#6 SMÁVEGIS UM VIÐBRAGÐSBÓKMENNTIR OG HUGARRÓ

Ég kláraði stóra bók um daginn og eins og stundum þegar ég klára stóra bók þá sat ég eftir og hugsaði: „Vá, hvort var þessi bók alveg æðisleg eða bara alltílæ?“ Eins og E.M Forster sagði þá er nefnilega erfitt að treysta stórum bókum fyllilega af því að lesandinn þarf að sannfæra bæði sjálfan sig og aðra um að hann hafi ekki sóað tíma sínum til einskis. Bókin sem um ræðir er Lessons eftir Ian McEwan, þykk skáldsaga sem spannar heila ævi venjulegs bresks meðaljóns, sem þrátt fyrir mikla hæfileika í æsku stendur uppi sem iðjuleysingi og einstæður faðir og endar síðan sem einangrað gamalmenni sem er búið að sættast við það að heimurinn haldi áfram án sín.

Ég er með mikil blæti fyrir öllum svona sögum og bíómyndum sem reyna að draga fram þá lágstemmdu dramatík sem einkennir daglegt líf „venjulegs“ fólks – svona Mike Leigh/Sally Rooney/Raymond Carver/kitchen sink drama-dót. Ég er samt ennþá að velta fyrir mér hvað McEwan ætlar sér að segja um samskipti kynjanna, en í bókinni er kunnuglegum stefjum snúið á haus. Þannig yfirgefur eiginkona Rolands hann og barnungan son þeirra til þess að gerast heimsfrægur rithöfundur, og í æsku er hann misnotaður kynferðislega af píanókennaranum sínum –  fullorðinni konu. Þá lífsreynslu notar hinn fullvaxta Roland til að útskýra (eða réttlæta) fyrir sjálfum sér hvernig hann fór út af sporinu sem ungur maður, lauk ekki námi og missti af þeim tækifærum sem stóðu honum til boða. Hann á þó erfitt með að fella sig við hlutverk þolanda eða fórnarlambs, allt þar til í seinni hluta bókarinnar þegar hann er kominn yfir fimmtugt og samfélagið er byrjað að takast á við #MeToo.

Líklega er það þó ósanngjarnt eða jafnvel arfavitleysa hjá mér að stilla því þannig upp að McEwan sé að reyna að „segja“ eitthvað ákveðið um samskipti kynjanna. Það getur vel verið að einhverjir lesendur sjái í bókinni endurspeglun á þeirra eigin heimssýn og hlakki yfir kvenpersónunum sem beita Roland tilfinningalegu og kynferðislegu ofbeldi („Sko! Konur líka!“) en sjálfur er Roland engan vegin viss um hvað honum finnst um þetta allt saman. Bókin fylgir honum frá barnæsku til æviloka og eins og við flest fær hann nýja sín á atburðina sem mótuðu líf hans eftir því sem tíminn líður, og kemst í raun aldrei að neinni endanlegri niðurstöðu. Hlutirnir gerðust bara eins og þeir gerðust og hann á erfitt með að sjá hvernig þetta hefði getað farið á annan veg. Á sama tíma fylgjumst við með því hvernig atburðir líðandi stundar setja mark sitt á líf hans. Við fylgjum honum í gegnum heimsviðburði á borð við Kúbukrísuna, Chernobyl, fall Berlínarmúrsins, upphaf og áframhaldandi hörmungar Íraksstríðsins, #MeToo, Brexit og að lokum einangrunina og óttann sem hann upplifir sem heilsulaus eldri borgari í heimsfaraldri Covid-19. Þessir atburðir móta allir að einhverju marki þá stefnu sem líf hans tekur, þótt áhrif þeirra séu kannski ekki eins áberandi og samskipti hans við konur, foreldra, fjölskyldu og vini.

Í ritdómi í nóvemberhefti New York Review ber Giles Harvey þennan stóra tímaskala bókarinnar saman við lensku sem hann nefnir „rapid response novels“ – sem mætti kannski útfæra sem „viðbragðsbókmenntir“ á íslensku. Þar á hann við skáldsögur sem eru svo kyrfilega staðsettar í pólitíska og andlega “núinu” að þær geta virkað hálf úreltar ef þú kemst ekki í þær fyrr en einu til tveimur árum eftir að þær koma út. Harvey aðgreinir Lessons frá þessum bókum sökum „dýpt“ persónusköpunarinnar og því hvernig bókin endurspeglar mannlegt eðli með því að gefa sig ekki út fyrir að búa að skýrum og skorinortum niðurstöðum um málefni líðandi stundar. Eins og hann orðar það sjálfur, kannski heldur hryssingslega:

Because of its formal fragmentation and ultra-contemporary subject matter, the rapid-response novel carries an aura of modernist innovation. Life itself has grown more manic and fractured (the implicit argument of these books seems to run), and novels ought to reflect this. Looked at another way, however, the genre could be seen as a capitulation. Working from the premise that readers today, conditioned by social media, have trouble focusing on anything for longer than thirty seconds at a time, the rapid-response novelist decides to cater to their ravaged attention spans by writing brief, topical books comprised of tweet-like fragments generously set off by quantities of white space.

