My story “The Husband and his Brother” is now featured at Words Without Borders in their new Icelandic Issue, along with recent works by authors Þórdís Helgadóttir, Fríða Ísberg, Haukur Ingvarsson, Eva Rún Snorradóttir, Þóra Hjörleifsdóttir, Steinunn Helgadóttir and Bergrun Anna.
I love how WWB have presented the work in such a way that by clicking around you can read the Icelandic and the English texts side by side and even listen to a recording of myself and the other authors reading an extract from their original texts.
“The Husband and his Brother” first appeared in my 2017 short story collection “Smáglæpir” (Misdemeanours), and I guess you might say that it is a fairly grim tale of family/nationality and how inaction leads to complicity.
All translations in the Icelandic Issue are by Larissa Kyzer and Meg Matich.
SMÁGLÆPIR FÆR FULLT HÚS STIGA Í ÍSRAEL
Smáglæpir, mín fyrsta bók, fær fimm stjörnur og ítarlega, heilsíðu umfjöllun í Shabbat, bókmenntatímariti ísraelska dagblaðsins Makor Rishan, auk þess sem bókin fékk víst umfjöllun og umtal í ísraelska útvarpinu. Það er ótrúlega gaman að vita að verkin sín eigi sér framhaldslíf þarna úti í heimi, og að fólk í öðrum löndum og menningarheimum finni í þeim eitthvað til að tengja við. Smáglæpir er gefin út af ísraelsku bókaútgáfunni Lesa Books og vil ég þakka ritstjóra útgáfunnar, Shai Sendik, og þýðandanum mínum, Shirley Levy, kærlega fyrir alla þá alúð og ötulu vinnu sem þau hafa lagt í að færa bókina yfir á nýtt tungumál.
SMÁGLÆPIR KOMNIR Á STORYTEL.IS
Núna er hægt að hlusta á Smáglæpi á hljóðbókaveitunni Storytel.is. Storytel er að uppruna sænskt fyrirtæki sem hefur verið að hasla sér völl á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár. Fyrirtækið býður upp á sívaxandi magn af nýjum og gömlum íslenskum hljóðbókum í upplestri íslenskra leikara, höfunda og annars fagfólks. Hægt er að hlusta á bækurnar á heimasíðu Storytel.is eða í Storytel appinu, og bjóða þau upp á prufutímabil áður en gengið er frá áskrift. Ég fór og heimsótti aðalskrifstofu fyrirtækisins á Íslandi og fannst mikið til fagmennsku þeirra og frágangs koma.
Það er Finnbogi Jónsson leikari sem les bókina og þakka ég honum og starfsfólki Storytel fyrir að hlúa svona vel að bókinni minni í framhaldslífi sínu á ljósvakamiðlum. Hægt er að hlusta á hljóðbrot úr lestri Finnboga hér að neðan.
SMÁGLÆPIR – DÓMAR
VIÐBURÐIR OG UPPLESTRAR Í DESEMBER
Jæja, ég er búinn að pakka í töskur og verð mættur á klakann eldsnemma í fyrramálið, þriðjudaginn 5. des, til að fylgja Smáglæpum úr hlaði inn í jólabókaflóðið. Þeir eru svosem ekki margir desember viðburðirnir en þó mun ég eitthvað vera að lesa upp og þusslags ásamt öðrum höfundum hér og þar í Reykjavík og meira að segja líka á Selfossi.
Dagsetningar eru sem hér stendur:
Fimmtudagurinn 7. des kl. 17:00, Jólabókagleði Kirsuberjatrésins, Vesturgötu 4
Jólabókagleði Kirsuberjatrésins heldur áfram! Aðrir höfundar sem lesa eru Halldór Armand, sem mun lesa úr skáldsögunni Aftur og aftur, Jóga, sem mun lesa úr bókinni Þúsund Kossar (rituð af Jóni Gnarr), og Elísa Jóhannsdóttir, sem mun lesa úr bók sinni Er ekki í lagi með þig?, sem hlaut barnabókarverðlaunin í ár.
Fimmtudagur 7. des kl. 19:00, Útgáfufögnuður ÓS Press í Gröndalshúsi
Um sjö leitið, beint á eftir jólabókagleðinni og hinum megin við hornið frá Kirsuberjatrénu, fagnar ÓS Press útgáfu á öðru hefti af tímariti þeirra, ÓS — The Journal í Gröndalshúsi í Grjótaþorpinu. Ég á litla og kvika sögu í heftinu sem heitir Þetta er allt í lagi — og mætti næstum segja að þar sé um hálfgerða hryllingssögu að ræða — og mun ég lesa hana fyrir gesti.
