Ég hef talað við höfunda sem segja að þeir kjósi helst að lesa ekki neitt á meðan þeir eru að vinna að bók af ótta við að textinn þeirra „smitist“. Sjálfum hefur mér alltaf fundist slík smit vera órjúfanlegur hluti af ferlinu. Allt sem þú skrifar á í eðli sínu í samtali við allt annað sem skrifað hefur verið (eða að minnsta kosti allt það sem lesandi þinn hefur lesið).
Það sem ég les leiðir mig líka áfram í því sem ég skrifa. Sama hvort ég er með ákveðið verkefni í huga eða ekki þá glósa ég alltaf á meðan ég les. Til þess nota ég svokallaða commonplace book – eða „samastaðarbók“. (John Locke skrifaði t.a.m. leiðbeiningabækling um þessa aðferðafræði.)
Þegar ég er að vinna að ákveðnu verki verð ég yfirleitt svo upptekinn af því að allt sem ég les virðist tengjast því á einn eða annan hátt. Samt reyni ég að setja til hliðar og safna saman atriðum sem endurvarpa þeim blæbrigðum eða tilfinningum sem ég vonast til að ná fram í mínum skrifum. Stundum vísa ég í þetta efni í textanum en aðallega nota ég það sem einskonar leiðarvísi. Þetta hjálpar mér að komast aftur af stað þegar mig rekur í strand; að finna réttu leiðina þegar ég er á villigötum.
Hér að neðan má sjá samastaðarbókin sem ég hélt á meðan ég vann að skáldsögunni Stol.
Þann 2. febrúar næstkomandi gefur Forlagið út skáldsöguna Stol, sem er mín önnur bók. Bókin fer einnig í Ugluklúbb Forlagsins. Ég er búinn að fá prufueintak af bókinni í hendurnar og það er ansi sérstök tilfinning að sjá öll þessi orð, sem hafa verið á sífelldri hreyfingu undanfarin ár, prentuð í bók, föst fyrir og óhagganleg. Bókina verður hægt að fá í öllum bókabúðum. og hlakka ég mikið til að deila henni með lesendum. Kápuna hannaði Alexandra Buhl og þakka ég henni kærlega fyrir þolinmæðina sem hún sýndi á meðan ég reyndi að stauta mig fram úr því hvað ég vildi. Hún negldi það algjörlega.
Í vor kom Þorsteinn J. að máli við mig varðandi það að taka þátt í nýju verkefni sem hann var með á prjónunum; viðtalsseríu við fólk sem hafði tekið ákvörðun sem breytti lífi þess og leiddi það inn á nýjar brautir. Við hittumst nokkrum sinnum yfir sumarið, heima, á skrifstofunni og á mínum gamla vinnustað í Eymundsson Austurstræti, og ræddum um það sem leiddi til þess að ég fór að skrifa skáldskap fyrir alvöru.
Það vildi svo til að á meðan á þessu ferli stóð fékk ég útgáfusamning við Forlagið fyrir mína fyrstu skáldsögu, sem kemur út í febrúar 2021. Þorsteinn náði því að fanga ansi merkilegt tímabil í mínu lífi og gerði það af einskærri natni og alúð. Viðtalsserían er reyndar einungis aðgengileg í gegnum áskrift að Sjónvarpi Símans en hér að neðan má sjá stiklu.
Smáglæpir, mín fyrsta bók, fær fimm stjörnur og ítarlega, heilsíðu umfjöllun í Shabbat, bókmenntatímariti ísraelska dagblaðsins Makor Rishan, auk þess sem bókin fékk víst umfjöllun og umtal í ísraelska útvarpinu. Það er ótrúlega gaman að vita að verkin sín eigi sér framhaldslíf þarna úti í heimi, og að fólk í öðrum löndum og menningarheimum finni í þeim eitthvað til að tengja við. Smáglæpir er gefin út af ísraelsku bókaútgáfunni Lesa Books og vil ég þakka ritstjóra útgáfunnar, Shai Sendik, og þýðandanum mínum, Shirley Levy, kærlega fyrir alla þá alúð og ötulu vinnu sem þau hafa lagt í að færa bókina yfir á nýtt tungumál.
