LISTFJANDSAMLEGAR ÞVÆLUR OG BLÁTT BÚRÓKRATABLÓÐ

Höfundur að vinna í sinni fyrstu listamannalaunaumsókn í háskólabókasafninu í Stony Brook fyrir einhverjum árum síðan

Enn einu sinni sit ég hér og reyni að setja saman raunsæja sýn á skrif og afköst komandi árs í von um að umsóknin mín um listamannalaun hljóti náð fyrir augum úthlutunarnefndarinnar. Það er mér þó til vinnusparnaðar að ég hlaut engin ritlaun í ár, svo að ég er mestmegnis að biðja um sama fjölda mánaða og síðast og fyrir sömu verkefni. Þótt sýn mín á þau verkefni hafi vissulega skerpst aðeins á undanförnu ári, og eitthvað hafi tínst til í orðafjöldann, þá eru ekki miklar breytingar frá því síðast í þetta sinn. Ég hef verið í fullu starfi allt þetta ár og því ekki haft jafnmikinn tíma til að sinna skrifunum og þegar ég hef verið í frjálsu falli frílansgeirans og listamannalaunanna. Í ár hef ég þannig látið duga þennan venjulega kvíða um að maður sé ekki að skrifa nóg, í stað þess að kvíða bæði því að skrifa ekki nóg og hvernig maður ætli sér að skrapa saman launaseðli komandi mánaðar.

Ég sé að umræðan um hið mannskemmandi skrifræði umsóknarferlisins er hafin. Auðvitað skil ég vel að eldri kynslóðin sakni þess tíma þegar það voru færri um hituna, og það getur ekki verið skemmtilegt að þurfa að réttlæta starfsumhverfi sitt og laun ár hvert þegar maður hefur fyrir löngu sannað sig færan um að koma út heillegri bók á nokkurra ára fresti. Sjálfur ólst ég upp í þessu kerfi og á erfitt með að ímynda mér neitt annað. Mér finnst ansi ólíklegt að ég hefði nokkurn tímann fengið ritlaun til að byrja með ef ég hefði ekki búið að sæmilega formföstu umsóknareyðublaði til að fylla út. Ég er enginn sérstakur snillingur, né er ég sérlega þekktur eða vinamargur. Ætli það sé ekki þess vegna sem ég fylli út þetta blessaða form möglunarlaust ár eftir ár, og finnst jafnvel bara ágætt að hafa eitthvað til að styðja mig við þegar ég reyni að koma skikkan á hvað ég ætla mér að gera á komandi ári. Eða kannski rennur bara í mér ískalt og blátt búrókratablóð.

Ég sótti fyrst um ritlaun árið 2017, haustið eftir að Smáglæpir, mín fyrsta bók, kom út. Ég gerði ráð fyrir að það myndi taka nokkrar tilraunir fyrir mig að fá eitt né neitt og því væri eins gott að byrja strax, núna þegar ég var allavega kominn með eina bók. Ég gramsaði í tölvunni og dró á endanum fram sögu sem ég hafði byrjað á fyrir lokamöppuna mína í ritlistarnáminu í Glasgow, nóvellu sem byggði á ferð sem ég hafði farið með föður mínum á Snæfellsnes árið áður en hann lést úr heilaæxli. Sagan var hálfskrifuð og hálfvonlaus. Ég hafði byrjað á henni á meðan sársaukinn við að missa föður minn var ennþá opið og vætlandi sár, og þar sem ég þorði ekki enn að dýfa mér í þann sársauka var sagan skrifuð í fjarlægri og tilgerðarlegri þriðju persónu, allar persónurnar nafnlausar og stirðar, hikandi í hverju orði. Eitthvað varð ég samt að senda, og þetta var eina sagan sem ég átti í fórum mínum sem virtist vera of stór til að rúmast í smásögu.

Mér fannst þó ótækt að senda söguna eins og hún var. Ég henti fyrstu tveimur köflunum og eyddi heilum degi á bókasafni Stony Brook-háskólans á Long Island (þar sem við bjuggum á þeim tíma) við að endurskrifa þriðja kaflann í fyrstu persónu. Lá svo yfir umsóknareyðublaðinu frá Rannís og fabúleraði um allt sem ég ætlaði mér að gera í þessari skáldsögu, sem ég vissi vel að ég var í rauninni engan veginn tilbúinn að hella mér í að skrifa, eitthvað sem ég reyndi að hylma yfir með því að gefa í skyn allskyns djúpstæðar meiningar í seinni hluta handritsins – sem var í raun og veru ekki lengra en þessi eini kafli sem ég sendi.

„Gott mál! Þau munu þá kannski muna eftir mér þegar ég sæki um næst eða þarnæst,“ hugsaði ég með mér og sendi umsóknina án þess að pæla meira í þessu. Það kom mér gjörsamlega í opna skjöldu þegar ég fékk tölvupóst einhverjum mánuðum seinna um að mér hefði verið úthlutað þremur mánuðum. Ég átti ekki annarra kosta völ en að byrja að skrifa þessa bók sem ég taldi mig engan vegin tilbúinn að skrifa. Mér var það þó til happs að þegar ég renndi aftur yfir umsóknina, sem ég hafði ekkert skoðað né hugsað um undanfarna mánuði, þá reyndist þar vera eitt og annað gagnlegt sem ég gat nýtt mér sem haldreipi í þessu stóra verkefni sem ég hafði lofað upp á tíu fingur að taka að mér.

Sjö mánuðum seinna, þegar handritið var um það bil hálfnað, dró ég umsóknina aftur fram og notaði hana til að setja saman nýja umsókn fyrir komandi ár, leiðrétti eitt og annað sem hafði breyst frá því árið áður og dró upp eilítið skýrari mynd af framvindunni og fyrirætlunum mínum á komandi ári. Ýtti síðan á „senda inn“ og reyndi að hugsa ekki meira um hverju ég hafði lofað í þetta sinn.

Og þannig hefur þetta gengið síðan. Í september á hverju ári dreg ég fram umsóknina frá því árið áður og reyni að meta hvar ég er staddur núna, hvað er næst á dagskrá og hvað ég er búinn með af því sem ég sagðist ætla að gera síðast. Allar mínar umsóknir um listamannalaun (og allar áfanga- og lokaskýrslurnar líka) eru í raun bara framhaldsskrif. Stundum fæ ég einhverja mánuði, yfirleitt færri en ég sótti um, og stundum ekki. Samt sem áður nýtist umsóknin mér alltaf á einn eða annan hátt. Hún hjálpar mér að setja stefnuna þegar mig er tekið að reka af leið og veitir mér afmarkað rými til að fabúlera um bækur sem mig langar til að skrifa einn daginn.

Það eru örugglega til betri leiðir til að lifa af, og efalaust er alltaf hægt að betrumbæta kerfið sjálft, sem mér sýnist þó vera í sífelldri þróun og vera orðið talsvert skýrara og þægilegra í meðförum en þegar ég byrjaði fyrst að sækja um ritlaun, en þetta árlega stöðutékk hefur allavega virkað ágætlega fyrir mig hingað til.

En ætli ég sé ekki bara, þegar allt kemur til alls, einn af þessum hallærislegu og órómantísku höfundum sem eru „bara góðir í að skrifa umsóknir“.