BARNALÆTI Í TMM

tmm 1.17
Ég á söguna Barnalæti í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar. Sagan er ein af sjö smásögum sem verða í bók minni Smáglæpir sem mun koma út hjá bókaútgáfunni Sæmundi núna í haust. Útgáfa bókarinnar er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta en smásagnasafnið hlaut Nýræktarstyrk árið 2016. Hér að neðan má finna brot úr sögunni.


BARNALÆTI

Þetta var sumarið þegar ég varð tíu ára og við vorum nýflutt í Hafnarfjörð. Löngu áður en þau skildu og allt gerðist sem á undan því fór. Nýja húsið var hvítt tveggja hæða raðhús, spánnýtt og úr steypu svo að það brakaði ekki í því eins og gamla húsinu okkar. Skólinn var ekki byrjaður og ég hafði ekkert að gera og þekkti engan í hverfinu. Þau voru strax farin að rífast meira. Höfðu verið svo viss um að allt myndi batna í borginni. Bæði komin með vinnu og mamma alltaf að tala um gamlar vinkonur sem höfðu flust í bæinn á undan henni. Svo frestaðist eitthvað fyrsti dagurinn hennar í nýju vinnunni svo að hún var föst heima með mér, innan um allt dótið sem átti eftir að koma fyrir. Þau höfðu misreiknað stærðina á húsinu. Öll herbergin voru full af kössum og húsgögnum. Búslóðin miklu stærri en hægt var að koma fyrir í litlu raðhúsi. Þetta var eins og að búa í geymslu. Það höfðu líka verið fleiri veggir í gamla húsinu okkar og myndir og málverk hölluðu að veggjunum þar sem ætlunin var að hengja þau upp. Þau rifust mikið um hvaða mynd ætti að hanga hvar. Í gamla húsinu fóru þau alltaf inn á skrifstofuna hans pabba til að rífast en það var ekkert aukaherbergi hér svo að í staðinn fór ég inn í mitt herbergi eða út í garð.

Garðurinn var lítill og ferkantaður með hárri girðingu sitt hvoru megin til að skýla manni fyrir nágrönnunum, en við garðshornið hafði girðingin lotið í lægra haldi fyrir náttúrunni sem virtist vera á góðri leið með að taka yfir allan garðinn og kannski húsið sjálft ef ekkert yrði að gert. Þetta var þétt trjáþykkni, illgresi, fíflar, runnar, þyrnar og brenninetlur. Fyrst eftir að við fluttum talaði pabbi mikið um að taka garðinn í gegn, hreinsa burt runnana, snyrta trén og setja upp nýja girðingu, en hann dreif aldrei í því á meðan við bjuggum þar. Í staðinn lét hann sér nægja að slá þráðbeina línu fyrir framan óreiðuna við garðshornið.

Sumarið sem við fluttum var mjög hlýtt. Grasið í garðinum var gul sina sem lá á jörðinni eins og henni hefði verið dreift með sópi til að fela þurra moldina. Ég var úti að bíða eftir að enn eitt rifrildið rynni sitt skeið og dundaði mér við að teikna munstur í þurran jarðveginn með skósólunum, og reyndi að herma eftir flóknu merkjunum sem ég hafði lesið um í Ótrúlegt en satt og birtast stundum á kornökrum í Bandaríkjunum eftir strandaðar geimverur að reyna að senda SOS skilaboð til vina sinna úti í geimi. Litli garðurinn var allur orðinn útstrikaður og mig var farið að gruna að ég myndi lenda í vandræðum þegar pabbi og mamma sæju sköpunarverkið. Það var þá sem ég heyrði fyrst hljóðið handan við óræktina við garðshornið. Það var einhver þar að bölva af mikilli innlifun. Ég gekk á hljóðið og reyndi að gægjast á milli kræklóttra trjánna. Raddirnar sem bárust út um bakdyrnar voru orðnar háværari og af einskærum vilja til að komast í burtu frá þeim hóf ég að brjóta mér leið í gegnum gróðurþykknið. Brátt voru sköflungarnir orðnir rauðir eftir brenninetlurnar og ég var með frækorn í hárinu og fingurna klístraða af fíflamjólk. Blótsyrðin handan við trén höfðu þagnað en þegar ég smeygði mér undir síðustu greinarnar stóð fyrir framan mig strákur á mínu reki sem horfði á mig með eftirvæntingu, eins og hann hefði heyrt mig nálgast og verið að bíða eftir mér.

„Hæ!“ sagði hann.

„Hæ,“ sagði ég.

„Geturðu hjálpað mér?“ spurði hann.