Við Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir mættum til Jórunnar Sigurðardóttur í Bók vikunnar núna í vikunni til að ræða um bókina Sólhvörf eftir Emil Hjörvar Petersen og um stöðu og þróun íslensku furðusögunnar. Samtal okkar má heyra á RÚV sarpinum.
Í morgun, á
leiðinni á skrifstofuna mína í Borgartúninu, datt mér svolítið fyndið í hug. Það
skiptir ekki máli hvað það var. Bara einhver spaugileg athugasemd um daginn og
veginn; eitthvað sem gladdi mig í hversdeginum.
Eins og ég á til þá
tók ég upp símann og hripaði niður tíst til að deila hugskotinu með því
snefilmagni þjóðarsálarinnar sem fyrirfinnst á Twitter. Þar er ég með prófíl
með huggulegri mynd af sjálfum mér og set oft inn eitt og annað sem mér þykir hnyttið,
deili tónlistinni sem ég er að hlusta á hverju sinni og svo framvegis.
Ég hef ekki farið
leynt með ástæður þess að ég byrjaði á forritinu. Ég, eins og margir í skapandi
geiranum, hef gengist við þeirri hugmyndafræði að það sé mikilvægt að vera
„sýnilegur“ á netinu, í von um aukna möguleika á að lifa á list minni (þótt ég
velti oft fyrir mér hvort öllum tímanum sem fer í að viðhalda þessum sýnileika væri
ekki betur varið í listsköpunina sjálfa). Vera mín á þessum samfélagsmiðli
hefur frá byrjun verið stýrt af mínum eigin hagsmunum. Ég geri mér grillur um
að með því að vera „virkur“ þarna og annars staðar á netinu séu auknar líkur á
að fólk veiti því eftirtekt sem ég er að gera, lesi greinarnar mínar og kaupi
jafnvel bækurnar mínar eða mæti að minnsta kosti á bókmenntaviðburði þar sem ég
les úr þeim.
Þar sem ég stóð í
Borgartúninu, við það að senda enn eina sniðuga og umfram allt meinlausa athugasemd
út í ljósvakann, mundi ég að í dag ætla íslensk stjórnvöld að senda úr landi sex
manna fjölskyldu sem hefur sest hér að og upplifað hér öryggi og von um
bjartari framtíð. Ég hef fylgst með þessari fjölskyldu undanfarna daga. Þau
hafa neyðst til að fara í fréttirnar til að biðla til þjóðarinnar og íslenska
ríkisins um miskunn. Bænum þeirra hafa stjórnvöld svarað með sorgarsvip búrókratans
sem telur sig eiga engra kosta völ, hristir höfuðið og kennir kerfinu um.
Ég get ekki sagt
að mín viðbrögð hafi verið mikið betri. Ég hef setið í þögn og fylgst með fréttaflutningi
af þessari sorgarsögu, eins og ég hef gert við aðrar slíkar sögur undafarin ár.
Eins og áður er naumur tími til stefnu. Svona málum fylgir tifandi klukka sem
telur niður dagana, klukkustundirnar, mínúturnar þar til fólkinu er vísað úr
landi. Þess vegna er mikilvægt að taka umsvifalaust skýra afstöðu þegar svona
mál ber á góma. Sjálfur hef ég hikað, farið undan í flæmingi og talið mér trú
um að ég búi ekki að nægilegum skilningi. Ég hef sagt sjálfum mér að ég þurfi
að kynna mér allar staðreyndir málsins áður en ég geti tjáð mig; þurfi tíma til
að setja saman þaulhugsuð og óhrekjanleg rök sem færa skoðun mína til bókar.
Á meðan ég hef
legið undir mínum sjálfhverfa feldi hefur fjölskyldum verið vísað úr landi.
Aftur og aftur. Og ég hef gleymt þessum fjölskyldum, haldið áfram að senda frá
mér orðgjálfur um ekki neitt eða jafnvel notað stöðu mína til að tjá mig um
önnur bitbein samfélagsins. Hjólastíga, almenningssamgöngur, launamál og annað
sem skarast á skýrari hátt við mína eigin hagsmuni en afdrif brúnnar,
útlenskrar fjölskyldu sem er á barmi þess að tapa tilvist sinni.
