Kærar þakkir, þið sem sáuð ykkur fært að mæta í Gröndalshús á menningarnótt og hlýða á upplestur frá mér og fleiri höfunum. Dagskráin var á vegum Bókaútgáfunnar Unu og var ætlað að draga saman bækur og útgáfur úr grasrótinni, og var einstaklega gaman að sjá hvílíkt úrval er þar að finna af ungum höfundum og litlum útgáfum sem eru með báða olnboga úti við að skapa sér pláss á íslenskum bókamarkarði. Þetta er frekt fólk og ég dáist að því. Ekki veit ég hvort ég með mínar tradisjónir og háa elli teljist til grasrótar en ég var upp með mér að fá að vera með, svo mikið svo að ég ákvað að taka sénsinn og lesa eitthvað sem ekki hefur komið fyrir annarra augu áður. Las ég kafla úr skáldsögunni sem ég er að vinna að um þessar mundir og vonast til að senda frá mér á næsta ári. Upplestrinum var vel tekið og hefur það gefið mér góðan meðbyr í áframhaldandi vinnu við bókina. Vona ég að Una endurtaki leikinn á næsta ári og að ég verði aldrei of stór fiskur til að vera boðið að vera með á grasrótarkvöldum.
BISKOPS ARNÖ 2019
Í byrjun júní tók ég þátt í svokölluðu debutantseminar, eða nýliðanámskeiði, á eyjunni Biskops Arnö í Svíþjóð, ásamt hópi annarra norrænna höfunda. Námskeiðið er haldið ár hvert og er ætlað fyrir ljóðskáld og rithöfunda sem hafa nýlega sent frá sér sína fyrstu bók. Á meðan á námskeiðinu stendur fá þátttakendur tækifæri til að kynnast og læra af hvort öðru, ásamt því að vinna verkefni og hlýða á fyrirlesara sem skipuleggjendur hafa fengið til liðs við sig. Þannig skapar námskeiðið nýtt tengslanet ár hvert á meðal nýrra kynslóða norrænna höfunda; tengslanet sem oft varir áratugum saman. Fyrirlesararnir í ár voru danska ljóðskáldið Mette Moestrup, sænska listakonan og ljóðskáldið Makda Embaie og sænski rithöfundurinn Kristofer Folkhammar. Kajsa Sundin og Ida Linde sáu um að halda utan um námskeiðið og stýra því dag frá degi.
Það er Norðurlandaráð sem borgar brúsann en höfundarnir sem taka þátt ár hvert eru útnefndir af höfundafélögum hvers lands. Það er því Rithöfundasambandi Íslands að þakka að mér var boðið að vera með í ár—ásamt Fríðu Bonnie Andersen, sem gaf út sína fyrstu bók, Að eilífu ástin, í lok árs 2018. Aðrir gestir voru: Elin Wilows frá Finlandi; Beinir Bergsson frá Færeyjum; Balsam Karam, Nino Mick, Wera von Essen og Burcu Sahin frá Svíþjóð; Emma Bess, Andreas Eckhardt-Læssøe, Shosha Raymond og Tine Paludan frá Danmörku; Kristin Hauge, Martin Ingebrigtsen og Mads Rage frá Noregi; og Juvvá Pittja frá Lapplandi.
Biskops Arnö er algjör paradís, og eru það mikil forréttindi að geta kúplað sig út í heila viku og ekki hugsað um neitt annað en að skrifa og ræða við aðra norræna höfunda um mismunandi aðferðafræði og hugmyndir. Námskeiðið sjálft var einstaklega krefjandi fyrir okkur útnárapésana, þar sem megnið af kennslunni og umræðunum fór fram á sænsku og dönsku—þótt hægt væri að grípa til enskunnar þegar til þurfti. Með einbeitningu og góðum vilja gat maður þó skilið megnið af því sem fram fór og jafnvel líka stundum tjáð sig á norðurlandamálunum. Gekk það æ betur eftir því sem leið á vikuna og gamla skóladanskan mín tók að krauma upp á yfirborðið, sem og sá slettingur af sænsku sem ég hef sankað að mér í seinni tíð.
Auðvitað gerir það manni erfitt um vik að geta ekki áreynslulaust lagt orð í belg hvenær sem maður vill, en líklega hafði ég þó gott af því að neyðast til að einbeita mér dálítið og leggja vel við hlustir. Ég á það til að vera óttaleg blaðurskjóða á svona samkomum, og stundum hef ég jafnvel fallið í þá gryfju að bera fram „spurningar“ sem snúa frekar að því að gera mig breiðan en að leggja eitthvað nauðsynlegt fram í umræðuna. („Hóhó! Stundum!?“ heyri ég einhvern muldra.) Er ég að reyna að venja mig af þeim ósið.