„Með hvað?“ spurði ég varfærnislega. Hann lyfti hendi til að sýna mér. Svört rafmagnssnúra var vafin þétt um hana og yfir hnúana. Hvít rafmagnskló danglaði við úlnliðinn. Hann kippti til hendinni eins og hann væri með svipu og rafmagnssnúran bugðaðist eftir jörðinni og ég sá að hún var tengd við afturendann á gömlu sjónvarpi sem lá í grasinu skammt frá okkur. Hann tók báðum höndum um snúruna og hallaði sér aftur til að toga, kom henni síðan fyrir yfir öxlina og streittist við. Sjónvarpið ruggaði, dróst aðeins eftir jörðinni en sat svo fast. Hann togaði af öllum kröftum og gaf frá sér runu af blótsyrðum en sjónvarpið haggaðist ekki. Á endanum rétti hann úr sér og henti frá sér snúrunni. Klóin lenti í miðjum skjánum svo að söng í. Hann hrækti.

„Æi, það skiptir svo sem ekki máli. Við eigum aldrei eftir að geta borið það alla leið,“ sagði hann, vonsvikinn.

„Hvert ætlarðu með það?“ spurði ég og gekk að sjónvarpinu. Skjárinn virtist heill en kassinn var allur rispaður og skemmdur eftir tilraunir hans til að draga það á eftir sér. „Ætlarðu að láta laga það?“ spurði ég.

Hann leit á mig eins og hann hefði aldrei heyrt neitt vitlausara. „Nei, ég ætla að sprengja það.“

Það fór um mig fiðringur. „Í alvöru?“ spurði ég.

„Það kemur hljóð þegar skjárinn brotnar.“ Hann þrýsti lófunum saman, kippti þeim svo í sundur og gaf frá sér hljóð eins og þegar pabbi kveikti á gasgrillinu okkar. „Stundum kemur blossi líka en ég held að það sé bara ef það er í sambandi.“

„Hvernig ætlarðu að brjóta skjáinn?“ spurði ég. Ég svipaðist um og sá ekkert í grenndinni sem mér sýndist hægt að nota. Við vorum stödd í einskismannslandi sem lá á milli garðanna í götunni okkar og næstu götu. Líklega hafði einhverntímann verið stígur í gegn en honum hafði verið lokað í sitthvorn endann með úrsérgenginni vírgirðingu öðru megin og runnum hinu megin. Fólki hafði sennilega ekki litist á tilhugsunina um að hægt væri að sniglast um bakatil hjá þeim.

„Ég ætla ekki að gera það hér,“ sagði hann. „Ég er búinn að finna stað. Það er samt svolítið langt í burtu og fyrst verðum við að koma því þangað.“ Hann setti annan fótinn ofan á sjónvarpið eins og veiðimaður í Afríku að stilla sér upp fyrir ljósmynd við skrokkinn á nýskotnu dýri. „Þetta væri ekkert mál ef við værum með hjólbörur. Á pabbi þinn hjólbörur?“

„Nei,“ sagði ég og bætti svo við, „við erum nýflutt hingað,“ til að afsaka mig.

„Við verðum að redda hjólbörum,“endurtók hann. „Veistu hvort einhver nágranni ykkar á hjólbörur?“

Ég hristi hausinn. Ég hafði gert ráð fyrir að hann væri úr hverfinu en það var ólíklegt úr því að hann var að spyrja út í nágrannana. Á sumum görðunum voru há grindverk með hliði eða hurð og hann hóf að ganga á milli og gægjast í gegnum rifurnar.

„Hjálpaðu mér að leita,“ sagði hann. „Ef þú sérð hjólbörur þá get ég klifrað yfir og sótt þær. Við skilum þeim seinna.“

Ég gerði eins og hann sagði og hljóp á milli girðinganna mín megin í von um að finna hjólbörurnar á undan honum. Loks sá ég glitta í stál í háu grasinu og gaf frá mér óp af spenningi. „Ég fann þær!“ kallaði ég. Hann kom á harðahlaupum til mín og ýtti mér til hliðar til að gægjast í gegnum glufuna á dyrunum. Svo sneri hann sér að mér, skælbrosandi. „Fullkomið!“ sagði hann. Hann ýtti öxlinni í hurðina en hún haggaðist ekki. „Gefðu mér fótstig.“ Ég beygði mig niður og fléttaði greipar. Hann setti annan fótinn í lófann og studdi sig með báðar hendur á bakinu á mér. Þegar hann steig í rétti ég úr mér og ýtti á eftir af öllum kröftum og honum tókst að ná taki efst á girðingunni og krafsa sig upp yfir toppinn. Ég heyrði hann lenda með dynki hinu megin. Það var andartaks þögn og svo heyrði ég að boltinn á hliðinu var dreginn til baka. Hurðin opnaðist og hann kom út, labbandi aftur á bak og með hjólbörurnar í eftirdragi.

„Núna verður þú að hjálpa mér,“ sagði hann.