Ég eyddi
meinlausa, fyndna tístinu mínu og lokaði símanum. Það sem eftir var leiðarinnar
fann ég að ég skammaðist mín, bæði fyrir framferði íslenskra stjórnvalda en
ekki síst fyrir mína eigin þögn; fyrir hik mitt og kjarkleysi. Það rann upp
fyrir mér að í eðli sínu eru þessi mál ekkert flókin, eða að minnsta kosti ekki
svo flókin að ég sé ekki fullfær um að standa upp og taka afstöðu. Jafnvel þótt
það sé það minnsta sem ég geti gert, þótt orð mín kosti mig ekki neitt, breyti
engu og enginn gefi þeim gaum, þá verð ég að gera skyldu mína sem þegn í þessu landi
og segja hátt og snjallt: Þetta er ranglæti sem ég vill ekki að sé framkvæmt í
mínu nafni.
Nú stendur til að smásögusafnið Smágæpir, mín fyrsta bók sem kom út hjá Sæmundi árið 2017, verði gefin út á hebresku af ísraelska útgefandanum Lesa Books. Lesa gefur út bækur frá ýmsum löndum en eins og nafnið gefur til kynna sérhæfa þau sig þó í íslenskum bókum. Hefur útgáfan tryggt sér útgáfurétt á verkum eftir Oddný Eir, Einar Kárason, Guðmund Andra, Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Sigríði Hagalín o.fl. o.fl. Shai Sendik hefur yfirsýn með öllu starfi útgáfunnar og ritstýrir þýðingunni, en þýðandi er Shirley Levi.
Hér að neðan má sjá kápuna á hebresku útgáfu bókarinnar:
Greinin ber titilinn „Þegar hetjan er vandamálið“ og fjallar um þær hættur sem stafa af einsleitri hetjudýrkun sem oft má finna í kvikmyndum og á samfélagsmiðlum. Í skemmtilega afslöppuðum ritstíl fer Solnit um víðan völl og dregur inn í umræðuna t.d. kvikmyndina Kona fer í stríð, Hungurleikana, Robert Mueller o.fl. o.fl. til að sýna hvernig þessi orðræða dregur úr hvata fólks til að bindast tryggðarböndum og nota mátt fjöldans til að hrinda jákvæðum samfélagslegum breytingum í framkvæmd.
Heftið í ár er stútfullt af merkisgreinum og pistlum um sagnfræði, loftslagmál og listir og þótti mér einstaklega gaman að fá að leggja mitt af mörkum við samsetningu þess.
Ég kom við í Forlaginu í dag og skrifaði undir útgáfusamning fyrir mína aðra bók sem er jafnframt mín fyrsta útgáfa hjá Forlaginu, að undanskildum þeim smásögum sem birtar hafa verið í TMM. Bókin hefur verið í smíðum nokkurn veginn samfleytt síðan 2016 en hún á rætur að rekja allt aftur til ársins 2013 þegar fyrsta uppkast handritsins, í töluvert annarri mynd, mátti finna í lokamöppu minni fyrir MFA-nám í ritlist við Háskólann í Glasgow.
(Þess má geta að sú lokamappa innihélt einnig eldri uppköst af flestum sögunum í Smáglæpum, minni fyrstu bók sem kom út hjá Sæmundi árið 2017, og því er erfitt að segja hvað ég á að taka mér fyrir hendur nú þegar sá brunnur er þurrausinn.)
Ég er spenntur að fara að vinna með ritstjóra Forlagsins og hönnunarteymi þeirra og lýst vel á að bókin komi út að vori, frekar en að þurfa að hraða henni í gegnum allt ferlið sem fyrir liggur í von um að ná henni í tæka tíð inn í jólabókaflóðið. Ég hlakka líka mikið til að sjá hvaða aðra höfunda verður að finna í vorútgáfunni 2021.
Fylgist með þegar nær dregur og frekari upplýsingar koma í ljós varðandi titil, efni, kápu og nákvæma útgáfudagsetningu bókarinnar. Að þessu sinni læt ég nægja að segja að um skáldsögu er að ræða.