that that person has not been seriously modified in many different directions, but the fundamental modification here is the same.

And that’s okay. All mediums modify you. Books modify you, TV modifies, you, radio modifies you, the social life of a 16th century village modifies you. But the question becomes: who do you want to be modified by and to what degree? That’s my only question. And when I look at the people who have designed these things, what they want, what their aims are, what they think a human being is or should be, the humans I know and love, this machinery is not worthy of them. That’s the best way I can put it.

Ég er samt ekki svo heilagur að ég sé á leiðinni niður á höfn til að henda snjallsímanum mínum í sjóinn. Ég mun áfram notast við hann heima við og á ferðinni sem einskonar mini, mini-ipad/myndavél sem ég get tengt við wifi-net þegar þess þarf. Ef ég kem einhvern tímann þessari blessuðu bók út mun ég að sjálfsögðu poppa SIM-kortinu aftur í iPhone-inn og hefja mína sprelligöngu á samfélagsmiðlum í von um að vekja áhuga lesenda.

Undanfarið hef ég samt verið að skilja snjallsímann eftir heima yfir daginn og notið þess að vera allsótengdur við upplýsingamaskínuna á meðan ég trítla í vinnuna eða ráfa um matvörubúðir borgarinnar í leit að lífrænum banönum. Enn sem komið er hefur þetta ekki komið að sök, en ég er nokkuð viss um að einhver staðar þarna úti bíði mín eitthvað stórfenglegt samskipta- eða samgönguklúður sem auðveldlega hefði verið hægt að afstýra ef ég hefði haft snjallsíma við höndina.

Eins og og Zadie Smith drepur á síðar í þessu sama viðtali þá verð ég að spyrja sjálfan mig á því augnabliki: hvort er verra, þetta hrikalega klúður sem þú ert að díla við núna, eða það að ganga um með snjallsíma í vasanum alla daga og vera háður öllum hans duttlungum?

Lag dagsins er Get Well með Nothing. Ég er almennt ekki mikill shoegaze gaur en ég hef eilítið verið að hlusta á þá í fyrsta sinn undanfarið eftir að þeir sendu frá sér plötuna When No Birds Sang með uppáhaldsstrákunum mínum í Full of Hell. Plata ársins 2024, að mínu mati (þótt hún hafi reyndar komið út í desember 2023).

ÞAÐ VAR SJÓNVARPIÐ ALLAN TÍMANN

Hið ótrúlega hefur gerst. Ég er byrjaður að skrifa á kvöldin. Ég hef alla tíð staðið fyllilega í þeirri trú að ég sé morgunpenni, að eini tíminn sem ég kann að skrifa á sé á morgnanna, þegar ég er nýkominn á fætur, ekki búinn að kíkja á neina frétta- eða samfélagsmiðla, og helst varla einu sinni búinn að tala við neinn. Þannig hef ég oft syrgt það við aðra, hálft í gamni, að vera ekki nógu mikill bóhem og geta ekki unnið seint á kvöldin þegar aðrir eru komnir í bólið, með viskíglas mér við hlið. Það kemur í ljós að vandamálið var ekki ég – eða a.m.k. ekki bara ég. Vandamálið var Netflix, allan þennan tíma.

Who knew!?

Síðan sjónvarpið okkar bilaði hef ég semsagt uppgötvað auka tvo tíma í sólarhringnum, plús mínus. Ekki að við séum ekki að horfa á sjónvarp, eða öllu heldur fartölvu. Lotualgrými streymisveitanna virðist bara vera heldur máttlausara á litla skjánum en hann var á þeim stóra sem er að safna ryki á veggnum hjá okkur og ég hef ekki enn nennt að drösla í Sorpu. Eða kannski er það bara að við erum búin að vera í smá raunveruleikasjónvarpssyrpu og allt þetta grey fólk sem er að leita að ástinni á meðan það sýpur á sínum gylltu kaleikum (ógagnsæum til að hægt sé að klippa til öll samtöl þeirra á sem dramatískastan máta, geri ég ráð fyrir) er annað hvort svo einlægt eða svo óþolandi eða svo óþolandi í því að reyna að vera svo einlægt að maður getur ekki annað en tekið sér pásu á tuttugu mínútna fresti eða svo.

Mögulega er þetta þó bara langþráður vinnukippur sem ég hef verið að hlaða í undanfarna mánuði, nú þegar haustið er gengið í garð og maður er aftur dottinn í samfelldari rútínu. Samband mitt við skjái hefur þó aldrei verið neitt frábært, alveg síðan ég keypti mitt fyrsta sjónvarp fyrir unglingavinnupeninginn í 8. bekk. Lítið 14 tommu túpusjónvarp með innbyggðu vídeótæki sem ég hafði inni í herbergi hjá mér og notaði til að horfa á eina nýja og eina gamla frá Bónusvídeó langt fram á nótt hverja einustu helgi.

Það er orðið æði langt síðan ég var síðast með einhverja samfélagsmiðla á símanum mínum, ef þú telur ekki með Strava, þ.e.a.s. Síðast var held ég eftir að Stol kom út, þegar ég ræsti hæp-lestina og hélt henni gangandi út árið og fram á það næsta í von um að láta alla vita að ég væri að gefa út mína fyrstu skáldsögu og að hún væri bara alveg rosa fín, sko. Ég var líka á Twitter þá en eyddi prófílnum mínum með öllu eftir að Möskarinn tók við, ekki endilega út af honum heldur líka bara af því að ég var alveg kominn með nóg af peppuðu, djúpt hugsandi týpunni sem ég brá fyrir mig þar, og var orðið nokkuð ljóst að það var eitthvað ekki alveg heilbrigt við dópamínið sem ég fékk út úr lækunum. Ef ég setti einhverja tjáningu þar inn kom ég engu í verk út daginn, of upptekinn við að fylgjast með hvort einhver ætlaði að klappa mér á kollinn eða ekki

Núna er ég ekki með neitt nema þessa Facebook-síðu, sem ég nota aðallega til að láta vita þegar ég hendi í blogg og til að fylgjast með prógramminu í hlaupahópnum mínum, og svo Instagram-síðu sem ég opna sjaldan eða aldrei. Ég ákvað þó að kíkja aftur á hana um daginn til að láta vita af því að ég yrði í útvarpinu. Það var huggulegt innlit, og gaman að sjá það sem allt þetta alvöru fólk sem ég hef hitt í eigin persónu er að gera dags daglega, en alveg eins og með Facebook þá virðist ekki vera nein leið til að stilla það þannig að það sýni manni ekki neitt annað en þann hóp, sem fer í pirrurnar á mér og vekur upp einhverja mótþróaröskun sem ég hef leyft mér að elta undanfarin ár. Mögulega er eitthvað af þessum aukaklukkutímum sem ég hef verið að uppgötva undanfarið tengt þessu samskiptamiðlaleysi, og kannski líka öllu því skemmtilega sem ég er að missa af af því að ég sé ekki invite-in lengur. Líklega snýst þetta þó bara um það að ég er í fullri vinnu þessa stundina og maður fer aldrei jafn vel með tímann sinn og þegar maður á lítið af honum.

Ég fann allavega tímann til að fara á tónleika í Iðnó á föstudaginn og hélt þar áfram að vinna í nýrri persónulegri áskorun sem ég hef verið að kljást við undanfarið, þ.e.a.s. að fara á tónleika án þess að drekka meira en svona tvo bjóra. (Óáfengir teljast ekki með.) Iðnó er eitt af mínum uppáhalds tónleikastöðum í Reykjavík og ein mín stærsta eftirsjá í lífinu er að hafa misst af því að sjá Converge spila þar einhvern tímann í kringum 2006 af því að ég var erlendis í námi, og ISIS líka um svipað leyti. (Eða ISIS: The Band eins og þeir heita víst núna, af skiljanlegum ástæðum.) Converge sá ég á Gauknum ca. 2011 en Isis sá ég aldrei og mun líklega aldrei sjá, enda þykja mér þeir ólíklegri til að taka saman aftur en Oasis. Sem sárabót náði ég að sjá SUMAC, nýju hljómsveitina hans Aaron Turners á St. Vitus í Greenpoint hér um árið, en djöfull hefði ég verið til í að sjá þessar tvær hljómsveitir í Iðnó í denninu þegar maður var ennþá nógu einlægur í þessu til að henda sér í mosh-pittinn án þess að fara hjá sér. Á dagskránni á föstudaginn voru samt Misþyrming, Vafurlogi, Forsmán og Vampíra – sem unnu Músíktrilraunir fyrir ekki alls löngu – svo það er ekki eins og maður hafi yfir neinu að kvarta.

Vampíra
Forsmán
Misþyrming

Það var ótrúlega gaman að sjá hve vel salurinn tók krökkunum í Vampíru, og ljóst að fólk er himinlifandi að sjá að það er ný kynslóð mætt á svæðið, enda hefur meðalaldurinn a metaltónleikum farið síhækkandi undanfarin ár, sýnist mér. Þeir voru kannski smá óstyrkir þegar þeir voru að fara af stað en náðu manni alveg í síðustu tveimur lögunum.