Ég verð að viðurkenna að það er eitt og annað kunnuglegt við þessa háðsku lýsingu Harveys og kannski hefur maður einhvern tímann tautað eitthvað álíka ofan í fjórða bjórinn sinn þegar maður hefur setið við spekúlasjónir með öðru skrifandi fólki. Engu að síður hefur það verið mín reynsla að bækur séu alltaf í einhverskonar samræðum við samtímann, sama hvort það er viljandi af hálfu höfundar eður ei. Kannski er gagnrýni Harveys því heldur sú að fólk sé að flýta sér um of, en margir höfundar þekkja efalaust hvernig það virðist stundum eins og samtíminn sé að breytast mun hraðar en handritið þitt hefur tök á að gera. Ég er viss um að í þessum töluðu orðum situr einhver yfir handriti að óútgefinni samtímaskáldsögu og klórar sér í hausnum yfir því hvort eigi að breyta Twitter í X eða ekki.

Ég er þó sammála því að oft þykir mér skáldsögur sem bjóða upp á tilfinningalega sátt og skýrar niðurstöður eilítið tortryggilegar. Kannski er það bara vegna þess að sjálfur hef ég varla komist að neinni skýrri niðurstöðu í lífinu og ætlast ekki til þess af skáldskapnum sem ég innbyrði heldur. Orð Harvey minna mig einnig á nýlegan þátt af Offline-hlaðvarpinu þar sem kvikmyndagagnrýnandinn Maia Wyman (sem notast við nafnið Broey Deschanel á Youtube) ræddi um kvikmyndir á tímum samfélagsmiðla og áhyggjur sínar af því að nýjar kynslóðir væru farnar að skilgreina sjálfsmyndir sínar og annarra um of út frá því hvaða poppmenningu þau kjósa að innbyrða, og væru því ólíklegri til að horfa á kvikmyndir eða lesa bækur sem þeim fyndist ekki vera “fyrir sig“ eða sem þau bæru flóknar eða óþægilegar tilfinningar til. (Eða eitthvað svoleiðis, er örugglega ekki að fara alveg rétt með það sem hún sagði, hægt að hlusta hér.)

Annars er í dag síðasti dagur ritlauna hjá mér, og ætla ég að halda upp á það í lufsulegum lattelepjandi stæl með því að dandalast á kaffihúsum – sem ég hef reyndar varla þolinmæði til lengur, sérstaklega ekki eftir að ég flutti mig í Gröndalshús sem býr að svo rokna flottri kaffivél að meira að segja kaffi-amatör eins og ég getur brasað fram sæmilegasta espresso. (Ég er búinn að vera vægast sagt nötrandi af koffíni síðan ég tók við skrifstofu hérna.) Í kvöld er ég svo að fara að sjá hina goðsagnakenndu Graveslime spila suddarokk á Kexinu, sem mig grunar að eigi eftir að verða tónleikaupplifun ársins, og eru það stór orð þar sem ég fór að sjá Cave In á Gauknum á mánudaginn og hitti þar fyrir nánast alla reykvísku harðkjarnasenuna sem átti blómaskeið sitt um síðustu aldamót. Cave In voru reyndar svo þéttir að maður trúði því varla að hægt væri að flytja svona marglaga tónlist svona fumlaust, auk þess sem hljóðið á Gauknum var algjörlega til fyrirmyndar (sem er ekki alltaf endilega raunin þegar maður fer á metal-tónleika, þótt oftast sé það bara stemmning að fá smá suð og feedback inn á milli). Ótrúlega gaman líka að sjá bassafantinn Nate Newton slá strengi þarna á sama sviði (eða næstum því, þau færðu það aðeins til á einhverjum tímapunkti á árunum sem hornið á Tryggvagötu og Naustinni var sífellt að skipta um nafn) og ég sá hann spila með Converge, sinni meginhljómsveit, einhvern tímann í kringum (sjitt…) 2010.