Á síðasta degi á eyjunni skiptist ég á bókum við aðra höfunda. Hef ég undanfarinn mánuð verið að bisast við að liðka gömul málbein sem legið í hafa í dvala síðan einhvern tímann á síðustu öld með því að feta mig hægt og bítandi í gegnum þær bækur. Í flugvélinni á leiðinni heim tók ég pásu frá þessu púli og tók fram glósubók til að hripa niður nokkra punkta um hvað ég hefði lært eða uppgötvað á meðan ég var eyjarskeggi á Biskops Arnö. Eins og gengur og gerist voru flestar þær hugljómanir heldur augljósar eftir á, hvað þá þegar ég hafði sett þær niður á blað, en ég læt þær engu að síður fylgja hér á eftir.
NOKKUR PERSÓNULEG LÆRDÓMSKORN FRÁ BISKOPS ARNÖ 2019
- Það örlar enn á þeim vöðvum sem ég þarf til að lesa bækur á aðalnorðurlandamálunum þremur. Þessir vöðvar eru slakir og gamlir, með lélegt viðbragð, en þeir eru þó þarna. Með dálítilli þolinmæði og æfingu ætti ég að geta þjálfað þá upp að nýju.
- Síðan á unglingsárum, þegar ég byrjaði að lesa á ensku, á hnotskóg eftir vísindaskáldsögum og annarri bókmenntaflóru sem ekki var í boði á íslensku í þá daga, hef ég verið einum of bundinn hinum enskumælandi bókaheimi. Hef ég þannig alfarið leitt hjá mér það sem er að gerast í norrænni bókaútgáfu (og íslenskri bókaútgáfu líka, a.m.k. framan af). Það er löngu kominn tími á að lagfæra þetta.
- Þrátt fyrir það ætti ég að hætta að skammast mín fyrir færni mína í enskri tungu, sem mér hefur í gegnum tíðina verið talin trú um að sé hálfgert „spilliefni“, sem eigi á hættu að eitra eða útþynna íslenskuna mína. Ég er fullfær um að valda báðum þessum tungumálum og nota ólíka styrkleika þeirra eftir því hvaða verkfæri hentar best hverju sinni. Auk þess gerir enskufærni mín mér kleyft að tjá mig og eiga í samskiptum, skriflegum og munnlegum, við höfunda og annað fólk hvaðanæva úr heiminum.
- Það eru til tvær tegundir af norsku skrifmáli: bokmål, sem er að miklu leyti byggt á dönsku, og nynorsk, sem er nátengdara gammelnorsk, og þar af leiðandi Íslensku. Þetta vissi ég ekki. Þegar norska ljóðskáldið Martin Ingebrigtsen las upp á fyrsta upplestrarkvöldinu í eyjunni skyldi ég ekki bofs í ljóðunum hans (líklega einkum sökum Þrándheimska framburðarins hans) en eftir að ég fékk að skoða ljóðabókina hans, Riv av seg ansiktet, sem og skáldsögu norska höfundarins Mads Rage, Og skibet siglar vidare, gekk mér mun betur að skilja þá báða, bæði í talanda og upplestri, og gat fikrað mig nokkuð vel í gegnum texta þeirra á blaði. Báðir gefa þeir út hjá norska forlaginu Samlaget, sem eingöngu gefur út bækur á nynorsk. Bokmåltextar reyndust mér hinsvegar töluvert torveldari.
- Af samtali mínu við Martin fékk ég nýja sýn af Noregi, þessu stóra landi þar sem mismunandi þjóðarbrot hafast við, oft í mikilli einangrun og með litlu samneyti á milli bæjarfélaga (fyrr á öldum, allavega). Eitthvað við alla þessa víðáttu og einangrun, sem og staða þeirra sem fyrrum Dananýlenda (sem ég hafði steingleymt), útskýrði fyrir mér ýmislegt varðandi kirkjubrennurnar og ofsann í norsku black metal senunni á 9. áratugnum. Ég hef lengi verið áhugasamur um sögu þessarar senu og svolgrað í mig bækur og heimildarmyndir um Mayhem og Darkthrone o.fl. (sem og auðvitað allskyns svartamálmstónlist) en alltaf átt erfitt með að skilja hvernig allt þetta ofstæki spratt fram í Noregi, af öllum stöðum.
