Kveð hús Davíðs Stefánssonar með handrit sem er nokkrum köflum lengra en það var þegar ég mætti fyrir 7 dögum síðan. Dvölin hefur verið ljúf þótt það hafi verið erfitt að halda sig innandyra við tölvuskjáinn í veðurblíðunni, en amk var hægt að verðlauna sig í lok dags með því að fara út að hlaupa eða sóla sig í sundi – eða með því að drekka rauðvín á sófanum og horfa á Mike Leigh myndir. Bæði var gert í réttum hlutföllum.
Mættur að nýju norður í Davíðshús til að vinna í handriti sem ég hófst handa við hér undir þessum kjallaraglugga síðast í nóvember – eftir nokkur ár af því að hripa hluti niður í glósubækur (hvenær sem tími gafst) og hugsa um persónurnar og afdrif þeirra (hvenær sem ég hafði ekki eitthvað annað og meira ákallandi til að hugsa um). Þetta mjakast.
„Þannig hef ég reynt að bera fyrir mig að skrifin séu andsvar mitt við þeim áleitnu spurningum sem hvíla á okkur í dag, og að markmið mitt sem höfundur sé að sýna hvernig mannskepnan lifir og hrærist undir því álagi. Ég hef oft haft eftir orð George Orwell, sem sagði: „engin bók er í raun og veru laus við pólitíska slagsíðu.“ Gott og vel, hugsa ég, ég þarf þá ekki að hafa frekari áhyggjur af því.“
„Myndatökur hafa að einhverju leyti tapað hátíðleika sínum, núna þegar við erum umkringd myndavélum á alla kanta, og þær er að finna innbyggðar í ólíklegustu heimilistæki, en að sama skapi er líkt og myndavélarlinsan hafi breyst í enn eitt skynfæri sem við notum til að meðtaka heiminn og staðsetja okkur innan hans – skynfæri sem breytist í tjáningarfæri þegar við notum það til að miðla í gegnum samfélagsmiðla upplifun okkar á heiminum og okkur sjálfum.“
„En þannig er það líka með sögur Franz Kafka. Þær veita svo takmarkaða sýn af heimunum sem þær gerast í og persónunum sem þær hverfast um að lesandanum er frjálst að sjá í þeim nánast hvað sem hugurinn girnist og móta þær þannig að eigin túlkunum.“
„Mér skildist á foreldrum mínum að úr væri bara eitthvað sem þú þurftir að ganga með, ekki ósvipað húslyklinum sem hékk í ól um hálsinn á mér. Líkt og húslykillinn var úrið tákn um bæði fríðindi og ábyrgð; lykillinn gerði mér kleift að vera einn heima eftir skóla, og úrið veitti mér rétt til að fara út að leika eftir kvöldmat – með því skilyrði að ég fylgdist með klukkunni og kæmi heim á skikkanlegum tíma.“
„Að uppgötva að ég læsi ekki konur var í alla staði óskiljanlegt. Það var eins og að uppgötva að ég læsi ekki bækur sem væru með oddatölufjölda af blaðsíðum; fáránlegt skilyrði sem ég hafði enga hugmynd um og gat ekki gefið neina rökrétta ástæðu fyrir“
„Hvað gerist þá þegar rýmið til að halda hamingju og harmi í hjarta okkar, þetta tilfinningarými sem við hleypum eingöngu okkar nánustu inn í, tekur að skreppa saman, samhliða því að líf okkar fer að sístækkandi hluta fram á opinberum vettvangi?“
Ræddi við Hildi Knútsdóttur, Alexander Dan, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur og Sjón fyrir nýjasta hefti Iceland Review og fékk þau til að hjálpa mér að taka stöðuna á íslensku furðusagnasenunni, sögu hennar og framtíð.
Omnom-bréf eru í einkar þægilegri stærð til að halda utan um samastaðarbækur fyrir ólík verkefni.
Ég hef talað við höfunda sem segja að þeir kjósi helst að lesa ekki neitt á meðan þeir eru að vinna að bók af ótta við að textinn þeirra „smitist“. Sjálfum hefur mér alltaf fundist slík smit vera órjúfanlegur hluti af ferlinu. Allt sem þú skrifar á í eðli sínu í samtali við allt annað sem skrifað hefur verið (eða að minnsta kosti allt það sem lesandi þinn hefur lesið).
Það sem ég les leiðir mig líka áfram í því sem ég skrifa. Sama hvort ég er með ákveðið verkefni í huga eða ekki þá glósa ég alltaf á meðan ég les. Til þess nota ég svokallaða commonplace book – eða „samastaðarbók“. (John Locke skrifaði t.a.m. leiðbeiningabækling um þessa aðferðafræði.)
Þegar ég er að vinna að ákveðnu verki verð ég yfirleitt svo upptekinn af því að allt sem ég les virðist tengjast því á einn eða annan hátt. Samt reyni ég að setja til hliðar og safna saman atriðum sem endurvarpa þeim blæbrigðum eða tilfinningum sem ég vonast til að ná fram í mínum skrifum. Stundum vísa ég í þetta efni í textanum en aðallega nota ég það sem einskonar leiðarvísi. Þetta hjálpar mér að komast aftur af stað þegar mig rekur í strand; að finna réttu leiðina þegar ég er á villigötum.
Hér að neðan má sjá samastaðarbókin sem ég hélt á meðan ég vann að skáldsögunni Stol.