ÚTGÁFUFÖGNUÐUR Í EYMUNDSSON AUSTURSTRÆTI

Núna á fimmtudaginn var blásið til mikillar uppskeruhátíðar í Eymundsson í Austurstræti til að fagna útgáfu Smáglæpa og Pínulítillar kenopsíu. Það var boðið upp á léttar veitingar og Harpa Rún Kristjánsdóttir sá um að kynna bækurnar fyrir hönd Sæmundar, en síðan lásum við Jóhanna María upp úr bókunum okkar. Ég vill þakka öllum sem sáu sér fært að mæta, og sérstaklega vill ég þakka Jóhanni A. Kristjánssyni, tengdaföður mínum, fyrir að taka þessar skemmtilegu myndir af gleðinni.

Höfundarnir tveir með útgefanda sínum, Bjarna Harðarsyni

 

VIÐTAL Í SÍÐDEGISÚTVARPINU MEÐ JÓHÖNNU MARÍU EINARSDÓTTUR

Ég og Jóhanna María Einarsdóttir vorum í viðtali hjá Björgu Magnúsdóttur í Síðdegisútvarpinu í vikunni. Þar ræddum við um bækurnar okkar, Smáglæpi og Pínulitla kenopsíu, sem og um útgáfu á Íslandi í dag og hinn háa meðalaldur íslenskra rithöfunda sem gerir það að verkum að nýir höfundar komast upp með að vera kallaðir “ungir” fram yfir þrítugt, svo eitthvað sé nefnt.

VIÐTAL Í SUNNUDAGSMOGGANUM

Í Sunnudagsmogga helgarinnar er að finna viðtal sem Árni Matt tók við mig. Viðtalið snertir á hinu og þessu en snýst aðallega um Smáglæpi og starfið sem liggur á bak við bókina. Viðtalið var ánægjuleg upplifun og er ég mjög sáttur við útkomuna en þarf þó að taka fram að ég hef aldrei útskrifast frá Háskóla Íslands né nokkurn tímann lagt stund á neitt nám þar. BA gráðan mín í enskum og amerískum bókmenntum er frá UEA, Háskóla East-Anglia héraðs í Norwich, Englandi. Það hefur eitthvað skolast til, en skiptir svosem ekki miklu máli.

 

HÖFUNDAEINTAK AF EFFE NUMERO SETTE KOMIÐ Í HÚS

Það vakti mikla lukku á heimilinu um daginn þegar höfundaeintakið mitt af sjöunda hefti ítalska bókmenntatímaritsins Effe barst í bósti, en í sögunni er að finna ítalska þýðingu smásögunnar “Þjófasaga” sem ég gaf út í Meðgöngumálaseríu Partus útgáfunnar í mars 2016. Þýðingin ber heitið “Storia di una ladra” og er eftir Francescu Ritu di Berardino en sögunni fylgdi einni falleg myndskreyting eftir Sunnu Rún Pétursdóttur. Það er augljóst að Effe er einstaklega metnaðarfullt blað hvað varðar hönnun og framsetningu hins ritaða efnis og er það mér mikill heiður að fá að vera með.

SMÁGLÆPIR FÁ ÞRJÁR OG HÁLFA STJÖRNU Í DV

Smáglæpir fékk þrjár og hálfa stjörnu í helgarblaði DV núna á föstudaginn. Stjörnunum fylgdi heilsíðu bókadómur og þessi spekingslega mynd af sjálfum mér sem tekin var í bókasafnssal Þjóðmenningarhússins. Dómurinn og stjörnugjöfin er mér að sjálfsögðu mikið gleðiefni, en sérstaklega finnst mér skemmtilegt að Ágúst Borgþór nefnir söguna “Ef þið hefðuð hringt” og hrósar henni. Enn og aftur hefur fólk skiptar skoðanir um sterkustu sögur safnsins, sem þýðir vonandi að lesendur séu að upplifa ólíka hluti við lestur sagnanna. Rithöfundur getur ekki óskað sér betra hóls.

BÓKADÓMUR UM SMÁGLÆPI Í FRÉTTABLAÐINU

Það birtist bókadómur um Smáglæpi í Fréttablaðinu núna um daginn eftir Magnús Guðmundsson. Ég var mjög sáttur við dóminn og hef lítið hlustað á þá sem segja mér að hægt hefði verið að bæta einni stjörnu eða svo við hann. Að dæma bækur, tónlist, kvikmyndir og önnur listaverk með stjörnugjöf er hvort eð er leiðinleg venja dagblaða sem mig grunar að flestir blaðamenn vildu heldur losna undan og fá fólk til að lesa skrifin sjálf í staðinn. Mér þótt vænt um að Magnús telur “Rekald”, sem er saga sem stingur eilítið í stúf í safninu sökum stíls og frásagnarmáta, vera sterkasta saga safnsins. Í þeirri sögu tók ég ýmsar áhættur og fór út fyrir þægindaramma minn. Það er gleðilegt að sagan hafi getað staðið undir þeirri tilraunamennsku. Hingað til hafa flestir helst talað um fyrstu söguna, “Barnalæti”, sem sterkustu sögu safnsins, líkt og gert var í dómi Kvennablaðsins núna um daginn, og þykir mér vænt um að Rekald og aðrar óhefðbundnari sögur, líkt og “Tveir Refir” sem einhver minntist á við mig nýlega, fái einnig að njóta athygli lesenda.

