SALMAN RUSHDIE OG SVARTMÁLMUR Á SATANÍSKUM FÖSSARA

Vafurlogi á sviðinu í Hlégarði, þar sem höfundur sleit sínum fyrstu ballskóm á böllum í Gaggó Mos

Það stefnir í helvíti sataníska stemmningu núna í vikunni. Það er föstudagurinn 13. september og ég er að fara að sjá Salman Rushdie, höfund Söngva Satans, taka við Laxness verðlaununum og fer eiginlega beint þaðan í Iðnó að sjá Misþyrmingu og Vafurloga og fleiri svartmálmsbönd spila eitthvað fram eftir kvöldi. Ég spái því að það verði nóg af kertum og blóði og salurinn muni fá að njóta sín sem aldrei fyrr (í Iðnó, þ.e.a.s.).

Ég hef verið nokkuð duglegur að mæta á tónleika undanfarið ár, fór meira að segja á Sátuna á Stykkishólmi (þótt það hafi aðallega verið til að hanga með litlum frændum og frænkum þar í bæ, og til að sjá I Adapt, auðvitað) og á Ascension Festival, sem var heldur súrrealísk upplifun þar sem hátíðin var haldin í Hlégarði í Mosó þar sem ég fór á öll mín gaggóböll, að dansa við Prodigy í flogakastsvaldandi strobe-lýsingu. Seinna í þessum mánuði, þann 21., er svo Hellirinn, metal-hátíð sem er opin öllum aldurshópum og haldin í TÞM úti á Granda. Ég ætla að fá lánaðan einn lítinn frænda og peltora og mæta. Við sjáum til hvað sá stutti endist í þessum hávaða. Í gamla daga, í „senunni“ fór ég á svo ógeðslega mikið af svona all-ages harðkjarna-tónleikum í einhverjum skúrum í miðbænum og félagsmiðstöðvum í úthverfum þar sem ég rataði ekki neitt og varð að fletta upp hverfiskortunum í símaskránni fyrirfram. Svo urðu allir svo fullorðnir og fóru að spila á börunum. Það er gaman að sjá að einhver er að endurvekja þessa dásamlegu og mikilvægu venju, að bjóða krökkum og unglingum upp á gargtónlist í öruggu umhverfi og án áfengissölu. Það verður að vökva grasrótina og það verður að mæta á tónleika og aðra menningarviðburði ef maður vill að slíkt sé áfram í boði.

Annars hef ég eiginlega ekki verið að lesa neitt nema glæpasögur undanfarið, er að vinna mig í gegnum seríu eftir Atticu Locke sem samanstendur af einskonar post-Trump Texas Ranger-löggusögum með áherslu á menningu svarts fólks í krummaskuðum Badaríkjanna. Mikill blús, mikill rasismi og southern gothic út í gegn.

Þetta glæpasögufár byrjaði í vor þegar ég ákvað að fara aftur í gegnum Shardlake-morðgáturnar eftir C.J. Sansom, sem gerast við hirð Hinriks VIII og ég las einhvern tímann fyrir löngu þegar ég bjó í Glasgow og var alltaf að rekast á þær í Oxfam-búðunum. Þetta átti bara að vera smá breik frá Wolf Hall eftir Hilary Mantel, átti að hjálpa mér að rifja upp hver var hvað, hvort hertoginn af Norfolk var vondi gaurinn eða var það þessi af Suffolk, eða báðir? Auðvitað bara afsökun. Ég kann að meta sagnfræðilegu skáldsögurnar hennar Mantel og átta mig fyllilega á að þær eru stórvirki, og að það er eitthvað einstakt við það hvernig henni tekst að færa okkur djúpt inn í vitund persónanna án þess að beita nokkurn tímann hreinni og klárri fyrstu persónu, en ég nýt þess ekki að lesa sagnfræðilegu skáldsögurnar hennar jafn mikið og ég nýt þess að lesa hana þegar hún er að skrifa „í eigin persónu“, í ritgerðum hennar og gangrýni og hinum og þessum sjálfsævisögulegu skrifum.

(Reyndar féll ég alveg í stafi yfir Beyond Black, skáldsögu hennar frá tíunda áratugnum um miðaldra miðil sem á í einkar toxísku frenemy sambandi við aðstoðarkonuna sína og reynir hvað hún getur að færa fólki fallegar fréttir úr handanheimum og hylma yfir þá staðreynd að hún er ofsótt af alvöru draugum sem eru allir með tölu klúrir og viðbjóðslegir karlar sem láta hana ekki í friðið.)

Að þessu leyti á Mantel kannski eitthvað sameiginlegt með David Foster Wallace í mínum bókum, sem er höfundur sem mér leiðist almennt þegar hann skrifar skáldskap (sem er þó það sem hann er frægastur fyrir) en ég get lesið greinasöfnin hans aftur og aftur og aftur og alltaf fundið eitthvað nýtt og gagnlegt. Munurinn er þó kannski að mér finnst röddin hennar Mantel skína meira í gegnum skáldskapinn, líkt og ég finni meira fyrir henni en DFW, sem er almennt svo svakalega klár og fær í skáldsagnaskrifum sínum að manni líður meira eins og maður sé að horfa á mynd með geggjuðum brellum frekar en mynd sem er unnin upp úr vönduðu handriti með persónum og leikurum sem hrífa mann með sér. (Brief Interviews with Hideous Men er reyndar samt æði, fyrir utan nokkrar sögur sem er nóg að lesa einu sinni til að fatta trikkið.) Þessa rödd má svo heyra af fullum krafti í ritgerðarsöfnunum Mantel Pieces og A Memoir of my Former Self, en umfangsefnin sem hún fæst við þar verða til þess að maður fer að greina hin og þessi þemu – líkamleika, veikindi og drauga, til dæmis – sem teygja sig eiginlega í gegnum allt höfundarverk hennar.

Hérna er smá ritlistarpepp frá henni úr blábyrjuninni á Giving up the Ghost, endurminningum hennar frá 2003:

This is what I recommend to people who ask me how to get published. Trust your reader, stop spoon-feeding your reader, stop patronising your reader, give your reader credit for being as smart as you at least, and stop being so bloody beguiling: you in the back row, will you turn off that charm! Plain words on plain paper. Remember what Orwell says, that good prose is like a window-pane. Concentrate on sharpening your memory and peeling your sensibility. Cut every page you write by at least one-third. Stop constructing those piffling little similes of yours. [Ath: mín undirstrikun.] Work out what it is you want to say. Then say it in the most direct and vigorous way you can. Eat meat. Drink blood. Give up your social life and don’t think you can have friends. Rise in the quiet hours of the night and prick your fingertips, and use the blood for ink; that will cure your persiflage!

Hún heldur áfram, neðar á síðunni:

But do I take my own advice? Not a bit. Persiflage is my nom de guerre. (Don’t use foreign expression; it’s élitist.) I stray away from the beaten path of plain words into the meadows of extravagant similes: angels, ogres, doughnut-shaped holes. And as for transparency – window-panes undressed are a sign of poverty, aren’t they? How about some nice net curtains, so I can look out but you can’t see in? How about shutters, or a chaste Roman blind? Besides, window-pane prose is no guarantee of thruthfulness. Some deceptive sights are seen through glass, and the best liars tell lies in plain words.

Ég sló annars „persiflage“ upp í Oxford: „Light and slightly contemptuous mockery or banter.“ Ég ætla að reyna að lauma því einhver staðar inn í nýju íslensk-ensku orðabókina sem ég er að vinna í hjá Árnastofnun of fer bráðum formlega í loftið.