LISTAMANNALAUN 2019

Ég fékk þau tíðindi stuttu eftir heimkomuna til Brooklyn að mér hefðu verið úthlutaðir sex mánuðir úr launasjóði rithöfunda fyrir árið 2019. Er þetta í annað sinn sem ég fæ úthlutun úr sjóðnum, en ég fékk einnig þrjá mánuði úthlutaða fyrir árið 2018. Í bæði skipti var sótt um laun fyrir sama verkið, skáldsögu sem ég er með í smíðum og hygg á að gefa út fyrir næstu jól.

Fréttirnar eru mikið gleðiefni og að sjálfsögðu skáluðum við hjónin um kvöldið til að fagna styrkinum. Launin eiga eftir að létta töluvert róðurinn út árið og um leið minnka álagið á heimili okkar á meðan ég bisast við að klára bókina. Það sem mestu máli skiptir er að með þessum launum get ég einbeitt mér heilshugar að skrifunum stóran hluta dagsins, en þarf ekki lengur að vera sífellt að ýta bókinni frá mér til að taka að mér ýmiskonar launuð verkefni og íhlaup.

Það er skrítin tilfinning að horfa yfir úthlutunarlistann og tína til þau nöfn sem þar vantar og bera sig saman við þá höfunda sem hlutu færri mánuði en maður sjálfur. Ég mun því gera mitt ýtrasta til að bregðast ekki því trausti sem mér er sýnt og mæta á bak við skrifborðið stundvíslega á hverjum virkum morgni þar til mér hefur tekist að murka þessa bók út úr lyklaborðinu.

Útsýnið héðan úr Brooklyn writers Space í Gowanus hverfinu í Brooklyn, þar sem ég sit við skriftir bróðurpart úr degi