VIÐTAL Í MANNLEGA ÞÆTTINUM Á RÁS 1 (VARÚÐ: SPOILERS!)

Ég fór í viðtal hjá Lísu Páls í Mannlega þættinum á Rás 1 að því tilefni að verið var að gefa út Smáglæpi, mína fyrstu bók, í vikunni. Við ræddum ritstarfið og feluleikina sem því fylgja, útlegðina til Long Island, smásögur og hvers þær eru megnugar og ýmislegt fleira. Tekið skal fram fyrir þá sem ekki hafa lesið fyrstu söguna í Smáglæpum, Barnalæti, að í viðtalinu leynast einhverjir spoilerar, og því kannski betra að kíkja á hana fyrst. Ef ykkur vantar eintak skulið þið ekki hika við að hafa samband. Þátturinn birtist upphaflega á Sarpinum, vef Ríkisútvarpsins, þann 28. júní 2017 og ætti að vera aðgengilegur þar í heild sinni enn um sinn.

SMÁGLÆPIR ER KOMIN ÚT

Það eru mikil gleðitíðindi að segja frá því að um þessar mundir er verið er að dreifa bókinni Smáglæpir eftir sjálfan mig í allar betri bókaverslanir.

Smáglæpir er gefin út af útgáfufélaginu Sæmundi og samanstendur af sjö sögum úr úthverfum Reykjavíkur þar sem skoðaðar eru ákvarðanir sem ekki verða aftur teknar og eftirsjá sem varir út ævina. Persónurnar bera sekt sína í einrúmi þar til hún er orðin að þráhyggju sem hvorki er hægt að gangast við né leita sér aflausnar á. Þetta eru smáglæpirnir: tilfinningasárin sem við völdum, tækifærin til að breyta rétt sem við misstum af, orðin sem við létum ósögð.

Tvær af sögunum hafa áður birst í TMM, þó ekki í alveg sömu mynd, en hinar fimm hafa ekki komið út áður. Allar deila sögurnar ákveðnum efnistökum. Það er mikill léttir að vera loks að senda þær frá sér, enda hef ég lengi verið að rogast með þær og sérstaklega lagt til mikla nákvæmnisvinnu í lokahnykkinum undanfarið ár.

Efnt verður til háleynilegs útgáfuhófs á næstunni til að fagna útgáfu bókarinnar. Svo verður líka stærri útgáfuhátíð í lok júlí og mun sú uppskeruhátíð einnig snúa að útgáfu bókarinnar Pínulítil kenopsía: Varúð, hér leynast krókódílar eftir Jóhönnu Maríu Einarsdóttur sem Sæmundur er líka að dreifa í búðir núna í vikunni.

Þeir sem vilja tryggja sér eintök skulu hafa samband í gegnum netfangið bjornhalldorssonis@gmail.com eða senda mér prívat skilaboð á Facebook, en einnig verður bókin til sölu í útgáfuhófinu og í Eymundsson og öðrum bókabúðum.

 

ÞJÓFASAGA KEMUR ÚT Á ÍTÖLSKU

Höfundaréttur: Veronica Cerri

Þjófasaga, sem kom út í Meðgöngumálaseríu Partus útgáfunnar árið 2016 undir ritstjórn Elínar Eddu Pálsdóttur, var nýverið gefin út í sjöunda og nýjasta hefti ítalska bókmenntatímaritsins Effe. Effe er á vegum Flanerí útgáfunnar þar í landi og heitir sagan á ítölsku Storia di una ladra. Heftið er helgað þýðendum og er þar að finna sögur hvaðanæva úr heiminum sem hafa verið þýddar yfir á ítölsku en auk mín eru höfundar frá Bandaríkjunum, Brasilíu, Tékklandi, Frakklandi og Úrúgvæ.

Sérstaklega skemmtilegt er að fólkið á bak við útgáfuna vildi láta myndskreytingu frá heimalandi höfundarins fylgja hverri sögu. Ég var því svo heppinn að þau hjá Effe höfðu samband við Sunnu Rún Pétursdóttur sem bjó til þessa fallegu mynd hér fyrir neðan út frá efni sögunnar.

Höfundaréttur: Sunna Rún Pétursdóttir

Annars kom ég lítið að þýðingunni og vinnunni á bak við að koma sögunni inn í tímaritið. Það framtak er að fullu á vegum Francescu Ritu di Berardino sem þýddi söguna. Ég þurfti varla að skipta mér neitt af því starfi nema þá að svara einstaka spurningum hennar um efnið og áferð og útlit hins ímyndaða heims sögunnar. Ég gæti ekki verið ánægðari og montnari af frágangi verksins, en tímaritið er augljóslega rekið af miklum metnaði og það er mikill heiður að hafa fengið að vera með.

Ef einhver hefur áhuga á að festa kaup á eintaki af Effe þá er hægt að nálgast það hér.

TMM KOMIÐ Í BÓKABÚÐIR

Gott að eiga góða að
Gott að eiga góða að

Nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar er núna komið í bókabúðir. Ég á smásöguna „Barnalæti“ í heftinu en hana verður líka að finna í væntanlegu smásögusafni mínu Smáglæpir, sem kemur út í haust.