 

Bréf frá Long Island: Koman til Bandaríkjanna

Ég fyrir utan kotið okkar í Stony Brook, Long Island
Ég fyrir utan kotið okkar í Stony Brook, Long Island

Þessi pistill um fyrstu vikurnar í Bandaríkjunum birtist upphaflega í Stundinni 4. nóvember 2016

Aðalgatan í Stony Brook
Aðalgatan í Stony Brook

Áður en ég fer í gegnum vegabréfsskoðunina er ég búinn að sjá tvær byssur og ótal fána, auk þess sem Obama sjálfur er búinn að bjóða mig persónulega velkominn í gegnum sjónvarpsskjá. Á öðrum skjá yggla forsetaframbjóðendurnir tveir sig hlið við hlið eins og MMA slagsmálahundar á leið í hringinn, sem er ekki endilega svo fráleitt þar sem fyrstu sjónvörpuðu framboðskappræðurnar eru annað kvöld. Ég er á nálum í vegabréfseftirlitinu, búinn að heyra ótal sögur af ættingjum og vinum vina sem var snúið við og þau send beint heim aftur með sömu vél af einhverjum óútskýrðum ástæðum. Passaðu þig. Vertu glaðlegur. Ekki vera taugaóstyrkur, þeir gætu haldið að þú hafir eitthvað að fela. Hefði ég átt að raka af mér skeggið? Þetta er mitt fyrsta skipti í Bandaríkjunum en ég er kirfilega dulbúinn í Carhartt-jakka og með Boston Red Socks-derhúfu, tilbúinn að svara öllum spurningum og kalla þá Sir ef þarf, en landamæralöggan, ungur maður af latnesku bergi brotinn með gleraugu, snyrtilega burstaklippingu og Glock-skammbyssu (byssa númer 3) á mjöðm sem virkar allt of stór á grannvöxnum líkamanum, er hinn rólegasti. Á nafnspjaldinu hans stendur Velez og hann spyr mig um nafn eiginkonunnar minnar sem er handhafi landvistarleyfis okkar hjóna, tekur fingraförin mín (í annað sinn á ævinni sem tekin hafa verið af mér fingraför, það fyrsta verandi í Bandaríska sendiráðinu fyrir um mánuði síðan) og býður mig velkominn til Bandaríkjanna.

Dádýr eru tíðir gestir og ramba stundum jafnvel inn í garðinn okkar
Dádýr eru tíðir gestir og ramba stundum jafnvel inn í garðinn okkar

Fyrsta klisjan sem blasir við er að það er allt stærra í Bandaríkjunum. Kaffibollarnir og ruslatunnurnar. Göturnar og gangstéttirnar, þar sem eru gangstéttir. Hitt sem er umsvifalaust augljóst er að þetta er bílamenning. Án bílsins ertu varla rétthærri en dádýrin sem við verðum reglulega vör við í skógarjaðrinum eða úti í kanti á hraðbrautinni: Eitthvert náttúruundur sem ber að dást að á meðan maður brunar framhjá en passa líka að sveigja vel í kringum þegar það birtist í vegaröxlinni, ef ske kynni að kvikindið skyldi skyndilega telja sig hluta af umferðinni. Fólk lætur bílinn sinn líka um að tala fyrir sig. Allir bílarnir hafa eitthvað að segja. Firefighter Inside stendur á hlið eins þeirra. Á mælaborðinu hvílir rauð derhúfa með alræmdu áletruninni Make America Great Again. Ég geng eftir bílastæðinu fyrir utan verslunarklasa í nágrenninu og les límmiðana á afturrúðunum. Hillary for Prison. Don’t Blame Me, I Voted for Ted Cruz. Neither One 2016.

Nágrannarnir
Nágrannarnir

Neðar í götunni okkar stendur eilítið sjúskuð rauð Honda sem bætir fyrir ytri slappleika með stórum og marglitum handmáluðum stöfum sem þekja alla bakrúðuna: BLUE LIVES OF ALL COLOR PROTECT US FROM BAD PEOPLE OF ALL COLOR. Það eru fánar alls staðar. Reglulega sé ég bíla með fánastöng festa á dráttarkúluna svo að hægt sé að láta fána í fullri stærð blakta í vindinum á meðan keyrt er í vinnuna. Sumir þessara fána eru einkennilegir. Útlínur fánans eru þessi sömu kunnuglegu form en fáninn er svartur með hvítum röndum og hvítum stjörnum, en þó er ein blá rönd þvert yfir fánann miðjann. Við nánari eftirgrennslan kemst ég að því að fáninn stendur fyrir Blue Lives Matter, sem mótvægi við Black Lives Matter-hreyfinguna, sem ég veit ekki til þess að sé komin með sinn eigin fána. Sumir fánarnir eru með rauðri rönd í stað blárrar. Það er fyrir Red Lives Matter, sem er víst slökkviliðið, sem mér er sagt að sé í guðatölu hér á Long Island fyrir hetjudáðir sínar þann 11. september 2001.

