Hið ótrúlega hefur gerst. Ég er byrjaður að skrifa á kvöldin. Ég hef alla tíð staðið fyllilega í þeirri trú að ég sé morgunpenni, að eini tíminn sem ég kann að skrifa á sé á morgnanna, þegar ég er nýkominn á fætur, ekki búinn að kíkja á neina frétta- eða samfélagsmiðla, og helst varla einu sinni búinn að tala við neinn. Þannig hef ég oft syrgt það við aðra, hálft í gamni, að vera ekki nógu mikill bóhem og geta ekki unnið seint á kvöldin þegar aðrir eru komnir í bólið, með viskíglas mér við hlið. Það kemur í ljós að vandamálið var ekki ég – eða a.m.k. ekki bara ég. Vandamálið var Netflix, allan þennan tíma.
Who knew!?
Síðan sjónvarpið okkar bilaði hef ég semsagt uppgötvað auka tvo tíma í sólarhringnum, plús mínus. Ekki að við séum ekki að horfa á sjónvarp, eða öllu heldur fartölvu. Lotualgrými streymisveitanna virðist bara vera heldur máttlausara á litla skjánum en hann var á þeim stóra sem er að safna ryki á veggnum hjá okkur og ég hef ekki enn nennt að drösla í Sorpu. Eða kannski er það bara að við erum búin að vera í smá raunveruleikasjónvarpssyrpu og allt þetta grey fólk sem er að leita að ástinni á meðan það sýpur á sínum gylltu kaleikum (ógagnsæum til að hægt sé að klippa til öll samtöl þeirra á sem dramatískastan máta, geri ég ráð fyrir) er annað hvort svo einlægt eða svo óþolandi eða svo óþolandi í því að reyna að vera svo einlægt að maður getur ekki annað en tekið sér pásu á tuttugu mínútna fresti eða svo.
Mögulega er þetta þó bara langþráður vinnukippur sem ég hef verið að hlaða í undanfarna mánuði, nú þegar haustið er gengið í garð og maður er aftur dottinn í samfelldari rútínu. Samband mitt við skjái hefur þó aldrei verið neitt frábært, alveg síðan ég keypti mitt fyrsta sjónvarp fyrir unglingavinnupeninginn í 8. bekk. Lítið 14 tommu túpusjónvarp með innbyggðu vídeótæki sem ég hafði inni í herbergi hjá mér og notaði til að horfa á eina nýja og eina gamla frá Bónusvídeó langt fram á nótt hverja einustu helgi.
Það er orðið æði langt síðan ég var síðast með einhverja samfélagsmiðla á símanum mínum, ef þú telur ekki með Strava, þ.e.a.s. Síðast var held ég eftir að Stol kom út, þegar ég ræsti hæp-lestina og hélt henni gangandi út árið og fram á það næsta í von um að láta alla vita að ég væri að gefa út mína fyrstu skáldsögu og að hún væri bara alveg rosa fín, sko. Ég var líka á Twitter þá en eyddi prófílnum mínum með öllu eftir að Möskarinn tók við, ekki endilega út af honum heldur líka bara af því að ég var alveg kominn með nóg af peppuðu, djúpt hugsandi týpunni sem ég brá fyrir mig þar, og var orðið nokkuð ljóst að það var eitthvað ekki alveg heilbrigt við dópamínið sem ég fékk út úr lækunum. Ef ég setti einhverja tjáningu þar inn kom ég engu í verk út daginn, of upptekinn við að fylgjast með hvort einhver ætlaði að klappa mér á kollinn eða ekki
Núna er ég ekki með neitt nema þessa Facebook-síðu, sem ég nota aðallega til að láta vita þegar ég hendi í blogg og til að fylgjast með prógramminu í hlaupahópnum mínum, og svo Instagram-síðu sem ég opna sjaldan eða aldrei. Ég ákvað þó að kíkja aftur á hana um daginn til að láta vita af því að ég yrði í útvarpinu. Það var huggulegt innlit, og gaman að sjá það sem allt þetta alvöru fólk sem ég hef hitt í eigin persónu er að gera dags daglega, en alveg eins og með Facebook þá virðist ekki vera nein leið til að stilla það þannig að það sýni manni ekki neitt annað en þann hóp, sem fer í pirrurnar á mér og vekur upp einhverja mótþróaröskun sem ég hef leyft mér að elta undanfarin ár. Mögulega er eitthvað af þessum aukaklukkutímum sem ég hef verið að uppgötva undanfarið tengt þessu samskiptamiðlaleysi, og kannski líka öllu því skemmtilega sem ég er að missa af af því að ég sé ekki invite-in lengur. Líklega snýst þetta þó bara um það að ég er í fullri vinnu þessa stundina og maður fer aldrei jafn vel með tímann sinn og þegar maður á lítið af honum.
