
Það er orðið svolítið síðan ég settist síðast niður til að skrifa eitthvað sem átti sér ekki skýran tilgang. Þ.e.a.s. það er orðið svolítið síðan ég settist síðast niður til að blogga. Í það sinn varð mér það á að vinda mér inn í listamannalaunaumræðuna. Ætlun mín var nú reyndar bara að láta vita að ég hefði ekki hlotið listamannalaun í þetta sinn, og að það væri allt í lagi. Ég hefði ekkert endilega búist við því og væri með ýmsa varnagla í lífinu til að tryggja sjálfum mér tíma og andrými til að skrifa með og án listamannalauna. Það runnu þó á mig tvær grímur þegar mér varð litið á fésbókina og sá að þar voru það nær eingöngu við félagarnir í karlar-rétt-yfir-fertugt klúbbnum sem vorum að barma okkur yfir listamannalaunaleysi. Ég hef jafnvel séð mitt eigið nafn einu sinni eða tvisvar á listum af ungum (a-hömm!) karlhöfundum sem hafi verið slaufað af ritlaunanefndinni. Hvers eiga ungir strákar sem langar að lesa að gjalda? Hvað eiga þeir eiginlega að lesa!? Einhverjar stelpur, eða!?
Þegar farið var að týna í hólfin í réttinni kom þó í ljós að það voru nú alveg nokkrir hrútar þarna eftir allt, meira segja bara smá stóð. Kannski voru þetta því óþarfa áhyggjur, enda er hreinlega ekkert skrítið við það að fá ekki listamannalaun. Það er í raun bara eðlilegasti hlutur í heimi. Ég þekki fullt af fólki sem aldrei hefur fengið listamannalaun, og sum þeirra hafa meira að segja sótt um. Annars leiðist mér hvernig umræðan um listamannalaunin hefur teygt svona svakalega úr sér yfir árið og er orðin eins og Eurovision, sem í minni æsku var bara eitt til tvö kvöld á ári en er núna orðið meginstólpinn í skemmtidagskrá RÚV allt árið um kring. Samt heyrir maður varla lengur í kverúlöntunum úti í bæ sem nöldra yfir því að verið sé að henda aumingjakaupi í auðnuleysingja því það er of mikill hávaði í okkur listabrókunum sjálfum. Nóg um það.
Þótt ég hafi ekki verið að skrifa neitt á þessum vettvangi hér hef ég þó náð að koma frá mér einhverjum launuðum orðum annars staðar. Ég skrifaði um Veðurfregnir og jarðarfarir eftir Maó Alheimsdóttur fyrir Tímarit Máls og menningar, um Gólem eftir Steinar Braga fyrir Bókmenntavefinn, og núna síðast um Söguna af svartri geit eftir tamílska höfundinn Perumal Murugan, í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur, aftur fyrir Bókmenntavefinn. Jólabókaflóðið í fyrra var í raun í fyrsta sinn sem ég hætti mér út í það að skrifa gagnrýni um bækur sem fella mætti undir orðskrípið „fagurbókmenntir“ – ef frá eru taldar allar 150-200 orða umsagnirnar um íslenskar bækur fáanlegar á ensku sem ég seldi Icelandair og Reykjavík Grapevine til skiptis þegar ég var auralaus í New York að vinna að Stol. Þær umsagnir eru reyndar líka allar aðgengilegar á Bókmenntavefnum, og þar er líka að finna eitthvað af gagnrýni sem ég hef skrifað í gegnum árin um glæpasögur eftir t.d. Ragnar Jónasson, Skúla Sigurðsson, Lilju Sigurðar og Evu Björg Ægisdóttur. Þangað til í desember síðastliðinn taldi ég það nefnilega skyldu mína að vera ekki að svamla sem gagnrýnandi í sömu tjörn og ég verpi við sem höfundur (eða eitthvað svoleiðis) . Hinsvegar elska ég glæpasögur og hef lesið ógrynni af þeim, en égnálgast þær alltaf frekar sem lesandi en sem höfundur – þótt auðvitað daðri ég oft við tilhugsunina um að spreyta mig við formið einn daginn.
