Núna á fimmtudaginn koma út hjá Meðgöngumáli örbækurnar Vetrarhamur eftir Herthu Maríu Richardt Úlfarsdóttur og Þjófasaga eftir mig. Meðgöngumál er undirforlag Partus Press sem einbeitir sér að smásöguútgáfu, en í stað þess að gefa út smásögusöfn gefa þau út stakar smásögur í ódýru prenti, svipað og Meðgönguljóð hafa gert við ljóðasöfn. Þjófasaga var unnin í samvinnu við ritstjórann minn hjá Meðgöngumáli, Elínu Eddu Pálsdóttur. Þetta er í raun örævisaga byggð á svipuðum stílfærslum og Níu Líkamar sem var gefin út hjá Tímaritinu Stínu í vetur og þar áður hjá Valve Journal í Glasgow þar sem reynt er að ramma inn heila mannsævi í þeim brotum sem hægt er að raða saman innan í jafn takmörkuðu rými og smásagnaformið er. Það er mikill heiður fyrir mig að fá mína eigin prentútgáfu og vonast ég til að sjá sem flest ykkar á Loft Hostel á fimmtudaginn. Kvöldið hefst klukkan 20:00 og verður afsláttur á barnum fyrir þá sem fjárfesta í bókunum.