Misyrming stendur alltaf fyrir sínu, þetta er í þriðja sinn sem ég sé þá í ár, eitt þéttasta tónleikaband sem ég veit um þessa dagana, hvert atriði úthugsað og þaulæft en engu að síður þessi óheflaða orka sem þeim tekst alltaf að leysa úr læðingi. Það var forvitnilegt að sjá að þegar þeir mættu á svæðið, síðasta band á sviðið, tóku að tínast inn nokkrar stífgelaðar týpur með Stetson-derhúfur og lummu undir vör, og er ljóst að þeir eru farnir að trekkja inn nýtt fólk í þessa frekar afmörkuðu senu – sem er auðvitað bara geggjað. Forsmán hef ég aldrei séð á sviði áður en hlakka til að sjá aftur, enda greinilega þeirra heimavöllur. Ég hef hingað til átt erfitt með að tengja við plötuna þeirra en ætla mér nú að gefa henni þann tíma sem hún á greinilega skilið, eða a.m.k. bíða spenntur eftir þeirri næstu. Vafurloga sá ég á Ascension taka sitt fyrsta gigg (að ég held) og var æstur í að sjá aftur, svo mjög að ég fjárfesti í bæði plötu og bol. Þar eru auðvitað algjörir reynsluboltar í fyrirrúmi, en það er líka eitthvað dálítið ferskt og öðruvísi við aðför þeirra að svartmálminum, eitthvað sem daðrar við póstrokk en þó með hetjugítar og annan fótinn kyrfilega í fortíðinni. (Þar að auki man ég varla hvenær ég sá síðast svona alklassískt svart-og hvítt Pagliacci-corpse paint á sviðinu.) Í miðju settinu þeirra hallaði félagi minn sér að mér og gargaði: „Það eru svona Motörhead-kaflar, en það er líka swing í þessu!“ Ég veit ekki hvort ég hefði alveg líst því þannig en leyfi því þó að standa. Ég gleymdi allaveganna alveg að smella af mynd á meðan þeir voru að spila, sem eru alltaf meðmæli í mínum bókum. Í staðinn læt ég eitt lag af plötunni þeirra fylgja hér að neðan, en hún er alveg brakandi fersk og nýmætt á Bandcamp og Spotify.

SALMAN RUSHDIE OG SVARTMÁLMUR Á SATANÍSKUM FÖSSARA

Vafurlogi á sviðinu í Hlégarði, þar sem höfundur sleit sínum fyrstu ballskóm á böllum í Gaggó Mos

Það stefnir í helvíti sataníska stemmningu núna í vikunni. Það er föstudagurinn 13. september og ég er að fara að sjá Salman Rushdie, höfund Söngva Satans, taka við Laxness verðlaununum og fer eiginlega beint þaðan í Iðnó að sjá Misþyrmingu og Vafurloga og fleiri svartmálmsbönd spila eitthvað fram eftir kvöldi. Ég spái því að það verði nóg af kertum og blóði og salurinn muni fá að njóta sín sem aldrei fyrr (í Iðnó, þ.e.a.s.).

Ég hef verið nokkuð duglegur að mæta á tónleika undanfarið ár, fór meira að segja á Sátuna á Stykkishólmi (þótt það hafi aðallega verið til að hanga með litlum frændum og frænkum þar í bæ, og til að sjá I Adapt, auðvitað) og á Ascension Festival, sem var heldur súrrealísk upplifun þar sem hátíðin var haldin í Hlégarði í Mosó þar sem ég fór á öll mín gaggóböll, að dansa við Prodigy í flogakastsvaldandi strobe-lýsingu. Seinna í þessum mánuði, þann 21., er svo Hellirinn, metal-hátíð sem er opin öllum aldurshópum og haldin í TÞM úti á Granda. Ég ætla að fá lánaðan einn lítinn frænda og peltora og mæta. Við sjáum til hvað sá stutti endist í þessum hávaða. Í gamla daga, í „senunni“ fór ég á svo ógeðslega mikið af svona all-ages harðkjarna-tónleikum í einhverjum skúrum í miðbænum og félagsmiðstöðvum í úthverfum þar sem ég rataði ekki neitt og varð að fletta upp hverfiskortunum í símaskránni fyrirfram. Svo urðu allir svo fullorðnir og fóru að spila á börunum. Það er gaman að sjá að einhver er að endurvekja þessa dásamlegu og mikilvægu venju, að bjóða krökkum og unglingum upp á gargtónlist í öruggu umhverfi og án áfengissölu. Það verður að vökva grasrótina og það verður að mæta á tónleika og aðra menningarviðburði ef maður vill að slíkt sé áfram í boði.

Annars hef ég eiginlega ekki verið að lesa neitt nema glæpasögur undanfarið, er að vinna mig í gegnum seríu eftir Atticu Locke sem samanstendur af einskonar post-Trump Texas Ranger-löggusögum með áherslu á menningu svarts fólks í krummaskuðum Badaríkjanna. Mikill blús, mikill rasismi og southern gothic út í gegn.

Þetta glæpasögufár byrjaði í vor þegar ég ákvað að fara aftur í gegnum Shardlake-morðgáturnar eftir C.J. Sansom, sem gerast við hirð Hinriks VIII og ég las einhvern tímann fyrir löngu þegar ég bjó í Glasgow og var alltaf að rekast á þær í Oxfam-búðunum. Þetta átti bara að vera smá breik frá Wolf Hall eftir Hilary Mantel, átti að hjálpa mér að rifja upp hver var hvað, hvort hertoginn af Norfolk var vondi gaurinn eða var það þessi af Suffolk, eða báðir? Auðvitað bara afsökun. Ég kann að meta sagnfræðilegu skáldsögurnar hennar Mantel og átta mig fyllilega á að þær eru stórvirki, og að það er eitthvað einstakt við það hvernig henni tekst að færa okkur djúpt inn í vitund persónanna án þess að beita nokkurn tímann hreinni og klárri fyrstu persónu, en ég nýt þess ekki að lesa sagnfræðilegu skáldsögurnar hennar jafn mikið og ég nýt þess að lesa hana þegar hún er að skrifa „í eigin persónu“, í ritgerðum hennar og gangrýni og hinum og þessum sjálfsævisögulegu skrifum.

(Reyndar féll ég alveg í stafi yfir Beyond Black, skáldsögu hennar frá tíunda áratugnum um miðaldra miðil sem á í einkar toxísku frenemy sambandi við aðstoðarkonuna sína og reynir hvað hún getur að færa fólki fallegar fréttir úr handanheimum og hylma yfir þá staðreynd að hún er ofsótt af alvöru draugum sem eru allir með tölu klúrir og viðbjóðslegir karlar sem láta hana ekki í friðið.)

Að þessu leyti á Mantel kannski eitthvað sameiginlegt með David Foster Wallace í mínum bókum, sem er höfundur sem mér leiðist almennt þegar hann skrifar skáldskap (sem er þó það sem hann er frægastur fyrir) en ég get lesið greinasöfnin hans aftur og aftur og aftur og alltaf fundið eitthvað nýtt og gagnlegt. Munurinn er þó kannski að mér finnst röddin hennar Mantel skína meira í gegnum skáldskapinn, líkt og ég finni meira fyrir henni en DFW, sem er almennt svo svakalega klár og fær í skáldsagnaskrifum sínum að manni líður meira eins og maður sé að horfa á mynd með geggjuðum brellum frekar en mynd sem er unnin upp úr vönduðu handriti með persónum og leikurum sem hrífa mann með sér. (Brief Interviews with Hideous Men er reyndar samt æði, fyrir utan nokkrar sögur sem er nóg að lesa einu sinni til að fatta trikkið.) Þessa rödd má svo heyra af fullum krafti í ritgerðarsöfnunum Mantel Pieces og A Memoir of my Former Self, en umfangsefnin sem hún fæst við þar verða til þess að maður fer að greina hin og þessi þemu – líkamleika, veikindi og drauga, til dæmis – sem teygja sig eiginlega í gegnum allt höfundarverk hennar.

Hérna er smá ritlistarpepp frá henni úr blábyrjuninni á Giving up the Ghost, endurminningum hennar frá 2003:

This is what I recommend to people who ask me how to get published. Trust your reader, stop spoon-feeding your reader, stop patronising your reader, give your reader credit for being as smart as you at least, and stop being so bloody beguiling: you in the back row, will you turn off that charm! Plain words on plain paper. Remember what Orwell says, that good prose is like a window-pane. Concentrate on sharpening your memory and peeling your sensibility. Cut every page you write by at least one-third. Stop constructing those piffling little similes of yours. [Ath: mín undirstrikun.] Work out what it is you want to say. Then say it in the most direct and vigorous way you can. Eat meat. Drink blood. Give up your social life and don’t think you can have friends. Rise in the quiet hours of the night and prick your fingertips, and use the blood for ink; that will cure your persiflage!

Hún heldur áfram, neðar á síðunni:

But do I take my own advice? Not a bit. Persiflage is my nom de guerre. (Don’t use foreign expression; it’s élitist.) I stray away from the beaten path of plain words into the meadows of extravagant similes: angels, ogres, doughnut-shaped holes. And as for transparency – window-panes undressed are a sign of poverty, aren’t they? How about some nice net curtains, so I can look out but you can’t see in? How about shutters, or a chaste Roman blind? Besides, window-pane prose is no guarantee of thruthfulness. Some deceptive sights are seen through glass, and the best liars tell lies in plain words.