Haustið í fyrra fór ég þó að hugsa hvort þetta væri ekki heldur egósentrísk gunguhegðun, að halda að álit mitt á prenti eða skjá skipti þvílíkum sköpum fyrir aðra höfunda að ég ætti á hættu að vera borinn út úr bænum á stálbita þakinn tjöru og fjöðrum. (Lásuð þið ekki líka Lukku Láka í denn?) Þar að auki heyrist mér allir höfundar sammála um að það sé sár vöntun á bókmenntagagnrýni í íslenskri menningarumfjöllun, sérstaklega eftir að Fréttablaðið hvarf af sjónarsviðinu, að maður tali nú ekki um fráfall hans elsku Ásgeirs H., sem einn og sér skilur eftir sig gífurlegt magn af vönduðum og læsilegum bókadómum í Heimildinni og á Menningarsmyglinu sínu. Það er líka bara alltaf svo yndislegt og gefandi að skrifa fyrir hana Úllu á Bókmenntavefnum því hún leyfir manni að teygja lopann eins og maður þarf til að koma að bæði því góða og því slæma og biður mann aldrei um að gefa bókum stjörnur, fiðrildi, pony-hesta eða aðrar leikskólaeinkunnir. Þar að auki leyfir hún manni að skemmta sér við skrifin og komast upp með óskunda á borð við að tala um Scott Bakula og vísa í Quantum Leap þegar maður á að vera að skrifa um eitthvað allt annað.
Annars er ég að lesa The Siren’s Call eftir Chris Hayes þessa dagana, um það efnahagskerfi athyglinnar sem við búum við í dag. Þar er því meðal annars haldið fram að það að láta sér leiðast sé í raun afsprengi kapítalismans, og að ólíkt okkur sem förum í panikk ef við gleymum símanum úti í bíl þá óttist hirðingjaþjóðir og útnáraættlbálkar það ekki að sitja ein með hugsunum sínum og stara út í loftið þegar ekkert er í gangi. Ég hef reynt að taka þetta til mín og er mikið í því að stara upp í skýin þessa dagana, eða fylgjast með hvernig berir aspartopparnir fyrir utan Austurbæjarskóla vagga fram og til baka eins og risastór skynfæri í golunni.
Til að hafa eitthvað markvissara til að gleyma mér í líka er ég að dunda mér í gegnum allar bækur P.D. James um ljóðskáldið og lögregluforingjann Adam Dalgliesh. Ég hef alltaf vitað af P.D. James og man eftir bókunum hennar hér og þar á heimilinu í barnæsku minni, með heillandi titlum á borð við Ekki kvennmannsverk og Saklaust blóð, og varð síðan ennþá forvitnari þegar ég uppgötvaði að hún hefði skrifað bókina sem hin ágæta en ansi svartsýna kvikmynd Children of Men er byggð á. Ég sá hinsvegar fram á að tíminn væri orðinn naumur til að renna í gegnum þessar bækur núna þegar RÚV er byrjað að sýna þessa fínu nýju seríu um Dalgliesh, sem er leikinn af Bertie Carvel, sem ég hugsa samt alltaf um sem Jonathan Strange, eftir að hann lék hann eftirminnilega í seríu byggðri á bók Suzanne Clarke um þá félaga Mr. Norrell og Jonathan Strange . Mér þykir Carvel ná lögregluforingjanum samanbitna ansi vel, þar sem hann geysist um sveitir á Jagúarnum sínum (sem er reyndar Cooper Bristol í bókunum, allavega þar sem ég er kominn) og leysir morðmál á milli þess sem hann bregður sér í svarta rúllukragapeysu og flytur ljóðin sín á reykmettuðum bóhemklúbbum.

