Eyðieyjulistinn

Ég er búinn að vera að hlusta voða mikið á Desert Island Discs undanfarið. Hérna eru mín níu lög. Hvað bókina varðar sem maður má taka með sér (fyrir utan Biblíuna og heildarverk Shakespeare sem manni er afhent þegar maður fer úr bátnum) þá myndi ég taka Cryptonomicon eftir Neal Stephenson, sem ég hef lesið svona sex sinnum og get vel séð fram á að lesa oftar.

Bréf frá Long Island: Koman til Bandaríkjanna

Ég fyrir utan kotið okkar í Stony Brook, Long Island
Ég fyrir utan kotið okkar í Stony Brook, Long Island

Þessi pistill um fyrstu vikurnar í Bandaríkjunum birtist upphaflega í Stundinni 4. nóvember 2016

Aðalgatan í Stony Brook
Aðalgatan í Stony Brook

Áður en ég fer í gegnum vegabréfsskoðunina er ég búinn að sjá tvær byssur og ótal fána, auk þess sem Obama sjálfur er búinn að bjóða mig persónulega velkominn í gegnum sjónvarpsskjá. Á öðrum skjá yggla forsetaframbjóðendurnir tveir sig hlið við hlið eins og MMA slagsmálahundar á leið í hringinn, sem er ekki endilega svo fráleitt þar sem fyrstu sjónvörpuðu framboðskappræðurnar eru annað kvöld. Ég er á nálum í vegabréfseftirlitinu, búinn að heyra ótal sögur af ættingjum og vinum vina sem var snúið við og þau send beint heim aftur með sömu vél af einhverjum óútskýrðum ástæðum. Passaðu þig. Vertu glaðlegur. Ekki vera taugaóstyrkur, þeir gætu haldið að þú hafir eitthvað að fela. Hefði ég átt að raka af mér skeggið? Þetta er mitt fyrsta skipti í Bandaríkjunum en ég er kirfilega dulbúinn í Carhartt-jakka og með Boston Red Socks-derhúfu, tilbúinn að svara öllum spurningum og kalla þá Sir ef þarf, en landamæralöggan, ungur maður af latnesku bergi brotinn með gleraugu, snyrtilega burstaklippingu og Glock-skammbyssu (byssa númer 3) á mjöðm sem virkar allt of stór á grannvöxnum líkamanum, er hinn rólegasti. Á nafnspjaldinu hans stendur Velez og hann spyr mig um nafn eiginkonunnar minnar sem er handhafi landvistarleyfis okkar hjóna, tekur fingraförin mín (í annað sinn á ævinni sem tekin hafa verið af mér fingraför, það fyrsta verandi í Bandaríska sendiráðinu fyrir um mánuði síðan) og býður mig velkominn til Bandaríkjanna.

Dádýr eru tíðir gestir og ramba stundum jafnvel inn í garðinn okkar
Dádýr eru tíðir gestir og ramba stundum jafnvel inn í garðinn okkar

Fyrsta klisjan sem blasir við er að það er allt stærra í Bandaríkjunum. Kaffibollarnir og ruslatunnurnar. Göturnar og gangstéttirnar, þar sem eru gangstéttir. Hitt sem er umsvifalaust augljóst er að þetta er bílamenning. Án bílsins ertu varla rétthærri en dádýrin sem við verðum reglulega vör við í skógarjaðrinum eða úti í kanti á hraðbrautinni: Eitthvert náttúruundur sem ber að dást að á meðan maður brunar framhjá en passa líka að sveigja vel í kringum þegar það birtist í vegaröxlinni, ef ske kynni að kvikindið skyldi skyndilega telja sig hluta af umferðinni. Fólk lætur bílinn sinn líka um að tala fyrir sig. Allir bílarnir hafa eitthvað að segja. Firefighter Inside stendur á hlið eins þeirra. Á mælaborðinu hvílir rauð derhúfa með alræmdu áletruninni Make America Great Again. Ég geng eftir bílastæðinu fyrir utan verslunarklasa í nágrenninu og les límmiðana á afturrúðunum. Hillary for Prison. Don’t Blame Me, I Voted for Ted Cruz. Neither One 2016.

Nágrannarnir
Nágrannarnir

Neðar í götunni okkar stendur eilítið sjúskuð rauð Honda sem bætir fyrir ytri slappleika með stórum og marglitum handmáluðum stöfum sem þekja alla bakrúðuna: BLUE LIVES OF ALL COLOR PROTECT US FROM BAD PEOPLE OF ALL COLOR. Það eru fánar alls staðar. Reglulega sé ég bíla með fánastöng festa á dráttarkúluna svo að hægt sé að láta fána í fullri stærð blakta í vindinum á meðan keyrt er í vinnuna. Sumir þessara fána eru einkennilegir. Útlínur fánans eru þessi sömu kunnuglegu form en fáninn er svartur með hvítum röndum og hvítum stjörnum, en þó er ein blá rönd þvert yfir fánann miðjann. Við nánari eftirgrennslan kemst ég að því að fáninn stendur fyrir Blue Lives Matter, sem mótvægi við Black Lives Matter-hreyfinguna, sem ég veit ekki til þess að sé komin með sinn eigin fána. Sumir fánarnir eru með rauðri rönd í stað blárrar. Það er fyrir Red Lives Matter, sem er víst slökkviliðið, sem mér er sagt að sé í guðatölu hér á Long Island fyrir hetjudáðir sínar þann 11. september 2001.

