Bókamessan 2022

Bókamessan var loksins haldin aftur í Hörpu í ár, í fyrsta sinn eftir Covid. Það var synd að þessi árlegi viðburður, sem virtist vera rækilega kominn á kortið þegar ég mætti þar síðast, virtist aðeins hafa dottið út úr haustrútínunni hjá fólki, og maður heyrði oft kvartað á básunum um að það væri ekki eins góð mæting og síðast. Engu að síður var fullt af fólki þarna og mikil stemmning. Ég náði þó einungis að njóta hennar litlum hluta þar sem helgin reyndist vera hálfgerð vinnutörn fyrir mig.

Á laugardaginn ræddi ég við heilann flota af höfundum og leikurum/lesurum fyrir Storytel á básnum þeirra, þ.á.m. Júlíu Margréti, Emil Hjörvar og sjálfan Ólaf Ragnar Grímsson. Þetta var um þriggja tíma törn með tuttugu mínútna spjalli eða svo við hvern höfund og lesara, og segja má að ég hafi verið alveg útkjaftaður í lok dags. Ég þurfti þó að hrista það af mér og mæta aftur daginn eftir til að sjá um smásögupanel fyrir Bókmenntaborgina, þar sem ég ræddi við höfundana Maríu Elísabet Bragadóttur, Örvar Smárason og Guðjón Baldursson, sem öll hafa nýlega gefið út smásögusöfn, og Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur, sem hefur þýtt fjöldann allan af smásögum og ritstýrt söfnum og sýnisbókum um smá- og örsögur frá öðrum menningarheimum. Panellinn gekk vel og fór vel á með okkur, en hægt er að horfa á hann í heild sinni á Facebook.

BÆ BÆ DAVÍÐSHÚS

Höfundur í hlaupagallanum

Kveð hús Davíðs Stefánssonar með handrit sem er nokkrum köflum lengra en það var þegar ég mætti fyrir 7 dögum síðan. Dvölin hefur verið ljúf þótt það hafi verið erfitt að halda sig innandyra við tölvuskjáinn í veðurblíðunni, en amk var hægt að verðlauna sig í lok dags með því að fara út að hlaupa eða sóla sig í sundi – eða með því að drekka rauðvín á sófanum og horfa á Mike Leigh myndir. Bæði var gert í réttum hlutföllum.

Dvöl í Davíðshúsi 2022

Mættur að nýju norður í Davíðshús til að vinna í handriti sem ég hófst handa við hér undir þessum kjallaraglugga síðast í nóvember – eftir nokkur ár af því að hripa hluti niður í glósubækur (hvenær sem tími gafst) og hugsa um persónurnar og afdrif þeirra (hvenær sem ég hafði ekki eitthvað annað og meira ákallandi til að hugsa um). Þetta mjakast.

PISTILL Í VÍÐSJÁ: (MÖGULEGAR) ÁSTÆÐUR ÞESS AÐ ÉG SKRIFA

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer sex er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um pólitísk skrif og ópólitísk skrif og um George Orwell.

„Þannig hef ég reynt að bera fyrir mig að skrifin séu andsvar mitt við þeim áleitnu spurningum sem hvíla á okkur í dag, og að markmið mitt sem höfundur sé að sýna hvernig mannskepnan lifir og hrærist undir því álagi. Ég hef oft haft eftir orð George Orwell, sem sagði: „engin bók er í raun og veru laus við pólitíska slagsíðu.“ Gott og vel, hugsa ég, ég þarf þá ekki að hafa frekari áhyggjur af því.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: HÉR ER BANNAÐ AÐ TAKA MYNDIR

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer fimm er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um myndatökur og dyravörslu og sundlaugar.

„Myndatökur hafa að einhverju leyti tapað hátíðleika sínum, núna þegar við erum umkringd myndavélum á alla kanta, og þær er að finna innbyggðar í ólíklegustu heimilistæki, en að sama skapi er líkt og myndavélarlinsan hafi breyst í enn eitt skynfæri sem við notum til að meðtaka heiminn og staðsetja okkur innan hans – skynfæri sem breytist í tjáningarfæri þegar við notum það til að miðla í gegnum samfélagsmiðla upplifun okkar á heiminum og okkur sjálfum.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: HVENÆR ER EITTHVAÐ „KAFKAÍSKT“ OG HVENÆR EKKI?

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer fjögur er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um Kafka og frásagnir.

„En þannig er það líka með sögur Franz Kafka. Þær veita svo takmarkaða sýn af heimunum sem þær gerast í og persónunum sem þær hverfast um að lesandanum er frjálst að sjá í þeim nánast hvað sem hugurinn girnist og móta þær þannig að eigin túlkunum.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: TÍMINN OG NATNIN

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer þrjú er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um tímann.

„Mér skildist á foreldrum mínum að úr væri bara eitthvað sem þú þurftir að ganga með, ekki ósvipað húslyklinum sem hékk í ól um hálsinn á mér. Líkt og húslykillinn var úrið tákn um bæði fríðindi og ábyrgð; lykillinn gerði mér kleift að vera einn heima eftir skóla, og úrið veitti mér rétt til að fara út að leika eftir kvöldmat – með því skilyrði að ég fylgdist með klukkunni og kæmi heim á skikkanlegum tíma.“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: KARLAR SEM LESA EKKI KONUR

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer tvö er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um ómeðvitaða fordóma og lestur.

„Að uppgötva að ég læsi ekki konur var í alla staði óskiljanlegt. Það var eins og að uppgötva að ég læsi ekki bækur sem væru með oddatölufjölda af blaðsíðum; fáránlegt skilyrði sem ég hafði enga hugmynd um og gat ekki gefið neina rökrétta ástæðu fyrir“

PISTILL Í VÍÐSJÁ: TILFINNINGAR Á TORGUM SAMFÉLAGSMIÐLA

Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Fyrsti pistillinn í seríunni er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um tilfinningarými og Angelu Merkel.

„Hvað gerist þá þegar rýmið til að halda hamingju og harmi í hjarta okkar, þetta tilfinningarými sem við hleypum eingöngu okkar nánustu inn í, tekur að skreppa saman, samhliða því að líf okkar fer að sístækkandi hluta fram á opinberum vettvangi?“