Ég sló annars „persiflage“ upp í Oxford: „Light and slightly contemptuous mockery or banter.“ Ég ætla að reyna að lauma því einhver staðar inn í nýju íslensk-ensku orðabókina sem ég er að vinna í hjá Árnastofnun of fer bráðum formlega í loftið.

LISTFJANDSAMLEGAR ÞVÆLUR OG BLÁTT BÚRÓKRATABLÓÐ

Höfundur að vinna í sinni fyrstu listamannalaunaumsókn í háskólabókasafninu í Stony Brook fyrir einhverjum árum síðan

Enn einu sinni sit ég hér og reyni að setja saman raunsæja sýn á skrif og afköst komandi árs í von um að umsóknin mín um listamannalaun hljóti náð fyrir augum úthlutunarnefndarinnar. Það er mér þó til vinnusparnaðar að ég hlaut engin ritlaun í ár, svo að ég er mestmegnis að biðja um sama fjölda mánaða og síðast og fyrir sömu verkefni. Þótt sýn mín á þau verkefni hafi vissulega skerpst aðeins á undanförnu ári, og eitthvað hafi tínst til í orðafjöldann, þá eru ekki miklar breytingar frá því síðast í þetta sinn. Ég hef verið í fullu starfi allt þetta ár og því ekki haft jafnmikinn tíma til að sinna skrifunum og þegar ég hef verið í frjálsu falli frílansgeirans og listamannalaunanna. Í ár hef ég þannig látið duga þennan venjulega kvíða um að maður sé ekki að skrifa nóg, í stað þess að kvíða bæði því að skrifa ekki nóg og hvernig maður ætli sér að skrapa saman launaseðli komandi mánaðar.

Ég sé að umræðan um hið mannskemmandi skrifræði umsóknarferlisins er hafin. Auðvitað skil ég vel að eldri kynslóðin sakni þess tíma þegar það voru færri um hituna, og það getur ekki verið skemmtilegt að þurfa að réttlæta starfsumhverfi sitt og laun ár hvert þegar maður hefur fyrir löngu sannað sig færan um að koma út heillegri bók á nokkurra ára fresti. Sjálfur ólst ég upp í þessu kerfi og á erfitt með að ímynda mér neitt annað. Mér finnst ansi ólíklegt að ég hefði nokkurn tímann fengið ritlaun til að byrja með ef ég hefði ekki búið að sæmilega formföstu umsóknareyðublaði til að fylla út. Ég er enginn sérstakur snillingur, né er ég sérlega þekktur eða vinamargur. Ætli það sé ekki þess vegna sem ég fylli út þetta blessaða form möglunarlaust ár eftir ár, og finnst jafnvel bara ágætt að hafa eitthvað til að styðja mig við þegar ég reyni að koma skikkan á hvað ég ætla mér að gera á komandi ári. Eða kannski rennur bara í mér ískalt og blátt búrókratablóð.

Ég sótti fyrst um ritlaun árið 2017, haustið eftir að Smáglæpir, mín fyrsta bók, kom út. Ég gerði ráð fyrir að það myndi taka nokkrar tilraunir fyrir mig að fá eitt né neitt og því væri eins gott að byrja strax, núna þegar ég var allavega kominn með eina bók. Ég gramsaði í tölvunni og dró á endanum fram sögu sem ég hafði byrjað á fyrir lokamöppuna mína í ritlistarnáminu í Glasgow, nóvellu sem byggði á ferð sem ég hafði farið með föður mínum á Snæfellsnes árið áður en hann lést úr heilaæxli. Sagan var hálfskrifuð og hálfvonlaus. Ég hafði byrjað á henni á meðan sársaukinn við að missa föður minn var ennþá opið og vætlandi sár, og þar sem ég þorði ekki enn að dýfa mér í þann sársauka var sagan skrifuð í fjarlægri og tilgerðarlegri þriðju persónu, allar persónurnar nafnlausar og stirðar, hikandi í hverju orði. Eitthvað varð ég samt að senda, og þetta var eina sagan sem ég átti í fórum mínum sem virtist vera of stór til að rúmast í smásögu.

Mér fannst þó ótækt að senda söguna eins og hún var. Ég henti fyrstu tveimur köflunum og eyddi heilum degi á bókasafni Stony Brook-háskólans á Long Island (þar sem við bjuggum á þeim tíma) við að endurskrifa þriðja kaflann í fyrstu persónu. Lá svo yfir umsóknareyðublaðinu frá Rannís og fabúleraði um allt sem ég ætlaði mér að gera í þessari skáldsögu, sem ég vissi vel að ég var í rauninni engan veginn tilbúinn að hella mér í að skrifa, eitthvað sem ég reyndi að hylma yfir með því að gefa í skyn allskyns djúpstæðar meiningar í seinni hluta handritsins – sem var í raun og veru ekki lengra en þessi eini kafli sem ég sendi.

„Gott mál! Þau munu þá kannski muna eftir mér þegar ég sæki um næst eða þarnæst,“ hugsaði ég með mér og sendi umsóknina án þess að pæla meira í þessu. Það kom mér gjörsamlega í opna skjöldu þegar ég fékk tölvupóst einhverjum mánuðum seinna um að mér hefði verið úthlutað þremur mánuðum. Ég átti ekki annarra kosta völ en að byrja að skrifa þessa bók sem ég taldi mig engan vegin tilbúinn að skrifa. Mér var það þó til happs að þegar ég renndi aftur yfir umsóknina, sem ég hafði ekkert skoðað né hugsað um undanfarna mánuði, þá reyndist þar vera eitt og annað gagnlegt sem ég gat nýtt mér sem haldreipi í þessu stóra verkefni sem ég hafði lofað upp á tíu fingur að taka að mér.

Sjö mánuðum seinna, þegar handritið var um það bil hálfnað, dró ég umsóknina aftur fram og notaði hana til að setja saman nýja umsókn fyrir komandi ár, leiðrétti eitt og annað sem hafði breyst frá því árið áður og dró upp eilítið skýrari mynd af framvindunni og fyrirætlunum mínum á komandi ári. Ýtti síðan á „senda inn“ og reyndi að hugsa ekki meira um hverju ég hafði lofað í þetta sinn.

Og þannig hefur þetta gengið síðan. Í september á hverju ári dreg ég fram umsóknina frá því árið áður og reyni að meta hvar ég er staddur núna, hvað er næst á dagskrá og hvað ég er búinn með af því sem ég sagðist ætla að gera síðast. Allar mínar umsóknir um listamannalaun (og allar áfanga- og lokaskýrslurnar líka) eru í raun bara framhaldsskrif. Stundum fæ ég einhverja mánuði, yfirleitt færri en ég sótti um, og stundum ekki. Samt sem áður nýtist umsóknin mér alltaf á einn eða annan hátt. Hún hjálpar mér að setja stefnuna þegar mig er tekið að reka af leið og veitir mér afmarkað rými til að fabúlera um bækur sem mig langar til að skrifa einn daginn.

Það eru örugglega til betri leiðir til að lifa af, og efalaust er alltaf hægt að betrumbæta kerfið sjálft, sem mér sýnist þó vera í sífelldri þróun og vera orðið talsvert skýrara og þægilegra í meðförum en þegar ég byrjaði fyrst að sækja um ritlaun, en þetta árlega stöðutékk hefur allavega virkað ágætlega fyrir mig hingað til.

En ætli ég sé ekki bara, þegar allt kemur til alls, einn af þessum hallærislegu og órómantísku höfundum sem eru „bara góðir í að skrifa umsóknir“.

#11 HIÐ NÆGJUSAMA LÍF

Það gerðist svolítið dásamlegt um daginn. Sjónvarpið okkar bilaði.

Við hjónin hlömmuðum okkur niður til að gleyma okkur yfir annarri seríu af White Lotus en á móti okkur tók bara svartur spegillinn. Svo virðist sem baklampinn sé farinn í gamla flatskjánum sem ég keypti fyrir einhverjum 10 árum síðan. Í staðinn enduðum við á að horfa á smá sjónvarp uppi í rúmi á einni af fartölvum heimilisins, eins og við áttum til að gera í þá daga þegar við áttum hvorki fasteign né sófa. Við gáfumst skjótt upp á því og tókum upp bækur í staðinn. Þetta var, í einu orði sagt, bústaðastemmning. Ég reyndi að láta ekki of mikið á því bera hve spenntur ég var yfir þessari nýju og hráu veröld – án töfragluggans í stofunni með allri sinni botnlausu, óþrjótandi afþreyingu. Ég sá í hendi mér að héðan í frá yrði það ekkert nema bóklestur, vínilplötur og fín vín á kvöldin. Kannski jafnvel kúltiveraður miðaldragöngutúr eftir kvöldmat.