Reyndar er ég ekki búinn að vera að hlusta á neitt sérstaklega mikið af tónlist undanfarið, eða ekki síðan ég uppgötvaði heimasíðuna Hljóðmynd, sem er hugarfóstur Magnúsar nokkurs Bergssonar sem stundar það óeigingjarna starf að koma sér fyrir á fáförnum stöðum úti í náttúrunni og taka upp hágæða hljóðupptökur fyrir okkur hin sem sitjum föst í voru daglega amstri. Upptökurnar eru opnar öllum sem á annað borð þurfa á smá hugarró að halda og læt ég eina mína uppáhalds fylgja hér – sæluhúsið í Brunnahæðum í miklu roki – ásamt sitthvoru uppáhalds laginu með Graveslime og Cave In.

DO YOU WANT TO DIEEEEE!!!???
Eitt gamalt og gott en nýjasta platan er reyndar líka alveg geggjuð, eiginlega..

HEIMILI – PISTILL FYRIR UPPÁSTAND

Uppástand á Rás 1 bað mig um að skrifa smá pistil undir þemanu „Heimili“. Hægt að smella á myndina til að hlusta en ég læt líka textann fylgja hér að neðan.

HEIMILI

Ég keypti mína fyrstu íbúð árið 2014. Mér er sagt að ég hafi verið heppinn, að það hafi verið „góður tími til að kaupa“. Ekki að ég hafi verið sérstaklega meðvitaður um það þegar kaupin gengu í gegn. Eftir því sem ég best man botnaði ég hvorki upp né niður í skjölunum sem lögð voru fyrir framan mig og kvittaði undir þau með sömu glórulausu bjartsýninni og þegar ég skuldsetti mig um aldur og ævi með námslánum nokkrum árum áður.

Þannig álpaðist ég inn á íslenskan húsnæðismarkað án þess að gera mér á nokkurn hátt grein fyrir því hve lánsamur ég hafði verið. Ef einhver spurði mig út í íbúðarkaupin flýtti ég mér að útskýra að eina ástæða þess að ég gat keypt íbúðina (eða þann hluta í henni sem lánastofnunin átti ekki) væri að ég hefði fengið arf þegar pabbi minn dó úr krabbameini – eins og til að sýna fram á að ég væri í raun alls ekkert heppinn, kannski bara þvert á móti. Á þennan máta reyndi ég slá á stéttarsamviskubitið sem átti það til að narta í mig þegar ég og hinir húseigendurnir vorum að ræða dren eða baðherbergisflísar í partíum og ég tók eftir því að einhver í hópnum dró sig í hlé, setti upp þegjandalegt bros og beið eftir að skipt væri um umræðuefni. Einhver sem hafði greinilega ekki verið eins heppinn og við hin.

Heimurinn leit öðruvísi út eftir að ég var orðinn eignamaður. Ég talaði um aðra hluti, upplifði nýjar og framandi áhyggjur. Ég hugsaði til dæmis meira um vatn en nokkurn tímann áður. Ég sá það hvert sem ég leit. Í rakanum sem safnaðist á milli glerja í eldhúsglugganum, í fúanum í þakskegginu og í undna parketinu undir ofninum í stofunni. Var þetta svona í gær? spurði ég sjálfan mig í sífellu. Er þetta kannski eitthvað nýtt?

Ég kynntist líka í fyrsta sinn eirðarleysinu sem fylgir því að tilheyra húsfélagi; hinni eilífu bið eftir að einhver annar taki af skarið og boði til húsfundarins sem ætlunin var að halda síðasta vor. Ég var skyndilega orðinn meðeigandi með hópi fólks sem ég taldi mig ekki eiga nokkurn skapaðan hlut sameiginlegt með – að undanskildu ytra byrði hússins, garðinum og þessum örfáu fermetrum í þvottahúsinu. Öll áttum við það þó sameiginlegt að á einhverjum tímapunkti höfðum við verið heppin.

Ég er reyndar viss um að flestir af fyrrum meðeigendum mínum væru ósammála þessari skilgreiningu minni, og myndu gera mér grein fyrir öllu því sem þau lögðu á sig til að komast inn á markaðinn á sínum tíma, en af minni vissulega takmörkuðu reynslu af íslenskum fasteignamarkaði að dæma sýnist mér þó að dagurinn í gær hafi ætíð verið heppilegri tími til að kaupa en dagurinn á morgun. Öll hljótum við því að teljast að einhverju marki heppin, við sem keyptum í gær.