Fuglahræðukeppnin er árlegur viðburður í Stony Brook
Fuglahræðukeppnin er árlegur viðburður í Stony Brook

Kannski eru það bara yfirvofandi forsetakosningar en fólk virðist almennt vera vant að segja hvað því finnst og vera tilbúið að flagga sinni skoðun hvar sem er og við hvern sem er á opinskáan hátt sem ég er nánast eingöngu vanur að sjá í heitu pottunum heima – en meira að segja þar er fólk á varðbergi til að forðast að vera dregið inn í viðræður sem voru kannski ekkert endilega á dagskrá í þessari sundferð. Ég sit aftast í strætó og hlusta á bílstjórann, hvíthærðan og sólbrúnan mann á miðjum aldri með harðneskjulegann kjálkasvip, skeggræða Donald Trump við félaga sinn, feitlaginn svartan mann í fjólubláum íþróttagalla og með snyrtilegt vangaskegg, nógu hátt til að allur strætóinn fer ekki varhuga af því hvað hvorum þeirra finnst. All sérstakt fyrir okkur Íslendingana sem erum vön að lækka róminn þegar kemur að pólitík og tala hægar og skýrar í von um að ná yfirhöndinni með því að sýna fram á

Lögreglan nýtur mikillar virðingar á meðal íbúa Stony Brook, að því er virðist
Lögreglan nýtur mikillar virðingar á meðal íbúa Long Island

þroska frekar en ástríðu. „Málið með Trump er að hann er kannski í framboði fyrir íhaldsmenn en hann er ekki íhaldsmaður. Þá vantaði bara einhvern, voru búnir að mála sig út í horn. Íhaldsmenn eru ekki þrígiftir.“ Vinur hans hristir hausinn og vill meina að þetta sé nú ekki aðalvandamálið með Donald Trump. Þeim liggur vissulega hátt rómurinn og stendur ekki á sama um málefnið, en hitinn snýr að málefninu og ekki að hvor öðrum. Þetta er ekkert persónulegt. Reglulega geri ég mig kláran í að verða vitni að Bandaríkjunum sem ég hef séð á Youtube, þar sem fólk tekur æðisköst í Walmart eða reynir að neyða hvað annað út af þjóðveginum eða slæst á bílastæðum, en allir halda bara áfram að vera hjálsamir og kurteisir og forvitnir um okkur og hvaðan við erum. Allir eru til í að spjalla, hvar sem er og hvenær sem er, og allir þekkja einhvern sem er nýkominn frá Íslandi.

Höfundi er óljóst hver hlaut vinninginn í fuglahræðukeppninni í ár
Höfundi er óljóst hver hlaut vinninginn í fuglahræðukeppninni í ár

„Ég verð að fá að sýna ykkur myndaalbúmið mitt frá Íslandi!“ segir Kathy, leigusalinn okkar. Hún er gamall hippi. Elti Grateful Dead um gervöll Bandaríkin en átti ekki fyrir að sjá þá spila undir egypsku píramídunum eins og ríku krakkarnir sem hún þekkti í gamla daga. Hún segir okkur að hún sé enn ekki búin að fyrirgefa Jerry fyrir að deyja. „Þessir gaurar þurftu alltaf að taka svo mikið af eiturlyfjum,“ segir hún, með áfellistón í röddinni. Við erum í súpu hjá henni þar sem ekki enn er búið að tengja gaseldavélina í litla kotinu sem við erum að leigja í bakgarðinum hennar. Á veröndinni hjá Kathy hanga óróar sem gefa frá sér fallega tóna þegar vindurinn blæs, og baðherbergisveggirnir eru þakktir heilögum textum og hugleiðslum úr Biblíunni og annars staðar frá, prentað á marglitan pappír svo að þú getir setið og horft yfir vegginn og valið þér ritningu eftir lit til að stýra þér í dag. Hún spyr okkur aftur hvort það sé ekki rétt skilið hjá henni að við séum Lútherstrúar og við endurtökum aftur að við séum trúlaus. Við setjum okkur í stellingar fyrir Íslandsalbúmið en þegar það kemur er það eins og svo margt annað í Bandaríkjunum hingað til: allt öðruvísi en það sem fordómar okkar höfðu búið okkur undir. Albúmið er gömul mappa, með póstkortum, greinum og lausablöðum troðið inn á milli hér og þar, og er uppfullt af ljósmyndum af Íslandi eins og ég man varla eftir því. Í því er að finna alla helstu túristaáfangastaði þjóðvegarins á la 1985, auk sólríkra mynda af húsum og götum í Reykjavík frá sjónarhorni ferðamannsins. Myndir af ljóshærðum stallklipptum Íslendingum í grænum og appelsínugulum Svala-peysum að sóla sig. Það eina sem stendur alls óbreytt eru lopapeysurnar. Kathy er hjúkka og það eru myndir af Borgarspítalanum, þangað sem hún bauð sjálfri sér í heimsókn. Hjúkkur í hvítum göllum með stærðarinnar gleraugu að slaka á í kaffistofunni. Á nokkrum myndanna er gefin innsýn inn í fallega gamaldags íbúð í Teigunum sem þau heimsóttu, með tekkhúsgögnum og síðum flauelsgluggatjöldum, og Kathy lýsir hve hissa hún var að stíga inn í svona óspennandi raðhús og finna svona fína hefðarfrúríbúð. Það hefði verið ný upplifun fyrir hana.

