Menning og matur og tröll og skúffur og veggir (og Egill Helgason líka)

IMG_4549Rosa gaman að fá að taka þátt í dagskránni á Menning og matur sem Reykjavík bókmenntaborg stóð fyrir í dag í Hörpunni. Einstaklega ljúf samverustund þar sem okkur “ung” höfundunum gafst færi á að lesa sögurnar okkar sem birtust í Skíðblaðni fyrsta og öðrum um daginn. Fyrst las Sólveig úr sögunni Skúffan þar sem kona fer í hárlitun til vinkonu sinnar, næst las Þórdís úr Korríró, beibí hnyttna en líka hræðilega reimleika sögu, og síðast las ég Veggir, um feðga á ferðalagi sem stoppa til að skoða eyðibýli (íslenskara verður það varla). Öllum lestrinum var vel tekið og vonandi notar fólk tækifærið og finnur sér leið á skidbladnir.is að skoða hinar smásögurnar sem eru birtar þar, alveg ókeypis eins og svo margt gott (og sumt ljótt) á Internetinu. Dagskráin hélt áfram undir stjórn Egils Helgasonar með Jónínu Leósdóttur, Guðmundi Andra Thorssyni og Eydísi Blöndal, IMG_4548auk þess sem að á undan lestri okkar Skíðblaðnishöfunda ræddu Ragnar og Dagur við Egil um hugmyndafræðina og gleðina á bak við Tunglið og Tunglkvöldin og Skíðblaðni og lásu fyrir okkur; Dagur fyrstu kaflana úr Síðustu ástarjátningunni og Ragnar nokkur ljóð úr Til hugreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum auk nýrra ljóða sem hann las af símanum sínum og sína eigin þýðingu á þessu fallega ljóði eftir bandaríska ljóðskáldið Jack Gilbert. (Mundi ekki höfundinn eftir lesturinn en tókst að hafa upp á ljóðinu með því að slá inn “american poet antelope” í Google og það dugði til.) Takk Mamma fyrir myndirnar, og takk þú sem komst upp að mér eftir lesturinn og þakkaðir mér fyrir söguna mína og sagðir mér frá manninum þinum.