Engin listamannalaun í ár, aftur, eins og ég var svo sem búinn að búa mig undir. Ætli ég og nefndin séum ekki bara sammála um að ég þurfi að fara að koma þessu blessaða handriti frá mér.
Skeytinu frá Rannís fylgdu allavegana mjög hvetjandi skilaboð (reyndar ekki nægilega vel prófarkarlesin) þar sem umsókninni var hælt og ég var hvattur til að sækja aftur um að ári. Það er ágætt að vera loksins farinn að fá einhverja smá svörun varðandi umsóknina sjálfa. Það hefur lengi verið kallað eftir því og Rannís verið gagnrýnt fyrir að gefa ekkert uppi um ástæður þess að fólk þarf að mæta í brauðraðirnar á komandi ári. Reyndar sé ég á samfélagsmiðlum marga sem eru sármóðgaðir og mótmæla rökum nefndarinnar fyrir að hafna umsókninni þeirra, og ég skil það vel. Það hlýtur að vera svekkelsi á svekkelsi ofan að vera neitað um laun og þurfa í leiðinni að hlusta á það að umsóknin manns eða maður sjálfur hafi bara ekki dugað til. Persónulega finnst mér betra að fá einhver svör en að eiga við andlitslaust báknið, og verð bara að vona að ég væri sama sinnis ef ég hefði fengið neikvæðari umsögn.
Eins og venjulega þá reyni ég að hugga mig við það kannski hafi vandamálið einmitt ekki verið að mín umsókn eða mín bók var ekki nógu góð, heldur frekar að það var bara svo mikið af öðru spennandi dóti sem aðrir voru að leggja fram. Þetta er auðvitað óttalegur Pollíönuleikur, en ég veit það að fólkið í þessum nefndum eru ekki neinir listhatandi blýantsnagarar, og að ef þau mættu ráða fengju efalaust allir og amma þeirra pening. Kerfið sjálft er bara svo hræðilega takmarkað, ekki bara launakerfið heldur bara allt sem snýr að útgáfu íslenskra bóka og afkomu höfunda, þrátt fyrir mikið og ötult starf margra sem er umhugað um að viðhalda íslenskum bókmenntum.
Það er erfitt að tala um listamannalaun, og þá sérstaklega um að hafa ekki fengið þau, án þess að fá yfir sig holskeflu af hjartaknús- og grátköllum, og jafnvel nokkra svona fokreiða yglibrúnakalla líka. Ég ætla samt bara að segja að mér er engin sérstök vorkunn í þessu samhengi. Ég hef nokkrum sinnum fengið ritlaun, jafnvel oftar en ýmsir höfundar sem fóru af stað á svipuðum tíma og ég og hafa á sama tímabili gefið út fleiri bækur og fengið meira umtal. Ef einhver þeirra er í ár loksins að uppskera fyrir alla sína vinnu þá samgleðst ég þeim innilega og fagna því.
Ég veit ekki afhverju mér hefur gengið betur við fiskeríið en mörgum í gegnum tíðina en hef þó lagt mig í líma við að bjóða fram hjálp við umsóknargerð og ráðleggja öðrum höfundum hvernig best sé að „selja sig“, þá sérstaklega þeim sem eru að sækja um í fyrsta sinn. Allar mínar ábendingar eru þó bornar fram undir þeim formerkjum að ég hafi ekki hugmynd um af hverju mínar umsóknir hafi stundum hlotið náð nefndarinnar.
Ég hef nefnilega aldrei upplifað mig neitt sérstaklega “í náðinni”, en kannski virkar það að vera í náðinni bara eins og flest önnur forréttindi; allir aðrir virðast sjá þau nema maður sjálfur. Í raun hefur mér alltaf fundist ég vera hálfgerður hornkarl í íslenskri bókmenntasenu, sem á sér þó fleiri horn en hundraðhliða Dungeons-n-Dragons teningur. Það byggist líklega á því að ég gekk aldrei í Háskóla Íslands heldur fór í einhverju ungæðingskasti beint til Englands í BA-nám, og síðan til Glasgow í ritlistarnám. Í bæði skiptin sem ég kom heim eftir þessi nám upplifði ég mig einstaklega umkomulausan og fyrir utan allar klíkur, og fannst stórskrítið hvernig öllum virtist standa á sama um þessa fínu og fokdýru menntun mína nema Lánasjóði íslenskra námsmanna, sem minnir mig enn þann dag í dag á hana í hverjum mánuði. Í seinni tíð hef ég þó byrjað að átta mig á því að flestir aðrir virðast á einn eða annan hátt upplifa sama óöryggið, að allir aðrir séu í klíkunni nema þau sjálf.