img_2883
Póstkassar virðast (allavega fyrir utanaðkomandi augum) vera hálfgert stöðutákn fyrir marga íbúa Stony Brook

Við skoðum allar myndirnar ítarlega og reynum að tengja staðina en meira að segja alræmdustu túristastaðirnir dyljast okkur, og við erum ekki viss. Allt er svo bert allt í kring, engar sjoppur né rútur. Er svona stutt síðan? Kathy talar um að fara aftur og við hvetjum hana til þess en vörum líka við að margt hafi breyst. Að lokum þökkum við henni fyrir súpuna og myndirnar og löbbum niður í kot. Það er niðamyrkur úti og engin götulýsing og við þurfum að nota ljósin á símunum til að halda nóttinni í skefjum. Stjörnurnar blasa við á himninum. Sumar þeirra sveima um og ég spennist allur upp og held að ég sé að sjá eldflugur í fyrsta sinn á ævinni en átta mig svo á að þetta eru þyrlur í fjarska. Krybburnar sífra allt í kringum okkur með nátthljóðin sín sem ég þekki svo vel úr bíómyndum að mér finnst þær ennþá hljóma gervilega. Þegar við komum í kotið uppgötvum við að einni krybbu hefur tekist að laumast inn og eitthvert inn í vegginn. Við heyrum í henni þar sem við liggjum undir íslensku dúnsænginni sem ég tróð með í töskuna. Hljóðið er svolítið eins og einhver hafi sofnað með dómaraflautu upp í sér, hringlar fram og til baka. Hún virkar svo alein hérna inni hjá okkur, með allan kórinn úti í grasinu að söngla saman, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tekst mér ekki að tæla hana út úr veggnum og henda henni út. Við sofnum seint og um síðar, vör um okkur í öllum nýju næturhljóðunum á Long Island.

 

Viðtal í Orð um bækur um bóksalastarfið

Hér má finna viðtal sem Jórunn Sigurðardóttir tók við mig nýlega í þætti sínum Orð um bækur um bóksalastarfið, erlendar bækur, fantasíu skáldsögur og unga lesendur. Einstaklega gaman að eiga þetta viðtal að núna þegar ég hef hætt störfum hjá Pennanum Eymundsson og látið öðrum í hendur umsjón með minni heitt elskuðu erlendu deild í Eymundsson Austurstræti. Þátturinn var upphaflega fluttur á Rás 1 undir titlinum Orð um ljóð og sölu bóka íslenskra sem erlendra þann 22. ágúst 2016 og má hlusta á hann í heild sinni á Sarpinum á ruv.is.

Story Island – Photo Essay

I was honoured to be asked to take part in Sophie Butcher and Martin Diegelman’s collaborative photo essay Story Island about the Icelandic literary scene, and it didn’t hurt to get such a snazzy and thoughtful photo portrait of yours truly. Do have a look at the link as Sophie and Martin interviewed a lot of current and emerging authors for the piece and it gives an interesting perspective on some of the changes imminent in Icelandic literature while also containing lots of nice portrait and landscape photography. Further works by Martin and Sophie can be found on their websites, sophiebutcher.com and martindiegelman.com.

Photo by Martin Diegelman
Photo by Martin Diegelman

Nýræktarstyrkir 2016 – Smáglæpir, Einsamræður & Afhending

 

mynd3
c. Hólmfríður Jónsdóttir

Þann 2. júní síðastliðinn hlaut ég Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta ásamt Birtu Þórhallsdóttur og Vilhjálmi Bergmann Bragasyni. Styrkurinn er ætlaður til að stuðla að útgáfum nýrra höfunda, og sammæltumst við “ungu” höfundarnir um það hversu einstaklega gaman og spennandi það væri að verkin sem hlutu styrkina í ár væru jafn ólík og þau eru, en þau eru um leið mjög ólík þeim útgáfum sem hafa einkennt styrkina hingað til. Birta er með örsagnasafn sem ber titilinn Einsamræður, Vilhjálmur stefnir á að gefa út á prenti leikritið sitt Afhending og sjálfur er ég með smásögusafnið Smáglæpir sem mun koma út hjá Sæmundi næsta vor. Engar skáldsögur eða barnabækur hlutu styrkinn í ár.

styrkur

 

Ég er einstaklega þakklátur og stolltur yfir að vera úthlutað þessum styrki, og hvað sérstaklega er ég þakklátur fyrir að vera nú loks kominn með fasta lokadagsetningu fyrir Smáglæpi, sem ég hef verið að færa til kommur í ansi lengi. Enn þarf að sitja yfir efninu um sinn og sumar sögurnar sé ég fram á að endurrita frá byrjun en beinagrindina á ég inni í skáp og núna er ekki annað á dagskrá en að draga hana fram og klæða hana kjöti.

