„ÞETTA ER ALLT Í LAGI“ Í NÝJASTA HEFTI ÓS PRESSUNAR

Ós #1 (blá) og Ós #2 (bleik)

Ég á söguna „Þetta er allt í lagi“ í nýjasta hefti Ós pressunar, Ós Journal #2, sem kom út í lok síðasta árs. Sagan var að einhverju leiti unnin upp úr hugmyndum varðandi áhrif ofbeldis sem ritvopns sem ég rakst á í fyrirlestri eftir Flannery O’Connor fyrir einhverjum árum síðan. Fyrirlesturinn er að finna í greinasafninu Mystery and Manners, en einnig hafði ég í huga eina af hennar frægustu smásögum, „A Good Man is Hard to Find“, við gerð sögunnar. Ég bið samt fólk um að leita ekki of lengi að tengingunni við þennan meistara smásagnaformsins. Sama hvaða góðu fyrirætlanir maður leggur af stað með þegar maður byrjar á nýrri sögu þá eiga sögur það til að afvegaleiða mann, þannig að maður endar einhverstaðar allt annars staðar en maður ætlaði sér.

Ós #2 inniheldur 13 smásögur og 28 ljóð á 8 mismunandi tungumálum

Ég þakka Ós fyrir að taka söguna upp á arma sína. Það er vöntun á útgáfumöguleikum fyrir smásögur á Íslandi og er því mikill léttir að vita af fólki eins og þeim í Ós, sem leggja svona mikið á sig til þess að koma skáldskap og ljóðum og öðru í prent—og svona líka fallegt prent! Ég var einstaklega ánægður með fráganginn á útgáfunni, og með alla þessa flottu höfunda sem ég deili síðunum með. Reyndar get ég ekki lesið öll verkin þar sem Ós státar sig af því að gefa út á hvaða tungumáli sem höfundar vilja, en ég er þeim mun meira upp með mér að fá að vera með í svona alþjóðlegu verkefni.

Ég kynntist þeim hjá Ós fyrir að verða ári síðan þegar ég tók viðtal við þær fyrir Reykjavík Grapevine. (Á þeim tíma samanstóð stjórn tímaritsins eingöngu af konum.) Ég hef lengi talað um það hve spenntur ég er fyrir þeim listum, tónlist og skáldskap sem þessar nýju kynslóðir Íslendinga sem eru að vaxa úr grasi í dag—Íslendinga sem koma frá heimilum og samfélögum þar sem ekki er endilega töluð íslenska dags daglega—munu skila frá sér í framtíðinni, og eru núþegar farnar að skila af sér. Von mín er að innan skamms muni okkur berast bylgja skáldskapar og lista frá þessum hópi sem sýni okkur einhverja algerlega nýja hlið á okkur sjálfum, þjóð okkar og umhverfi, og herji á þær klisjur og fordóma sem geta svo auðveldlega grasserað þegar minnihlutahópar búa ekki yfir nógu sterkri rödd í fjölmiðlum, pólitík og listum. Það er þó mikið starf framundan ef þetta á fram að ganga, og þar tel ég Ós Pressuna standa í broddi fylkingar í því að búa til pláss fyrir íslenskar raddir sem ekki rúmast innan hins takmarkaða íslenska útgáfugeira.

„Þetta er allt í lagi“ lesin upp í Gröndalshúsi

Ós Press #2 kom út í lok síðasta árs og var þá haldið útgáfuhóf í Gröndalshúsi í Grjótaþorpinu, en þar sem útgáfan var í miðju jólabókaflóðinu þegar hvað mest er að gera í upplestrum o.s.frv. í Reykjavík þá fór útgáfa tímaritsins ekki svo hátt—þótt það væri glatt á hjalla hjá okkur höfundunum, að lesa sögurnar okkar og hampa þessu fallega, fölbleika hefti. Það er mér því gleðiefni að Ós pressan stendur fyrir öðrum viðburði í mars með höfundum heftisins, raunar tveimur viðburðum. Um er að ræða upplestrar- og samtalskvöld í Veröld, húsi Vigdísar þann 1. mars og í Gerðubergi þann 4. mars. Viðburðirnir eru unnir í samstarfi við Borgarbókasafnið og Veröld, hús Vigdísar—sem er eftir allt „hús erlendra tungumála“— og er haldið í tilefni af hinum finnsk ættaða Multilingual Month, sem haldinn er í mars. Ég er náttúrulega landafræðilega afsakaður, eins og áður, en ég hvet aðra til að mæta.

Einnig hvet ég alla til þess að nýta tækifærið og senda Ós efni fyrir næsta hefti Ós Journal, Ós #3. Ós er með ein opnustu umsóknarskilyrði sem ég veit um; þau taka ekki bara við bæði skáldskap, ævisögulegu efni, ljóðum og leikritum og öllu hinu sem fellur einhverstaðar þar á milli, heldur taka þau líka við efni á hvaða tungumáli sem er—svo lengi sem þeim tekst að hafa upp á einhverjum sem getur lesið efnið yfir. (Síðasta hefti, Ós #2, bauð upp á efni á íslensku, ensku, pólsku, þýsku, spænsku, hollensku, búlgörsku of kúrdísku.) Öll mín samskipti við þau einkenndust af einstakri fagmennsku og þægilegheitum, og eins og áður sagði þá var lokaafurðin—heftið sjálft—alveg sérstaklega fallegur gripur sem gaman er að eiga upp í hillu. Eftir því sem ég best veit er umsóknarfrestur til 28. febrúar, svo það er um að gera að kafa ofan í skúffu eða í tölvuna og leita uppi einhverjar sögur, ljóð eða annað sem vantar gott heimili og senda á netfangið ospressan@gmail.com.

Bestu kveðjur frá Löngu eyju,

-BH

Ós #2 og Ós #1