Fuglahræðukeppnin er árlegur viðburður í Stony Brook
Fuglahræðukeppnin er árlegur viðburður í Stony Brook

Kannski eru það bara yfirvofandi forsetakosningar en fólk virðist almennt vera vant að segja hvað því finnst og vera tilbúið að flagga sinni skoðun hvar sem er og við hvern sem er á opinskáan hátt sem ég er nánast eingöngu vanur að sjá í heitu pottunum heima – en meira að segja þar er fólk á varðbergi til að forðast að vera dregið inn í viðræður sem voru kannski ekkert endilega á dagskrá í þessari sundferð. Ég sit aftast í strætó og hlusta á bílstjórann, hvíthærðan og sólbrúnan mann á miðjum aldri með harðneskjulegann kjálkasvip, skeggræða Donald Trump við félaga sinn, feitlaginn svartan mann í fjólubláum íþróttagalla og með snyrtilegt vangaskegg, nógu hátt til að allur strætóinn fer ekki varhuga af því hvað hvorum þeirra finnst. All sérstakt fyrir okkur Íslendingana sem erum vön að lækka róminn þegar kemur að pólitík og tala hægar og skýrar í von um að ná yfirhöndinni með því að sýna fram á

Lögreglan nýtur mikillar virðingar á meðal íbúa Stony Brook, að því er virðist
Lögreglan nýtur mikillar virðingar á meðal íbúa Long Island

þroska frekar en ástríðu. „Málið með Trump er að hann er kannski í framboði fyrir íhaldsmenn en hann er ekki íhaldsmaður. Þá vantaði bara einhvern, voru búnir að mála sig út í horn. Íhaldsmenn eru ekki þrígiftir.“ Vinur hans hristir hausinn og vill meina að þetta sé nú ekki aðalvandamálið með Donald Trump. Þeim liggur vissulega hátt rómurinn og stendur ekki á sama um málefnið, en hitinn snýr að málefninu og ekki að hvor öðrum. Þetta er ekkert persónulegt. Reglulega geri ég mig kláran í að verða vitni að Bandaríkjunum sem ég hef séð á Youtube, þar sem fólk tekur æðisköst í Walmart eða reynir að neyða hvað annað út af þjóðveginum eða slæst á bílastæðum, en allir halda bara áfram að vera hjálsamir og kurteisir og forvitnir um okkur og hvaðan við erum. Allir eru til í að spjalla, hvar sem er og hvenær sem er, og allir þekkja einhvern sem er nýkominn frá Íslandi.

Höfundi er óljóst hver hlaut vinninginn í fuglahræðukeppninni í ár
Höfundi er óljóst hver hlaut vinninginn í fuglahræðukeppninni í ár

„Ég verð að fá að sýna ykkur myndaalbúmið mitt frá Íslandi!“ segir Kathy, leigusalinn okkar. Hún er gamall hippi. Elti Grateful Dead um gervöll Bandaríkin en átti ekki fyrir að sjá þá spila undir egypsku píramídunum eins og ríku krakkarnir sem hún þekkti í gamla daga. Hún segir okkur að hún sé enn ekki búin að fyrirgefa Jerry fyrir að deyja. „Þessir gaurar þurftu alltaf að taka svo mikið af eiturlyfjum,“ segir hún, með áfellistón í röddinni. Við erum í súpu hjá henni þar sem ekki enn er búið að tengja gaseldavélina í litla kotinu sem við erum að leigja í bakgarðinum hennar. Á veröndinni hjá Kathy hanga óróar sem gefa frá sér fallega tóna þegar vindurinn blæs, og baðherbergisveggirnir eru þakktir heilögum textum og hugleiðslum úr Biblíunni og annars staðar frá, prentað á marglitan pappír svo að þú getir setið og horft yfir vegginn og valið þér ritningu eftir lit til að stýra þér í dag. Hún spyr okkur aftur hvort það sé ekki rétt skilið hjá henni að við séum Lútherstrúar og við endurtökum aftur að við séum trúlaus. Við setjum okkur í stellingar fyrir Íslandsalbúmið en þegar það kemur er það eins og svo margt annað í Bandaríkjunum hingað til: allt öðruvísi en það sem fordómar okkar höfðu búið okkur undir. Albúmið er gömul mappa, með póstkortum, greinum og lausablöðum troðið inn á milli hér og þar, og er uppfullt af ljósmyndum af Íslandi eins og ég man varla eftir því. Í því er að finna alla helstu túristaáfangastaði þjóðvegarins á la 1985, auk sólríkra mynda af húsum og götum í Reykjavík frá sjónarhorni ferðamannsins. Myndir af ljóshærðum stallklipptum Íslendingum í grænum og appelsínugulum Svala-peysum að sóla sig. Það eina sem stendur alls óbreytt eru lopapeysurnar. Kathy er hjúkka og það eru myndir af Borgarspítalanum, þangað sem hún bauð sjálfri sér í heimsókn. Hjúkkur í hvítum göllum með stærðarinnar gleraugu að slaka á í kaffistofunni. Á nokkrum myndanna er gefin innsýn inn í fallega gamaldags íbúð í Teigunum sem þau heimsóttu, með tekkhúsgögnum og síðum flauelsgluggatjöldum, og Kathy lýsir hve hissa hún var að stíga inn í svona óspennandi raðhús og finna svona fína hefðarfrúríbúð. Það hefði verið ný upplifun fyrir hana.