Ég læt fylgja hér með viðtal við mig, Birtu og Vilhjálm í Víðsjá daginn sem styrkirnir voru tilkynntir þar sem einnig má heyra okkur lesa úr væntanlegum útgáfum,  og að auki þá er að finna hér fyrir neðan umsagnirnar um verkin þrjú frá dómnefnd Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Þar segir eftirfarandi:

Birta Þórhallsdóttir – Einsamræður

Kröftugar örsögur skrifaðar í afgerandi og öguðum stíl sem höfundur hefur einkar gott vald á. Textinn grípur lesandann með spennandi möguleikum og mótsögnum þar sem kunnuglegar aðstæður umbreytast og taka á sig hrífandi ævintýrablæ.

Björn Halldórsson – Smáglæpir

Vel skrifaðar og fagmannlega mótaðar smásögur. Höfundur þekkir smásagnaformið augsýnilega vel og kann þá list að segja ekki of mikið en skapa á sama tíma forvitnilega stemningu og andrúmsloft í sögum sem ná gríðarföstu taki á lesandanum.

Vilhjálmur Bergmann Bragason – Afhending

Athyglisverður og ögrandi leiktexti sem fyllir lesandann óhug og efasemdum um þá þróun sem er sýnd í samskiptum persónanna. Höfundurinn þekkir leikhúsið og leikritun og sýnir athyglisvert vald á forminu, eins og sést mætavel á snörpum og vel skrifuðum samtölum þar sem dansað er á mörkum súrrealisma og óþægilegs raunsæis.

umsagnir

 

Græna hjólið (minningargrein)

græna hjólið

Eftirfarandi pistill birtist fyrst í mars hefti Stundarinnar 2016 (6. tbl. 2. árg.)

Ég fékk græna hjólið í gegnum félaga minn. Það var víst búið að ílengjast mánuðum saman í vinnunni hjá honum. Einhver hafði fundið það úti og ætlað að gera það upp en svo varð aldrei neitt úr því. Þegar ég fékk það í hendurnar var það ein ryðhrúga, með stráum föstum í teinunum. Ég dröslaði því heim með mér, heim til mömmu. Þetta var stuttu eftir að ég var aftur fluttur heim til Íslands og annað hvort stuttu fyrir eða stuttu eftir að faðir minn dó. Maður myndi ætla að ég myndi muna hvort en dauðinn á það til að rugla tíma og minningar saman í einn bing sem ekki er svo auðvelt að greiða úr. Ég veit að ég bjó heima hjá mömmu þá, peningalaus og stefnulaus. Ég laumaðist með hjólið inn í geymsluna á sameigninni, sem ég var búinn að eigna mér lykilinn að. Faldi það þar þar til einhvern tímann.

Ég tók það ekki aftur út fyrr en ári seinna. Þá átti ég íbúð og kærustu, konu sem ég átti auðvelt með að sjá sjálfan mig eyða restinni af ævinni með. Við smullum svo vel saman, með sömu áherslur á hvað væri mikilvægt. Hlutir eins og morgunkaffi og lestrarstund. Sundferðir og vínilplötur. Mér fannst hún skemmtileg bæði í og úr glasi, sem var nýtt fyrir mér.

Snemma sumars dröslaði ég græna hjólinu heim í nýju íbúðina. Reiddi það á loftlausum dekkjum alla leiðina frá mömmu þar sem ég vildi ekki setja ryðbletti í sætin í bílnum (bílnum hennar mömmu). Nýja íbúðin mín, sú fyrsta sem ég átti frekar en leigði, var með útidyrahurð. Ég býst við að allar íbúðir séu með útidyrahurð en þessi var alvöru. Hún opnaðist út í garð. Ég hafði ekki átt svoleiðis útidyrahurð síðan ég var lítill og við bjuggum enn í Mosó. Þessa sumardaga sat ég oftar en ekki á tröppunum í sólinni og pússaði og pússaði ryðgað krómið og blettótt stellið. Ég tók hjólið allt í sundur og setti það aftur saman nokkrum sinnum í tilraunum mínum til að koma því í stand. Smurði keðjuna og tókst almennt að gera sjálfan mig grútskítugann í alla staði. Ég hafði mjög takmarkaða reynslu af hjólaviðgerðum og þurfti því oft að endurtaka hlutina, feta mig til baka og byrja upp á nýtt. Á endanum tókst mér að tjasla því öllu saman í ásættanlegt form og meira að segja tengja bæði gírana og bremsurnar svo að bæði virkuðu (þó eilítið eftir eigin hentugleika).

