„Myndatökur hafa að einhverju leyti tapað hátíðleika sínum, núna þegar við erum umkringd myndavélum á alla kanta, og þær er að finna innbyggðar í ólíklegustu heimilistæki, en að sama skapi er líkt og myndavélarlinsan hafi breyst í enn eitt skynfæri sem við notum til að meðtaka heiminn og staðsetja okkur innan hans – skynfæri sem breytist í tjáningarfæri þegar við notum það til að miðla í gegnum samfélagsmiðla upplifun okkar á heiminum og okkur sjálfum.“
„En þannig er það líka með sögur Franz Kafka. Þær veita svo takmarkaða sýn af heimunum sem þær gerast í og persónunum sem þær hverfast um að lesandanum er frjálst að sjá í þeim nánast hvað sem hugurinn girnist og móta þær þannig að eigin túlkunum.“
„Mér skildist á foreldrum mínum að úr væri bara eitthvað sem þú þurftir að ganga með, ekki ósvipað húslyklinum sem hékk í ól um hálsinn á mér. Líkt og húslykillinn var úrið tákn um bæði fríðindi og ábyrgð; lykillinn gerði mér kleift að vera einn heima eftir skóla, og úrið veitti mér rétt til að fara út að leika eftir kvöldmat – með því skilyrði að ég fylgdist með klukkunni og kæmi heim á skikkanlegum tíma.“
„Að uppgötva að ég læsi ekki konur var í alla staði óskiljanlegt. Það var eins og að uppgötva að ég læsi ekki bækur sem væru með oddatölufjölda af blaðsíðum; fáránlegt skilyrði sem ég hafði enga hugmynd um og gat ekki gefið neina rökrétta ástæðu fyrir“
„Hvað gerist þá þegar rýmið til að halda hamingju og harmi í hjarta okkar, þetta tilfinningarými sem við hleypum eingöngu okkar nánustu inn í, tekur að skreppa saman, samhliða því að líf okkar fer að sístækkandi hluta fram á opinberum vettvangi?“
Ræddi við Hildi Knútsdóttur, Alexander Dan, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur og Sjón fyrir nýjasta hefti Iceland Review og fékk þau til að hjálpa mér að taka stöðuna á íslensku furðusagnasenunni, sögu hennar og framtíð.
Omnom-bréf eru í einkar þægilegri stærð til að halda utan um samastaðarbækur fyrir ólík verkefni.
Ég hef talað við höfunda sem segja að þeir kjósi helst að lesa ekki neitt á meðan þeir eru að vinna að bók af ótta við að textinn þeirra „smitist“. Sjálfum hefur mér alltaf fundist slík smit vera órjúfanlegur hluti af ferlinu. Allt sem þú skrifar á í eðli sínu í samtali við allt annað sem skrifað hefur verið (eða að minnsta kosti allt það sem lesandi þinn hefur lesið).
Það sem ég les leiðir mig líka áfram í því sem ég skrifa. Sama hvort ég er með ákveðið verkefni í huga eða ekki þá glósa ég alltaf á meðan ég les. Til þess nota ég svokallaða commonplace book – eða „samastaðarbók“. (John Locke skrifaði t.a.m. leiðbeiningabækling um þessa aðferðafræði.)
Þegar ég er að vinna að ákveðnu verki verð ég yfirleitt svo upptekinn af því að allt sem ég les virðist tengjast því á einn eða annan hátt. Samt reyni ég að setja til hliðar og safna saman atriðum sem endurvarpa þeim blæbrigðum eða tilfinningum sem ég vonast til að ná fram í mínum skrifum. Stundum vísa ég í þetta efni í textanum en aðallega nota ég það sem einskonar leiðarvísi. Þetta hjálpar mér að komast aftur af stað þegar mig rekur í strand; að finna réttu leiðina þegar ég er á villigötum.
Hér að neðan má sjá samastaðarbókin sem ég hélt á meðan ég vann að skáldsögunni Stol.
Í morgun, á
leiðinni á skrifstofuna mína í Borgartúninu, datt mér svolítið fyndið í hug. Það
skiptir ekki máli hvað það var. Bara einhver spaugileg athugasemd um daginn og
veginn; eitthvað sem gladdi mig í hversdeginum.
Eins og ég á til þá
tók ég upp símann og hripaði niður tíst til að deila hugskotinu með því
snefilmagni þjóðarsálarinnar sem fyrirfinnst á Twitter. Þar er ég með prófíl
með huggulegri mynd af sjálfum mér og set oft inn eitt og annað sem mér þykir hnyttið,
deili tónlistinni sem ég er að hlusta á hverju sinni og svo framvegis.
