„EF ÞIÐ HEFÐUÐ HRINGT“ KEMUR ÚT Í ICELAND REVIEW

Í nýjasta hefti Iceland Review er að finna söguna „Ef þið hefðuð hringt“, sem upphaflega birtist í Smáglæpum árið 2017. Í blaðinu ber sagan titilinn „If only you‘d called“ og er í enskri þýðingu Larissu Kyzer. Larissa hefur getið sér gott orð fyrir enskar þýðingar á íslenskum skáldverkum, þar á meðal fyrir þýðingu sína á verlaunaskáldsögu Kristínar Eiríksdóttur Elín, ýmislegt, sem nýlega kom út hjá Amazon Crossing undir titlinum „A Fist or a Heart“.

Við Larissa þekkjumst og höfum áður unnið saman, meðal annars á PEN World Voices Festival í New York fyrr á árinu. Var því gaman að verða vitni að aðförum hennar við textann minn. Þótti mér vænt um þá natni sem hún sýndi við að leysa ýmisleg tæknileg atriði sögunnar, en „Ef þið hefðuð hringt“ er ein flóknasta sagan í safninu hvað varðar sjónarhorn, tímatilfærslur og sögufléttu. (Ásamt mögulega sögunum „Eiginmaðurinn og bróðir hans“ og „Rekald“, sem báðar vinna með sögufléttu og upplýsingaskömmtun til lesanda á álíka máta.)

Einnig finnst mér aðdáunarvert að Iceland Review, sem á sér langa útgáfusögu á Íslandi og erlendis, sé að skipa sér í flokk með þeim örfáu tímaritum á íslenska markaðinum sem reglulega gefa út skáldskap. Öll umgjörð við birtingu sögunnar er til fyrirmyndar, en fyrir utan að ráða þýðanda fékk blaðið einnig listakonuna Helgu Páley Friðþjófsdóttur til að myndskreyta söguna. Finnst mér henni hafi tekist að fanga anda sögunnar minnar engu síður en Larissu.

Að sjá aðra höfunda, þýðendur og/eða listamenn vinna með verk sín á þennan máta eru mikil forréttindi og vona ég að ég fái frekari tækifæri til þess í framtíðinni.