Ég gaf kærustunni minni hjólið og hún var himinlifandi þrátt fyrir að vera óvön hrútastýrinu og hálf hrædd um að fljúga fram fyrir sig þegar hún hemlaði. En þótt ég væri búinn að gefa henni hjólið, og ætti sjálfur mitt eigið hrútastýrishjól, silfraðann franskan Peugeot sem vinur minn hafði skilið eftir í bílskúrnum hjá foreldrum sínum áður en hann flutti til Bandaríkjanna, stóðst ég ekki mátið að stelast reglulega út í hjólatúra á græna hjólinu. Það var reyndar eiginlega of lítið fyrir mig og gaf mér furðulegar harðsperrur í hnésbæturnar og lét mig líta út eins og bjarndýr í sirkús sem neytt hefur verið til þess að læra að hjóla.

Fróunin sem fylgdi því að hjóla um nýja hverfið mitt á hjóli sem ég hafði lagað til og bjargað frá glötun upp á eigin spýtur var ólýsanleg. Það hefði mátt halda að ég hefði sjálfur grafið járnið úr jörðu, brætt það saman í stálið og soðið saman í stellið, krómað stýrið og þrætt teinanna, ræktað gúmmítrén fyrir hjólbarðana, skotið kúna og sútað leðrið í hnakkinn.

Í raun á ég voða lítinn þátt í tilkomu og tilvist græna hjólsins. Það stoppar ekki svo lengi hjá mér, býst ég við, og ekki veit ég hvar það endar þegar ég er búinn með það. Sögur okkar beggja lágu þó saman á alveg einstaklega merkilegum tíma í mínu lífi. Ég er búinn að geyma svolítið af mér í græna hjólinu. Smá skerf sem er svolítið þungt að rogast með alla daga, svo ég geymi hann þar. Í hjólinu. Tek það fram þegar mér þóknast og fer í hjólatúr meðfram Sæbrautinni. Það er voða gott að geta geymt eitthvað af sér í hlutunum sínum þótt að maður vilji kannski ekki dreifa sjálfum sér of víða, og maður verði að vita hvenær tímabært er að sleppa haldi á hlutunum og leifa þeim að halda áfram með sína sögu.

Fólk segir að þau sem fara frá okkur lifi í minningunum og það er alveg satt, en við getum ekki rogast með minningarnar með okkur alla daga. Getum ekki alltaf tekið þær með í vinnuna og í sund og á kaffihús eða á barinn. Svo við geymum þær í því sem hendi er næst: í hlutunum þeirra. Hlutunum okkar. Í lítilli steinvölu eða gömlum hatti. Í gamalli hrærivél eða slitnu eintaki af Laxness með nafni og ártali hripuðu á titilsíðuna. Í ljósmyndum og lopapeysum. Sófaborðum og hægindastólum. Þannig pössum við upp á minningarnar. Við bindum þær fastar við eitthvað utan við okkur og ríghöldum síðan í það. Við hugsum um fólkið sem er okkur kærast og sem við fáum aldrei að hitta aftur þegar við búum til kaffi með kaffikönnunni þeirra, sitjum við skrifborðið þeirra, spilum plöturnar þeirra og vefjum teppunum þeirra utan um okkur. Við pössum að hlutirnir þeirra skemmist ekki og týnist ekki, og að þegar við þurfum að láta þá frá okkur lendi þeir hjá einhverjum sem veit hver átti þá fyrst. Fólk lifir áfram í minningunum okkar en það lifir líka áfram í hlutunum sem það skilur eftir í okkar fórum. Þegar við förum þá verða hlutirnir okkar eftir hjá þeim sem okkur þykir vænst um.

Og þá er komið að íþróttum: Hver er Keyser Söze?

Liberation_20160413_Paris-1_QUO_012Ég var í viðtali í franska blaðinu Liberation núna um daginn. VIðtalið var hluti af úttekt blaðsins á ástandinu á Íslandi á umrótatímum aprílmánaðar sem að nú virðast vera að falla í gleymsku. Þó að viðtalið væri stutt fór það um víðan völl. Ætlun þess var að taka púlsinn á nokkrum Íslendingum á ólíkum aldri og í ólíkum starfsstéttum um líðandi stund og þá sérstaklega um afhjúpun Panama skjalanna, mótmælin í kjölfarið og afsögn Sigmundar Davíðs, forsætisráðherra. Ég neyddist til að viðurkenna í viðtalinu að þrátt fyrir að hafa tekið þátt í mótmælunum þá væri ég yfir höfuð ekkert sérstaklega pólitískt þenkjandi, þó að ég væri núna að reyna að bæta úr því þar sem ég sæi það sem borgaralega skyldu mína að hugsa um þessi mál, mynda mér ígrundaða skoðun og taka afstöðu og ekki bara á umrótatímum þegar hlutirnir eru spennandi heldur líka þegar ekkert er að gerast og ræðurnar á Alþingi eru drepleiðinlegar.