Ég fór nefnilega að sjá Perfect Days um daginn í Bíóparadís. Reyndar var ég svo hrifinn að ég sá hana tvisvar. Myndin er hæg, og það mætti jafnvel alveg segja að það gerist ekki neitt í henni. Við fylgjumst með miðaldra hreinsitækni, Hirayama, sem geysist um Tokyo á sendibílnum sínum, hlustar á tónlist frá sjöunda og áttunda áratugnum á kassettum og þrífur almenningsklósett borgarinnar af einskærri natni og alúð. Eftir vinnu þvær hann sér í almenningsböðunum í hverfinu, þar sem það er engin sturta í litlu íbúðinni hans, og borðar kvöldmat á litlum núðlustað á neðanjarðarlestarstöð. Síðan fer hann tímanlega í háttinn og les sig í svefn.

Dagar hans eru einsleitir, vikurnar brotnar upp með helgum þar sem hann sinnir erindum og hjólar í bæinn til að kíkja í bókabúð og fá sér einn eða tvo á huggulegri barholu þar sem allir þekkja hann með nafni. Hann er einstaklega áhugasamur um tré og í kaffihléum sínum í vinnunni tekur hann myndir á gamla filmuvél af trjátoppum sem bera við himininn yfir borginni, og hirðir stundum heim með sér rótarskot af trjánum í almenningsgarðinum þar sem hann borðar sama nestið á sama bekknum alla virka daga.

Þannig líður tíminn. Við fylgjumst með nokkrum vikum í lífi Hirayama þar sem þessar einföldu rútínur endurtaka sig aftur og aftur, þó með eilitlum blæbrigðamun frá degi til dags og ýmsum minniháttar atvikum þar sem hans einfalda og einangraða tilvera nuddast upp við líf annarra íbúa Tokyo-borgar. Þessi augnablik sitja stundum eftir hjá okkar manni og fylgja honum jafnvel inn í draumalandið, sem birtist okkur í stuttum svarthvítum senum sem er varpað yfir myndskeið af Hirayama sofandi á fúton-dýnunni sinni. Sumir dagar eru betri en aðrir, en sjaldnast eru topparnir svo háir né lægðirnar það lágar, og flesta daga tekst Hirayama að halda í góða skapið og sjá fallegu og spaugilegu hliðina á tilverunni.

Eins og ég hef áður sagt þá er ég með eilítið blæti fyrir svona átakalitlum sögum um venjulegt fólk. Samt er Hirayama augljóslega ekki neitt sérstaklega venjuleg manneskja. Þegar systurdóttir hans á unglingsaldri birtist á dyraþrepinu hjá honum eftir að hafa flúið að heiman verður okkur ljóst að hann sjálfur er einnig á flótta. Þegar móðir stúlkunnar kemur að sækja hana í fylgd einkabílstjóra er augljóst að þrátt fyrir lífsstíl sinn þá kemur Hirayama af efnuðu fólki, og er í einskonar sjálfskipaðri útlegð í sínu verkamannslífi, kannski í von um að forðast sársaukann sem getur fylgt því að treysta öðrum fyrir hamingju sinni.

Því þrátt fyrir að vera hvers manns hugljúfi þá leggur Hirayama sig fram um að dragast ekki inn í líf samferðafólks síns. Þó má stundum sjá gárurnar á því hyldjúpa vatni sem liggur undir glaðlegu og áhyggjulausu yfirborði hans, einkum í lokasenu myndarinnar; langri samfelldri töku þar sem hann keyrir til vinnu í morgunsólinni og hlustar á tilfinningaþrunginn flutning Ninu Simone á laginu „Feeling Good“. Myndavélin dvelur langa stund við andlit Hirayama á bak við stýrið. Sólin brýst fram og hann er gráti næst, aleinn í sendibílnum sínum. Samt brosir hann og heldur fast í gleðina, hugfanginn af veröldinni og fegurðinni.

Einhverjir gagnrýnendur hafa bent á að Perfect Days dragi fram frekar rósrauða og óraunhæfa sýn af lífi láglaunaðs verkafólks. (T.a.m. sagði mér einhver að vinnugallinn sem Hirayama klæðist við störf sín sé hannaður af tískufyrirtækinu KENZO, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.) Þetta truflaði mig þó ekki þar sem mér þótti augljóst að myndin væri alls ekki að reyna að draga fram raunsæa sýn, heldur væri eins konar fantasía.

Flest höfum við held ég einhvern tímann látið okkur dreyma um að stíga út úr lífi okkar. Afsala okkur öllum okkar eigum, metnaði og lífsgæðum og fá okkur vinnu sem ekki krefst of mikils af okkur. Losa okkur við sjónvarpið og símann í von um að geta þá loksins fundið kyrrðina til að lesa bækur og hlustað á djass á síðkvöldum. (Eða atmospheric black metal eða dubstep trip-hop eða whatever.) Ná þannig loksins taki á þessari margumræddu hugarró sem sífellt er verið að reyna að selja okkur.

Leitin að þessari ró, eða þessu frelsi, gegnsýrði þær bækur sem ég las sem ungur maður rétt eftir aldamót. Bækur eins og Generation-X eftir Douglas Coupland, The Wind-up Bird Chronicle eftir Haruki Murakami og hinar og þessar bækur eftir Beat-skáldin. Bækur þar sem aðalsöguhetjurnar segja sig á einn eða annan hátt úr samfélagi manna, gefast upp á fjölskyldulífi og hvítflibbaframa og eyða dögum sínum í að eltast við dagdrauma og lesa bækur. Fara í göngutúra eða puttaferðalög, skipta sífellt um vinnu, elda pasta og hlusta á klassíska tónlist eða taka eiturlyf og fara í gjallgöngur. Gera síðan sitt besta til að vera vakandi fyrir fegurðinni sem verður á vegi þeirra í veröldinni.

Þetta er hvorki sérlega róttæk né raunsæ hugmynd, en það getur verið æði huggulegt að dvelja um stund í þessum dagdraumi um hið nægjusama og einfalda líf sem bíður manns þarna úti einhvers staðar, ef maður bara hefði hugrekki til að ganga skrefið til fulls, kasta öllu frá sér og leggjast á flótta.

Það er efalaust ekki langt í að við hjónin endurnýjum sjónvarpið okkar. Ég er nú þegar farinn að sakna Netflix og Disney-plús eins og gamalla vina. Í bili finnst mér þó allt í lagi að leyfa sjálfum mér að þykjast eilítið lengur að við séum á einhvern hátt að leysa öll okkar vandamál með því að eiga ekki sjónvarp.

#10 FLÓKNAR LAUSNIR VIÐ EINFÖLDUM VANDAMÁLUM

Nýja skrifbrettið ásamt nokkrum öðrum kvíðalyfjum.

Ég keypti mér nýja græju um daginn. Remarkable 2-skrifbretti. Þið kannist kannski við það úr auglýsingaalgóriþmunum ykkar.

Eins og iðulega þegar kemur að stórum útgjöldum þá var ég búinn að naga neglurnar og engjast í tölu­verðan tíma yfir því hvort ég ætti að leggja út fyrir þessu eður ei. Fyrir utan minn venjulegu fjármálakvíða – sem liggur reyndar í smá dvala núna þar sem ég er með fasta vinnu í augnablikinu og nýt þess lúxus að einhver annar borgi mótframlagið mitt – þá er ég almennt frekar skep­tískur varðandi tækni- og töfralausnir á vettvangi ritstarfa. Græjur eða forrit sem gera sig út fyrir að losa stífluna, beisla einbeitinguna og hreinsa rækilega úr cache-möppu hugans.

Það er alltaf heillandi tilhugsun að kannski sé ástæða þess að ekkert hefur bæst í orðafjöldann einfaldlega sú að þú sért ekki að nota rétta pennann, réttu glósubókina eða rétta ritvinnsluforritið, frekar en bara að þú horfir á Netflix í tvo tíma á dag í staðinn fyrir að liggja yfir handritinu. Ég hef nokkrum sinnum hlaðið niður forritum á borð við Scrivener eða Freewrite eða Flow í örvæntingu þegar plottið er hætt að þokast áfram og persónurnar farnar að lyfta augnabrúnunum í sífellu og brosa og kinka kolli án sann­færingar. Oft hefur heill dagur farið í súginn í slíkum tilfæringum, eða í að eiga við týpógrafíuna í skjalinu, uppsetninguna, titilsíðuna, skáletrun, feitletrun og viðlíka dútl sem þegar allt kemur til alls er ekki það sama og að skrifa.

Að öllu þessu gefnu lét ég það þó á endanum eftir mér að festa kaup á þess­ari töflu, eða skrifbretti, eða hvað mætti kalla það. Von mín var að það myndi gera mér kleift að nýta betur glufurn­ar í deginum, núna þegar ég er í fullri vinnu, og stytta bil­ið á milli útkrotuðu glósubóka­nna sem ég hripa fyrsta uppkastið mitt í og fínpússaða ritvinnsluskjalsins sem ég skila að lokum af mér.

Niðurstaðan er hreint ekki svo slæm. Skrifbrettið er svolítið eins og prentari sem ég get komið fyrir í hliðartöskunni minni og verður aldrei uppiskroppa með blöð né blek. Ég er með takka í Word-forritinu á tölvunni (einhvern veginn enda ég alltaf aftur í Word) og ef ég klikka á hann birtist skjalið sem ég er að vinna í umsvifalaust á Remarkable-töflunni. Þar get ég svo krotað í spássíurnar og skotið inn hand­skrifuðum miðum með leiðréttingum, viðbótum og nýjum senum. Til viðbótar get ég síðan hripað niður á brettið skrif á borð við þennan bloggpóst og síðan umvarpað handskrifaða efninu yfir í (ekki alveg gallalausan) ritvinnslutexta sem ég klára í tölvunni.