Blessunarlega er ég að lesa bækurnar á Kobo-rafbókalesaranum mínum og get því nýtt mér innbyggðu orðabókina, þar sem James er sannarlega óhrædd við að nota stóru orðin í skrifum sínum. Það verður að segjast að glæpasögurnar hennar eru á margan hátt ansi krefjandi. Hún ætlast greinilega til mikils af lesendum sínum, sem þurfa að halda utan um óvenju stór persónugallerí og flóknar tímalínur. Þar að auki fylgir James greinilega gömlu og gleymdu gullnu reglu morðgátunnar sem kveður á um að lesandinn eigi alltaf að eiga jafn mikinn möguleika á að leysa gátuna og aðalsöguhetja bókarinnar. Lausnin er þannig alltaf á einn eða annan hátt í sjónmáli, og í sumum tilvikum er hún svo augljós að manni kom hún ekki einu sinni til hugar. Ég er að fara á Doomcember í næstu viku að sjá ítöslsku sækadelíadrónmeistarana í UFOMammut og fleiri bönd, og reikna ég með að vera með Dalgliesh í vasanum til að grípa í á milli setta á meðan verið er að stafla og stilla magnaraveggina sem eiga efalaust eftir að príða sviðið í Hellinum úti á Granda.
Það minnir mig á: ég lét loks af því verða að segja upp Spotify, sem hefur verið á stefnuskránni ansi lengi. Útslagið gerðu fréttir af því að þeir hefðu lagt töluvert fjármagn til embættistökuathöfn Trumps, en aðallega var ástæðan svosem bara vonin um að finna alvöru vettvang til að hlusta á og grúska í tónlist, en ekki einhvern gervigreindar algóritma sem borgar listamönnum öreindir af krónu fyrir hverja hlustun. Ég hef svosem lengi verið virkur á Bandcamp og keypt plötur þar beint af kúnni, en það er auðvitað mestmegnis bara heimili fyrir jaðardót og furðufugla, þótt það gleðji mig að sjá að íslenskir tónlistarmenn séu farnir að nota þennan vettvang í meira mæli, samanber nýja platan hans Kött Grá Pjé, sem er eiginlega það ferskasta og skemmtilegasta sem ég hef heyrt í íslensku hipphoppi í ansi langana tíma (ekki að ég sé endilega með alla putta á púlsinum þar).

Það sem maður óneitanlega saknar samt á Bandcamp, sem hampar umfram allt albúmminu sem heilstæðu verki sem listamaðurinn hefur raðað saman og dútlað við, eru óhjákvæmilega allir þessir spilunarlistar sem maður getur látið rúlla í bakgrunninum og/eða uppgötvað eitthvað nýtt og ferskt á. Svo fattaði ég að það eru auðvitað til þúsundir grilljóna af dásamlegum útvarpsstöðvum allstaðar að úr heiminum sem standa mér til boða og eru í gangi allan sólahringinn. Ég náði mér því í Simple Radio-appið og núna þegar ég nenni ekki að velja plötu sjálfur opna ég það og kveiki á t.d. WKCR, sem er djass stöð Columbia háskólans, eða einhverri af stöðvunum fjórum sem WFMU í New York rekur, þar sem er alltaf hægt að finna eitthvað dásamlegt, t.a.m. þáttinn hennar Monu eða Feelings með Michelle with one L. Það er eitthvað huggulegt við það að sitja og hlusta á playslista sem maður veit að hefur verið klambrað saman af einhverjum tónlistarlúða í öðru landi, frekar en algóritma, og þar að auki eru flestar þessar stöðvar reknar á hlustendaframlögum svo þær eru auglýsingalausar með öllu og allt skraf í minnihluta, bara tónlist, tónlist, tónlist. Til viðbótar við þetta var mér bent á hina stórkostlegu heimasíðu (og app) Radio Garden, sem gerir þér kleift að ráfa um hnöttinn í leit að einhverju sem gleður vort eyra. Ef maður vill svo ganga ennþá lengra er líka hægt að kíkja á heimasíðuna Drive & Listen, þar sem maður getur lötrað í gegnum umferðina í til dæmis Lima eða Buenos Aires með local útvarpsstöð í botni.
Mikið getur nú internetið verið dásamlegt.
Stundum.