Ég fann allavega tímann til að fara á tónleika í Iðnó á föstudaginn og hélt þar áfram að vinna í nýrri persónulegri áskorun sem ég hef verið að kljást við undanfarið, þ.e.a.s. að fara á tónleika án þess að drekka meira en svona tvo bjóra. (Óáfengir teljast ekki með.) Iðnó er eitt af mínum uppáhalds tónleikastöðum í Reykjavík og ein mín stærsta eftirsjá í lífinu er að hafa misst af því að sjá Converge spila þar einhvern tímann í kringum 2006 af því að ég var erlendis í námi, og ISIS líka um svipað leyti. (Eða ISIS: The Band eins og þeir heita víst núna, af skiljanlegum ástæðum.) Converge sá ég á Gauknum ca. 2011 en Isis sá ég aldrei og mun líklega aldrei sjá, enda þykja mér þeir ólíklegri til að taka saman aftur en Oasis. Sem sárabót náði ég að sjá SUMAC, nýju hljómsveitina hans Aaron Turners á St. Vitus í Greenpoint hér um árið, en djöfull hefði ég verið til í að sjá þessar tvær hljómsveitir í Iðnó í denninu þegar maður var ennþá nógu einlægur í þessu til að henda sér í mosh-pittinn án þess að fara hjá sér. Á dagskránni á föstudaginn voru samt Misþyrming, Vafurlogi, Forsmán og Vampíra – sem unnu Músíktrilraunir fyrir ekki alls löngu – svo það er ekki eins og maður hafi yfir neinu að kvarta.
Það var ótrúlega gaman að sjá hve vel salurinn tók krökkunum í Vampíru, og ljóst að fólk er himinlifandi að sjá að það er ný kynslóð mætt á svæðið, enda hefur meðalaldurinn a metaltónleikum farið síhækkandi undanfarin ár, sýnist mér. Þeir voru kannski smá óstyrkir þegar þeir voru að fara af stað en náðu manni alveg í síðustu tveimur lögunum.
Misyrming stendur alltaf fyrir sínu, þetta er í þriðja sinn sem ég sé þá í ár, eitt þéttasta tónleikaband sem ég veit um þessa dagana, hvert atriði úthugsað og þaulæft en engu að síður þessi óheflaða orka sem þeim tekst alltaf að leysa úr læðingi. Það var forvitnilegt að sjá að þegar þeir mættu á svæðið, síðasta band á sviðið, tóku að tínast inn nokkrar stífgelaðar týpur með Stetson-derhúfur og lummu undir vör, og er ljóst að þeir eru farnir að trekkja inn nýtt fólk í þessa frekar afmörkuðu senu – sem er auðvitað bara geggjað. Forsmán hef ég aldrei séð á sviði áður en hlakka til að sjá aftur, enda greinilega þeirra heimavöllur. Ég hef hingað til átt erfitt með að tengja við plötuna þeirra en ætla mér nú að gefa henni þann tíma sem hún á greinilega skilið, eða a.m.k. bíða spenntur eftir þeirri næstu. Vafurloga sá ég á Ascension taka sitt fyrsta gigg (að ég held) og var æstur í að sjá aftur, svo mjög að ég fjárfesti í bæði plötu og bol. Þar eru auðvitað algjörir reynsluboltar í fyrirrúmi, en það er líka eitthvað dálítið ferskt og öðruvísi við aðför þeirra að svartmálminum, eitthvað sem daðrar við póstrokk en þó með hetjugítar og annan fótinn kyrfilega í fortíðinni. (Þar að auki man ég varla hvenær ég sá síðast svona alklassískt svart-og hvítt Pagliacci-corpse paint á sviðinu.) Í miðju settinu þeirra hallaði félagi minn sér að mér og gargaði: „Það eru svona Motörhead-kaflar, en það er líka swing í þessu!“ Ég veit ekki hvort ég hefði alveg líst því þannig en leyfi því þó að standa. Ég gleymdi allaveganna alveg að smella af mynd á meðan þeir voru að spila, sem eru alltaf meðmæli í mínum bókum. Í staðinn læt ég eitt lag af plötunni þeirra fylgja hér að neðan, en hún er alveg brakandi fersk og nýmætt á Bandcamp og Spotify.