- Hrökkkex er herrans morgunmatur, og dugar í raun sæmilega í og með öllum máltíðum.
- Ég hef hingað til verið of spéhræddan við ljóðformið. Orðin eru eitthvað svo nakin á blaðsíðunni. Maður getur hvergi falið sig á meðal þeirra, líkt og maður getur í orðaflaumi prósatextans. Það er hollur ávani að gefa sjálfum sér leyfi til að leika sér og/eða mistakast með því að hripa niður styttri texta og tilraunir, sama hvort slíkt sé ætlað fyrir bækur og aðra útgáfu eða ekki. Slík hugarleikfimi getur verið jafn mikilvæg og að standa upp frá skrifborðinu og teygja úr sér, eða fara út í göngutúr. Þess utan þá saknar maður gífurlega fróunarinnar sem því fylgir að leggja lokahönd á eitthvað (eða að minnsta kosti að leggja það frá sér í bili) þegar maður er djúpt í viðjum stórs prósatexta, og ætti því ekki að láta sér úr greipum ganga tækifæri til að „rumpa af einu ljóði“.
- Talandi um spéhræðslu og feluleik, þá virðist það vera mér tamt að fela mig í textanum, hvort sem er á bak við skáldskap eða með ýmiskonar leikjum og hömlum. Það þarf ekki endilega að vera slæmt; að setja sér takmarkanir til að vinna út frá gefur manni sterkan byrjunarpunkt og eitthvað til að spyrna á móti, og oft á tíðum sprettur út frá slíkum skollaleik eitthvað nýtt og ótamið. Engu að síður verður því ekki neitað að það er viss orka í einlægni. Textar sem sigla lygnan sjó og taka engar áhættur sem stefna höfundinum í voða eru oft á tíðum hrútleiðinlegir. Mér kemur til hugar það sem Kristofer Folkhammar sagði í fyrirlestri sínum: „Þegar þú skrifar út frá einlægni frekar en kaldhæðni, þá ertu berskjaldaður fyrir skömm.“
- Þú skalt ekki sofa með opinn glugga í skóglendi Svíþjóðar að sumri, sama hversu heitt er úti. Opnaðu frekar gluggann að morgni og loftaðu út yfir daginn en lokaðu honum þegar líður á eftirmiðdag og moskítóflugurnar fara á stjá.
- Ekki baða þig í sænskum stöðuvötnum þar sem er mikið af sefgrasi í kringum baðstaðinn. Inni í því geta leynst geddur sem liggja í felum og bíða eftir bráð. Ef þær bíta þig í tánna þá sleppa þær ekki.
PEN WORLD VOICES BÓKMENNTAHÁTÍÐIN
Í maí tók ég þátt í PEN World Voices bókmenntahátíðinni í New York. Hátíðin er á vegum PEN America og var verið að halda hana í 15. sinn. Viðburðurinn sem ég tók þátt í var svokallað „þýðingaslamm“, þar sem tveir þýðendur fá í hendur texta eftir höfund og þurfa að þýða hann á sem skemmstum tíma. Á kvöldinu sjálfu koma saman höfundurinn og báðir þýðendurnir fyrir framan áheyrendur og er upprunatextanum og þýðingunum varpað á skjá og ásetningur höfundar og ákvarðanir þýðendanna ræddar í þaula. Mitt hlutverk var að stýra viðræðunum, en ég hef áður tekið að mér slík störf fyrir Bókmenntahátíðina í Reykjavík og annarsstaðar.
Ég var heldur heppinn með viðmælendur. Þýðendurnir voru Larissa Kyzer, en þýðing hennar á Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríks er væntanleg í september frá Amazon Crossing undir titlinum A Fist or a Heart, og Kara B. Thors, sem nýlega þýddi ljóðasafnið Stormviðvörun eftir Kristínu Svövu, en þýðingin var í ár tilnefnd til PEN verðlaunanna fyrir þýdda ljóðlist. Þær tókust hvor um sig á við ljóðið „Atlantis“ eftir Gerði Kristný, og var Gerður mætt á svæðið til að sjá hvernig þeim tókst til.
