STOL – ÞAKKARORÐ

Í dag er vika síðan að Stol kom út og vil ég þakka kærlega fyrir viðtökurnar og allar hamingjuóskirnar en líka nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem hjálpuðu mér á meðan ég var að skrifa verkið. Helst hefði ég viljað þakka ykkur öllum persónulega og skála við ykkur í útgáfuhófi, en við verðum að láta rafræna kveðju duga í bili.

Það tók mig langan tíma að skrifa Stol, sem er mín fyrsta skáldsaga. Fyrstu drög handritsins lágu lengi óhreyfð ofan í skúffu en eiga upptök sín í lokamöppu minni við Háskólann í Glasgow, þar sem ég lagði stund á ritlist undir leiðsögn Dr. Elizabeth Reeder og fékk yfirlestur frá ritlistarhópnum mínum sem ég hitti vikulega í Edwin Morgan-herbergi háskólans, þar sem við skeggræddum og rifumst og krufðum skrif hvors annars.

Þegar ég hóf aftur að vinna að handritinu, árið 2017, var það í töluvert breyttri mynd. Ég sat einn með það lengi og vann þá m.a. í bókasafni Stony Brook-háskóla á Long Island, í Brooklyn Writers Space í Gowanus-hverfinu í Brooklyn, og, eftir að við fluttumst heim, sumarið 2019, á ReykjavíkurAkademíunni í Þórunnartúni. Endir bókarinnar var skrifaður í vikulangri listamannadvöl á Hótel Egilsen á Stykkishólmi, þar sem ég var tíður gestur við kvöldverðarborðið hjá Theó frænku minni og fjölskyldu. Móðir mín, Anna Guðrún Björnsdóttir, veitti einnig ómældan stuðning á meðan á skrifunum stóð og hýsti okkur hjónin í heimsóknum okkar á Íslandi. Einnig átti ég mikilvæg samtöl við Sóley Stefánsdóttur og Garðar Briem sem mótuðu frásögnina á lokastigi.

Það er fátt sem íslenskir lesendur eru eins refsigjarnir á og villur í landafræði. Á meðan á skrifunum stóð fórum við hjónin í nokkrar vettvangsferðir á sögusvið bókarinnar; fyrst á eigin vegum og síðar á torfærnari staði með systur minni og mági, Valgerði Halldórsdóttur og Emil Þór Guðmundssyni og syni þeirra, Halldóri Eldi. Lokaferðina fór ég með tengdaföður mínum, Jóhanni Arngrími Kristjánssyni, þegar við röktum leið þeirra Badda og Harðar til enda.

Þegar handritið var loks komið í það form að ég treysti mér til að hleypa öðrum að því fékk ég ítarlegan og gagnrýninn yfirlestur hjá Ástu Kristínu Benediktsdóttur, Pedro Gunnlaugi Garcia, Fríðu Ísberg, Sverri Norland og Elínu Eddu Pálsdóttur og sértækan yfirlestur varðandi tæknileg atriði frá Gísla Sverrissyni og Matthíasi Halldórssyni. Yfirlestur allra þessara aðila var ómetanlegur á síðustu vikunum áður en handritið var sent á útgáfuna.

Eftir að Forlagið tók við handritinu fann ég fljótt að ég var í góðum höndum hjá ritstjóranum mínum, Sigríði Rögnvaldsdóttur, sem gekk úr skugga að texti og frágangur væri til fyrirmyndar og hjálpaði mér að styrkja ýmis efnisatriði. Ég naut einnig góðrar samvinnu við kápuhönnuðinn, Alexöndru Buhl, sem tókst að skapa þessa sterku kápu út frá mínum óljósu og óáreiðanlegu tilsögnum.

Að lokum vil ég þakka eiginkonu minni, Elínu Björk Jóhannsdóttur, sem er alltaf minn fyrsti og nánasti yfirlesara, sem veitir mér styrk þegar ég þarf á að halda og lætur mig vita þegar ég er að fara fram úr sjálfum mér. Án hennar væri ég efalaust að gera eitthvað allt annað og lífið væri ekki næstum því eins spennandi og það er. Takk, takk, ástin mín.

-Björn Halldórs (Bóbó)