img_2883
Póstkassar virðast (allavega fyrir utanaðkomandi augum) vera hálfgert stöðutákn fyrir marga íbúa Stony Brook

Við skoðum allar myndirnar ítarlega og reynum að tengja staðina en meira að segja alræmdustu túristastaðirnir dyljast okkur, og við erum ekki viss. Allt er svo bert allt í kring, engar sjoppur né rútur. Er svona stutt síðan? Kathy talar um að fara aftur og við hvetjum hana til þess en vörum líka við að margt hafi breyst. Að lokum þökkum við henni fyrir súpuna og myndirnar og löbbum niður í kot. Það er niðamyrkur úti og engin götulýsing og við þurfum að nota ljósin á símunum til að halda nóttinni í skefjum. Stjörnurnar blasa við á himninum. Sumar þeirra sveima um og ég spennist allur upp og held að ég sé að sjá eldflugur í fyrsta sinn á ævinni en átta mig svo á að þetta eru þyrlur í fjarska. Krybburnar sífra allt í kringum okkur með nátthljóðin sín sem ég þekki svo vel úr bíómyndum að mér finnst þær ennþá hljóma gervilega. Þegar við komum í kotið uppgötvum við að einni krybbu hefur tekist að laumast inn og eitthvert inn í vegginn. Við heyrum í henni þar sem við liggjum undir íslensku dúnsænginni sem ég tróð með í töskuna. Hljóðið er svolítið eins og einhver hafi sofnað með dómaraflautu upp í sér, hringlar fram og til baka. Hún virkar svo alein hérna inni hjá okkur, með allan kórinn úti í grasinu að söngla saman, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tekst mér ekki að tæla hana út úr veggnum og henda henni út. Við sofnum seint og um síðar, vör um okkur í öllum nýju næturhljóðunum á Long Island.

 

Græna hjólið (minningargrein)

græna hjólið

Eftirfarandi pistill birtist fyrst í mars hefti Stundarinnar 2016 (6. tbl. 2. árg.)

Ég fékk græna hjólið í gegnum félaga minn. Það var víst búið að ílengjast mánuðum saman í vinnunni hjá honum. Einhver hafði fundið það úti og ætlað að gera það upp en svo varð aldrei neitt úr því. Þegar ég fékk það í hendurnar var það ein ryðhrúga, með stráum föstum í teinunum. Ég dröslaði því heim með mér, heim til mömmu. Þetta var stuttu eftir að ég var aftur fluttur heim til Íslands og annað hvort stuttu fyrir eða stuttu eftir að faðir minn dó. Maður myndi ætla að ég myndi muna hvort en dauðinn á það til að rugla tíma og minningar saman í einn bing sem ekki er svo auðvelt að greiða úr. Ég veit að ég bjó heima hjá mömmu þá, peningalaus og stefnulaus. Ég laumaðist með hjólið inn í geymsluna á sameigninni, sem ég var búinn að eigna mér lykilinn að. Faldi það þar þar til einhvern tímann.

Ég tók það ekki aftur út fyrr en ári seinna. Þá átti ég íbúð og kærustu, konu sem ég átti auðvelt með að sjá sjálfan mig eyða restinni af ævinni með. Við smullum svo vel saman, með sömu áherslur á hvað væri mikilvægt. Hlutir eins og morgunkaffi og lestrarstund. Sundferðir og vínilplötur. Mér fannst hún skemmtileg bæði í og úr glasi, sem var nýtt fyrir mér.