Dagskránni var einstaklega vel tekið og var gaman að heyra allar spurningarnar úr áheyrendaskaranum, sem var samansettur af allskyns áhugafólki um þýðingar. Þýðendur í New York eru samheldin hópur, og mæli ég með því fyrir alla höfunda sem eru staddir í borginni að gera sér ferð á t.d. upplestrarkvöldin Us and Them og Another Way to Say, sem bæði eru haldin reglulega í bókakaffinu Molasses Books í Bushwick. Eru þessir reglulegu viðburðir ætlaðir fyrir þýðendur að lesa úr verkum sínum og ræða störf sín. Ég fékk gestamiða á hátíðina fyrir giggið og var duglegur að nýta mér það þar sem ég vissi að ég ætti takmarkaðan tíma eftir í New York.
Á fyrsta degi hátíðarinnar fór ég á pallborðsumræðurnar „The Library of Borges“ þar sem höfundarnir Rodrigo Rey Rosa frá Guatemala og Rodrigo Fresán frá Argentínu ræddu um áhrif Jorge Luis Borges á Suður-Amerískar bókmenntir undir stjórn Inmaculada Lara Bonilla og Claudiu Salazar Jiménez. Var sérstaklega merkilegt að heyra Rey Rosa ræða um Guatemala og flókna stöðu sína sem höfundur frá landi þar sem lítið er um læsi, og hvernig Guatemala og fleiri Suður-Amerísk lönd sem skortir innlenda bókmenntaarfleið hafa handvalið sér sínar kanónur út frá Borges og öðrum höfundum álfunnar. Rodrigo Fresán sagði skondna sögu af því þegar hann sem ungur maður, í miðju rifrildi við kærustu sína, rakst utan í aldinn Borges úti á götu, svo illa að sá síðarnefndi datt í stéttina. Fólk flykktist að til að hjálpa og skamma Fresán, sem sá fram á að verða aldrei frægur rithöfundur heldur verða í staðinn þekktur sem maðurinn sem drap Borges. Einnig töluðu þeir um það að Borges væri lokað kerfi; að þú gætir lært að elska lestur og skrif með því að lesa Borges en aldrei lært að skrifa eins og hann, þar sem, eins og Fresán sagði: „Ef þú reynir að skrifa eins og Borges þá hljómarðu bara eins og fífl!“
Daginn eftir fór ég í CUNY Graduate Center að hlusta á Victor LaValle ræða við Jamaíska höfundinn Marlon James um nýútkomna bók hans: Black Leopard, Red Wolf. Báru pallborðsumræðurnar yfirskriftina „A Game of Leopards and Wolves“, en titillinn snýr að fyrirætlun James um að skapa viðlíka fantasíuheim fyrir Afríkuríkin og til er fyrir hinn vestræna heim í verkum höfunda á borð við George R.R. Martin og J.R.R. Tolkien. Sérstaklega var gaman að heyra James ræða áhrifavalda sína í æsku og tala um ást sína á teiknimyndasögum, reyfurum, rauðum seríum og öðrum bókmenntaafsprengjum popp-menningar, og taldi hann þar m.a. upp skáldsögur Jackie Collins og X-Men teiknimyndasögur Chris Claremonts. Hann sagði líka sögu af því þegar hann missti af eigin áritunarviðburði á bókmenntahátíð þar sem hann stóð í röð til að fá Mike Mignola til að árita eintakið sitt af Hellboy teiknimyndasögu. Einnig talaði hann um mikilvægi þess fyrir sig sem karlhöfund að lesa eins marga kvenhöfunda og mögulegt er í von um að geta skapað sannfærandi og heilræna kvenkaraktera. James, sem vann Man-Booker verlaunin árið 2015 fyrir bókina A Brief History of Seven Killings, talaði um það að höfundar sem hætta sér inn í fantasíu- eða vísindaskáldsöguformið seinna á ferli sínum verði að bera haldbæra þekkingu á þessum bókmenntagreinum og sýna þeim þá virðingu sem þær eiga skilið, ella eiga á hættu að gera sjálfa sig að fífli. Þrátt fyrir strangt bókakaupabann sökum yfirvofandi flutninga til Íslands endaði ég á að kaupa eintak af Black Leopard, Red Wolf, og fékk James til að árita það fyrir mig. Ég er að lesa hana núna og er kominn á flug, þrátt fyrir að það hafi tekið mig dálítinn tíma að bindast rödd sögumannsins, sem er æði svæsin.