ÓS Press vinnur mikið og gott og — umfram allt — launalaust starf við það að koma á framfæri bókmenntalegum jaðarröddum úr samfélaginu, og hafa þannig skapað rými fyrir öfluga grasrót sem þrífst ekki innan íslenska útgáfubransans um þessar mundir. Því vil ég benda fólki á söfnunarátak Ós á Karolina Fund, þar sem reynt er að stemma stigu við eitthvað af prentkostnaðinum og starfsframlaginu á bak við þessa útgáfu.
Þriðjudagur 12. des kl. 20:00, Höfundakvöld á C is for Cookie, Týsgötu 8
Kaffihúsið C is for Cookie á Týsgötu stendur fyrir upplestrarkvöldum fram að jólum í ár og mun ég taka þátt í einu slíku þann 12 des klukkan 20:00. Ég er ekki kominn með það á hreint hverjir fleiri eru á dagskrá það kvöld en það skýrist þegar nær dregur.
Fimmtudagur 14. des kl. 20:00, Höfundaupplestrar á Bókakaffinu á Selfossi, Austurvegi 22
Eins og venjulega stendur Bókakaffið á Selfossi, höfuðstöðvar Sæmundar, útgefanda míns, fyrir vikulegum upplestrarkvöldum höfunda útgáfunnar alveg fram að jólum. Það er kósý og heimilisleg stemmning á þessum kvöldum, eins og í öllu sem viðkemur Bókakaffinu og Sæmundi, og mun ég lesa þar upp ásamt fleiri höfundum á vegum útgáfunnar fimmtudaginn 14. des. Húsið opnar klukkan 20:00 en upplestrar hefjast um 20:30, svo allir hafi nú örugglega tíma til að ná sér í vöfflu og kaffi.
Laugardagur 16. des kl. 14:00, Höfundasíðdegi í Bóksölu stúdenta, Sæmundargötu 4
Bóksala stúdenta stendur fyrir eftirmiðdags höfundaupplestrum í desember og mun ég stíga þar á stokk þann 16. desember klukkan 14:00 ásamt Jónasi Reyni Gunnarssyni (Millilendingin), Yrsu Þöll Gylfadóttur (Móðurlífið – Blönduð tækni), Oddný Eir Ævarsdóttur (Undirferli) og Úlfari Bragasyni (Frelsi, menning, framför). Er ég mjög hreykinn af því að vera boðið með í svo fríðan flokk.
Það er allt og sumt sem komið er á dagskrá í desember en ekki hika við að hafa samband í gegnum Facebook eða bjornhalldorssonis@gmail.com varðandi aðra upplestra eða uppákomur fram að jólum.
Hlakka til að sjá ykkur!
-BH
SMÁGLÆPIR NÚ FÁANLEGIR Í INNBUNDNU BROTI
TIl að auka sölumöguleika Smáglæpa í jólabókaflóðinu, ákvað Sæmundur, útgefandinn minn, að endurprentunin af bókinni yrði í hörðu bandi. Auðvitað er þetta ógurlega spennandi fyrir mig, og þá sérstaklega að bókin muni vera á borði með öllum hinum jólabókunum. Það er samt ekki laust við að ég prísi mig sælan að hafa gefið bókina út í kiljubroti í sumar, núna þegar út eru að koma spennandi skáldverk eftir hverja kanónuna á fætur annarri, sem og eftir ýmsa nýja höfunda sem ég hlakka mikið til að kíkja á þegar ég kem heim. Ber þar kannski helst að nefna Millilendinguna hans Jónasar Reynis og Slitförin hennar Fríðu Ísberg, en bæði eru þau hjá mínum gamla útgefanda Partusi, sem er svo sannarlega að hrista vel upp í jólabókaflóðinu í ár (enda kominn tími til).
Sjálfur kem ég ekki heim á klakann fyrr en 4. desember, og vona ég að ekki verði alveg búið að gleyma Smáglæpum og sjálfum mér þá, þegar mesta jólaösin skellur á. Ég er núþegar búinn að bóka eitt upplestrarkvöld, í höfuðstöfum Sæmundar, Bókakaffinu á Selfossi, þann 14. desember, en vonandi tekst mér að bæta einhverjum fleirum viðburðum við þegar nær dregur. Hvernig sem fer þá held ég að þetta verði rokna jólabókaflóð og hlakka ég mikið til þess að taka þátt í því af fullum huga, að þessu sinni fyrir framan búðarborðið en ekki fyrir aftan það, þar sem ég hef staðið vaktina undanfarin ár. Þó er aldrei að vita nema ég betli í mínu gamla samstafsfólki í Eymundsson Austurstræti um að fá að taka smá vakt á Þorláksmessu, þar sem þá er mesta stuð ársins í bókabúðum og bjórinn sjaldan sætari en á miðnætti þann tuttugasta og þriðja, þegar loksins er búið að smala öllum út og gera upp kassana. Þó eru góðar líkur á einhverjum eilitlum hagsmunaárekstri í ár þar sem það er jú mynd af mér aftan á einni jólabókinni. Þá verð ég bara að betla út Þorláksmessuvakt næstu jól, nema að svo ólíklega vilji til að maður sé með eitthvað í þvögunni þá líka.
