Jæja, umsókn um listamannalaun 2025 hefur verið lögð inn. Ég ýtti á „senda inn“ takkann í síðustu viku, eftir að hafa dútlað mér eins lengi og ég gat við að endurskrifa og styrkja ritsýnin sem ég lét fylgja umsókninni. Umsóknin sjálf var frekar lítið breytt frá því í fyrra, skiljanlega þar sem ég fékk enga úthlutun fyrir 2024 og tíminn til að skrifa hefur því verið takmarkaður undanfarið ár, á meðan ég hef verið í fullu starfi og notið góðs af öllum þeim fríðindum sem því fylgja að fá launaseðil í hverjum mánuði sem er nú þegar búið að borga alla skatta og öll gjöld af. Ég fékk meira að segja að kíkja í heimsókn til hans Jóa í Bara bækur um daginn til að ræða um dagvinnuna mína, og hann klippti samtalið okkar til eins og honum einum er lagið og lét mig til að hljóma eins og ég vissi alveg upp á 10 um hvað ég væri að tala. Því til viðbótar má nefna að ég var líka í Endastöðinni í þar síðustu viku, en þar var ég meira bara að gasa um listir og skrif almennt, svo ég sé það meira sem hluta af höfundastarfinu mínu (eða hobbíinu, eftir því hvar ég sæki laun mín hverju sinni).
Maður er samt farinn að vera ansi lunkinn í að stela klukkutíma hér og klukkutíma þar til þess að skrifa á kvöldin eða eftir vinnu. Ein blessunin sem fylgt hefur túristafaraldrinum er það að einhver af kaffihúsunum standa opin frá klukkan 7 á morgnanna um helgar, til að taka á móti túristunum áður en þeir fara í dagsferðirnar sínar, þannig að núna þegar maður er meira og minna hættur að drolla á barnum og farinn að fara snemma í bólið getur maður rifið sig á fætur fyrir allar aldir á laugardögum eða sunnudögum og náð góðri törn þar áður en borgin vaknar. Þetta eru samt allt bráðabirgðalausnir. Fyrr eða síðar þarf maður að finna leið til að eyða lengri samhangandi tíma með handritinu, svo maður missi ekki tilfinninguna á milli lotna. Og til þess þarf maður peninga.
Ætli ég verði ekki að viðurkenna að ég hafi mögulega verið aðeins of mikil Pollýana gagnvart óörygginu og brasinu sem því fylgir að þurfa að „sækja um vinnuna sína aftur á hverju ári“, eins og EÖN kallar það, í skrifum mínum hérna. Þetta er fyrirkomulag sem er ekki í boði fyrir neinn annan en örvæntingarfullt fólk sem hefur, meðvitað eða ómeðvitað, hagað lífi sínu á þann máta í gegnum árin að það er fært um að þrífast í þessu viðvarandi fjárhagslega óöryggi sem því fylgir að treysta á styrki fyrir afkomu sína og afköst.
Ég er þó bara að reyna að gera það besta úr stöðunni, finna einhverja sköpunargleði í þessu blessaða umsóknarferli, nota það sem vettvang til að plana bækurnar sem mig langar að skrifa í framtíðinni – eitthvað sem ég er almennt frekar ragur við að gera í sjálfu skrifferlinu af ótta við að gera út af við dulúðina og uppgötvunarferlið sem fylgja því að renna temmilega blint í sjóinn. Mér finnst nefnilega best að gefa sjálfum mér nægilegt svigrúm til að geta uppgötvað eitthvað óvænt í skrifunum sjálfum; eitthvað sem ég átti ekki von á og hef ekki hugmynd um hvaðan kom. George Saunders hefur skrifað mikið um þetta uppgötvunarferli, um að skrifa eins og maður sé lesandi sem er að uppgötva textann jafnóðum. Ég er með bút úr viðtali við hann vistaðan í einni af möppunum þar sem ég geymi hina ýmsu skjávara sem birtast tilviljanakennt á öllum átta desktoppunum sem ég nýti hérna í tölvunni í mismunandi tilgangi. Þar stendur:
„…be open to whatever energy your text is actually presenting as opposed to what you think it’s presenting.“
Í sömu möppu hef ég líka vistað þetta heilræði frá Rebeccu Solnit til þeirra sem vilja gerast rithöfundar:
„Live below your means and keep your means low.“
≠
Ég tók skyndiákvörðun um daginn og keypti mér takkasíma. Fyrr um daginn hafði ég snúið öllu við hér heima í leit að gömlum Nokia-síma sem ég vissi að ég ætti í fórum mínum, en þegar ég fann hann loksins reyndist batteríið vera svo úttútnað að það var ekki lengur hægt að loka bakhliðinni á honum. Ég rölti því niður í Elko úti á Granda og greiddi 12.990 kr. fyrir glænýjan takkasíma. Nýi síminn er líka Nokia, rauður, með Snake og Tetris og einhverjum fleiri leikjum, frumstæðum vafra sem rétt dugar (með töluverðri þolinmæði) til að fletta upp opnunartímum verslana, niðurteljara og vekjaraklukku, rafrænum skilríkjum, bluetooth, 0,2 mb myndavél og slotti fyrir sd-kort þar sem ég vistaði nokkrar plötur sem ég hef keypt af Bandcamp í gegnum tíðina og get spilað á frumstæða MP3-spilara sem er líka að finna á tækinu.