En hér er ég kominn langt út fyrir efni þessa pistils, sem átti að fjalla um heimili fólks, sem í mörgum eða jafnvel flestum tilvikum er ekki það sama og fasteignir þess. Sjálfur hef ég átt þó nokkur heimili bæði hérlendis og erlendis og er það einungis á síðustu tíu árum sem ég hef verið að bora í veggi án þess að spyrja kóng eða prest og láta áhyggjur um raka halda fyrir mér vöku.

Ég hef nefnilega líka verið svo heppinn að hafa alltaf átt mér heimili. Afdrep í heiminum þar sem ég get hengt upp myndir og lokað að mér, boðið fólki inn og jafnvel, í einhverjum tilvikum, skipað því að hypja sig á brott. Ég hef aldrei upplifað það að vera neyddur til að flýja heimili mitt, og ég hef heldur aldrei verið sviptur heimili mínu vegna duttlunga stjórnvalda. Kannski má segja að ég hafi verið „heppinn“ að þurfa ekki að þola slíkar raunir, en einhvern veginn kann ég ekki við það. Það gefur í skyn að fólkið í samfélagi okkar, sem nú stefnir hraðbyri á götuna sökum þess að íslenska kerfið hefur neitað því um heimili, hafi verið óheppið.

Því að þegar um er að ræða ákvarðanir og lagasetningar sem eiga sér stað á lýðræðislega kjörnu þingi og leiða af sér að fólk sem skortir rödd í samfélaginu – flóttafólk og öryrkjar, til að mynda – endar á götunni, þá þykir mér það á einhvern hátt ósmekklegt að tala um heppni og óheppni. Í besta falli er það einfeldni, eða ónærgætni. Í versta falli sviptir það okkur hin – þau heppnu – allri ábyrgð á því óréttlæti sem þetta fólk þarf að þola á líkama og sál við að vera neitað um afdrep í samfélagi okkar.

#5 ÓÞARFA VESEN OG HIPSTERARÚNK

Ég setti nýtt batterí í ipodinn minn í gær. Ipodinn fékk ég að gjöf frá pabba í kringum 2004-5 og tók alfarið við af ferðageislaspilaranum sem ég var með í hliðartöskunni minni hvert sem ég fór á menntaskólaárunum – í þá daga þegar ég var ennþá of kúl til að nota bakpoka og of ungur til að fá bakverki. Ég man ekki hvað ég notaði ipodinn lengi. Í einhver ár, þar til hann hætti að virka. Einhvern tímann eftir að við Elín komum heim aftur frá Bandaríkjunum uppgötvaði ég hann ofan í kassa, og til gamans setti ég hann í hleðslu og fór enn einu sinni ég gegnum allar reset-leiðbeiningarnar sem ég fann á netinu. Mér til undrunar hrökk hann í gang, með þessu gamalkunna hvissi sem harði diskurinn gefur frá sér. Það var ansi sérstök tilfinning að renna yfir innihaldið; tímahylki fullt af allri tónlistinni sem ég hlustaði á upp úr aldamótum. Furðu mikið af poppi og lítið af metal – nema bara ISIS og Converge og auðvitað tímamótaplatan Behold the Fuck Thunder með The Great Redneck Hope.

Ég skemmti mér yfir þessari nostalgíu í dálitla stund en um leið og ég tók ipodinn úr sambandi dó hann aftur. Batteríið greinilega löngu kulnað. Upp á fönnið prófaði ég að panta nýtt batterí frá Ali Express – mín fyrstu samskipti við það bákn. Ég var ekki endilega að búast við miklu en tók sénsinn, borgaði ekki nema sirka 2000 kall fyrir batteríið og sendingarkostnaðinn, plús eitthvað álíka í tollinn og póstinn.

Batteríið skilaði sér mun fyrr en ég hafði vonað, kyrfilega falið á milli tveggja leikfangabíla sem höfðu verið teipaðir saman. Seljandinn ætlaði greinilega ekki að taka neina sénsa ef ske kynni að varan stæðist ekki evrópska staðla. Með þolinmæði, smjörhníf og góðu míkróskrúfjárni tókst mér að komast inn í ipodinn, fjarlægja gamla batteríið og koma því nýja fyrir án þess að skemma neitt. Hann virkar eins og hvers manns hugljúfi að nýju, og er ég nú þegar búinn að fylla hann af vel valinni tónlist. Einkum plötum sem ég hef verið að kaupa af Bandcamp undanfarin ár og hlaða niður af þeirri góðu síðu, og hef stundum dundað mér við að taka upp á kassettur til að hlusta á í gömlu græjunum í stofunni.