Ég sé ykkur allavega þann 4. desember þegar ég mæti heim frá Long Island, fúlskeggjaður og síðhærður þar sem ég treysti ekki rockabilly rökurunum hér út frá eftir síðustu útreið. Ekki veitir af þar sem kalt er orðið í kotinu og ég þurfti að fjárfesta í flannel-fóðruðum Carhartt buxum til að þola röku hafgoluna hér á eyjunni. Þangað til verð ég hérna á bókasafninu í Stony Brook að tikka inn í tölvuna eitthvað sem verður kannski einhvern tímann eitthvað.
BÓKADÓMUR UM SMÁGLÆPI Í KILJUNNI
Smáglæpir voru til umræðu í Kiljunni í gærkvöldi. Ég er bara býsna sáttur við það sem Kolbrún Bergþórs og Sigurður Valgeirsson höfðu fram að færa um bókina. Þau voru sammála um að sem fyrsta bók teljist þetta vera mjög vel gert. Sigurður minntist sérstaklega á söguna „Eiginmaðurinn og bróðir hans“ og hrósaði myndmáli hennar og sagði meðal annars:
„[Björn] sprettur fram sem mjög fær höfundur í þessari bók … Maður getur fullyrt að hann á eftir að skrifa fleiri og betri bækur.“
Kolbrún tók í sama streng og sagði meðal annars:
„Það er svo margt undir yfirborðinu. Það eru brotnar fjölskyldur, það er grimmd og það eru glæpir, og stundum engir smáglæpir … Honum tekst vel að lýsa fólki. Það er margt þarna sem er dálítið sjokkerandi. Þetta virðist vera frekar kyrrt á yfirborðinu en svo koma svona lítil atvik … og maður allt í einu hrekkur við og hugsar: „Hvað er ég að lesa!?““
SMÆGLÆPIR VÆNTANLEGIR Í INNBUNDNU BROTI
Nú styttist í að önnur prentun af Smáglæpum skili sér úr prentsmiðju. Þessi nýja útgáfa bókarinnar verður í innbundnu broti. Hún er væntanleg í búðir í lok október en auk þess að vera í nýju broti verður eftirfarandi umsögn frá Úlfari Þormóðssyni rithöfundi prentuð á kápuna:
„Þetta er besta efni sem ég hef séð um langa hríð; Björn er lágstemmdur, tilgerðarlaus, málsnjall og hugmyndaríkur; kann að nota íslenskt mál.“
Þakka ég Úlfari kærlega fyrir hólið, sem mér þykir alveg ógurlega vænt um. Ég kem aftur til Íslands 4. des til að taka þátt í jólabókaflóðinu en eins og venjulega er hægt að hafa beint samband í gegnum netfangið bjornhalldorssonis@gmail.com.
ÚTGÁFUFÖGNUÐUR Í EYMUNDSSON AUSTURSTRÆTI
Núna á fimmtudaginn var blásið til mikillar uppskeruhátíðar í Eymundsson í Austurstræti til að fagna útgáfu Smáglæpa og Pínulítillar kenopsíu. Það var boðið upp á léttar veitingar og Harpa Rún Kristjánsdóttir sá um að kynna bækurnar fyrir hönd Sæmundar, en síðan lásum við Jóhanna María upp úr bókunum okkar. Ég vill þakka öllum sem sáu sér fært að mæta, og sérstaklega vill ég þakka Jóhanni A. Kristjánssyni, tengdaföður mínum, fyrir að taka þessar skemmtilegu myndir af gleðinni.
VIÐTAL Í SUNNUDAGSMOGGANUM
Í Sunnudagsmogga helgarinnar er að finna viðtal sem Árni Matt tók við mig. Viðtalið snertir á hinu og þessu en snýst aðallega um Smáglæpi og starfið sem liggur á bak við bókina. Viðtalið var ánægjuleg upplifun og er ég mjög sáttur við útkomuna en þarf þó að taka fram að ég hef aldrei útskrifast frá Háskóla Íslands né nokkurn tímann lagt stund á neitt nám þar. BA gráðan mín í enskum og amerískum bókmenntum er frá UEA, Háskóla East-Anglia héraðs í Norwich, Englandi. Það hefur eitthvað skolast til, en skiptir svosem ekki miklu máli.