Ég hef ekki farið
leynt með ástæður þess að ég byrjaði á forritinu. Ég, eins og margir í skapandi
geiranum, hef gengist við þeirri hugmyndafræði að það sé mikilvægt að vera
„sýnilegur“ á netinu, í von um aukna möguleika á að lifa á list minni (þótt ég
velti oft fyrir mér hvort öllum tímanum sem fer í að viðhalda þessum sýnileika væri
ekki betur varið í listsköpunina sjálfa). Vera mín á þessum samfélagsmiðli
hefur frá byrjun verið stýrt af mínum eigin hagsmunum. Ég geri mér grillur um
að með því að vera „virkur“ þarna og annars staðar á netinu séu auknar líkur á
að fólk veiti því eftirtekt sem ég er að gera, lesi greinarnar mínar og kaupi
jafnvel bækurnar mínar eða mæti að minnsta kosti á bókmenntaviðburði þar sem ég
les úr þeim.
Þar sem ég stóð í
Borgartúninu, við það að senda enn eina sniðuga og umfram allt meinlausa athugasemd
út í ljósvakann, mundi ég að í dag ætla íslensk stjórnvöld að senda úr landi sex
manna fjölskyldu sem hefur sest hér að og upplifað hér öryggi og von um
bjartari framtíð. Ég hef fylgst með þessari fjölskyldu undanfarna daga. Þau
hafa neyðst til að fara í fréttirnar til að biðla til þjóðarinnar og íslenska
ríkisins um miskunn. Bænum þeirra hafa stjórnvöld svarað með sorgarsvip búrókratans
sem telur sig eiga engra kosta völ, hristir höfuðið og kennir kerfinu um.
Ég get ekki sagt
að mín viðbrögð hafi verið mikið betri. Ég hef setið í þögn og fylgst með fréttaflutningi
af þessari sorgarsögu, eins og ég hef gert við aðrar slíkar sögur undafarin ár.
Eins og áður er naumur tími til stefnu. Svona málum fylgir tifandi klukka sem
telur niður dagana, klukkustundirnar, mínúturnar þar til fólkinu er vísað úr
landi. Þess vegna er mikilvægt að taka umsvifalaust skýra afstöðu þegar svona
mál ber á góma. Sjálfur hef ég hikað, farið undan í flæmingi og talið mér trú
um að ég búi ekki að nægilegum skilningi. Ég hef sagt sjálfum mér að ég þurfi
að kynna mér allar staðreyndir málsins áður en ég geti tjáð mig; þurfi tíma til
að setja saman þaulhugsuð og óhrekjanleg rök sem færa skoðun mína til bókar.
Á meðan ég hef
legið undir mínum sjálfhverfa feldi hefur fjölskyldum verið vísað úr landi.
Aftur og aftur. Og ég hef gleymt þessum fjölskyldum, haldið áfram að senda frá
mér orðgjálfur um ekki neitt eða jafnvel notað stöðu mína til að tjá mig um
önnur bitbein samfélagsins. Hjólastíga, almenningssamgöngur, launamál og annað
sem skarast á skýrari hátt við mína eigin hagsmuni en afdrif brúnnar,
útlenskrar fjölskyldu sem er á barmi þess að tapa tilvist sinni.
Ég eyddi
meinlausa, fyndna tístinu mínu og lokaði símanum. Það sem eftir var leiðarinnar
fann ég að ég skammaðist mín, bæði fyrir framferði íslenskra stjórnvalda en
ekki síst fyrir mína eigin þögn; fyrir hik mitt og kjarkleysi. Það rann upp
fyrir mér að í eðli sínu eru þessi mál ekkert flókin, eða að minnsta kosti ekki
svo flókin að ég sé ekki fullfær um að standa upp og taka afstöðu. Jafnvel þótt
það sé það minnsta sem ég geti gert, þótt orð mín kosti mig ekki neitt, breyti
engu og enginn gefi þeim gaum, þá verð ég að gera skyldu mína sem þegn í þessu landi
og segja hátt og snjallt: Þetta er ranglæti sem ég vill ekki að sé framkvæmt í
mínu nafni.
Bókmenntaborgin bað mig um að velja og lesa texta að eigin vali í tilefni að degi ljóðsins. Þar sem ég er fastur heima vegna COVID-19 og er að upplifa íbúðina mína á allt annan máta en áður þá kom ekki annað til greina en að lesa eitthvað úr „Espèces d’espaces“ (e. Species of Spaces) eftir Georges Perec. Hér að neðan má heyra mína eigin flausturslegu þýðingu (úr ensku) á texta Perec.
21. mars er alþjóðlegur dagur ljóðsins. Taggið Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og deilið ljóðum eða textum sem eru ykkur hjartnæm eða veita ykkur gleði.
Ég tók að mér að skrifa bókadóm um spennusöguna Stelpur sem ljúga eftir Evu Björg Ægisdóttur fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Þetta er önnur bók Evu Bjargar en fyrsta bók hennar var fyrsti handhafi Svarfuglsins, bókmenntaverðlaunanna sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson komu á fót til að draga nýja íslenska glæpasagnahöfunda fram í sviðsljósið. Bókadóminn má lesa á Bókmenntavef Bókmenntaborgarinnar en þar er einnig hægt að finna eldri bókadóm minn um fyrstu bók Evu Bjargar, Marrið í stiganum.