Einn af nokkrum uppáhalds Spotify-playlistum sem ég er að kasta eign minni á, þótt tæknilega sé sé ég bara að leigja þá af Spotify

Það eru góðar líkur á að ég missi allan áhuga á ipodinum, núna þegar ég er búinn að takast á við áskorunina við að skipta um batteríið í honum. Þannig vill það oft vera með svona dútl. Ég sá samt fyrir mér að ég gæti notað hann þegar mig langar að setjast niður í afskekktu horni með bók og vera ekki truflaður í einhvern tímann. Tónlistin sem ég valdi passar einkar vel við þá iðju. Lítið af hipphoppi og mikið af klassík, doom og electro stöffi sem dugar til þess að leggjast þykkt yfir heiminn í kringum mig, á meðan ég gleymi mér við lesturinn. Hellingur af Earth og Sunn O))) og Aphex Twin og annarri “heilatónlist”.

Ég er núþegar búinn að fara á Bandcamp og fjárfesta í nokkrum nýjum plötum sem ættu að passa vel við þá iðju. Tvær plötur frá Bell Witch, hin glænýja Future Shadow Part 1: Clandestine Gate og Four Phantoms frá 2015. Ef einhver tónlist á ekki heima á Spotify er það án efa hljóðverkin sem þeir í Bell Witch skapa. Plöturnar eru yfirleitt vel yfir klukkutími á lengd en samanstanda eingöngu af einu lagi. (Ætli þeir fái ekki borgað undir 50 kall per streymi, eins og við höfundarnir á Storytel?)

Til viðbótar forpantaði ég Systemic, nýju plötuna með áströlsku noise-sludge-stöllunum í Divide and Dissolve. Platan kemur reyndar ekki út fyrr en 30. júní, en miðað við þessi tvö lög sem eru nú aðgengileg er von á góðu. Fyrri plötuna þeirra, Gas Lit, keypti ég á vínyl og spila stundum í botni þegar ég er einn heima og finn loksins smá næði til að lesa á sófanum. Hnausþykkt og fallegt og níðþungt og alfarið orðalaust, ef undanskilið er ljóð frá Brooklyn-ljóðskáldinu Minori Sanchez-Fung, sem flutti líka ljóð á fyrstu plötunni þeirra, Abomination, og á efalaust líka eitt lag á nýju plötunni.

Ég er stundum inntur eftir því hvernig ég nenni öllu þessu veseni. Að brasa við kassettur og ipoda og eltast við plötur á Bandcamp og svo framvegis. Þetta er þó ekki neitt ólíkt og grúskið sem flestir á mínum aldri stunduðu í gamla daga, til að útvega sér tónlist. Spotify hefur gert okkur kleift að hugsa voða lítið um tónlistina sem við njótum. Við þurfum hvorki að fara út í búð að kaupa hana né hafa fyrir því að taka hana upp á spólu eða skrifa hana á diska og krota lagalistann á miðann í hulstrinu. Hvað þá að liggja yfir iTunes (sem heitir víst núna Music) til að gæta þess að lögin séu í réttri röð og allir hástafir á réttum stöðum, tengja síðan mp3-spilarana okkar við tölvuna með forneskjulegri snúru og stara út í loftið eins og idíótar í einhverjar mínútur á meðan tónlistin er afrituð. Við þurfum varla einu sinni að tala um tónlist lengur, rífast um hana, fá meðmæli frá vinum okkar. Hún er bara þarna þegar við þurfum hana, eins og vatnið í kalda krananum. Skrúfa frá, láta renna, skrúfa fyrir. Ég man ekki hvenær ég heyrði síðast spurninguna „á hvað ertu að hlusta núna?“ Fólk í dag er líklegra til að spyrja: „á hvað ertu að horfa?“.

Auðvitað er það í eðli sínu óttalegt hipsterarúnk að reyna að nýtast við svona úrelta tækni eins vínylplötur, kassettur og jafnvel ipoda – sem eru núna komnir með alveg jafn mikinn nostalgíublæ og úrelta tæknin sem þeim var ætlað að koma í staðinn fyrir. Ég átta mig alveg á því. Ég gæti allt eins farið að hjóla um bæinn á penny farthing-reiðhjóli og reynt að halda því fram að það sé bara hreinlega einfaldara og ánægjulegra farartæki en reiðhjól með jafn stórum dekkjum. Það breytir því ekki að það er eitthvað huggulegt við að eiga og spila tónlist á físísku formi. Einhver svona hugguleg mótþróaröskun. Mér finnst oft einmitt eins og flest það sem fær á sig stimpilinn “hipsterískt” í dag snúist að mestu um þá huggulegu mótþróaröskun sem fylgir svona óþarfa veseni.