Snemma sumars dröslaði ég græna hjólinu heim í nýju íbúðina. Reiddi það á loftlausum dekkjum alla leiðina frá mömmu þar sem ég vildi ekki setja ryðbletti í sætin í bílnum (bílnum hennar mömmu). Nýja íbúðin mín, sú fyrsta sem ég átti frekar en leigði, var með útidyrahurð. Ég býst við að allar íbúðir séu með útidyrahurð en þessi var alvöru. Hún opnaðist út í garð. Ég hafði ekki átt svoleiðis útidyrahurð síðan ég var lítill og við bjuggum enn í Mosó. Þessa sumardaga sat ég oftar en ekki á tröppunum í sólinni og pússaði og pússaði ryðgað krómið og blettótt stellið. Ég tók hjólið allt í sundur og setti það aftur saman nokkrum sinnum í tilraunum mínum til að koma því í stand. Smurði keðjuna og tókst almennt að gera sjálfan mig grútskítugann í alla staði. Ég hafði mjög takmarkaða reynslu af hjólaviðgerðum og þurfti því oft að endurtaka hlutina, feta mig til baka og byrja upp á nýtt. Á endanum tókst mér að tjasla því öllu saman í ásættanlegt form og meira að segja tengja bæði gírana og bremsurnar svo að bæði virkuðu (þó eilítið eftir eigin hentugleika).

Ég gaf kærustunni minni hjólið og hún var himinlifandi þrátt fyrir að vera óvön hrútastýrinu og hálf hrædd um að fljúga fram fyrir sig þegar hún hemlaði. En þótt ég væri búinn að gefa henni hjólið, og ætti sjálfur mitt eigið hrútastýrishjól, silfraðann franskan Peugeot sem vinur minn hafði skilið eftir í bílskúrnum hjá foreldrum sínum áður en hann flutti til Bandaríkjanna, stóðst ég ekki mátið að stelast reglulega út í hjólatúra á græna hjólinu. Það var reyndar eiginlega of lítið fyrir mig og gaf mér furðulegar harðsperrur í hnésbæturnar og lét mig líta út eins og bjarndýr í sirkús sem neytt hefur verið til þess að læra að hjóla.

Fróunin sem fylgdi því að hjóla um nýja hverfið mitt á hjóli sem ég hafði lagað til og bjargað frá glötun upp á eigin spýtur var ólýsanleg. Það hefði mátt halda að ég hefði sjálfur grafið járnið úr jörðu, brætt það saman í stálið og soðið saman í stellið, krómað stýrið og þrætt teinanna, ræktað gúmmítrén fyrir hjólbarðana, skotið kúna og sútað leðrið í hnakkinn.

Í raun á ég voða lítinn þátt í tilkomu og tilvist græna hjólsins. Það stoppar ekki svo lengi hjá mér, býst ég við, og ekki veit ég hvar það endar þegar ég er búinn með það. Sögur okkar beggja lágu þó saman á alveg einstaklega merkilegum tíma í mínu lífi. Ég er búinn að geyma svolítið af mér í græna hjólinu. Smá skerf sem er svolítið þungt að rogast með alla daga, svo ég geymi hann þar. Í hjólinu. Tek það fram þegar mér þóknast og fer í hjólatúr meðfram Sæbrautinni. Það er voða gott að geta geymt eitthvað af sér í hlutunum sínum þótt að maður vilji kannski ekki dreifa sjálfum sér of víða, og maður verði að vita hvenær tímabært er að sleppa haldi á hlutunum og leifa þeim að halda áfram með sína sögu.

Fólk segir að þau sem fara frá okkur lifi í minningunum og það er alveg satt, en við getum ekki rogast með minningarnar með okkur alla daga. Getum ekki alltaf tekið þær með í vinnuna og í sund og á kaffihús eða á barinn. Svo við geymum þær í því sem hendi er næst: í hlutunum þeirra. Hlutunum okkar. Í lítilli steinvölu eða gömlum hatti. Í gamalli hrærivél eða slitnu eintaki af Laxness með nafni og ártali hripuðu á titilsíðuna. Í ljósmyndum og lopapeysum. Sófaborðum og hægindastólum. Þannig pössum við upp á minningarnar. Við bindum þær fastar við eitthvað utan við okkur og ríghöldum síðan í það. Við hugsum um fólkið sem er okkur kærast og sem við fáum aldrei að hitta aftur þegar við búum til kaffi með kaffikönnunni þeirra, sitjum við skrifborðið þeirra, spilum plöturnar þeirra og vefjum teppunum þeirra utan um okkur. Við pössum að hlutirnir þeirra skemmist ekki og týnist ekki, og að þegar við þurfum að láta þá frá okkur lendi þeir hjá einhverjum sem veit hver átti þá fyrst. Fólk lifir áfram í minningunum okkar en það lifir líka áfram í hlutunum sem það skilur eftir í okkar fórum. Þegar við förum þá verða hlutirnir okkar eftir hjá þeim sem okkur þykir vænst um.

Og þá er komið að íþróttum: Hver er Keyser Söze?

