Þessi pistill um fyrstu vikurnar í Bandaríkjunum birtist upphaflega í Stundinni 4. nóvember 2016
Áður en ég fer í gegnum vegabréfsskoðunina er ég búinn að sjá tvær byssur og ótal fána, auk þess sem Obama sjálfur er búinn að bjóða mig persónulega velkominn í gegnum sjónvarpsskjá. Á öðrum skjá yggla forsetaframbjóðendurnir tveir sig hlið við hlið eins og MMA slagsmálahundar á leið í hringinn, sem er ekki endilega svo fráleitt þar sem fyrstu sjónvörpuðu framboðskappræðurnar eru annað kvöld. Ég er á nálum í vegabréfseftirlitinu, búinn að heyra ótal sögur af ættingjum og vinum vina sem var snúið við og þau send beint heim aftur með sömu vél af einhverjum óútskýrðum ástæðum. Passaðu þig. Vertu glaðlegur. Ekki vera taugaóstyrkur, þeir gætu haldið að þú hafir eitthvað að fela. Hefði ég átt að raka af mér skeggið? Þetta er mitt fyrsta skipti í Bandaríkjunum en ég er kirfilega dulbúinn í Carhartt-jakka og með Boston Red Socks-derhúfu, tilbúinn að svara öllum spurningum og kalla þá Sir ef þarf, en landamæralöggan, ungur maður af latnesku bergi brotinn með gleraugu, snyrtilega burstaklippingu og Glock-skammbyssu (byssa númer 3) á mjöðm sem virkar allt of stór á grannvöxnum líkamanum, er hinn rólegasti. Á nafnspjaldinu hans stendur Velez og hann spyr mig um nafn eiginkonunnar minnar sem er handhafi landvistarleyfis okkar hjóna, tekur fingraförin mín (í annað sinn á ævinni sem tekin hafa verið af mér fingraför, það fyrsta verandi í Bandaríska sendiráðinu fyrir um mánuði síðan) og býður mig velkominn til Bandaríkjanna.
Fyrsta klisjan sem blasir við er að það er allt stærra í Bandaríkjunum. Kaffibollarnir og ruslatunnurnar. Göturnar og gangstéttirnar, þar sem eru gangstéttir. Hitt sem er umsvifalaust augljóst er að þetta er bílamenning. Án bílsins ertu varla rétthærri en dádýrin sem við verðum reglulega vör við í skógarjaðrinum eða úti í kanti á hraðbrautinni: Eitthvert náttúruundur sem ber að dást að á meðan maður brunar framhjá en passa líka að sveigja vel í kringum þegar það birtist í vegaröxlinni, ef ske kynni að kvikindið skyldi skyndilega telja sig hluta af umferðinni. Fólk lætur bílinn sinn líka um að tala fyrir sig. Allir bílarnir hafa eitthvað að segja. Firefighter Inside stendur á hlið eins þeirra. Á mælaborðinu hvílir rauð derhúfa með alræmdu áletruninni Make America Great Again. Ég geng eftir bílastæðinu fyrir utan verslunarklasa í nágrenninu og les límmiðana á afturrúðunum. Hillary for Prison. Don’t Blame Me, I Voted for Ted Cruz. Neither One 2016.
Neðar í götunni okkar stendur eilítið sjúskuð rauð Honda sem bætir fyrir ytri slappleika með stórum og marglitum handmáluðum stöfum sem þekja alla bakrúðuna: BLUE LIVES OF ALL COLOR PROTECT US FROM BAD PEOPLE OF ALL COLOR. Það eru fánar alls staðar. Reglulega sé ég bíla með fánastöng festa á dráttarkúluna svo að hægt sé að láta fána í fullri stærð blakta í vindinum á meðan keyrt er í vinnuna. Sumir þessara fána eru einkennilegir. Útlínur fánans eru þessi sömu kunnuglegu form en fáninn er svartur með hvítum röndum og hvítum stjörnum, en þó er ein blá rönd þvert yfir fánann miðjann. Við nánari eftirgrennslan kemst ég að því að fáninn stendur fyrir Blue Lives Matter, sem mótvægi við Black Lives Matter-hreyfinguna, sem ég veit ekki til þess að sé komin með sinn eigin fána. Sumir fánarnir eru með rauðri rönd í stað blárrar. Það er fyrir Red Lives Matter, sem er víst slökkviliðið, sem mér er sagt að sé í guðatölu hér á Long Island fyrir hetjudáðir sínar þann 11. september 2001.