Þriðja daginn fór ég að sjá írska höfundinn Colm Tóibín ræða við hinn unga, franska höfund Édouard Louis undir handleiðslu Garrard Conley, höfund Boy Erased. Yfirskrift umræðunnar var „Our Fathers“, og ræddi Tóibín um skrif sín um feður Oscars Wilde og W.B. Yates, sem báðir voru hálfgerðir vandræðagripir. Einnig talaði hann um fangelsisvist Oscars Wilde í Reading fangelsinu, en Tóibín fékk að dveljast við skriftir læstur inni í klefa Wilde í fangelsinu, þar sem Wilde hafði ofan af fyrir sér með því að skrifa langt bréf til fyrrum ástmanns síns, Lord Alfred Douglas, sem bar að vissu leiti ábyrgð á því hvernig fyrir Wilde var komið. Er þetta bréf kallað De Profundis og var hálfgerð fangelsisdagbók fyrir Wilde.
Ég hafði fengið mikinn áhuga á Édouard Louis eftir að ég las ítarlega grein um hann og bækur hans í New York Review of Books. Hann hefur skrifað mikið um föður sinn, fyrst í bókinni The End of Eddy, þar sem hann lýsir reynslu sinni sem samkynhneigður drengur sem elst upp í fátækri franskri verkamannafjölskyldu. „Fyrir móður mína og föður, var samkynhneigð eins og vofa sem umkringdi okkur,“ útskýrði hann og lýsti hvernig faðir hans og aðrir karlmenn í þorpinu voru uppteknir við að gæta að karlmennsku sinni og pössuðu sig að gefa ekki höggstað á sér með því að gera neitt sem talist gæti „teprulegt“ eða „hommalegt“. Í nýjustu bók sinni, Who Killed My Father, hittir Louis föður sinn í fyrsta sinn eftir mörg ár og kynnist honum á nýjan leik, nú sem farlama manni, öldnum langt fyrir aldur fram, með laskaðan líkama sem hefur verið fórnað í púl og hættulega erfiðisvinnu í verksmiðjum. Þessi upplifun leiðir Louis til þess að beina gagnrýnu auga að stéttarskiptingu Frakklands. Í bókinni ásakar hann og nefnir á nafn franska stjórnmálamenn sem hann álítur persónulega ábyrga fyrir því hvernig komið sé fyrir föður sínum. Á sviðinu með Tóibín ræddi hann mikið um hvernig efri stéttirnar horfa á pólitík sem hálfgerða afþreyingu, á meðan pólitík hefur bein áhrif á líkama og heilsu fátækasta fólksins í landinu, sem fær lítið sem ekkert að segja um pólitískar ákvarðanir. Við að hlusta á hann tala varð mér oft hugsað til orðræðunnar í veraklíðsbaráttunni hér heima undanfarið ár. Louis talaði einnig um reynslu sína í franska réttarkerfinu, eftir að honum var nauðgað af karlmanni sem hann bauð heim með sér, en önnur bók hans, History of Violence, segir frá verknaðinum og eftirköstum hans. Ég lét til leiðast að fá áritað eintak af bók Louis, sem er hvort eð er í þynnra lagi, og því ekki eins tvísýnt að koma henni í tösku og doðrantinum hans Marlon James.
Þá um kvöldið fórum við Elín saman á pallborðsumræður undir yfirskriftinni „Women Uninterrupted“, þar sem komu saman höfundarnir Jennifer Egan frá Bandaríkjunum, Elif Shafak frá Tyrklandi og Inêz Pedrosa frá Portúgal, undir handleiðslu Elissu Schappel. Þær ræddu hvernig orðið „kvenhöfundur“ hefur breyst úr því að vera leiðinda merkimiði yfir í hálfgert pólitískt baráttuslagorð. Merkilegt var að heyra hvernig Egan hafði upphaflega byrjað að skrifa mestmegnis karlkaraktera til þess að sannfæra sjálfa sig (og aðra) um að hún væri í raun ekki að skrifa út frá sjálfri sér. Shafak talaði líka um það að þá sjaldan sem eitthvað af henni sé að finna í karakterum sínum þá séu það yfirleitt karlkarakterarnir sem hún felur sig á bak við. Í báðum tilvikum töluðu þær um hvernig þær hafa þurft að berjast gegn því að bækur þeirra séu lesnar sem „reynslusögur“, sem er stimpill sem þeim finnst æði oft vera skellt á skáldsögur kvenna—eða eins og Pedrosa orðaði það: „Öllum er skítsama þótt Philip Roth sé augljóslega allir sínir karlkarakterar.“
Þannig talaði Egan líka um þá kröfu sem oft er haldið að höfundum um þeir skuli skrifa það sem þeir þekkja („write what you know“), sem henni finnst allt of takmarkandi. Hefur hún í staðinn valið að skrifa langt út fyrir sitt þæginda- og þekkingarsvið—t.d. með því að skrifa um kafara í nýjustu bók sinni, Manhattan Beach. Ég minnist þess að hafa heyrt svipaðar skoðanir í ritgerðasafni Ann Patchett, This is the Story of a Happy Marriage. Það var frískandi að heyra nánari pælingar um þessa hugmynd, þar sem að ég man að ég fylltist skelfingu við lýsingar Patchett á því hvernig hún hefði hafist handa við að skrifa skáldsögur sem snúa að genafræði eða óperum án þess að búa að neinni sértækri þekkingu um þá heima—þótt hún væri auðvitað orðinn algjör sérfræðingur þegar hún var búin að skrifa bækurnar.