Líklega er þetta samt bara dýrasta kvíðaglósubókin sem ég mun nokkurn tímann kaupa – þótt ég hafi reyndar ekki greitt fullt verð fyrir hana heldur keypt á bland af fasteignasala í Urriðaholtinu. Ég hef nefnilega mikla trú á heilunarmætti glósubóka og hugga mig með því að kaupa eina slíka í hvers kyns krísum og kvíðaköstum. Það getur líka verið gott að skipta um verkfæri og vettvang þegar maður þarf að koma sér aftur af stað við skáldskapinn eftir að hafa dvalið fulllengi í raunheimi.

Ekki er heldur verra hvað það er róandi að sitja fyrir framan sjónvarpið og dútla myndir á nýju græjuna:

#9 ÚTI Í KULDANUM

Ég lokaði Facebook og Instagram rétt fyrir jól. Markmiðið var að setja aðgangana mína á pásu þar til í haust, þegar ég verð (vonandi) með í jólabókaflóðinu. Þá ætlaði ég mér að kveikja aftur og hamast við sprellið í von um að einhver tæki yfir höfuð eftir því að ég væri að gefa út bók. Þið vitið: eitthvað quality content við undirritun samningsins, titla-reveal, kápu-reveal, kokteil drykkur þegar bókin er farin í prentun, Spotify-playlistinn af tónlistinni sem ég hlustaði á á meðan ég var að skrifa, auðmjúkur þakkarpistill, flipp í útgáfufögnuði, í fína jakkanum að lesa upp einhvers staðar o.s.frv. o.s.frv. Stemmning stemmning stemmning. Svo þegar ég væri orðinn viss um að bókin væri komin í huggulegan farveg, kannski í byrjun febrúar eða svo, þá var ætlunin að slökkva á þessu aftur, þangað til næst þegar ég þyrfti að ræsa út kóklestina.

(Ég er löngu búinn að eyða Twitter, btw. Twitter selur ekki bækur. A.m.k. ekki íslenska Twitter. Og ég nennti ekki öllu Musk-egó-rúnk-contentinu.)

Reyndar misfórst þetta eitthvað hjá mér. Á einhverjum tímapunkti loggaði ég mig inn í Messenger í browser (er ennþá að nota það fyrir vini og fjölskyldu) og Facebook hefur greinilega túlkað það þannig að ég væri mættur að nýju. Ég uppgötvaði ekki fyrr en löngu seinna að prófíllinn minn hefði birst aftur. Ég hef leyft honum að vera í friði síðan en hef ekkert opnað Facebook.

Staðan.

Ég get ekki annað sagt en að breytingin hafi verið til batnaðar. Það er eilítið meiri tími afgangs á hverjum degi til þess að lesa bækur, renna yfir to do listana, skrifa einhverja vitleysu (eins og þetta raus hér, og stundum kannski eitthvað merkilegra) og jafnvel bara stara út í loftið. Best af öllu er að mér hefur loksins tekist að venja mig af þeim leiða ávana að vera með símann við höndina þegar ég er að horfa á sjónvarp, og er aftur farinn að horfa á bíómyndir í einni lotu og standa upp þegar ég nenni ekki lengur því sem er á skjánum. 

Það er náttúrulega hálfgerð klisja að gera svona mikið mál úr þessu. Það minnir mig á gamla brandarann: Hvernig veistu að einhver á ekki sjónvarp? (Svar: Hann segir þér það.) Líklega er kominn tími á að uppfæra þennan brandara og spyrja frekar: Hvernig veistu að einhver er ekki á Facebook? Að minnsta kosti ætti það betur við á Íslandi.

Það er eiginlega ótrúlegt hvað þessi miðill er alltumlykjandi í menningunni okkar. Ekki bara í menningarumræðunni, heldur líka þegar kemur þörfum upplýsingum eins og tímasetningunni á barnaafmæli frænda þíns eða opnunartímanum í búðinni sem þú ætlar að reyna að ná í eftir vinnu. Í hvert sinn sem ég opna forritið í leit að einhverjum svoleiðis krúsjal smáatriðum sem ég get því miður ekki fundið neins staðar annars staðar finnst mér eins og algóritmarnir séu að gera allt sem þeir geta til að afvegaleiða mig. Þeir vilja miklu frekar sýna mér vídeó af bílum og dude-bros að lyfta og éta prótínstykki.

Í sannleika sagt þá var það einmitt þessi sjálfspilandi vídeófítus sem var síðasta hálmstráið. Ég þoli ekki að hafa svona takmarkaða stjórn á því hvað skellur á sjónhimnunni þegar ég opna miðilinn. Ég reyndi allt hvað ég gat að slökkva á vídeóunum en Facebook tók það ekki í mál. Ég veit ekki hvað ég hef gert af mér á internetinu til að eiga þetta content skilið, nema kannski bara að vera karl og hafa orðið fertugur um árið. Markmiðið er augljóslega að fá mig til gleyma hvað ég ætlaði mér að gera og eyða í staðinn meiri tíma í ráf og skroll. Ráf + skroll = auglýsingatekjur.

Þar fyrir utan verð ég að segja að ég er farinn að vera hálf móðgaður yfir því hverskonar týpa algóritmarnir virðast halda að ég sé. Þeir eru sífellt að bjóða mér upp á að versla ljótustu og hallærislegustu föt allra tíma.

Nei takk.
WTF!?

Síðan ég uppgötvaði að prófíllinn minn er ennþá á sínum stað hef ég sætt mig við það að líklega þurfi ég á honum að halda og hef leyft honum að hanga uppi. Ég fæ stundum skilaboð á Messenger frá fólki sem hefur fundið mig í gegnum Facebook um upplestra eða viðtöl eða álíka fjör sem ég vil ekki missa af. Kannski set ég þennan bloggpóst þangað inn líka, þótt að tilhugsunin um að halda úti bloggi sem enginn les eða veit af þar sem það er hvergi sjáanlegt á samfélagsmiðlum kitli mig vissulega smávegis. (Það er samt subscribe-takki þarna uppi í hægra horninu einhver staðar, nóta bene.)

Mest óttast ég samt að þetta sé allt saman bara einhver roluháttur hjá mér, að ég sé að stinga höfðinu í sandinn, fara undan flæmingi, koma mér undan því að þurfa að taka þátt í umræðunni. Það er mikið tilkall til þess að maður taki afstöðu þessa dagana, sem er gott og blessað og eitthvað sem ég vill glaður gera. Mér þykir bara leitt að stundum er eins og samfélagsmiðlarnir séu eini vettvangurinn sem er í boði til þess. Þegar manni líður þannig er eins gott að gefa sér tíma til að drífa sig út að mótmæla, eða gefa fé í góðan málstað, eða taka gott kaffistofuspjall um málefni líðandi stundar, eða leggjast í einhverja álíka jaðarstarfsemi. Kannski er það ekki eins áhrifaríkt og að koma með harðorða yfirlýsingu á Facebook, en að minnsta kosti finnst mér þá eins og ég sé á staðnum sjálfur, frekar en að þarna úti einhvers staðar sé avatar af sjálfum mér sem ég er tilneyddur til að vakta og endurhugsa í sífellu. Sú furðulega tilfinning á það til að fokka gjörsamlega upp vinnudeginum mínum, eins og ég eigi mér hliðarsjálf sem ég hef bara takmarkaða stjórn á og er í þokkabót í eigu bandarísks stórfyrirtækis.

Líklega er ég þó að ofhugsa þetta. Ég á það til.

Að minnsta kosti á ég þó alltaf þann örlitla skika internetsins sem er þessi heimasíða, sem ég borga fyrir í beinhörðum en ekki með skrolli og ráfi. Hér get ég þó tekið afstöðu í friði frá öllum algóritmum, eins tilgangslaust og það er hér í eyðimerkurlendum veraldarvefsins.

Kannski er ég líka bara búinn að vera að hlusta á of mikið Godspeed og Silver Mt. Zion undanfarið.

#8 RÚTÍNUHUNDADAGAR

Engin ritlaun í ár, sem er auðvitað svolítið svekkjandi en það er erfitt að vera að fussa og sveia þegar maður sér marga kunningja sína gleðjast á samfélagsmiðlum yfir að fá úthlutun í fyrsta sinn. Þetta þýðir meira hark á komandi ári og minna svigrúm, en ég er blessunarlega ekki lengur í þeirri stöðu að öll mín egg séu í ritlaunakörfunni og árið ónýtt og einskis virði án þeirra. Þótt ritlaunin séu í raun eina leiðin sem flestir íslenskir höfundar hafa til að geta einbeitt sér að skrifum langtímum saman án þess að þurfa sífellt að rjúka frá til að sinna öðrum störfum þá er það algjörlega hræðileg staða þegar maður er farinn að treysta á þau. Sjóðurinn er það lítill og umsóknirnar það margar að það segir sig sjálft að það meikar ekkert sens að reikna með þeim ár eftir ár. Samt borgar það sig nú alltaf, finnst mér, að setja saman umsókn í von og óvon og geta þá kannski nýtt sér aukaefnið og drögin sem henni fylgja þegar maður stendur uppi ritlaunalaus og þarf að lauma skrifunum inn á milli vinnu og fjölskyldu. Eða kannski er ég bara einn af þessum margumræddu höfundum sem eru víst bara góðir í að skrifa umsóknir en ekki bækur, og fæ því einhverja blætiskennda Excell-nautn við að setjast niður og spá í því hvað ég ætli mér að gera á komandi ári, frekar en að mæta á kontórinn og treysta því að andinn taki völdin eins og alvöru bóhem.