Liberation_20160413_Paris-1_QUO_012Ég var í viðtali í franska blaðinu Liberation núna um daginn. VIðtalið var hluti af úttekt blaðsins á ástandinu á Íslandi á umrótatímum aprílmánaðar sem að nú virðast vera að falla í gleymsku. Þó að viðtalið væri stutt fór það um víðan völl. Ætlun þess var að taka púlsinn á nokkrum Íslendingum á ólíkum aldri og í ólíkum starfsstéttum um líðandi stund og þá sérstaklega um afhjúpun Panama skjalanna, mótmælin í kjölfarið og afsögn Sigmundar Davíðs, forsætisráðherra. Ég neyddist til að viðurkenna í viðtalinu að þrátt fyrir að hafa tekið þátt í mótmælunum þá væri ég yfir höfuð ekkert sérstaklega pólitískt þenkjandi, þó að ég væri núna að reyna að bæta úr því þar sem ég sæi það sem borgaralega skyldu mína að hugsa um þessi mál, mynda mér ígrundaða skoðun og taka afstöðu og ekki bara á umrótatímum þegar hlutirnir eru spennandi heldur líka þegar ekkert er að gerast og ræðurnar á Alþingi eru drepleiðinlegar.

Í viðtalinu tek ég samt fram að í einfeldni minni sem pólitískur amatör læt ég mig aðallega dreyma um stjórnmálafólk sem hægt er að treysta til að standa við orð sín, er stýrt af siðferðiskennd og eru nógu sterk á velli sem einstaklingar til að kjósa eftir eigin sannfæringu, frekar en flokksins. Draumsýn mín er að inni á Alþingi sitji upp til hópa hugsjónamanneskjur sem eru þarna saman komnar til að reyna að mynda úrlausnir sem eru þjóðinni í heild í vil en ekki þeirra hagsmunaaðila sem flokkurinn þjónar. Án þess að ég geti endilega boðið upp á aðrar úrlausnir, þá sýnist mér að flokkakerfið sé að mörgu leyti meingallað fyrirbæri. Það hefur myndað á Alþingi stemmningu sem svipar meira til íþróttamóts en umræðu, þar sem öll liðin eru að keppa á móti hvor öðru og hver sá sem vinnur áskilur sér réttinn til að hlusta ekki á hin liðin eftir að á vinningspallinn er stigið. Við ætlumst til mikils af stjórnmálafólkinu okkar og því miður hefur það margt hvert ekki staðið undir væntingum undanfarið, en það sem er einna verst að mínu mati er það samskiptaleysi sem virðist vera orðið hluti af flokkamyndunum á Íslandi og endurspeglast í umræðunni í samfélaginu. Ákvarðanir  flokkanna virðast oft vera gagngert til þess fallnar að þóknast litlum en valdamiklum minnihlutahópum frekar en að vera ætlað að koma á sátt á milli ólíkra þjóðfélagshópa og taka ákvarðanir sem eru þjóðinni allri í hag. Þannig líta hlutirnir allavega út fyrir mér í dag, 32 ára bóksalanum og rithöfundinum með kaffibollann. Örugglega má afskrifa allt sem ég segi sem hreinann og klárann naívisma, en við því get ég bara borið þær varnir að ég er bara nýbyrjaður að reyna að vera pólitískt þenkjandi.

Í gæðaræmunni The Usual Suspects frá tíunda áratug síðustu aldar segir Verbal Kint (leikinn af Kevin Spacey) að stórkostlegasta afrek djöfulsins hafi verið að sannfæra heiminn um að hann væri ekki til. Stundum grunar mig að stórkostlegasta afrek pólitíkusa sem vilja nýta sér kerfið okkar í eigin þágu sé að þeim hefur tekist að sannfæra fólk eins og mig um að pólitík sé leiðinlegt og þreytugjarnt umræðuefni. Þannig látum við þau um það að stýra landinu, fegin að það séu ekki við í ræðupúltinu. Það gengur ekki lengur. Hinn meinlausi Verbal Kint reyndist síðan vera (spoilers) Keyser Söze sjálfur, svo guð má vita hvað leynist í alvöru á bak við ræðupúltið.

Húsbruni á tuttugustu og fyrstu öldinni

Þessi pistill var upphaflega birtur á Stundin.is þann 10. mars 2016

bruniÁ horninu á Hverfisgötu verður mér starsýnt upp Snorrabrautina. Það liggur þykk þoka yfir götunni og götuljósin hanga í lausu lofti eins og fljúgandi furðuhlutir. Þokan mött eins og Instagram filter. Í andartak handfjatla ég símann og hugsa mér að taka mynd en ég á bara 1% eftir af batteríinu og er að hlusta á hlaðvarpsþátt sem ég er að vonast til að dugi mér alla leiðina heim. Ég hristi af mér störuna og lít niður til sjós. Þar er engin þoka. Það er brunalykt í loftinu. Ég legg af stað upp Snorrabrautina þó að það sé ekki í leiðinni heim. Fyrr en varir eru blá ljós að blikka og sírenur að væla. Skuggamyndir af fólki í gluggunum að skima eftir upptökum þokunnar sem er nú augljóslega þéttur reykur sem svíður í augu.

