Ég mætti í fyrsta sinn á Bókmenntahátíðina í Reykjavík árið 2003 til að sjá Haruki Murakami, man að ég bombaði niður Bankastrætið á hjólabrettinu mínu með eintakið mitt af Wind-up Bird Chronicle klemmt í handarkrikann. Ég þekkti engan þarna og hefði örugglega aldrei mætt nema af því að bókmenntahátíðin er öllum opin og það er frítt inn. Þannig gat ég bara valsað inn í Iðnó í hettupeysunni minni og fengið áritun í bókina mína þegar Murakami var búinn að lesa.
Það er ótrúlega mikilvægt fyrir framtíð bókmennta að búa til staði þar sem fólk sem langar að skrifa getur gengið að og hitt fólk sem er að skrifa. Bókmenntahátíðin er þannig staður.