Ójæja. Öll höfum við okkar djöful að draga.

Í raun reyni ég að feta milliveginn, setja mér stefnu og áfangastað en skilja eftir nægan tíma og pláss fyrir ýmiskonar útúrdúra og vegasjoppur, og frelsi til að skipta um skoðun hvenær sem ég vill og halda í þveröfuga átt.

Rútínan á eflaust eftir að verða eitthvað flóknari á komandi ári, en almennt reyni ég að hafa það markmið að eini munurinn á því að vera á ritlaunum og að vera ekki á ritlaunum sé að bókin kemur fyrr út ef maður er á þeim. Ég er annars í ágætri stöðu ákkúrat núna til að takast á við það ærna verkefni að skrifa samhliða fullri vinnu. Endurskrifin á handritinu eru að verða búin og ég ætla mér að verða tilbúinn að afhenda það ritstjóra þegar þau hjá Forlaginu ná andanum eftir jólavertíðina. Undanfarna mánuði hef ég verið að vakna klukkan sjö til að blússa niður í Gröndalshús og ná þar tveimur tímum af skrifum áður en ég hoppa aftur á hjólið til að vera mættur í vinnuna um tíuleytið. Auðvitað væri gott að ná lengri dögum inn á milli, en að hafa svona takmarkað svigrúm til að skrifa hefur þó þann kost að þegar maður sest loksins við lyklaborðið er aldrei neinn tími til að stara út í loftið og skrifa ekki neitt. Þegar maður finnur svo loksins næði til að renna yfir allt handritið kemur það síðan yfirleitt á óvart hve mikið hefur breyst síðan maður súmmaði síðast út og skoðaði heildarmyndina.

Blessunarlega hefur tíðarfarið líka verið þannig að ég get notað hjólið, sem er á góðum nagladekkjum. Án þess veit ég ekki hvort ég hefði tíma til að ná inn þessum lotum fyrir vinnu.

Þessi rígfasta rútína hefur skilið lítið rými eftir fyrir tónleika eða annað útstáelsi, en mér tókst samt að fara að sjá Bongripper á Gauknum um daginn ásamt Larissu Kyzer, sem er eina manneskjan í íslensku bókmenntalífi sem nennir að fara á metal-tónleika með mér. Bongripper voru vægast sagt stórkostlegir. Sögðu ekki stakt orð við crowdið, byrjuð bara að spila og litu varla upp fyrr en klukkutíma síðar, þegar þeir kipptu úr sambandi og löbbuðu af sviðinu og gáfu dolföllnum áheyrendaskaranum lítinn gaum, þar sem við stóðum dösuð eftir og klöppuðum og öskruðum eftir meira. Síðan þá hef ég mikið verið að spila live-plöturnar þeirra, en það er nokkuð ljóst að hér er um að ræða live-band og töluverður munur á stúdíóplötunum og samspilinu og grúvinu sem þeir detta í á tónleikum. Þess utan er ég búinn að vera að hlusta mikið á tónlistarmanninn dgoHn, sem rambaði inn á Spotify hjá mér um daginn. (Ú á Spotify, samt, btw. Er að vinna í að losa mig aftur undan ánauð þeirrar þrælakistu.) Ég veit nákvæmlega ekkert um manninn, né er ég einu sinni viss hvað á að kalla þessa tónlist, hvort þetta sé dubstep eða drum’n’base eða (sem ég sá þetta einhvers staðar kallað) drumfunk – hvað sem það nú er. Helst minnir þetta mig á gömlu Droopy Butt Begone! plötuna með 1-speed-bike, sem ég á einhverstaðar á vínyl og hefur lengi verið í miklu uppáhaldi. Læt hlekki fylgja hér að neðan.

Keypti þessa bakpjötlu til minningar en veit þó ekki hvaða jakka ég fórna undir hana, kannski bara taupoka.

Jólabækur: Búinn með MEN, DEUS og Serratónínendurupptökuhemla og er að klára Armeló. Hæastánægður með þær allar og hissa að sjá engar þeirra tilnefndar, en hef auðvitað ekki enn haft tíma né fjárráð til að demba mér í tilnefndu bækurnar og á því erfitt með að fara í samanburð. Að öðrum ólöstuðum þótti mér MEN og Serratónínendurupptökuhemlarnir standa sérstaklega upp úr, kannski þar sem þar vottar fyrir einhverju nýju og fersku í höfundarverki beggja höfunda, en ég held ég hafi lesið allar bækur þeirra beggja til þessa (eða amk allar skáldsögur Sigrúnar). MEN býr að lúmskum húmor sem dregur þó engan veginn úr hættunum, siðferðislegum sem líkamlegum, sem steðja að aðalsöguhetjunni, uppgjafaflautuleikara sem gerist menningarblaðamaður til að koma sér undan þeirri kunnuglegu streitu sem fylgir skapandi líferni, og heldur svo áfram að gefa sjálfum sér afslátt á hugsjónir sínar af góðum og gildum ástæðum þar til hann endar á heljarþröm. (Það hefur líka verið einkar ánægjulegt að ræða bókina við fólk sem er eldra en ég og býr að meira slúðri um íslensk utanríkismál í kringum aldamótin en ég sjálfur, sem var að útskrifast úr menntaskóla á þeim tíma.) Í Serratónínendurupptökuhemlunum er minna um húmor en oft áður í verkum Friðgeirs. Sagan er lítil og lágstemmd, og segir frá venjulegri millistéttarfjölskyldu í Reykjavík þar sem allir eru bara einhvern veginn að reyna að gera sitt besta. Það er æði sérstakt andrúmsloft í bókinni.  Undirliggjandi þunglyndi heimilisföðurins (og fleiri, kannski) litar öll samskipti fjölskyldunnar og setur svip sinn á allt í umhverfi þeirra. Ógnin sem þunglyndinu fylgir er einhvern vegin svo ægileg og óstöðvandi að ég upplifði hana næstum eins og vonadakalla-týpuna sem oft má finna í kvikmyndum Coen-bræðra, ef það er ekki of einkennileg samlíking. Eitthvað óútskýranlegt og óumflýjanlegt afl sem sem eltir persónurnar á röndum og virðist fært um að slá þær í hel á hverri stundu.

Annars verð ég með glæpasögukviss þann þrettánda desember hjá Sölku á Hverfisgötu klukkan 20:00 og vonast til að sjá einhver ykkar þar – þótt auðvitað beri ég fullan skilning á því að kvissið er á sama tíma og Ljóð og vinir í Mengi og kannski er fólk spenntara að sjá Gyrði og kompaní stíga á stokk á þessum einstaklega huggulegu upplestrarkvöldum en að hlusta á hnyttnar spurningar um mínar uppáhalds glæpasögur. Kvissið átti reyndar upphaflega að vera off-venue viðburður á vegum Sölku í tengslum við Iceland Noir, en blessunarlega mætti enginn í það skiptið, hvort sem það var einhverri sniðgöngu að þakka eða bara almennri þreytu gesta eftir langan dag af olnboganuddi og orðræðu. Ég slapp því að einhverju marki við að þurfa að vinda mér í viðlíka naflaskoðun og sumir samhöfundar mínir yfir þessari blessuðu hátíð, þótt ég væri í raun bara þarna sem launaður verktaki á vegum Sölku en ekki hátíðarinnar. Ég er enn að reyna að átta mig á því hvernig sauð svona hræðilega upp úr pottinum á íslenskum menningarsamfélagsmiðlum í kjölfar hennar. Það var einkennilegt hvernig sumum virtist þykja aðgerðirnar beinast gegn sjálfum sér persónulega, þegar mér þótti höfundarnir sem stóðu að upphaflegu sniðgöngunni ansi skýr í framsetningu sinni í fjölmiðlum, og kunni að meta að þau létu ekki glepjast til að dragast inn í samfélagsmiðlaumræðu sem fór skjótt að snúast um eitthvað allt annað en Hillary Clinton og þjóðarmorð í Gaza. Ég hef ekki komist að neinni niðurstöðu hvað þetta varðar annarri en þeirri að það sé ekki endilega hollt að horfa á umheiminn og orðræðuna eingöngu í gegnum prisma samfélagsmiðla, þar sem það er í eðli þeirra að magna upp allt það sem setur mann úr jafnvægi eða vekur viðbrögð í von um að halda manni eilítið lengur í auglýsingaumhverfi sínu. Ég hugsa að á komandi ári muni ég slökkva á facebook og öðrum samfélagsmiðlum í einhvern tíma og sjá til hvaða áhrif það hefur á heimssýn mína og andlega líðan. Ég viðurkenni þó fúslega að ég er engan veginn viss um hvort það sé í þeim tilgangi gert að gæta að geðheilsunni og efla samveru með mínum nánustu, frekar en bara í von um að stinga höfðinu í sandinn og kóa með átakafælninni. Örugglega smá af bæði, grunar mig.