Ég var svosem búinn að vera að gæla við þessa hugmynd lengi, en útslagið var þetta nýlega viðtal við Zadies Smith, sem sjálf hefur aldrei átt snjallsíma, ef undanskildir eru þrír mánuðir árið 2010, þegar hún sá í hendi sér að hún myndi aldrei skrifa aðra bók ef hún héldi áfram að ganga með þessa græju í vasanum.
Þetta var kannski svosem ekkert svo stórt stökk fyrir mig, þar sem ég hef ekki verið með neina samfélagsmiðla á símanum mínum í nokkur ár, en ég var farinn að taka eftir því að jafnvel án samfélagsmiðla var ég farinn að kíkja ótæpilega mikið á símann til þess eins að skoða fréttamiðla á borð við Vísi eða Guardian í leit að einhverju til að fanga athyglina. Þannig var ég ennþá að missa af litlu glufunum í deginum þegar maður hefði í eina tíð bara starað út í loftið og mögulega rifjað upp löngu gleymt samtal við einhvern sem manni er annt um, eða kannski bara munað eftir brandara úr gömlum Simpson-þætti sem maður skildi aldrei sem krakki en fattar allt í einu núna þegar honum er skyndilega endurvarpað í huganum á meðan maður bíður eftir græna gönguljósinu á Hringbrautinni.
Eins og Zadie Smith orðar það:
I don’t want to talk through emotional hysteria. I just talk about the facts, and the facts of this technology is that it was designed as and is intended to be a behavior modification system. That is the right term for it. When you wake up in the morning and you turn to your social app, you are being instructed on what the issue of the day is, what to be interested in. The news has always played some element in doing that but this is total. So I might wake up in the morning and what interests me is an idea I’ve had or something I see out my window or what’s happening locally in front of me, what’s happening in my country, but the phone tells me exactly what to think about, where to think about it and often how to think about it.
And it’s not even to me the content of those thoughts. Like, there’s a lot of emphasis put on the kind of politics that are expressed on these platforms to the right or to the left. To me it’s the structure. It’s not the content of what’s on them, it’s that it’s structured in a certain way. That an argument is this long, that there are two sides to every debate, that they must be in fierce contests with each other, is actually structuring the way you think about thought. And I don’t think anyone of my age who knows anyone they knew in 2008 thinks that that person has not been seriously modified in many different directions, but the fundamental modification here is the same.
And that’s okay. All mediums modify you. Books modify you, TV modifies, you, radio modifies you, the social life of a 16th century village modifies you. But the question becomes: who do you want to be modified by and to what degree? That’s my only question. And when I look at the people who have designed these things, what they want, what their aims are, what they think a human being is or should be, the humans I know and love, this machinery is not worthy of them. That’s the best way I can put it.
Ég er samt ekki svo heilagur að ég sé á leiðinni niður á höfn til að henda snjallsímanum mínum í sjóinn. Ég mun áfram notast við hann heima við og á ferðinni sem einskonar mini, mini-ipad/myndavél sem ég get tengt við wifi-net þegar þess þarf. Ef ég kem einhvern tímann þessari blessuðu bók út mun ég að sjálfsögðu poppa SIM-kortinu aftur í iPhone-inn og hefja mína sprelligöngu á samfélagsmiðlum í von um að vekja áhuga lesenda.
Undanfarið hef ég samt verið að skilja snjallsímann eftir heima yfir daginn og notið þess að vera allsótengdur við upplýsingamaskínuna á meðan ég trítla í vinnuna eða ráfa um matvörubúðir borgarinnar í leit að lífrænum banönum. Enn sem komið er hefur þetta ekki komið að sök, en ég er nokkuð viss um að einhver staðar þarna úti bíði mín eitthvað stórfenglegt samskipta- eða samgönguklúður sem auðveldlega hefði verið hægt að afstýra ef ég hefði haft snjallsíma við höndina.
Eins og og Zadie Smith drepur á síðar í þessu sama viðtali þá verð ég að spyrja sjálfan mig á því augnabliki: hvort er verra, þetta hrikalega klúður sem þú ert að díla við núna, eða það að ganga um með snjallsíma í vasanum alla daga og vera háður öllum hans duttlungum?
≠
Lag dagsins er Get Well með Nothing. Ég er almennt ekki mikill shoegaze gaur en ég hef eilítið verið að hlusta á þá í fyrsta sinn undanfarið eftir að þeir sendu frá sér plötuna When No Birds Sang með uppáhaldsstrákunum mínum í Full of Hell. Plata ársins 2024, að mínu mati (þótt hún hafi reyndar komið út í desember 2023).