Ég keypti mér nýja græju um daginn. Remarkable 2-skrifbretti. Þið kannist kannski við það úr auglýsingaalgóriþmunum ykkar.
Eins og iðulega þegar kemur að stórum útgjöldum þá var ég búinn að naga neglurnar og engjast í töluverðan tíma yfir því hvort ég ætti að leggja út fyrir þessu eður ei. Fyrir utan minn venjulegu fjármálakvíða – sem liggur reyndar í smá dvala núna þar sem ég er með fasta vinnu í augnablikinu og nýt þess lúxus að einhver annar borgi mótframlagið mitt – þá er ég almennt frekar skeptískur varðandi tækni- og töfralausnir á vettvangi ritstarfa. Græjur eða forrit sem gera sig út fyrir að losa stífluna, beisla einbeitinguna og hreinsa rækilega úr cache-möppu hugans.
Það er alltaf heillandi tilhugsun að kannski sé ástæða þess að ekkert hefur bæst í orðafjöldann einfaldlega sú að þú sért ekki að nota rétta pennann, réttu glósubókina eða rétta ritvinnsluforritið, frekar en bara að þú horfir á Netflix í tvo tíma á dag í staðinn fyrir að liggja yfir handritinu. Ég hef nokkrum sinnum hlaðið niður forritum á borð við Scrivener eða Freewrite eða Flow í örvæntingu þegar plottið er hætt að þokast áfram og persónurnar farnar að lyfta augnabrúnunum í sífellu og brosa og kinka kolli án sannfæringar. Oft hefur heill dagur farið í súginn í slíkum tilfæringum, eða í að eiga við týpógrafíuna í skjalinu, uppsetninguna, titilsíðuna, skáletrun, feitletrun og viðlíka dútl sem þegar allt kemur til alls er ekki það sama og að skrifa.
Að öllu þessu gefnu lét ég það þó á endanum eftir mér að festa kaup á þessari töflu, eða skrifbretti, eða hvað mætti kalla það. Von mín var að það myndi gera mér kleift að nýta betur glufurnar í deginum, núna þegar ég er í fullri vinnu, og stytta bilið á milli útkrotuðu glósubókanna sem ég hripa fyrsta uppkastið mitt í og fínpússaða ritvinnsluskjalsins sem ég skila að lokum af mér.
Niðurstaðan er hreint ekki svo slæm. Skrifbrettið er svolítið eins og prentari sem ég get komið fyrir í hliðartöskunni minni og verður aldrei uppiskroppa með blöð né blek. Ég er með takka í Word-forritinu á tölvunni (einhvern veginn enda ég alltaf aftur í Word) og ef ég klikka á hann birtist skjalið sem ég er að vinna í umsvifalaust á Remarkable-töflunni. Þar get ég svo krotað í spássíurnar og skotið inn handskrifuðum miðum með leiðréttingum, viðbótum og nýjum senum. Til viðbótar get ég síðan hripað niður á brettið skrif á borð við þennan bloggpóst og síðan umvarpað handskrifaða efninu yfir í (ekki alveg gallalausan) ritvinnslutexta sem ég klára í tölvunni.
Líklega er þetta samt bara dýrasta kvíðaglósubókin sem ég mun nokkurn tímann kaupa – þótt ég hafi reyndar ekki greitt fullt verð fyrir hana heldur keypt á bland af fasteignasala í Urriðaholtinu. Ég hef nefnilega mikla trú á heilunarmætti glósubóka og hugga mig með því að kaupa eina slíka í hvers kyns krísum og kvíðaköstum. Það getur líka verið gott að skipta um verkfæri og vettvang þegar maður þarf að koma sér aftur af stað við skáldskapinn eftir að hafa dvalið fulllengi í raunheimi.
Ekki er heldur verra hvað það er róandi að sitja fyrir framan sjónvarpið og dútla myndir á nýju græjuna: