SMÁGLÆPIR KEMUR ÚT Á HEBRESKU

Nú stendur til að smásögusafnið Smágæpir, mín fyrsta bók sem kom út hjá Sæmundi árið 2017, verði gefin út á hebresku af ísraelska útgefandanum Lesa Books. Lesa gefur út bækur frá ýmsum löndum en eins og nafnið gefur til kynna sérhæfa þau sig þó í íslenskum bókum. Hefur útgáfan tryggt sér útgáfurétt á verkum eftir Oddný Eir, Einar Kárason, Guðmund Andra, Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Sigríði Hagalín o.fl. o.fl. Shai Sendik hefur yfirsýn með öllu starfi útgáfunnar og ritstýrir þýðingunni, en þýðandi er Shirley Levi.

Hér að neðan má sjá kápuna á hebresku útgáfu bókarinnar:

ÞÝÐING Á REBECCU SOLNIT Í 19. JÚNÍ

Í nýútkomnu ársriti Kvenréttindafélags íslands, 19. júní, er að finna þýðingu mína á grein eftir Rebeccu Solnit sem upphaflega birtist á bókmenntasíðunni Literary Hub.

Forsíða heftisins er eftir Rán Flygenring

Greinin ber titilinn „Þegar hetjan er vandamálið“ og fjallar um þær hættur sem stafa af einsleitri hetjudýrkun sem oft má finna í kvikmyndum og á samfélagsmiðlum. Í skemmtilega afslöppuðum ritstíl fer Solnit um víðan völl og dregur inn í umræðuna t.d. kvikmyndina Kona fer í stríð, Hungurleikana, Robert Mueller o.fl. o.fl. til að sýna hvernig þessi orðræða dregur úr hvata fólks til að bindast tryggðarböndum og nota mátt fjöldans til að hrinda jákvæðum samfélagslegum breytingum í framkvæmd.

Heftið í ár er stútfullt af merkisgreinum og pistlum um sagnfræði, loftslagmál og listir og þótti mér einstaklega gaman að fá að leggja mitt af mörkum við samsetningu þess.

SKÁLDSAGA VÆNTANLEG FRÁ FORLAGINU Í VOR

Nói Forlagsköttur tók vel á móti mér þegar ég mætti að skrifa undir samninginn

Ég kom við í Forlaginu í dag og skrifaði undir útgáfusamning fyrir mína aðra bók sem er jafnframt mín fyrsta útgáfa hjá Forlaginu, að undanskildum þeim smásögum sem birtar hafa verið í TMM. Bókin hefur verið í smíðum nokkurn veginn samfleytt síðan 2016 en hún á rætur að rekja allt aftur til ársins 2013 þegar fyrsta uppkast handritsins, í töluvert annarri mynd, mátti finna í lokamöppu minni fyrir MFA-nám í ritlist við Háskólann í Glasgow.

(Þess má geta að sú lokamappa innihélt einnig eldri uppköst af flestum sögunum í Smáglæpum, minni fyrstu bók sem kom út hjá Sæmundi árið 2017, og því er erfitt að segja hvað ég á að taka mér fyrir hendur nú þegar sá brunnur er þurrausinn.)

Ég er spenntur að fara að vinna með ritstjóra Forlagsins og hönnunarteymi þeirra og lýst vel á að bókin komi út að vori, frekar en að þurfa að hraða henni í gegnum allt ferlið sem fyrir liggur í von um að ná henni í tæka tíð inn í jólabókaflóðið. Ég hlakka líka mikið til að sjá hvaða aðra höfunda verður að finna í vorútgáfunni 2021.

Fylgist með þegar nær dregur og frekari upplýsingar koma í ljós varðandi titil, efni, kápu og nákvæma útgáfudagsetningu bókarinnar. Að þessu sinni læt ég nægja að segja að um skáldsögu er að ræða.

MÁLLEYSINGJARNIR Í BÓK VIKUNNAR

Ég var gestur í Bók vikunnar í síðustu viku, ásamt Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur. Þar ræddum við við Jórunni Sigurðardóttur um Málleysingjana eftir Pedro Gunnlaug Garcia.

