NOKKUR ORÐ UM DVÍNANDI BÓKSÖLU Á ÍSLANDI

mbl.is/Þ​órður Arn­ar Þórðar­son

Þessi litli pistill birtist upphaflega á Facebooksíðu minni þann 17. ágúst 2017 og var skrifaður sem andsvar við frétt á ruv.is um að sala á íslenskum bókum hefði fallið um 30% undanfarinn áratug.

Margir vilja tengja þessa þróun við minnkandi lestur barna og unglinga. Ég er ekki alveg seldur á þá hugmynd. Í þau ár sem ég hef starfað í erlendu deildinni í Eymundsson hefur einn stærsti kúnnahópurinn minn alltaf verið unglingar. Fáir viðskiptavinir eru jafn einlægir og spenntir yfir bókunum sem þau eru að kaupa og þessir krakkar, og maður gleðst svo innilega þegar þau koma til manns og biðja um meðmæli. Maður man nefnilega hvernig þetta var. Það var á þessum aldri sem maður sjálfur kynntist þeim bókum sem mótuðu mann hve mest. Sjálfur byrjaði ég að lesa mjög mikið af bókum á ensku á unglingsárum, enda var í þá daga ekki til neitt á íslensku sem jafnaðist á við Terry Pratchett, Frank Herbert, Douglas Adams o.fl. o.fl. Það voru varla einu sinni til íslenskar glæpasögur, þótt vissulega gleypti maður líka í sig allar þær Jack Higgins og Alistair MacLean þýðingar sem maður fann á bókasafninu. (Já, ég er hræddur um að ég hafi eiginlega bara lesið karla sem unglingur, fyrir utan náttúrulega Lindgren og Blyton.)

Þónokkur nýbreytni hefur átt sér stað í íslenskum bókastefnum síðan þá. Ungir höfundar hafa sérstaklega verið duglegir að koma inn á markaðinn með nýja bókaflokka í ætt við þá sem þau sjálf uppgötvuðu á sínum tíma í Austurstrætinu, Máli og menningu, Bókabúðinni á Hlemmi, Nexus og fleiri bókabúðum sem staðið hafa í ströngu við að bjóða úrval erlendra bóka síðustu þrjátíu ár eða svo. Því miður hefur það samt tíðkast allt of lengi að þær íslensku bækur sem þessi markhópur ungs fólk hefur áhuga á að lesa eru settar beint í barnadeild bókabúða, innan um bangsa og leikföng og nagbækur. Ekki hefði ég treyst mér til að ganga þangað inn í leit að einhverju að lesa á mínum eigin brothættu unglingsárum.

Ef við ætlumst til að krakkar haldi áfram að lesa, og sérstaklega að lesa á íslensku, þá þurfum við að upphefja og halda að þeim þeim bókum sem þau sjálf hafa áhuga á að lesa, í staðinn fyrir að vera sífellt að slá á puttana á þeim og segja: “Nei, þú ert að gera þetta vitlaust, lestu þetta frekar!” Þannig sköpum við þá venju hjá þeim að sækja sér afþreyingu, spennu og skemmtun í bækur. Látum í það skína að við virðum þær bækur sem þau kjósa sjálf að lesa, finnum þeim öndvegissess í íslenskum bókabúðum og veitum þeim bókum þá fjölmiðlaumfjöllun sem þær svo sárlega þarfnast. Síðan getum við farið að hafa áhyggjur af því að þau eigi eftir að lesa Njálu og Laxness.