Kannski eru það bara yfirvofandi forsetakosningar en fólk virðist almennt vera vant að segja hvað því finnst og vera tilbúið að flagga sinni skoðun hvar sem er og við hvern sem er á opinskáan hátt sem ég er nánast eingöngu vanur að sjá í heitu pottunum heima – en meira að segja þar er fólk á varðbergi til að forðast að vera dregið inn í viðræður sem voru kannski ekkert endilega á dagskrá í þessari sundferð. Ég sit aftast í strætó og hlusta á bílstjórann, hvíthærðan og sólbrúnan mann á miðjum aldri með harðneskjulegann kjálkasvip, skeggræða Donald Trump við félaga sinn, feitlaginn svartan mann í fjólubláum íþróttagalla og með snyrtilegt vangaskegg, nógu hátt til að allur strætóinn fer ekki varhuga af því hvað hvorum þeirra finnst. All sérstakt fyrir okkur Íslendingana sem erum vön að lækka róminn þegar kemur að pólitík og tala hægar og skýrar í von um að ná yfirhöndinni með því að sýna fram á
þroska frekar en ástríðu. „Málið með Trump er að hann er kannski í framboði fyrir íhaldsmenn en hann er ekki íhaldsmaður. Þá vantaði bara einhvern, voru búnir að mála sig út í horn. Íhaldsmenn eru ekki þrígiftir.“ Vinur hans hristir hausinn og vill meina að þetta sé nú ekki aðalvandamálið með Donald Trump. Þeim liggur vissulega hátt rómurinn og stendur ekki á sama um málefnið, en hitinn snýr að málefninu og ekki að hvor öðrum. Þetta er ekkert persónulegt. Reglulega geri ég mig kláran í að verða vitni að Bandaríkjunum sem ég hef séð á Youtube, þar sem fólk tekur æðisköst í Walmart eða reynir að neyða hvað annað út af þjóðveginum eða slæst á bílastæðum, en allir halda bara áfram að vera hjálsamir og kurteisir og forvitnir um okkur og hvaðan við erum. Allir eru til í að spjalla, hvar sem er og hvenær sem er, og allir þekkja einhvern sem er nýkominn frá Íslandi.
„Ég verð að fá að sýna ykkur myndaalbúmið mitt frá Íslandi!“ segir Kathy, leigusalinn okkar. Hún er gamall hippi. Elti Grateful Dead um gervöll Bandaríkin en átti ekki fyrir að sjá þá spila undir egypsku píramídunum eins og ríku krakkarnir sem hún þekkti í gamla daga. Hún segir okkur að hún sé enn ekki búin að fyrirgefa Jerry fyrir að deyja. „Þessir gaurar þurftu alltaf að taka svo mikið af eiturlyfjum,“ segir hún, með áfellistón í röddinni. Við erum í súpu hjá henni þar sem ekki enn er búið að tengja gaseldavélina í litla kotinu sem við erum að leigja í bakgarðinum hennar. Á veröndinni hjá Kathy hanga óróar sem gefa frá sér fallega tóna þegar vindurinn blæs, og baðherbergisveggirnir eru þakktir heilögum textum og hugleiðslum úr Biblíunni og annars staðar frá, prentað á marglitan pappír svo að þú getir setið og horft yfir vegginn og valið þér ritningu eftir lit til að stýra þér í dag. Hún spyr okkur aftur hvort það sé ekki rétt skilið hjá henni að við séum Lútherstrúar og við endurtökum aftur að við séum trúlaus. Við setjum okkur í stellingar fyrir Íslandsalbúmið en þegar það kemur er það eins og svo margt annað í Bandaríkjunum hingað til: allt öðruvísi en það sem fordómar okkar höfðu búið okkur undir. Albúmið er gömul mappa, með póstkortum, greinum og lausablöðum troðið inn á milli hér og þar, og er uppfullt af ljósmyndum af Íslandi eins og ég man varla eftir því. Í því er að finna alla helstu túristaáfangastaði þjóðvegarins á la 1985, auk sólríkra mynda af húsum og götum í Reykjavík frá sjónarhorni ferðamannsins. Myndir af ljóshærðum stallklipptum Íslendingum í grænum og appelsínugulum Svala-peysum að sóla sig. Það eina sem stendur alls óbreytt eru lopapeysurnar. Kathy er hjúkka og það eru myndir af Borgarspítalanum, þangað sem hún bauð sjálfri sér í heimsókn. Hjúkkur í hvítum göllum með stærðarinnar gleraugu að slaka á í kaffistofunni. Á nokkrum myndanna er gefin innsýn inn í fallega gamaldags íbúð í Teigunum sem þau heimsóttu, með tekkhúsgögnum og síðum flauelsgluggatjöldum, og Kathy lýsir hve hissa hún var að stíga inn í svona óspennandi raðhús og finna svona fína hefðarfrúríbúð. Það hefði verið ný upplifun fyrir hana.
Við skoðum allar myndirnar ítarlega og reynum að tengja staðina en meira að segja alræmdustu túristastaðirnir dyljast okkur, og við erum ekki viss. Allt er svo bert allt í kring, engar sjoppur né rútur. Er svona stutt síðan? Kathy talar um að fara aftur og við hvetjum hana til þess en vörum líka við að margt hafi breyst. Að lokum þökkum við henni fyrir súpuna og myndirnar og löbbum niður í kot. Það er niðamyrkur úti og engin götulýsing og við þurfum að nota ljósin á símunum til að halda nóttinni í skefjum. Stjörnurnar blasa við á himninum. Sumar þeirra sveima um og ég spennist allur upp og held að ég sé að sjá eldflugur í fyrsta sinn á ævinni en átta mig svo á að þetta eru þyrlur í fjarska. Krybburnar sífra allt í kringum okkur með nátthljóðin sín sem ég þekki svo vel úr bíómyndum að mér finnst þær ennþá hljóma gervilega. Þegar við komum í kotið uppgötvum við að einni krybbu hefur tekist að laumast inn og eitthvert inn í vegginn. Við heyrum í henni þar sem við liggjum undir íslensku dúnsænginni sem ég tróð með í töskuna. Hljóðið er svolítið eins og einhver hafi sofnað með dómaraflautu upp í sér, hringlar fram og til baka. Hún virkar svo alein hérna inni hjá okkur, með allan kórinn úti í grasinu að söngla saman, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tekst mér ekki að tæla hana út úr veggnum og henda henni út. Við sofnum seint og um síðar, vör um okkur í öllum nýju næturhljóðunum á Long Island.