Við gömlu Bíóborgina stoppa ég, tek upp símann og slekk á airplane mode sem ég hafði kveikt á til að láta hlaðvarpið merja það alla leið heim. Hlaðvarpið malar enn í eyrum mínum með sírenurnar í bakgrunni og ég slekk á því líka. Gatan flöktir öll í bláu ljósunum á löggu- og sjúkrabílunum. Það standa logar upp úr þakinu á vöruskemmunni í portinu á milli Snorrabrautar og Rauðarárstígs. Ég passa mig að vera ekki fyrir neinum, kveiki á SnapChat og tek upp nokkurra sekúndu myndskeið af gulu eldtungunum og flöktandi bláu ljósunum sem endurkastast af blautri götunni. „Eldur á Grettisgötu“ skrifa ég og sendi í My Story og á nokkra aðra vini sem ég skiptist reglulega á myndskeiðum við. Það er ekki svo mikið að sjá og mér líður hálf vandræðalega þarna á horninu, sérstaklega þegar tveir menn stíga út úr hvítum skutbíl sem er augljóslega einhverskonar óeinkennisklæddur eitthvað, opna skottið og byrja að tosa á sig gula og bláa galla með endurskynsmerkjum með þjálfuðum handatökum þeirra sem eiga sér alvöru erindi við eldsvoða.

Ég sting símanum aftur inn á mig og labba til baka niður Snorrabrautina og fyrir hornið inn á Laugaveg. Hér er enginn reykur og fólk að reykja sígarettur úti á gangstétt og borða samlokur í glugganum á 10-11. Í Víetnömsku búðinni á móti Hlemmi eru tvær konur að tala saman og þrífa eftir lokun og ég stilli mig um að banka á glerið og segja þeim hvað sé í gangi hinum megin við húsið þótt þær séu augljóslega ekki í neinni hættu. Á Rauðarárstíg bíð ég á rauðu ljósi á meðan umferðin silast framhjá, fólkið í bílunum að líta aftur fyrir sig og í fullum samræðum um eldsvoðann. Ég feta mig til baka að eldsvoðanum og stoppa hinum megin við götuna frá kösinni af bláum ljósum og fólki í gulum göllum. Það eru komnir tveir slökkviliðsbílar, að ég sjái. Sjúkrabíll kemur á fullu upp kantinn og ég hörfa að blómapottunum fyrir utan Utanríkisráðuneytið þó að bílinn stoppi langt í burtu frá mér. Tveir menn í viðbót í gulum göllum stökkva út úr bílnum og bæta sér í þvöguna. Slökkviliðsmaður skrúfar frá brunahana með stórum skiptilykli, athöfn sem ég hef aldrei séð áður og lítur svolítið út eins og verið sé að trekkja upp götuna. Gildar brunaslöngur liggja þvers og kruss.

Ég tek upp símann og smelli af nokkrum myndum. Reykur kúgast í bylgjum út undan þakskegginu á gamla vöruhúsinu en það eina sem sést á myndunum eru blá ljós og gulur bjarmi á bak við reykinn. Það er fleira fólk í kringum mig. Aðallega túristar í hlífðarfatnaði sem eru þó flest hinu megin götunnar. Kannski af því að blá ljós þýða ekki meira fyrir þeim en afgirtu slóðarnir í kringum Gullfoss en þó líklegast af því að þau eru öll að gista á Fosshótel Lind hinu megin við götuna. Mín megin er bara einn Íslendingur að reykja og mig langar mest að nýta þessa sameiginlegu upplifun okkar til að sníkja af honum sígarettu. Að fá sér sígarettu virkar eins og akkúrat það sem maður á að vera að gera á meðan maður horfir á húsbruna.

Eftir að hafa horft í dágóða stund sný ég mér við og held heim á leið. Síminn er ennþá í höndinni á mér og ég reyni að vera fyrstur með fréttirnar og senda kærustunni minni Facebook skilaboð. „Það er rosa bruni á…“ skrifa ég en þá klárast batteríið og skjárinn verður svartur. Ég labba heim hlaðvarpslaus. Heima kíki ég á fréttasíðurnar, á DV og Vísi, og kemst að því að í vöruhúsinu er rekið réttingaverkstæði en þar er líka að finna listamannastúdíó og lítinn líkamsræktarsal. Eldurinn er víst töluvert meiri en slökkviliðið fæst við dags daglega og fjórir dælubílar eru komnir á vettvang. Slökkvuliðstjórinn ráðleggur íbúum í kring að loka gluggum og hækka í ofnum til að halda reyknum úti, sem er ný eðlisfræði fyrir mér og ég legg það á minnið sem þjóðráð til að halda reyk úti ef ég þarf einhverntíman á því að halda. Það er ný nektamynd af Kim Kardashian á DV og ég klikka á fréttina, ef frétt mætti kalla, hálf ómeðvitað. Hún setti myndina sjálf á Instagram og fólk er víst sjokkerað yfir því að ekkert sjáist á henni einungis þrettán vikum eftir að hún eignaðist soninn Saint með eiginmanni sínum, Kanye West. Sumir eru voða glaðir fyrir hennar hönd, aðrir ósáttir. Líklega yfir því að hún sé að monta sig svona. Ég loka glugganum og sé umsvifalaust eftir klikkinu, að hafa gefið þessu hégómaslúðri atkvæði mitt. Það verður víst ekki aftur tekið. Eldsvoðinn er farinn að berast í tal í tístunum á Twitter, með emojis af eldglærum, myndum af vettvangi og stöku bröndurum. Ég hendi einni af myndunum sem ég tók inn í hringrásina. Segi ekkert hnyttið svosem. Bara „Úff!“. Læt það nægja en fæ engin læk, enda bara með 51 fylgjendur.