Megin ástæðan fyrir ipodinum og kassettunum er þó sú sama og ástæðan fyrir því að ég fór aftur að ganga með úr og notast við vekjaraklukku fyrir nokkrum árum. Ég hef ekki trú á því að það sé hollt að láta símann sjá um allt fyrir mann, sérstaklega ekki mikilvægar þarfir á borð við svefn, tíma og tónlist. Þegar ég sest niður til að lesa og set tónlist yfir eyrun til að ekkert trufli mig – líkt og ég hef gert frá því ég var polli og fékk afhent mitt fyrsta vasadiskó (sem ég á líka ennþá, btw, og nota stundum) – þá vill ég helst geta gert það án þess að þurfa að hafa símann við höndina. Snjallsímar ganga út á truflanir. Jafnvel þegar maður er búinn að slökkva á öllum tilkynningum og stilla á do not disturb þá er erfitt að gleyma stað og stund með síma innan seilingar. Og fyrir mér hefur tónlist (líkt og lestur) alltaf að einhverju leyti snúist um að gleyma stað og stund.

Mestmegnis er þetta þó líklega bara hipsterarúnk.

Geturðu séð af einum og hálfum klukkutíma?
Af annarri plötu þeirra, Gas Lit. Hávaðinn kemur eftir smá.

#4 HAKKABUFF Í ÖLLUM REGNBOGANS LITUM

Ég er loksins að finna fæturna í endurskrifunum, seinna en ég hafði vonast eftir en þó er ekki eins og ég hafi tekið mér langa pásu frá handritinu á meðan ég beið eftir punktum frá ritstjóra og yfirlesurum. Líklega var þörf á því, jafnvel þótt það setji þeim mun meiri pressu á mig núna ef ég ætla að gera mér vonir um að koma bókinni út í ár. Punktarnir hafa hingað til verið í jákvæðri kantinum en þó líka mjög krítískir, með ábendingunum um eitt og annað sem þarf að vaða í. Einna helst er þar um að ræða veikleika sem að ég vissi svosem að væru til staðar en var of ragur til að takast á við – þurfti smá tíma til að herða upp hugann og einhvern til að reka mig í verkið.

Í svona handritaskrifum skiptast sífellt á óreiða og fínpúss. Maður byrjar á algjörri óreiðu og nýtur þess að grípa allt sem kraumar upp úr manni og setja niður á blað, allskyns óskunda og klisjur og léleg skrif sem maður hrúgar ofan á upphaflegu hugmyndina. Svo hefst maður handa við að slípa þetta til og pússa í von um að finna huggulegt harðviðargólf einhvers staðar undir öllu þessu teppalími og línólíumflísum. (Þessi myndlíking gengur nú varla upp en mér er skítsama.) Það getur því verið ansi erfitt þegar maður er búinn að vinna í handriti lengi og slípa það til að þurfa að rífa upp parketið og gólffjalirnar sem maður var komin niður á. (Hananú.) Dýfa sér að nýju í óreiðuna með útkrotað handrit og endalausar athugasemdafærslur og breytingatillögur sem breyta skjalinu í marglitt hakkabuff. Við því er þó ekkert að gera. Óreiðan er órjúfanlegur hluti af sköpuninni, og ég er smátt og smátt að uppgötva aftur gleðina sem felst í því að hleypa öllu í bál og brand; hrúga inn pælingum og hugmyndum sem ég mun reyna að flétta einhvern veginn inn í skjalið án þess að skemma það um of eða hreinlega ganga endanlega frá því. Kannski maður reyni næst að “write it clean”, eins og Stephen King talar um; reyna að koma þessu frá sér í sæmilega endanlegri mynd jafnóðum, frekar en að laga eftir á. Hingað til hafa allar tilraunir mínar til þess leitt af sér ekkert nema niðurrif og sjálfsefa, sem er einstaklega ógagnlegt þegar maður er að fara af stað með handrit, svo að í bili held ég mig við það að skrifa fyrst og lesa og laga eftir á.

