Ásgeir Ingólfs bauð mér að mæta til sín í Menningarsmyglið og ræða um ritlist, harkið, vinnu- og útgáfuferlið og hvað ég er að lesa þessa dagana. Það er hægt að hlusta á samtalið okkar í hlekknum hér að neðan eða í næsta hlaðvarpsspilara með því að leita að “Menningarmygl”.
GREIN UM ÍSLENSKAR FURÐUSÖGUR Í ICELAND REVIEW
Ræddi við Hildi Knútsdóttur, Alexander Dan, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur og Sjón fyrir nýjasta hefti Iceland Review og fékk þau til að hjálpa mér að taka stöðuna á íslensku furðusagnasenunni, sögu hennar og framtíð.
STOL TILNEFND TIL SPARIBOLLANS
BOOK OF REYKJAVIK – SCANDINAVIA HOUSE
Þann 17. nóvember var smá viðburður á vegum Scandinavia House í New York þar sem Kristín Eiríks, Larissa Kyzer og ég ræddum við Höllu Þórlaugu um íslenskar bókmenntir og smásögusafnið Book of Reykjavík, sem var gefið út hjá Comma Press í Bretlandi fyrr á árinu. Viðburðurinum var streymt rafrænt á vefsvæði Scaninavia House en upptöku af viðburðinum er nú hægt að nálgast á YouTube-rás þeirra.
THE BOOK OF REYKJAVIK – BÓKMENNTAHÁTÍÐ Í MANCHESTER
Hér að neðan má sjá upptöku af rafrænum viðburði sem ég tók þátt í á vegum Manchester Literary Festival ásamt Fríðu Ísberg, Auði Jóns og ritstjóra safnsins Veru Júlíusdóttur. The Book of Reykjavík er gefin út af Comma Press.
The Book of Reykjavik from Manchester Literature Festival on Vimeo.
THE BOOK OF REYKJAVIK – MANCHESTER LITERATURE FESTIVAL
The Book of Reykjavík, a collection of Icelandic short fiction published by UK publisher Comma Press, is being featured at the Manchester Literature Festival. Please check out this series of interviews about writing and Icelandic fiction with author’s Audur Jonsdottir, Fríða Ísberg and myself as well as the collection’s editor, Vera Júlíusdóttir. The video was recorded by translator Meg Matich and is free to stream until the 30th of November.
The Book of Reykjavik from Manchester Literature Festival on Vimeo.
ICECON 2021
Tók í fyrsta sinn þátt í IceCon í ár og stýrði lokapanel með heiðursgestum hátíðarinnar: Hildi Knúts, Mary Robinette Kowal og Ted Chiang. Samtalið bar yfirskriftina Hamfaraskáldskapur og von og fór fram á vettvangi hátíðarinnar í Veröld – Húsi Vigdísar þann 7. nóvember síðastliðinn.
BÓKMENNTAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK – AÐ SKRIFA SIG FRÁ SORG OG MISSI
Nýverið stýrði ég pallborðsumræðum á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík í þriðja sinn. Í ár ræddi ég við Patrik Snensson, höfund Álabókarinnar, sem nýlega kom út hjá Benedikt í þýðingu Þórdísar Gísladóttur, og Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur um ljóðabókina sína Þagnarbindindi, sem vann ljóðaverðlaunin Maístjörnuna fyrir árið 2021. Yfirskrift samtalsins var Að skrifa sig frá sorg og missi, eitthvað sem við Halla og Patrek öll þekkjum vel, eins og sjá má á verkum okkar.
Hægt er að horfa á umræðurnar í heild sinni hérna: https://vimeo.com/600148800
HLAÐVARP – SKÚFFUSKÁLD
Hún Anna Margrét Von Kessel rakti gjörsamlega úr mér garnirnar fyrir hlaðvarpið sitt, Skúffuskáld, sem ég hef sjálfur hlustað á alveg síðan fyrstu þættirnir fóru í loftið. Það var mikill heiður að fá að heimsækja hana í stúdíóið hennar, Lubbi Peace, í bakgarðinum hjá þeim hjónum í Keflavík, og áttum við langt og innilegt samtal um skáldsöguna Stol, um skrif og skrifvenjur, yfirlestur, ritvinnsluþjark og klíkumyndanir, dróntónlist og samfélagsmiðlasjúdderí, framtíð bókarinnar og hvernig í ósköpunum maður fer að því að skrapa saman í launaseðil samhliða því að skrifa.
Endilega hlustið á samtalið okkar, og jafnvel ef að þið nennið mér ekki, tékkið á eitthvað af öllum hinum þáttunum hennar, þar sem hún ræðir við allskyns skrifandi fólk og veiðir upp úr þeim pælingar og heilræði um þetta blessaða ritlíferni.
Ef fólk er ekki mikið í hlaðvörpunum þá er líka hægt að hlusta á þáttinn og eldri þætti á mbl.is: https://www.mbl.is/hladvarp/hlusta/skuffuskald/
TVEIR REFIR KEMUR ÚT Á ENSKU Í BRETLANDI
Sagan Tveir refir, sem birtist fyrst í smásögusafninu Smáglæpir (2017) er nú væntanleg á ensku í þessu fallega safni smásagna frá Íslandi sem breski útgefandinn Comma Press gefur út í haust. Tveir refir er þriðja sagan úr Smáglæpum sem gefin er út á ensku, en allar þrjár sögurnar voru þýddar af Larissu Kyzer.
Það er Sjón sem skrifar innganginn að The Book of Reykjavík og safnið inniheldur sögur eftir Fríðu Ísberg, Kristínu Eiríksdóttur, Auði Jóns, Friðgeir Einarsson, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Andra Snæ o.fl. o.fl. Það er mikill heiður að fá að vera með í svo fríðu föruneyti.
Útgáfu safnsins verður fagnað á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík í september og einnig verður haldinn rafrænn útgáfufögnuður þar sem rætt verður við höfunda sem eiga efni í safninu þann 31. september næstkomandi.