Daginn eftir les ég ávítanir Lögreglunnar til vegfarenda sem komu á vettvang og virtu lokanir að vettugi og trufluðu störf björgunaraðila. „Slíkt er með öllu ólíðandi og raunar skammarlegt“ segir, réttilega, á heimasíðu Lögreglunnar. Ég vona innilega að ekki sé verið að tala um mig. Ég hélt mig nú allan tíman hinu megin götunnar og passaði eftir fremsta megni að vera ekki fyrir neinum, þótt ég hafi reyndar kannski smellt af nokkrum myndum, tístað smá og hent einhverju á SnapChat og Facebook. Það er ekki laust við að ég skammist mín svolítið en á erfitt með að koma auga á hvar nákvæmlega ég missteig mig. Ég legg frá mér símann og velti fyrir mér: „Hver nákvæmlega ætli séu réttu viðbrögðin við húsbruna á tuttugustu og fyrstu öldinni?“

Annar sentimeter í höfundaeintakabunkann (4,6 cm allt í allt)

Ég vill þakka kærlega fyrir að hafa fengið að vera með í útgáfunni á Skíðblaðni fyrsta og Skíðblaðni öðrum á mánudagskvöldið, þar sem safnað var í prentformi þeim sögum sem kFullSizeRenderomið hafa út hjá Skíðblaðni síðasta árið.

Skíðblaðnir er nettímarit (og nú líka prenttímarit) gefið út af Tunglinu sem sérhæfir sig í smásögum. Svo ótrúlega fallegar bækur og flott framtak hjá þeim Sverri, Degi og Ragnari.

Gaman að loksins er að myndast einhver vettvangur að ráði á Íslandi þar sem fólk getur prufað sig áfram með smásagnaformið opinberlega og þannig þróað og styrkt ritstíl sinn í stuttum skrefum í samvinnu við aðra höfunda og lesendur. Hvet alla sem luma á smásögum, hvort sem þið eruð tilbúin til að kalla ykkur rithöfunda eða ekki, til að senda þeim línu á tunglidforlag@gmail.com og freista þess að koma sögunum ykkar í útgáfu. Það er svo miklu betra að gefa smásögur út frekar en að pukrast með þær ofan í skúffum eða í möppum á tölvunni dulbúnum með boring titlum eins og “sumarfrísplön 2013” eða “djok”. Betra bara að reyna að fá þetta birt einhverstaðar í staðinn fyrir að dunda sér við að færa kommur til og frá og skipta á nútíð og þátíð árum saman.

Allt faglegt umstang þessarar útgáfu, hvort sem var á netinu eða í prenti, var algerlega til fyrirmyndar en einnig var yfirlesturinn og uppástungurnar sem ég fékk frá þeim á meðan á ritstjórnarferlinu stóð ómetanlegt og hafði veruleg áhrif á loka mynd sögunnar. Takk fyrir mig.

Nokkur orð um spéhræðslu

authpicwaterÞað tók mig mjög langan tíma að viðurkenna það fyrir sjálfum mér og öðrum að mig langaði að verða rithöfundur þegar ég yrði stór. Enn í dag, ef einhver spyr mig hvað ég geri, þá segist ég yfirleitt vera bóksali. Stundum, ef sólin er björt og ég er ánægður með eitthvað sem ég hef nýlega afrekað segi ég „rithöfundur“, fullur stolti, en á síðan erfitt með að fylgja því ekki eftir með „…eða eitthvað svoleiðis.“

Rithöfundur er svo hrikalega stórt orð. Mun stærra en skáld eða textasmiður eða bóksali. Helst af öllu myndi ég vilja taka á mig einhverskonar nýyrði, sem gæti kannski verið skrifari. Einhver sem skrifar og skrifar án þess að þurfa nokkurn tíman að gefa eitthvað út og standa berskjaldaður fyrir framan lesendur, sem eru fullfærir um að rífa rithöfundinn á hol þar sem hann reynir að fela sig á bak við orðin. Þessi spéhræðsla mín útskýrir kannski af hverju það var svo nauðsynlegt fyrir mig að taka mín fyrstu skref í sagnagerð erlendis, í algleymi enskrar tungu.