#7 LISTAMANNALAUN SCHRÖDINGERS

Myndin tengist skrifunum ekki beint

Jæja, þá er ég búinn að senda inn umsókn um listamannalaun fyrir 2024.

Þetta er auðvitað fyrir löngu orðin fastur liður í árinu hjá manni. Ég kíki yfirleitt á formið um leið og pósturinn berst frá RANNÍS í byrjun september, til að svona mjaka mér af stað en líka til að ganga úr skugga um hvort einhverju hafi verið breytt frá því árið áður. Ég hef einu sinni lent í því að skrifa heila umsókn inni í Word-skjal (treysti aldrei RANNÍS-vefsvæðinu alveg) út frá umsókn sem ég gerði árið áður og uppgötva síðan á síðustu stundu að formið var gjörbreytt. Mér sýnist umsóknarformið í ár vera nokkuð svipað og í fyrra og minnir að það hafi verið eins í hitt í fyrra líka, svo kannski er þetta komið í fastar skorður hjá þeim.

Í fyrra var einnig sú góða nýbreytni tekin upp að úthlutunin var tilkynnt í desember, sem ég vona að verði endurtekið í ár. Mér þykir það mun þægilegra en áður, þegar maður þurfti jafnvel að bíða fram í miðjan janúar með að segja vinnuveitendum sínum hvernig maður ætlaði sér að haga komandi ári. Ekki var verra að með því að tilkynna úthlutunina rétt fyrir jól sá RANNÍS við vatnsglasstorminum sem skellur venjulega á í gúrkutíðinni í byrjun árs, þegar vefmiðlarnir sjá sér leik á borði að hala inn nokkrum smellum með fyrirsögnum á borð við ÞESSIR [DJÖFULS AUÐNULEYSINGJAR] FÁ LISTAMANNALAUN Í ÁR, svo að þeir sem hlotið hafa úthlutun ná varla að kætast og hringja í mömmu áður en þeir eru komnir í gapastokka kommentakerfa fyrir að hafa fé af öryrkjum.

Ég reyni yfirleitt að vera í fyrra fallinu og forðast þannig heimasíðukrassið hjá RANNÍS á síðasta degi, en 13. september er nýtt met! Ég hef aldrei áður komið umsókninni frá mér svona snemma. Líklega skýrist það þó að einhverju leyti af allri vinnunni sem fór í síðustu umsókn, sem tók mig mánuð að ljúka við, sérstaklega allt aukaefnið og viðhengin sem snúa að nýju verkefni sem ennþá á ansi langt í land. Umsóknirnar mínar eru oftast einskonar framhaldsskrif, með milliköflum í formi áfanga- og lokaskýrsla. Hver umsókn inniheldur yfirleitt tvær bækur: bókina sem ég er að reyna að klára og bókina sem ég ætla að byrja á um leið og hin er búin.

Öll þessi bjúrókrasía er náttúrulega óttalegt maus en ég verð samt að viðurkenna að skrifin sjálf gera verið svo mikil þokuganga hjá mér að ég hef líklega gott af því að vera neyddur til að setjast niður einu sinni á ári til að reyna að átta mig á því hvað ég er að gera og hvað mig langar að gera. Þannig hafa umsóknirnar mínar oft breyst í einskonar vegvísa sem ég nýti mér þegar ég villist af leið og man ekkert lengur af hverju mér þótti þetta efni svona spennandi til að byrja með. Þá getur verið gott að fletta upp síðustu umsókn og sjá hverju ég lofaði þar; hversu stórhuga ég var síðasta september þegar veturinn var enn ekki skollinn á að fullu og ég var búinn að steingleyma hvernig bévítis reiknaða endurgjaldið gleypir megnið af upphæðinni.

Þannig reyni ég að fá eitthvað gagn úr allri þessari vinnu sem fer í umsóknina á hverju ári, sama hvort ég hljóti á endanum laun fyrir hana eða ekki. Það fyndna er að yfirleitt enda ég á að nýta þetta allt; öll uppköstin og fögru loforðin og persónulýsingarnar og hálfkláruðu beinagrindurnar sem ég hengi við umsóknina til að reyna að sýna fram á að ég sé nú voða duglegur strákur og traustsins verður. Ekki að ég sé endilega með þetta til hliðsjónar á meðan ég er að skrifa, en það er ágætt að glugga í þetta af og til, jafnvel bara til að sanna fyrir sjálfum sér að það sé nú alveg eitt og annað búið að gerast í handritinu síðan síðast og að það sé orðið lengra en það var.

Eða styttra. Það getur líka verið ansi gott stundum.

Ég gæti auðvitað eytt hér nægum orðum í allt það sem vantar upp á í þessu kerfi okkar, sem er langt því frá að vera fullkomið, en mér hefur þótt aðrir vera betri í því en ég, sem á oft og tíðum erfitt með að átta mig á því hvernig listageirinn gengur upp yfir höfuð hér á landi. Í lok hvers árs skil ég ekki hvernig mér tókst enn einu sinni að þrauka án þess að segja það gott og fá mér eina af þessum margumtöluðu “alvöru vinnum”. (Ég er nú reyndar með eina svoleiðis líka.) Þannig enda ég yfirleitt bara á því að umla eitthvað um að þetta sé nú bara það sem er í boði og lítið við því að gera, á meðan samhöfundar mínir steyta hnefann og útlista fyrir mér hvernig hlutirnir ættu að vera. Auðvitað er ég meira og minna sammála hnefasteyturunum og þakklátur þeim fyrir að standa í þessu pexi fyrir mig, en í gegnum tíðina hefur það ekki reynst mér neitt sérstaklega hollt að hugsa of mikið út í ritlaunin á meðan ég er ekki annað hvort að sækja um þau eða þiggja þau. Ég reyni helst að setja þau í sama flokk og veðrið; ég hef enga stjórn yfir því en get þó að minnst kosti reynt að búa mig vel.

Og núna er einmitt runninn upp sá ljúfi tími árs sem ég kalla “Schrödinger-mánuðina”. Þessir þrír mánuðir í lok árs þegar ég þarf ekkert að hugsa um listamannalaunin. Umsóknin er send og málið er úr mínum höndum. Ég veit ekki hvort ég verð með ritlaun á næsta ári eða ekki, og er þannig bæði með þau og ekki. (Eða eitthvað svoleiðis. Þekking mín á kettinum hans Schrödinger er mestmegnis fengin í gegnum einhverjar poppkúltúr hjáleiðir.) Þar til svar berst í desember (eða janúar) er ekkert sem ég get gert nema halda mínu striki og reyna að koma mér í góða stöðu til að koma bókinni út á næsta ári – hvort sem það verður gert með hjálp ritlauna eða ekki.

Annars hef ég undanfarið verið að reyna að taka upp heilbrigðari símavenjur. Síðan ég losaði mig við alla samfélagsmiðla af símanum hef ég staðið mig að því að opna visir.is í sífellu og lesa fréttir um minniháttar drama í hverfisgrúbbum á Facebook og daglegt líf hjá íslenskum selebum sem ég kann engin skil á. Til að reyna að gera eitthvað uppbyggilegra þegar ég finn að það eina sem geðheilsa mín vill er að ég gleymi mér um stund við að dútla í símanum náði ég mér í einfalt teikniforrit og hef verið að leika mér að því að rissa teiknimyndasögur. Ég er nokkuð ánægður með þessa. Hún heitir „Nýir vinir“.

Þeir eru sko báðir með monobrow, þúst..

Hvað varðar tónlist þá er ég aðallega að hlusta á Cloud Rat þessa dagana og naga mig í handarbökin yfir að hafa misst af þeim þegar þau spiluðu á Húrra fyrir nokkrum árum. Vonandi koma þau einhvern tímann aftur. Madison Marshall er með svakalegustu söngrödd sem ég hef heyrt lengi. Grindcore-band sem sprengir utan af sér alla þá kassa og stefnur sem reynt er að slá upp utan um þau. Set smá tveggja-mínútna-sturlun frá þeim hér undir fyrir þá sem nenna svoleiðis.

#6 SMÁVEGIS UM VIÐBRAGÐSBÓKMENNTIR OG HUGARRÓ

Ég kláraði stóra bók um daginn og eins og stundum þegar ég klára stóra bók þá sat ég eftir og hugsaði: „Vá, hvort var þessi bók alveg æðisleg eða bara alltílæ?“ Eins og E.M Forster sagði þá er nefnilega erfitt að treysta stórum bókum fyllilega af því að lesandinn þarf að sannfæra bæði sjálfan sig og aðra um að hann hafi ekki sóað tíma sínum til einskis. Bókin sem um ræðir er Lessons eftir Ian McEwan, þykk skáldsaga sem spannar heila ævi venjulegs bresks meðaljóns, sem þrátt fyrir mikla hæfileika í æsku stendur uppi sem iðjuleysingi og einstæður faðir og endar síðan sem einangrað gamalmenni sem er búið að sættast við það að heimurinn haldi áfram án sín.