Málleysingjarnir kom út skömmu fyrir jól og er fyrsta bók Pedro Gunnlaugs. Bókin er merkileg en jafnframt óvenjuleg skáldsaga, kannski einkum vegna þess hve stór og framsækin hún er, þrátt fyrir að vera fyrsta útgefna verk höfundar.

Þess má geta að ég skrifaði einnig fyrir stuttu bókadóm um Málleysingjana sem birtur var á Bókmenntavefnum.

LISTAMANNALAUN 2020

Þar sem ég sit hér og hjakka í tækniþýðingum til að eiga salt í grautinn fæ ég þær fréttir að mér hafi verið úthlutaðir 3 mánuðir úr Launasjóði rithöfunda fyrir árið 2020. Ég þakka sýnt traust.

Þessi styrkur mun koma að góðum notum við þau verkefni sem framundan eru. Skipulagsvinnan er þegar hafin: Að ákvarða hvenær og hvernig best sé að taka út styrkinn, sem og allskyns bókhaldspælingar um hvernig maður láti þetta allt ganga upp þannig að maður fái þetta ekki allt í bakið í reiknuðu endurgjaldi á næsta ári. Hvað sjálf skrifin varðar bý ég að góðri undirbúningsvinnu í því efni sem ég setti saman fyrir umsóknina í nóvember á síðasta ári. Þar er að finna textabrot og ýmiskonar yfirlitsgögn um stórt nýtt verkefni sem ég stefni á að byrja á í ár, á meðan handritið að minni fyrstu skáldsögu er í yfirlestri.

Mig hlakkar mikið til að hefjast handa enda hefur fátt annað komist að undanfarin þrjú ár en áðurnefnd skáldsaga. Tilhugsunin um að skrifa eitthvað „nýtt“ er orðin æði heillandi. Ég sendi hamingjuóskir til bæði þeirra sem fengu úthlutað og líka þeirra sem fengu ekki neitt ár. Ég hlakka til að fylgjast með afrakstrinum hjá báðum hópum á næstu misserum.

BÓKMENNTAVIÐBURÐIR Í JÓLABÓKAFLÓÐINU

ATH! HKL – ástarsaga eftir Pétur Gunnarsson er ennþá á leiðinni til landsins.

Þann 21. nóvember, daginn eftir að ég sný aftur til Reykjavíkur eftir vikudvöl á Stykkishólmi, mun ég stýra höfundakvöldi á Bókasafni Mosfellsbæjar. Kvöldið hefst klukkan 20:00 og þar munu stíga á stokk: Auður Jónsdóttir með Tilfinningabyltinguna; Dóri DNA með Kokkál; Eva Björg Ægisdóttir með Stelpur sem ljúga; Pétur Gunnarsson með HKL – ástarsaga; og Vigdís Grímsdóttir með Systa – bernskunnar vegna. Boðið verður upp á piparkökur, kaffi og rauðvín og munu höfundarnir lesa eilítið úr bókunum sínum og síðan taka þátt í léttu spjalli. Efalaust munu einhverjir sakna Katrínar Jakobsdóttur sem hefur stýrt þessum höfundakvöldum hingað til en vonandi á ég nægilega mikið inni hjá áheyrendum (verandi gamall Mosfellingur) til að mér sé treyst til verksins.

Tveimur dögum seinna, þann 23. nóvember, mun ég síðan vera á Bókamessunni í Hörpu og mun þar aftur ræða við Pétur og Auði auk Björgu Guðrúnu Gísladóttur, sem var að gefa út bókina Skuggasól – minningasaga. Samtalið fer fram í Rímu A klukkan 15:00 og munu höfundarnir lesa úr bókum sínum og ræða um mörkin á milli ævisögu og skáldskapar o.fl.

Vonandi sé ég einhver ykkar á þessum viðburðum. Gaman að fá að vera með í jólabókaflóðinu í ár, og það án þess að þurfa einu sinni að gefa út bók.

