Eftirfarandi pistill birtist fyrst í mars hefti Stundarinnar 2016 (6. tbl. 2. árg.)
Ég fékk græna hjólið í gegnum félaga minn. Það var víst búið að ílengjast mánuðum saman í vinnunni hjá honum. Einhver hafði fundið það úti og ætlað að gera það upp en svo varð aldrei neitt úr því. Þegar ég fékk það í hendurnar var það ein ryðhrúga, með stráum föstum í teinunum. Ég dröslaði því heim með mér, heim til mömmu. Þetta var stuttu eftir að ég var aftur fluttur heim til Íslands og annað hvort stuttu fyrir eða stuttu eftir að faðir minn dó. Maður myndi ætla að ég myndi muna hvort en dauðinn á það til að rugla tíma og minningar saman í einn bing sem ekki er svo auðvelt að greiða úr. Ég veit að ég bjó heima hjá mömmu þá, peningalaus og stefnulaus. Ég laumaðist með hjólið inn í geymsluna á sameigninni, sem ég var búinn að eigna mér lykilinn að. Faldi það þar þar til einhvern tímann.
Ég tók það ekki aftur út fyrr en ári seinna. Þá átti ég íbúð og kærustu, konu sem ég átti auðvelt með að sjá sjálfan mig eyða restinni af ævinni með. Við smullum svo vel saman, með sömu áherslur á hvað væri mikilvægt. Hlutir eins og morgunkaffi og lestrarstund. Sundferðir og vínilplötur. Mér fannst hún skemmtileg bæði í og úr glasi, sem var nýtt fyrir mér.
Snemma sumars dröslaði ég græna hjólinu heim í nýju íbúðina. Reiddi það á loftlausum dekkjum alla leiðina frá mömmu þar sem ég vildi ekki setja ryðbletti í sætin í bílnum (bílnum hennar mömmu). Nýja íbúðin mín, sú fyrsta sem ég átti frekar en leigði, var með útidyrahurð. Ég býst við að allar íbúðir séu með útidyrahurð en þessi var alvöru. Hún opnaðist út í garð. Ég hafði ekki átt svoleiðis útidyrahurð síðan ég var lítill og við bjuggum enn í Mosó. Þessa sumardaga sat ég oftar en ekki á tröppunum í sólinni og pússaði og pússaði ryðgað krómið og blettótt stellið. Ég tók hjólið allt í sundur og setti það aftur saman nokkrum sinnum í tilraunum mínum til að koma því í stand. Smurði keðjuna og tókst almennt að gera sjálfan mig grútskítugann í alla staði. Ég hafði mjög takmarkaða reynslu af hjólaviðgerðum og þurfti því oft að endurtaka hlutina, feta mig til baka og byrja upp á nýtt. Á endanum tókst mér að tjasla því öllu saman í ásættanlegt form og meira að segja tengja bæði gírana og bremsurnar svo að bæði virkuðu (þó eilítið eftir eigin hentugleika).
Ég gaf kærustunni minni hjólið og hún var himinlifandi þrátt fyrir að vera óvön hrútastýrinu og hálf hrædd um að fljúga fram fyrir sig þegar hún hemlaði. En þótt ég væri búinn að gefa henni hjólið, og ætti sjálfur mitt eigið hrútastýrishjól, silfraðann franskan Peugeot sem vinur minn hafði skilið eftir í bílskúrnum hjá foreldrum sínum áður en hann flutti til Bandaríkjanna, stóðst ég ekki mátið að stelast reglulega út í hjólatúra á græna hjólinu. Það var reyndar eiginlega of lítið fyrir mig og gaf mér furðulegar harðsperrur í hnésbæturnar og lét mig líta út eins og bjarndýr í sirkús sem neytt hefur verið til þess að læra að hjóla.
Fróunin sem fylgdi því að hjóla um nýja hverfið mitt á hjóli sem ég hafði lagað til og bjargað frá glötun upp á eigin spýtur var ólýsanleg. Það hefði mátt halda að ég hefði sjálfur grafið járnið úr jörðu, brætt það saman í stálið og soðið saman í stellið, krómað stýrið og þrætt teinanna, ræktað gúmmítrén fyrir hjólbarðana, skotið kúna og sútað leðrið í hnakkinn.
Í raun á ég voða lítinn þátt í tilkomu og tilvist græna hjólsins. Það stoppar ekki svo lengi hjá mér, býst ég við, og ekki veit ég hvar það endar þegar ég er búinn með það. Sögur okkar beggja lágu þó saman á alveg einstaklega merkilegum tíma í mínu lífi. Ég er búinn að geyma svolítið af mér í græna hjólinu. Smá skerf sem er svolítið þungt að rogast með alla daga, svo ég geymi hann þar. Í hjólinu. Tek það fram þegar mér þóknast og fer í hjólatúr meðfram Sæbrautinni. Það er voða gott að geta geymt eitthvað af sér í hlutunum sínum þótt að maður vilji kannski ekki dreifa sjálfum sér of víða, og maður verði að vita hvenær tímabært er að sleppa haldi á hlutunum og leifa þeim að halda áfram með sína sögu.
Fólk segir að þau sem fara frá okkur lifi í minningunum og það er alveg satt, en við getum ekki rogast með minningarnar með okkur alla daga. Getum ekki alltaf tekið þær með í vinnuna og í sund og á kaffihús eða á barinn. Svo við geymum þær í því sem hendi er næst: í hlutunum þeirra. Hlutunum okkar. Í lítilli steinvölu eða gömlum hatti. Í gamalli hrærivél eða slitnu eintaki af Laxness með nafni og ártali hripuðu á titilsíðuna. Í ljósmyndum og lopapeysum. Sófaborðum og hægindastólum. Þannig pössum við upp á minningarnar. Við bindum þær fastar við eitthvað utan við okkur og ríghöldum síðan í það. Við hugsum um fólkið sem er okkur kærast og sem við fáum aldrei að hitta aftur þegar við búum til kaffi með kaffikönnunni þeirra, sitjum við skrifborðið þeirra, spilum plöturnar þeirra og vefjum teppunum þeirra utan um okkur. Við pössum að hlutirnir þeirra skemmist ekki og týnist ekki, og að þegar við þurfum að láta þá frá okkur lendi þeir hjá einhverjum sem veit hver átti þá fyrst. Fólk lifir áfram í minningunum okkar en það lifir líka áfram í hlutunum sem það skilur eftir í okkar fórum. Þegar við förum þá verða hlutirnir okkar eftir hjá þeim sem okkur þykir vænst um.