Síðasta kvöldið sat Rogrigo Rey Rosa aftur fyrir svörum, ásamt blaðamanninum og rithöfundinum Mohammed Hanif frá Pakistan og Tommy Orange, höfundi af ættum Cheyenne-indíána. Hann gaf nýlega út skáldsöguna There, There, sem gerist á meðal fátæks fólks af indíánaættum í borginni Oakland í Kaliforníu. Stjórnandi samtalsins var rithöfundurinn og fyrrum hermaðurinn Matt Gallagher. Ræddu viðmælendur um hvernig ekki væri hægt að segja sögu sinna mismunandi þjóða og þjóðarbrota án þess að inn í það spinnist saga ofbeldis. Það var rætt um hvernig stofnanavædd valdbeiting og ofbeldi þýðir í raun að yfirvöld leyfi fólki að þjást og deyja án þess að því sé sýnd samkennd eða umhyggja. Hanif kom einnig með öflugar blammeringar á það hvernig vestrænt samfélag hefur markaðssett stríð og ofbeldi. Hann talaði tæpitungulaust um þreytu sína á almennum borgurum sem afsala sér ábyrgð á stríði þrátt fyrir að greiða skatta til yfirvaldanna sem standa að stríðinu, sem og allri þeirri rómantík og samúð sem hermenn sem snúa heim úr stríði eru sveipaðir í, á meðan lítilli athygli er beint að íbúum landanna þar sem stríðið er háð.
Eftir viðburðinn rölti ég yfir götuna frá Cooper Square, þar sem seinasti panellinn fór fram, og drakk einn ljósan og einn dökkan á McSorley‘s Old Ale House. Þrátt fyrir allan túristaflauminn þar inni, sem mættur er til að bera augum (að því að mér er sagt) elstu knæpu New York borgar, er McSorley‘s engu að síður einn af mínum uppáhaldsstöðum á Manhattan. Reyndist þessi heimsókn vera fyrsta skiptið af nokkrum þennan maímánuð, þar sem ég lagði krók á leið mína til að kveðja McSorley‘s „í síðasta sinn“.
ÞÝÐINGASLAMM Á PEN WORLD VOICES HÁTÍÐINNI
Þann 9. maí næstkomandi mun ég stýra “þýðinga slammi” á Nuyorican Poets Cafe í East Village. Þar munu þýðendurnir K.B. Thors og Larissa Kyzer hitta fyrir Gerði Kristný og bera fram fyrir hana sitthvora þýðinguna á einu af ljóðum hennar—allt á mjög friðsaman máta, samt! Viðburðurinn er hluti af PEN World Voices hátíðinni.
HVENÆR ER EITTHVAÐ ÓGNVEKJANDI? – GREIN UM IAIN REID Í TMM
Í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar eru kynntir til leiks þeir alþjóðlegu höfundar sem taka þátt í Bókmenntahátíðinni í Reykjavík í ár. Ég tók að mér að skrifa um kanadíska rithöfundinn Iain Reid og verk hans fyrir heftið. Þess ber að geta að ég tók líka viðtal við Reid sem birtist í nýjasta hefti Reykjavík Grapevine, en í því hefti tók ég einnig viðtal við tyrkneska höfundinn Hakan Günday, sem einnig tekur þátt í bókmenntahátíðinni í ár.
TMM gefur út smásögur, frumsamið efni og þýðingar eftir íslenska höfunda og greiðir þeim fyrir efnið sem birt er, en slíkt er einkar sjaldgæft á meðal þeirra fáu bókmenntatímarita sem þrífast á íslenskum útgáfumarkaði. Ég hvet ykkur til að styrkja TMM, sem ef eitthvað er hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarið, þrátt fyrir að hafa verið starfrækt nokkurn veginn samfellt síðan 1938.