Fyrsta sagan mín, það er að segja fyrsti textinn sem ég skrifaði af fullri alvöru og ekki undir því yfirskyni að ég væri „bara eitthvað að fíflast“, var stutt saga á ensku um strák sem læðist út um nótt og hjólar þvert yfir bæinn í eyðilegt verksmiðjuhverfi til að kveikja þar í bíl með flöskusprengju í tilraun til að framkvæma einhverskonar sjálfskapaða manndómsathöfn.

Sagan var svosem ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þó að hér að ofan hafi ég reynt að draga fram táknmyndir og túlkanir hennar er ég nokkuð viss um að lesendum hefðu annaðhvort verið allar slíkar tilfæringar algerlega duldar eða fundist þær allt of augljósar. En þessi saga var engu að síður fyrsta atlaga mín til þess að reyna eitthvað fyrir mér í textagerð af fullri alvöru. Ég efast um að ég hefði verið fær um slíkt hefði ég ekki verið umvafinn hinu blessunarlega nafnleysi milljónasamfélagsins, langt í burtu frá heimabænum þar sem allir vissu hver maður var og allir vissu hverra manna maður var.

Þessi firra, að allir heima væru að bíða með öndina í hálsinum eftir því að lesa einhvern tvítugan menntskæling úr Mosfellssveit hlýtur að falla einhvers staðar mitt á milli mikilmennskubrjálæðis og lágs sjálfsálits. Engu að síður var það mikill léttir að geta loksins skrifað í friði án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að einhver heima væri að lesa mann.

Þetta frelsi gaf mikið af sér, tíma til að prufa fyrir sér í allar mögulegar áttir og þreifa á hinum ýmsu stefnum og innblástrum. Það var hægt að klæmast og grínast og henda fram sleggjudómum um allt og alla án þess að óttast neinar afleiðingar. Auk þessa var enskan svo mikið undanskots tungumál að hægt var að afbaka hana eins og maður vildi, svo lengi sem maður passaði vel upp á rauðu og grænu línurnar í Word skjalinu sem sögðu til um hvort allt væri hér með felldu.

Frelsið var yndislegt og ég gerði það sem ég vildi, en á endanum komst ég að því að það var eitthvað sem vantaði, einhver kjarni gerði það að verkum að umhverfin mín og persónurnar virtust ætíð vera á milli þessa heims og annars. Bresku göturnar sem ég skrifaði um, nefndar lávarðslegum nöfnum eins og Haversham Street og Mansfield Avenue (sem ég uppgötvaði seinna að ég hafði ómeðvitað stolið nánast öllum úr ritverkum Jane Austen) voru þegar betur var að gáð augljóslega Hverfisgata og Framnesvegur. Fólkið talaði bjagaða ensku mitt á milli bandarískunnar sem hafði gegnsýrt mig í sjónvarpsglápi barnæsku minnar og bresku enskunnar sem ég hafði lært í háskóla og af því að horfa á Inspector Morse þætti með afa og ömmu, og þær hétu allar látlausum nöfnum eins og John, Frank og Annie og þær drukku allar te.

Þessar staðleysur í sögunum mínum, fastar á milli þriggja landa, gerðu stílinn minn vissulega sérstakann, og jafnvel eftirtektarverðann, en það var engu að síður erfitt fyrir lesendur að bera traust til höfundarraddar sem vissi vart hvar hún var stödd þar sem hún hoppaði á milli landa, úr einni málsgrein í aðra. Traust er nefnilega alveg eins og öll önnur tifinningabákn. Það verður að ganga í báðar áttir. Það var ekki fyrr en ég var farinn að treysta lesendum að ég gat sagt þeim hvar allar mínar sögur ættu sinn uppruna, á íslenskum strætum og í íslenskum kjallaraíbúðum og úthverfum. Það var ekki fyrr en ég fór að treysta lesendunum til þess að rífa mig ekki á hol að þeir fóru að treysta mér.

Einn af leiðbeinendunum mínum sagði mér eitt sinn að fyrstu sögurnar manns væru ætíð byggðar á því sem búið væri að gerast; að næsta holl væri um það sem væri að gerast og það væri í raun ekki fyrr en í þriðja holli sem þú getur farið að skrifa um hvað sem þú vilt. Stundum finnst mér líkt og að ég hafi í angist minni og flótta hoppað beint í þriðja farið til að forðast það að þurfa að standa berskjaldaður fyrir framan íslenska lesandann, sem ég var alltaf viss um að gæti séð beint í gegnum mig á augabragði. Í seinni tíð hef ég orðið sannfærður um það að slík eldskírn sé nauðsynleg, og hluti af tilraunum mínum til að gangast við henni er þessi heimasíða, ásamt því að berjast við að temja aftur íslenska skrifmálið mitt sem hefur setið og ryðgað í skápnum öll þau ár sem ég hef verið í víking. Ég bið því lesandann auðmjúklega um að dæma mig ekki of harkalega, og ekki of greitt, og gefa mér tíð og tíma til að feta mig aftur heim.