Annars tók ég stóra ákvörðun um daginn og gekk í hlaupahóp og hitti nú hóp af fólki tvisvar til þrisvar í viku og fer út að hlaupa með þeim. Ég byrjaði fyrst að hlaupa einhvern tímann á þrítugsaldri, á meðan ég var í ritlistarnáminu í Glasgow. Það var mjög takmörkuð mætingarskylda í náminu (eins og allt háskólanám ætti að vera, ef þú spyrð mig) og því var ég meira og minna fastur heima allan daginn í skítkaldri skoskri Tenement-íbúð. Hlaupin voru þannig leið til þess að halda geðheilsu en líka til að halda á sér hita; að koma blóðinu á hreyfingu. Ég uppgötvaði skjótt að þau voru einstaklega gjöful þegar kom að þeim hluta allrar hugmyndavinnu sem fer fram í undirmeðvitundinni. Ef eitthvað var ekki að ganga upp í skrifunum um morguninn þá reddaðist það yfirleitt um eftirmiðdaginn, þegar ég var búinn að hlaupa einn hring í næsta almenningsgarði. Stundum lenti ég meira að segja í því að eitthvað poppaði upp í hugann sem þurfti að festa niður sem fyrst, og man ég sérstaklega eftir því þegar að ég fékk skyndilega hugmynd og varð að spretta heim þar sem ég skrifaði söguna „Marglyttur“ (sem er að finna í Smáglæpum) nánast í einum rykk, ennþá í hlaupagallanum.

Hlaupin hafa haldið áfram með hléum síðan, en ætíð frekar á forsendum andlegrar heilsu og afkasta, frekar en keppnisskaps eða líkamlegrar atorku. Þannig hef ég aldrei reynt að fá  yfirsýn yfir hluti eins og “pace” eða annað slíkt, heldur verið þeim mun meira umhugað að koma aftur inn með einhverjar nýjar hugmyndir og í betra skapi. Mig minnir að ég hafi byrjað á þessu áður en ég las maraþonsbókina hans Murakami en hver veit. Kannski er ég bara enn einn klisjukjáninn sem tók þá bók sem heilagt gospel og keypti sér hlaupaskó í von um að það myndi redda öllu veseninu sem þessu skriflífi fylgir. 

Ég þoldi aldrei liðsíþróttir í æsku og vildi helst bara fá að vera í friði, kannski einmitt út af því að fólk átti það til að setja samasemmerki á milli þess hve ég var stór miðað við bekkjarfélaga mína og því að ég hlyti að vera góður í íþróttum, t.a.m. á línunni eða undir körfunni. Sú var aldrei raunin. Blessunarlega var ég þó skikkaður í sund sem barn þar sem ég var svo mikill sláni og fann mig þar. Sund er víst einkar gott til þess að kenna slánakrökkum að rétta almennilega úr sér, og er þar að auki ein sú mesta einstaklingsíþrótt sem þú getur stundað. Þú þarft ekki einu sinni að tala við neinn, því þú ert mest allan tíma á kafi. Þar undi ég mér vel fyrir utan þegar reynt var að fá mig til að keppa á sundmótum. Mér fannst ég hafa mikilvægari hnöppum að hneppa um helgar heldur en að hírast undir handklæði á framandi sundlaugarbakka og bíða eftir riðlinum mínum. Það þurfti til dæmis að lesa Hitch-hiker’s Guide to the Galaxy í fjórða sinn, eða panta kryddbrauð og Pepsi Twist á Pizza-bæ og leigja eina nýja og eina gamla í Bónusvídeó.

Hingað til hefur eina liðsíþróttin sem mér hefur hugnast verið að hjálpa fólki að flytja, og myndi ég glaður keppa í þeirri íþrótt, enda einkar fær um að koma sófum í gegnum dyragættir. Kannski er þó að verða einhver breyting þar á og ég að verða félagslyndari með aldrinum. Það hefur allavega verið huggulegt að fara út og hlaupa einn hring með öðru fólki og byrja í fyrsta sinn að pæla í hlutum eins og sprettum og hvíld og álíka. Mín eigin markmið í hlaupum (fyrir utan að koma kyrrð á hugann) hafa yfirleitt eingöngu snúist um að gæta þess að halda mér á skokki allan tímann og fara aldrei að ganga, líkt og okkur var skipað í útihlaupum í leikfimi forðum. Svo komst ég að því á minni annarri æfingu með hlaupahópnum þarna að það er víst voða hollt og gott að ganga inn á milli, og í raun mun betri æfing fyrir líkamann en að halda sér á stöðugu brokki langtímum saman.