UPPLESTRARKVÖLD BWS Í COMMUNITY BOOKSTORE
Síðastliðinn föstudag, þann 15. febrúar, tók ég í fyrsta sinn þátt í upplestrarkvöldi á vegum Brooklyn Writers Space, sem haldin eru einu sinni á mánuði í Community Bookstore bókabúðinni á 7. Avenue í Park Slope. Brooklyn Writers Space býður upp á þögul skrifstofurými fyrir skrifandi fólk og rekur félagið tvö slík rými; annars vegar í Carroll Gardens og hins vegar í Gowanis hverfinu rétt við Park Slope, þar sem ég sæki mér þjónustu þeirra.
Á kvöldinu gerði ég dálítið sem að ég efast um að ég myndi nokkurn tímann leyfa mér a gera á upplestrarkvöldum heima á Íslandi, nema þá kannski í litum hópi kunningja: Ég las úr ókláruðu verki, þ.e.a.a. skáldsögunni sem ég er að vinna að þessa stundina. Heima fyrir myndi ég aldrei þora að gangast undir slíka berstrípun en hérna er töluvert auðveldara að hverfa inn í fjöldann. Ég neyddist auðvitað til að þýða textann yfir á ensku, þar sem að annars hefði ég þess vegna getað verið að lesa upp úr íslenskri símaskrá fyrir hópinn. Þótt að dýrmætur tími færi í það verk (meiri en ég ætlaði því) þá var engu að síður gott að finna átyllu til þess að setjast eilítið niður með textann, losa hann úr viðjum sínum og binda síðan aftur niður og hreinskrifa á nýju máli. Ég veit að mörgum höfundum er alveg meinill við upplestra, en ég er á því að maður komist sjaldan í jafn mikið návígi við lesendur og á upplestrarkvöldum—sem þó eru líka alræmd fyrir dræmar mætingar. Engu að síður hefur maður gott af því að þurfa að standa frammi fyrir lesendum, að þurfa að standa undir eigin texta og ákvörðunum sem maður tók á einhverjum tímapunkti þegar maður var orðinn gjörsamlega samdauna efninu.
Lestrinum var vel tekið og var gaman að sjá hve ólíkar sögurnar á kvöldinu voru. Hinir höfundarnir, Stephen Aubrey og Lena Valencia, voru eilítið á léttari nótunum í sínum sögum; annarsvegar með nútímafærðri uppfærslu á Þyrnirós með tilheyrandi samfélagsmiðlum og menntaskóladrama, og hinsvegar ungmennasaga um systkinaöfundsýki og hamskipti. Það var sérstaklega gaman fyrir mig hve margir góðir vinir sem við höfum kynnst hérna úti mættu á kvöldið, æst og uppvæg í að fá loks að heyra einhvern snefil af því sem ég fæst við að skrifa, en hingað til hef ég ekki haft úr miklu að ráða til að deila með þeim. Eftir upplesturinn rölti hópurinn niður á pöbbinn The Gate á horni 5. Avenue og 3. strætis og var þetta svo óvenjulega milt kvöld að við sátum úti í bjórgarðinum þar langt frameftir og spjölluðum.
UPPLESTUR Í COMMUNITY BOOKSTORE 15. FEBRÚAR
Föstudaginn 15. febrúar næstkomandi mun ég taka þátt í upplestrarkvöldi á vegum Brooklyn Writers Space Í Community Bookstore á 7. Avenue í Brooklyn. Upplestrarkvöldið er hluti af upplestrarseríu BWS, sem rekur húsnæði á horni 1. stræti í Gowanis og á Court Street í Carroll Gardens fyrir fólk sem fæst við skriftir—rithöfunda, ljóðskáld, handritshöfunda, blaðamenn o.s.frv. BWS státar af því að bjóða upp á hávaðalaus rými þar sem hægt er að einbeita sér að textavinnu án nokkurra truflana—enda mikill skortur á slíku í New York borg. Þagnarskyldan sem gildir inni í BWS vinnurýmum er ekkert grín, og verður fólk að gjöra svo vel og fara fram ef það ætlar sér svo mikið sem að yrða á hvort annað eða fá sér tyggjó. Ég er búinn að vera meðlimur í BWS í að verða hálft ár og hefur það hjálpað mikið við skriftirnar að búa að rými sem ég get gengið að á hvaða tíma sólarhrings sem er, þar sem ég er umkringdur öðru fólki sem situr við textabasl allan liðlangan daginn. Ekki er verra að vinnurýminu fylgir kaffistofa þar sem hægt er að tylla sér og spjalla og þar sem er að finna ótæmandi kaffibauk og gamaldags uppáhellingarkönnu—eins og alvöru vinnustað sæmir.