Ég er með mikil blæti fyrir öllum svona sögum og bíómyndum sem reyna að draga fram þá lágstemmdu dramatík sem einkennir daglegt líf „venjulegs“ fólks – svona Mike Leigh/Sally Rooney/Raymond Carver/kitchen sink drama-dót. Ég er samt ennþá að velta fyrir mér hvað McEwan ætlar sér að segja um samskipti kynjanna, en í bókinni er kunnuglegum stefjum snúið á haus. Þannig yfirgefur eiginkona Rolands hann og barnungan son þeirra til þess að gerast heimsfrægur rithöfundur, og í æsku er hann misnotaður kynferðislega af píanókennaranum sínum –  fullorðinni konu. Þá lífsreynslu notar hinn fullvaxta Roland til að útskýra (eða réttlæta) fyrir sjálfum sér hvernig hann fór út af sporinu sem ungur maður, lauk ekki námi og missti af þeim tækifærum sem stóðu honum til boða. Hann á þó erfitt með að fella sig við hlutverk þolanda eða fórnarlambs, allt þar til í seinni hluta bókarinnar þegar hann er kominn yfir fimmtugt og samfélagið er byrjað að takast á við #MeToo.

Líklega er það þó ósanngjarnt eða jafnvel arfavitleysa hjá mér að stilla því þannig upp að McEwan sé að reyna að „segja“ eitthvað ákveðið um samskipti kynjanna. Það getur vel verið að einhverjir lesendur sjái í bókinni endurspeglun á þeirra eigin heimssýn og hlakki yfir kvenpersónunum sem beita Roland tilfinningalegu og kynferðislegu ofbeldi („Sko! Konur líka!“) en sjálfur er Roland engan vegin viss um hvað honum finnst um þetta allt saman. Bókin fylgir honum frá barnæsku til æviloka og eins og við flest fær hann nýja sín á atburðina sem mótuðu líf hans eftir því sem tíminn líður, og kemst í raun aldrei að neinni endanlegri niðurstöðu. Hlutirnir gerðust bara eins og þeir gerðust og hann á erfitt með að sjá hvernig þetta hefði getað farið á annan veg. Á sama tíma fylgjumst við með því hvernig atburðir líðandi stundar setja mark sitt á líf hans. Við fylgjum honum í gegnum heimsviðburði á borð við Kúbukrísuna, Chernobyl, fall Berlínarmúrsins, upphaf og áframhaldandi hörmungar Íraksstríðsins, #MeToo, Brexit og að lokum einangrunina og óttann sem hann upplifir sem heilsulaus eldri borgari í heimsfaraldri Covid-19. Þessir atburðir móta allir að einhverju marki þá stefnu sem líf hans tekur, þótt áhrif þeirra séu kannski ekki eins áberandi og samskipti hans við konur, foreldra, fjölskyldu og vini.

Í ritdómi í nóvemberhefti New York Review ber Giles Harvey þennan stóra tímaskala bókarinnar saman við lensku sem hann nefnir „rapid response novels“ – sem mætti kannski útfæra sem „viðbragðsbókmenntir“ á íslensku. Þar á hann við skáldsögur sem eru svo kyrfilega staðsettar í pólitíska og andlega “núinu” að þær geta virkað hálf úreltar ef þú kemst ekki í þær fyrr en einu til tveimur árum eftir að þær koma út. Harvey aðgreinir Lessons frá þessum bókum sökum „dýpt“ persónusköpunarinnar og því hvernig bókin endurspeglar mannlegt eðli með því að gefa sig ekki út fyrir að búa að skýrum og skorinortum niðurstöðum um málefni líðandi stundar. Eins og hann orðar það sjálfur, kannski heldur hryssingslega:

Because of its formal fragmentation and ultra-contemporary subject matter, the rapid-response novel carries an aura of modernist innovation. Life itself has grown more manic and fractured (the implicit argument of these books seems to run), and novels ought to reflect this. Looked at another way, however, the genre could be seen as a capitulation. Working from the premise that readers today, conditioned by social media, have trouble focusing on anything for longer than thirty seconds at a time, the rapid-response novelist decides to cater to their ravaged attention spans by writing brief, topical books comprised of tweet-like fragments generously set off by quantities of white space.

Ég verð að viðurkenna að það er eitt og annað kunnuglegt við þessa háðsku lýsingu Harveys og kannski hefur maður einhvern tímann tautað eitthvað álíka ofan í fjórða bjórinn sinn þegar maður hefur setið við spekúlasjónir með öðru skrifandi fólki. Engu að síður hefur það verið mín reynsla að bækur séu alltaf í einhverskonar samræðum við samtímann, sama hvort það er viljandi af hálfu höfundar eður ei. Kannski er gagnrýni Harveys því heldur sú að fólk sé að flýta sér um of, en margir höfundar þekkja efalaust hvernig það virðist stundum eins og samtíminn sé að breytast mun hraðar en handritið þitt hefur tök á að gera. Ég er viss um að í þessum töluðu orðum situr einhver yfir handriti að óútgefinni samtímaskáldsögu og klórar sér í hausnum yfir því hvort eigi að breyta Twitter í X eða ekki.

Ég er þó sammála því að oft þykir mér skáldsögur sem bjóða upp á tilfinningalega sátt og skýrar niðurstöður eilítið tortryggilegar. Kannski er það bara vegna þess að sjálfur hef ég varla komist að neinni skýrri niðurstöðu í lífinu og ætlast ekki til þess af skáldskapnum sem ég innbyrði heldur. Orð Harvey minna mig einnig á nýlegan þátt af Offline-hlaðvarpinu þar sem kvikmyndagagnrýnandinn Maia Wyman (sem notast við nafnið Broey Deschanel á Youtube) ræddi um kvikmyndir á tímum samfélagsmiðla og áhyggjur sínar af því að nýjar kynslóðir væru farnar að skilgreina sjálfsmyndir sínar og annarra um of út frá því hvaða poppmenningu þau kjósa að innbyrða, og væru því ólíklegri til að horfa á kvikmyndir eða lesa bækur sem þeim fyndist ekki vera “fyrir sig“ eða sem þau bæru flóknar eða óþægilegar tilfinningar til. (Eða eitthvað svoleiðis, er örugglega ekki að fara alveg rétt með það sem hún sagði, hægt að hlusta hér.)

Annars er í dag síðasti dagur ritlauna hjá mér, og ætla ég að halda upp á það í lufsulegum lattelepjandi stæl með því að dandalast á kaffihúsum – sem ég hef reyndar varla þolinmæði til lengur, sérstaklega ekki eftir að ég flutti mig í Gröndalshús sem býr að svo rokna flottri kaffivél að meira að segja kaffi-amatör eins og ég getur brasað fram sæmilegasta espresso. (Ég er búinn að vera vægast sagt nötrandi af koffíni síðan ég tók við skrifstofu hérna.) Í kvöld er ég svo að fara að sjá hina goðsagnakenndu Graveslime spila suddarokk á Kexinu, sem mig grunar að eigi eftir að verða tónleikaupplifun ársins, og eru það stór orð þar sem ég fór að sjá Cave In á Gauknum á mánudaginn og hitti þar fyrir nánast alla reykvísku harðkjarnasenuna sem átti blómaskeið sitt um síðustu aldamót. Cave In voru reyndar svo þéttir að maður trúði því varla að hægt væri að flytja svona marglaga tónlist svona fumlaust, auk þess sem hljóðið á Gauknum var algjörlega til fyrirmyndar (sem er ekki alltaf endilega raunin þegar maður fer á metal-tónleika, þótt oftast sé það bara stemmning að fá smá suð og feedback inn á milli). Ótrúlega gaman líka að sjá bassafantinn Nate Newton slá strengi þarna á sama sviði (eða næstum því, þau færðu það aðeins til á einhverjum tímapunkti á árunum sem hornið á Tryggvagötu og Naustinni var sífellt að skipta um nafn) og ég sá hann spila með Converge, sinni meginhljómsveit, einhvern tímann í kringum (sjitt…) 2010.

Reyndar er ég ekki búinn að vera að hlusta á neitt sérstaklega mikið af tónlist undanfarið, eða ekki síðan ég uppgötvaði heimasíðuna Hljóðmynd, sem er hugarfóstur Magnúsar nokkurs Bergssonar sem stundar það óeigingjarna starf að koma sér fyrir á fáförnum stöðum úti í náttúrunni og taka upp hágæða hljóðupptökur fyrir okkur hin sem sitjum föst í voru daglega amstri. Upptökurnar eru opnar öllum sem á annað borð þurfa á smá hugarró að halda og læt ég eina mína uppáhalds fylgja hér – sæluhúsið í Brunnahæðum í miklu roki – ásamt sitthvoru uppáhalds laginu með Graveslime og Cave In.

DO YOU WANT TO DIEEEEE!!!???
Eitt gamalt og gott en nýjasta platan er reyndar líka alveg geggjuð, eiginlega..