Síðan 2021, þegar mér var líka hafnað um listamannalaun, og var í raun alveg í rusli yfir því, með ekkert annað á dagskrá fyrir komandi ár og skattaskuld á bakinu fyrir ritlaunin sem ég hlaut árið áður, hef ég reynt hvað ég get að finna aðrar leiðir til að láta þetta allt saman ganga upp en að þurfa að treysta á ritlaunaúthlutun. Undanfarið ár hef ég verið í fullri vinnu og reynt að skrifa meðfram því, sem hefur án efa gert mig að afkastaminni höfundi, þótt að það sé alveg þess virði að reikna inn í dæmið alla þá orku sem fer í sligandi afkomukvíða þegar maður er á ritlaunum, og getur oft étið upp heilu dagana engu síður en að vera 100% launamaður annars staðar. Hvað þá umstangið sem fer í ýmiskonar bókhaldsstúss sem höfundar verða að finna út úr sjálfir eða borga endurskoðanda fyrir að taka að sér.
Litla leyndarmálið um ritlaunin er nefnilega þetta: Það er ekki hægt að lifa á þessu hvort eð er. Jafnvel þegar þú ert kominn í góða rútínu við koma út bókum sem gagnrýnendur hampa á tveggja ára fresti, þá veistu aldrei hvenær verður skrúfað fyrir kranann og lágmarks reiknaða endurgjaldið sem þú skráðir á þig í fyrra í von um að teygja sex mánuðina sem þér var úthlutað í þá tólf sem þú sóttir um kemur í hausinn á þér þegar þú ætlar að brúa bilið í næstu vinnu með atvinnuleysisbótum. Að maður tali ekki um ef þú þarft að sækja þér fæðingarorlof eða aðrar tekjutengdar tryggingar. Höfundar sem hafa hlotið hin íslensku bókmenntaverðlaun og eru lesnir vítt og breitt um heiminn geta alveg eins lent í því að vera synjað um launin sín og litlir fiskar sem eru að reyna að láta enda ná saman samhliða því að elta sína köllun. Hvort sem þú ert með bakland eður ei þá er þetta djobb mestmegnis bara fyrir fólk á barmi kulnunar sem kann að skrimta eða fólk sem er tilbúið að sætta sig við ritstörf sem hliðargigg eða hobbí. Ég hef verið í síðarnefnda hópnum undanfarin tvö ár eftir að hafa reynt í nokkur ár að viðhalda þeim þykjustuleik að 66% listamannaalaun í verktakagreiðslu sé það sama og full mánaðarlaun.
Kannski er málið bara að gefast upp á þeirri draumsýn að hægt sé að vera íslenskur rithöfundur í fullu starfi og tileinka sér meira af DIY-menningunni sem ég þekki úr hardcore og pönk senunni, þar sem eru engir peningar í spilinu. Mér sýnist margir höfundar nú þegar vera farnir að gera það, miðað við þá miklu sjálfsútgáfu sem við sjáum í ár. Hvort þessi þróun eigi eftir að skila sér í illa prófarkalesnum og hrútleiðinlegum bókum eða frjálsari, djarfari og meira spennandi bókmenntaflóru verður bara að koma í ljós, en ég hallast að hinu síðara. Síðan þarf bara að ala upp lesendur sem sjá (líkt og fólk sem hlustar á skrítna og ósöluvænlega öskurtónlist veit svo vel) að ef þeir vilja fá meira af góða stöffinu þá verða þeir að gjöra svo vel að styðja listafólkið sitt prívat og persónulega; mæta á upplestra og kaupa bækurnar, helst beint af höfundi með beinhörðum peningum sem hægt er að fela undan skatti, frekar en að hlusta á allan katalóginn á Storytel og vera foj yfir því að nýjasta bókin sé ekki enn dottin inn.
Jæja, þá er maður kominn hættulega langt inn á yfirráðasvæði hjartaknúsandi broskallanna. Í staðinn slæ ég út með mynd af ungum manni í mosspitti upp úr síðustu aldamótum, þegar það var alltaf hægt að finna áfengislausa tónleika sem maður komst inn á, allir voru vinir í pittinum (þótt sumir færu heim með glóðaraugu), og enginn fékk borgað neitt. Ekki fullkomið, en djöfull var þetta gaman.