LISTAMANNALAUN 2019
Ég fékk þau tíðindi stuttu eftir heimkomuna til Brooklyn að mér hefðu verið úthlutaðir sex mánuðir úr launasjóði rithöfunda fyrir árið 2019. Er þetta í annað sinn sem ég fæ úthlutun úr sjóðnum, en ég fékk einnig þrjá mánuði úthlutaða fyrir árið 2018. Í bæði skipti var sótt um laun fyrir sama verkið, skáldsögu sem ég er með í smíðum og hygg á að gefa út fyrir næstu jól.
Fréttirnar eru mikið gleðiefni og að sjálfsögðu skáluðum við hjónin um kvöldið til að fagna styrkinum. Launin eiga eftir að létta töluvert róðurinn út árið og um leið minnka álagið á heimili okkar á meðan ég bisast við að klára bókina. Það sem mestu máli skiptir er að með þessum launum get ég einbeitt mér heilshugar að skrifunum stóran hluta dagsins, en þarf ekki lengur að vera sífellt að ýta bókinni frá mér til að taka að mér ýmiskonar launuð verkefni og íhlaup.
Það er skrítin tilfinning að horfa yfir úthlutunarlistann og tína til þau nöfn sem þar vantar og bera sig saman við þá höfunda sem hlutu færri mánuði en maður sjálfur. Ég mun því gera mitt ýtrasta til að bregðast ekki því trausti sem mér er sýnt og mæta á bak við skrifborðið stundvíslega á hverjum virkum morgni þar til mér hefur tekist að murka þessa bók út úr lyklaborðinu.
LOBSTER GIRL Í ÓS #3
Í þriðja og nýjasta heftinu af Ós: The Journal á ég litla sögu sem ber titilinn „Lobster Girl“. Þetta er í annað sinn sem ég gef út sögu hjá Ós pressunni og er auk þess fyrsta sagan sem ég hef sent frá mér lengi á enskri tungu. Ég er einstaklega hreykinn af því að fá aftur að taka þátt í því flotta starfi sem fólkið á bak við Ós stendur að og finnst mér framtak þeirra vaxa og dafna með hverju eintaki.
Á Íslandi er sár vöntun á tímaritum og öðrum útgáfuleiðum fyrir höfunda sem hafa ekki viðjað að sér nægilegu efni til að hyggja á bókaútgáfu, sem og fyrir útgefna höfunda sem langar að finna farveg fyrir ýmiskonar minni verkefni og tilraunamennsku. Ós hefur auk þess lagt sig fram um að skapa rými fyrir raddir sem eiga undir högg að sækja þegar kemur að því að finna vettvang innan íslenska útgáfubransans—sem sökum smæðar og óstöðugleika getur oft ekki leyft sér að vera eins áhættusækinn og margir vildu óska.
Í Ós #3 er að finna 30 höfunda, ljóðskáld og myndlistarfólk hvaðanæva úr heiminum. Allir sem leggja tímaritinu til efni eða vinnu annað hvort búa eða hafa búið á Íslandi eða eiga í einhverskonar sambandi við landið og eru textarnir á fimm mismunandi tungumálum. Hægt er að nálgast tímaritið í öllum betri bókabúðum og hvet ég ykkur til að ná ykkur í eintak, bæði til yndisauka og til að styðja Ós pressuna í þeirra þarfa starfi.
VIÐTAL Á BBC RADIO 4
Núna í vikunni var ég gestur í þættinum „Open Book“ á BBC Radio 4, sem stýrt er af Mariella Frostrup. Þar var mér ætlað að útkljá um hvort að íslenska jólabókaflóðið væri hrein og klár mýta og þannig veita innsýn í raunverulegar aðstæður íslenskra rithöfunda og bókaútgefanda. Ég reyndi að sinna því verki hvað best ég gat, slá á einhverjar rósrauðar ranghugmyndir en um leið benda á allt það sem gerir jólabókaflóðið að því skemmtilega og einstaka fyrirbæri sem það er. Að sjálfsögðu notaði ég líka tækifærið og reyndi að troða inn nokkrum titlum eftir þá höfunda sem tóku þátt í jólabókaflóðinu í ár. Megnið af því efni endaði hinsvegar ekki í lokaútgáfu þáttarins, líklega þar sem breskir hlustendur hafa kannski lítið að gera við höfunda sem eru enn sem komið er ófáanlegir á enskri tungu. Það mátti þó reyna.