Í viðtalinu tek ég samt fram að í einfeldni minni sem pólitískur amatör læt ég mig aðallega dreyma um stjórnmálafólk sem hægt er að treysta til að standa við orð sín, er stýrt af siðferðiskennd og eru nógu sterk á velli sem einstaklingar til að kjósa eftir eigin sannfæringu, frekar en flokksins. Draumsýn mín er að inni á Alþingi sitji upp til hópa hugsjónamanneskjur sem eru þarna saman komnar til að reyna að mynda úrlausnir sem eru þjóðinni í heild í vil en ekki þeirra hagsmunaaðila sem flokkurinn þjónar. Án þess að ég geti endilega boðið upp á aðrar úrlausnir, þá sýnist mér að flokkakerfið sé að mörgu leyti meingallað fyrirbæri. Það hefur myndað á Alþingi stemmningu sem svipar meira til íþróttamóts en umræðu, þar sem öll liðin eru að keppa á móti hvor öðru og hver sá sem vinnur áskilur sér réttinn til að hlusta ekki á hin liðin eftir að á vinningspallinn er stigið. Við ætlumst til mikils af stjórnmálafólkinu okkar og því miður hefur það margt hvert ekki staðið undir væntingum undanfarið, en það sem er einna verst að mínu mati er það samskiptaleysi sem virðist vera orðið hluti af flokkamyndunum á Íslandi og endurspeglast í umræðunni í samfélaginu. Ákvarðanir  flokkanna virðast oft vera gagngert til þess fallnar að þóknast litlum en valdamiklum minnihlutahópum frekar en að vera ætlað að koma á sátt á milli ólíkra þjóðfélagshópa og taka ákvarðanir sem eru þjóðinni allri í hag. Þannig líta hlutirnir allavega út fyrir mér í dag, 32 ára bóksalanum og rithöfundinum með kaffibollann. Örugglega má afskrifa allt sem ég segi sem hreinann og klárann naívisma, en við því get ég bara borið þær varnir að ég er bara nýbyrjaður að reyna að vera pólitískt þenkjandi.

Í gæðaræmunni The Usual Suspects frá tíunda áratug síðustu aldar segir Verbal Kint (leikinn af Kevin Spacey) að stórkostlegasta afrek djöfulsins hafi verið að sannfæra heiminn um að hann væri ekki til. Stundum grunar mig að stórkostlegasta afrek pólitíkusa sem vilja nýta sér kerfið okkar í eigin þágu sé að þeim hefur tekist að sannfæra fólk eins og mig um að pólitík sé leiðinlegt og þreytugjarnt umræðuefni. Þannig látum við þau um það að stýra landinu, fegin að það séu ekki við í ræðupúltinu. Það gengur ekki lengur. Hinn meinlausi Verbal Kint reyndist síðan vera (spoilers) Keyser Söze sjálfur, svo guð má vita hvað leynist í alvöru á bak við ræðupúltið.

Meðgöngumál nr. 3 & 4 komið í bókabúðir

IMG_2124Meðgöngumál nr. 3 & 4, Vetrarhamur og Þjófasaga eftir Herthu Maríu og mig sjálfann, eru nú fáanlegar í Eymundsson og fleiri bókabúðum á skitnar 1.499 kr. Að sjálfsögðu stillti ég þeim upp við kassann niðri í Austurstræti svo fólk gæti gripið eintak með dönsku blöðunum sínum en ég get ekki endilega ábyrgst að aðrir bóksalar séu jafn samviskusamir í að passa að bækurnar séu það fyrsta og síðasta sem viðskiptavinurinn sér, svo endilega ekki hika við ónáða starfsfólkið ef þið sjáið ekki Partus standinn neinsstaðar. Fyrir hönd bókabúðarstarfsmanna get ég lofað að við elskum að vera ónáðuð.

Viðtal við Orð um bækur um Þjófasögu

Fína og flotta fólkið hjá Partus útgáfunni tók sig til og vistaði viðtalið sem ég og Hertha María Richardt Úlfarsdóttir fórum í hjá Jórunni Sigurðardóttur í Orð um bækur í heild sinni á SoundCloud þannig að hægt væri að hlusta á það lengur en Sarpurinn á RUV.is segir til um. Takk fyrir það, Partus. VIð förum mikinn í þessu viðtali og strengjum saman myndlíkingar hingað og þangað, frá steinvölum til hafragrauts. Það var gaman að komast að því að við Hertha María deilum áherslum okkar á samvinnuna og traustið til annars fólks sem þarf að vera til staðar á bak við hverja útgefna sögu, sem og gleðina yfir bessaleyfunum sem maður getur tekið sér í fyrsta uppkasti. Mjög gaman að fá að taka þátt í umræðunni um gildi íslenskra smásagna núna þegar þær eru smám saman að finna vægi sitt í menningarlífinu í staðinn fyrir að vera eingöngu álitnar upphitun fyrir fyrstu skáldsögu höfundar.