Um daginn flutti Gauti Kristmannsson mjög ígrundaðann og vel skrifaðan bókadóm um Stol, nýjustu skáldsögu mína, í Víðsjá á Rás 1. Bókadóminn er núna hægt að lesa á heimasíður RÚV en hef ég einnig afritað hann og birti hann hér að neðan til varðveislu
Gauti Kristmannsson skrifar:
Sorgin felur oft í sér það ósagða, við finnum í henni eftirsjá alls þess sem hefði mátt segja, en aldrei var fært í orð; orð ástar og reiði, en alltaf orð sem biðu í undirvitundinni og vildu koma fram, en komast ekki lengur. Það gerir hana sárari en ella, en er kannski grundvöllur hennar, án þess ósagða væri eftirsjáin ekki svona djúp. Missirinn er jafnvel sárari þegar hann kemur fram á meðan ástvinirnir eru enn á lífi, þegar þegar þau glata minni og vitund um sína nánustu, deyja andlegum dauða í viðurvist þeirra og eru dáin áður en líkami þeirra er endanlega dáinn. Þetta er viðfangsefni þessarar skáldsögu að einhverju leyti, sögumaður er ungur, samkynhneigður maður sem kominn er heim frá Bandaríkjunum úr óloknu námi og sambandi við annan mann sem fyllt hafði hann lífsgleði meðan á því stóð.
Söguformið er vegasaga, sögumaður og faðir hans eru á leið í útilegu og ætla að fara til Jökulsárlóns. Faðirinn er orðinn alvarlega veikur af heilaæxli og á ekki mikið eftir. Í ofanálag hefur aðgerðin sem gerð var til að fjarlægja æxlið haft mikil áhrif á hann, hann er haldinn málstoli og hefur einkenni sambærileg við Alzheimer eða elliglöp. Sagan er mikið til sögð í annarri persónu, sögumaðurinn er sífellt að tala við föður sinn, en þótt hann ávarpi hann „þú“, þá er hann ekki alltaf að tala við hann, heldur um hann. Fyrsta setning sögunnar er gott dæmi um þetta: „Við erum varla komnir úr bænum þegar þú þarft að pissa.“ Bein samtöl feðganna á milli eru hins vegar innan gæsalappa eins og hefðbundið er. Þessi aðferð gefur sögumanni færi á að segja margt sem hann hefur kannski átt erfitt með að segja, eða getur ekki sagt vegna ástands föður síns, hann er að reyna að nálgast föður sinn, en er um leið þrúgaður af samviskubiti vegna þess að það er orðið of seint, að því er virðist.
Þetta er þriðja feðrasagan sem ég les á þessum vetri, hinar voru Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson og Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur, en þar er einnig dauði föðurins eitt af meginviðfangsefnunum, og þótt allar þessar sögur séu ólíkar, þá er í þeim þetta tvíbenta uppgjör við föðurinn, í senn ásakandi og sakbitið. Án þess að ég vilji búa til eitthvert trend vöknuðu líka hugrenningatengsl við nokkur verk kvenna frá síðari árum sem snerust um uppgjör við móðurina. Foreldrar okkar eru slíkir áhrifavaldar í lífinu að engan skyldi undra að skrifað sé um þetta, þau hafa slíkt tök á lífi okkar frá upphafi, og við komumst að því á einhverjum tíma að þau eru hluti af okkur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Einhverju sinni skrifaði freudistinn Eric Berne eitthvað á þá leið, að í bernsku sæjum við foreldra okkar sem goðsögulegar verur, og að þessar verur skrifi handritið að sjálfi okkar með þeim sögum sem þær segja okkur.
Þessi saga snýst þó engan veginn um föðurmorðið í anda Freuds, jafnvel þó að rofið milli föðurins og sonarins á unglingsárunum hafi einmitt átt sér stað þegar þeir voru á leið í sína árlegu útilegu, rétt eins og sagt er frá í þessari sögu. Sjónarhornið er miklu fremur á missinn, stolið, og kannski er ungi maðurinn alveg eins í uppgjöri við sjálfan sig, hann áttar sig á því að þótt faðir hans „eigi“ eitthvað í honum, þá er strandið í hans eigin lífi honum sjálfum að kenna.
Þótt form sögunnar sé einfalt í sjálfu sér, vegasaga sem gerist á nokkrum dögum í réttri tímaröð, þá þjóna endurlit og vangaveltur sögumanns um sig og aðra hans nánustu þeim tilgangi að fylla upp í myndina af lífi aðalpersónunnar og fjölskyldu hans. Þetta er raunsæ og nokkuð geðþekk mynd, það eru engar drastískar persónur, engar misþyrmingar eða áföll, þetta er venjulegt miðstéttarfólk sem ekki stendur fyrir neinum ósköpum. Vissulega eru átök, foreldrar drengsins skildu þegar hann var ungur, og hugsanlega er það áfall, en það hendir meirihluta barna í þessu samfélagi, held ég. Einhvern tímann var sagt, að mig minnir, að stjúpfjölskyldan væri algengasta fjölskylduform samtímans á Íslandi.
Bygging sögunnar er vel og kunnáttusamlega gerð; endurlitin og vangavelturnar þjóna einnig sem frásagnartöf þar sem við bíðum eftir framvindu sögunnar, og það tekst að gera hana nokkuð spennandi, ekki síst í öðrum hluta af þremur, þegar þeir feðgar álpast á Fjallabaksleið syðri á heimleiðinni, og þar tengir höfundur frásögnina við þekkt minni í íslenskri sögu og býr til flækjur og drama sem næra allar góðar sögur. En sögubyggingin er þannig mjög klassísk, hún byrjar í miðjum klíðum, er með upphaf, ris í miðju og endi þar sem lokað er á ferlin sem vakin eru í frásögninni. Höfundur er ekki að spenna stílinn neitt upp og heldur sig við raunsæislega frásögn og reynir ekki mikið að vera með dramatískar lýsingar, þær eru fremur lágstemmdar, meira að segja þegar á bjátar og skynja má örvæntingu hjá sögumanni, þegar allt klúðrast sem klúðrast getur. Sagan er ekki mjög íronísk, þótt greina megi tungu í kinn í hrakfallahætti sögumanns og uppátækjum föðurins.
Þessi saga er alveg ágætis byrjun hjá ungum höfundi og hann er greinilega flinkur að vinna sannfærandi og trúverðugan söguþráð, en á móti fer kannski ekki mikið fyrir neinni tilraunamennsku, eða mjög mörkuðum persónum, eins og farið hafi verið að ráðum Rolands Barthes í frægri bók sem heitir Skrifað við núllpunkt, þar sem hann kallar eftir áreynslulausum stíl í skáldskap. Sú bók var hins vegar skrifuð á sjötta áratug síðustu aldar og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan. En mesta gjöf þessarar bókar er hins vegar að taka lesendur með í ferðalag í sorgina og missinn á foreldri, án þess að falla í gryfjur væmni og sjálfsvorkunnar. Dauðinn óumflýjanlegi lætur aldrei að sér hæða og í þessari sögu tekst sögumanni að vinna úr honum á augnabliki þar sem hann heldur að faðir sinn sé nánast að deyja og segir loksins allt við hann sem hann þurfti að segja. Þótt faðirinn hafi kannski ekki heyrt það allt, ef nokkuð, þá minnir hann okkur á að við þurfum að segja hið ósagða sem undir liggur til að geta sætt okkur við dauða foreldra okkar, einmitt til þess að geta skrifað handritið að okkar eigin sjálfi í framtíðinni.