Sagan Tveir refir, sem birtist fyrst í smásögusafninu Smáglæpir (2017) er nú væntanleg á ensku í þessu fallega safni smásagna frá Íslandi sem breski útgefandinn Comma Press gefur út í haust. Tveir refir er þriðja sagan úr Smáglæpum sem gefin er út á ensku, en allar þrjár sögurnar voru þýddar af Larissu Kyzer.
Það er Sjón sem skrifar innganginn að The Book of Reykjavík og safnið inniheldur sögur eftir Fríðu Ísberg, Kristínu Eiríksdóttur, Auði Jóns, Friðgeir Einarsson, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Andra Snæ o.fl. o.fl. Það er mikill heiður að fá að vera með í svo fríðu föruneyti.
Útgáfu safnsins verður fagnað á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík í september og einnig verður haldinn rafrænn útgáfufögnuður þar sem rætt verður við höfunda sem eiga efni í safninu þann 31. september næstkomandi.