DVÖL Á HÓTEL EGILSEN

Ég var svo heppinn að vera úthlutað vinnudvöl á Hótel Egilsen á Stykkishólmi, núna í nóvember. Þar ætla ég að ljúka við skáldsöguhandritið sem ég hef verið að vinna í undanfarin tvö til þrjú ár. Mér þykir einkar vænt um að fá að klára þessa lokavinnu þarna á Stykkishólmi þar sem hugmyndin að bókinni fæddist að miklu leiti í ferð um Snæfellsnesið árið 2013—þótt ég hafi reyndar seinna fært sögusviðið til svo að ég hefði rúm og næði til að móta og skapa heim bókarinnar.

Hótel Egilsen hefur haft það til siðs undanfarin ár að bjóða rithöfundum og öðru iðjusömu fólki að dveljast á hótelinu í viku í senn yfir vetrartímann og þannig nýta sér kyrrðina á Stykkishólmi til að vinna að verkefnum sínum. Er þetta fyrirkomulag til algjörrar fyrirmyndar og er aldrei að vita nema fleiri íslensk hótel taki upp þennan sið á næstu árum—allavega miðað við það offramboð á hótelherbergjum sem allt virðist stefna í í Reykjavík.

SMÁGLÆPIR KOMNIR Á STORYTEL.IS

Núna er hægt að hlusta á Smáglæpi á hljóðbókaveitunni Storytel.is. Storytel er að uppruna sænskt fyrirtæki sem hefur verið að hasla sér völl á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár. Fyrirtækið býður upp á sívaxandi magn af nýjum og gömlum íslenskum hljóðbókum í upplestri íslenskra leikara, höfunda og annars fagfólks. Hægt er að hlusta á bækurnar á heimasíðu Storytel.is eða í Storytel appinu, og bjóða þau upp á prufutímabil áður en gengið er frá áskrift. Ég fór og heimsótti aðalskrifstofu fyrirtækisins á Íslandi og fannst mikið til fagmennsku þeirra og frágangs koma.

Það er Finnbogi Jónsson leikari sem les bókina og þakka ég honum og starfsfólki Storytel fyrir að hlúa svona vel að bókinni minni í framhaldslífi sínu á ljósvakamiðlum. Hægt er að hlusta á hljóðbrot úr lestri Finnboga hér að neðan.

„EF ÞIÐ HEFÐUÐ HRINGT“ KEMUR ÚT Í ICELAND REVIEW

Í nýjasta hefti Iceland Review er að finna söguna „Ef þið hefðuð hringt“, sem upphaflega birtist í Smáglæpum árið 2017. Í blaðinu ber sagan titilinn „If only you‘d called“ og er í enskri þýðingu Larissu Kyzer. Larissa hefur getið sér gott orð fyrir enskar þýðingar á íslenskum skáldverkum, þar á meðal fyrir þýðingu sína á verlaunaskáldsögu Kristínar Eiríksdóttur Elín, ýmislegt, sem nýlega kom út hjá Amazon Crossing undir titlinum „A Fist or a Heart“.

Við Larissa þekkjumst og höfum áður unnið saman, meðal annars á PEN World Voices Festival í New York fyrr á árinu. Var því gaman að verða vitni að aðförum hennar við textann minn. Þótti mér vænt um þá natni sem hún sýndi við að leysa ýmisleg tæknileg atriði sögunnar, en „Ef þið hefðuð hringt“ er ein flóknasta sagan í safninu hvað varðar sjónarhorn, tímatilfærslur og sögufléttu. (Ásamt mögulega sögunum „Eiginmaðurinn og bróðir hans“ og „Rekald“, sem báðar vinna með sögufléttu og upplýsingaskömmtun til lesanda á álíka máta.)

Einnig finnst mér aðdáunarvert að Iceland Review, sem á sér langa útgáfusögu á Íslandi og erlendis, sé að skipa sér í flokk með þeim örfáu tímaritum á íslenska markaðinum sem reglulega gefa út skáldskap. Öll umgjörð við birtingu sögunnar er til fyrirmyndar, en fyrir utan að ráða þýðanda fékk blaðið einnig listakonuna Helgu Páley Friðþjófsdóttur til að myndskreyta söguna. Finnst mér henni hafi tekist að fanga anda sögunnar minnar engu síður en Larissu.

Að sjá aðra höfunda, þýðendur og/eða listamenn vinna með verk sín á þennan máta eru mikil forréttindi og vona ég að ég fái frekari tækifæri til þess í framtíðinni.