Annars er ég núna að skoða bókahillurnar heima og vinna mig í gegnum ólesnar bækur. Ég er kominn sæmilega inn í Libra eftir Don DeLillo, sem ég tók á sínum tíma í kúrsinum The Great American Novel í UEA, þar sem kennarinn var Sarah Churchwell. Ég hélt mikið upp á þennan kúrs og allar bækurnar sem ég kynntist þar, og því hefur það alltaf setið í mér að vikuna sem við áttum að lesa DeLillo náði ég ekki að klára bókina í tæka tíð, annað hvort út af skiladag á einhverri ritgerð eða út af djammi – ég man ekki hvort. Bókin segir mjög skáldaða sögu af Lee Harvey Oswald og samsæri innan CIA sem leiðir til morðsins á JFK. Ég fór að hugsa um þessa ókláruðu bók eftir að við hjónin fórum á Prinsessuleikana í vikunni sem leið, þar sem Sólveig Arnarsdóttir leikur Jackie Kennedy með alveg svakalegum þunga sem sat í mér að sýningu lokinni og varð til þess að alla vikuna hef ég verið að raula gamla headbanger-slagarann Tire Me með Rage Against the Machine, af plötunni Evil Empire. Nánar tiltekið línurnar:

I wanna be Jackie Onassis
I wanna wear a pair of dark sunglasses
I wanna be Jackie O, oh, oh, oh, oh please don’t die!

Ég fór svo einnig að hlusta á nokkra þætti sem ég hafði misst af með Backlisted Podcast, þar sem þau ræða merkisbækur sem eru gleymdar eða við það að falla í gleymsku og orðnar svo gott sem ófáanlegar. Eftir að hafa hlustað á þáttinn þeirra um The Inheritors eftir William Golding endaði ég á að snúa heimilinu á hvolf í leit að eintakinu sem pabbi keypti handa mér á sínum tíma þegar við fórum tveir saman í ferð til Norwich svo að ég kæmist í viðtal hjá UEA og gæti skoðað mig um áður en myndi hefja nám þar árið eftir. Ég hafði lesið Lord of the Flies fyrir enskutíma í MS og verið algjörlega heillaður, en einhvern veginn náði ég aldrei að tengja nið Neanderdalsmennina í The Inheritors, sem á yfirborðinu að minnsta kosti virðast eiga lítið sameiginlegt við skólastrákana í Lord of the Flies. Því miður virðist þetta eintak hafa tapast eða endað í gjafakassa á einhverjum tímapunkti en ég held í vonina um að það muni dúkka upp að nýju. Ef svo ólíklega vill til að það hafi ratað á gjafaborðið með bókum sem við Elín stilltum upp til að saxa á búslóðina á Kirkjuteignum á sínum tíma, í garðveislunni sem var um leið brúðkaups- og kveðjuveislan áður en við fluttum til USA, og einhver hafi haft það á brott með sér og eigi hjá sér upp í hillu, þá myndi ég gefa mikið fyrir að endurheimta bókina. Kannski ekki fúlgur fjár en að minnsta kosti einlægar þakkir.

Hún lítur svona út.

Þau í Backlisted-pod voru sammála um að það mætti án efa segja að Golding væri vísindaskáldsagnahöfundur út frá lestri þessarar bókar og ekki síður útfrá lestri The Spire, sem kom á eftir henni, en einnig er auðvitað margt í Lord of the Flies sem er ansi vísindaskáldsögulegt – eða a.m.k. heimsendasögu-legt. Gerir það hann að einum af að minnsta þremur vísindaskáldsagnahöfundum sem ég man eftir í fljótu bragði sem hlotið hafa Nóbelsverðlaunin, en hinir tveir eru Kazuo Ishiguro og að sjálfsögðu Doris Lessing. Þó er ég viss um að margir muldri nú með sjálfum sér: „Ja… ég veit nú ekki alveg hvort þau teljast sem vísindaskáldsagnahöfundar…“ líkt og lesendur sem hafa talið sér trú um að þeir lesi ekki vísindaskáldsögur segja alltaf þegar vísindaskáldsaga fær nógu mikla athygli til að hljóta viðurkenningu og verðlaun á vettvangi „fagurbókmennta“. Ég heyrði þetta sagt bara núna síðast um Merkingu eftir Fríðu Ísberg, sem ég myndi alveg hundrað og tíu prósent telja til vísindaskáldsagna.

Hvað varðar tónlist þá er ég núna að enduruppgötva hina stórkostlegu Nightmare Traversal með hollensku death metal minimalistunum í CRYPTAE; einstaklega gagnleg plata þegar þú ert í yfirlestri og endurskrifum og vantar eitthvað þungt og þykkt til að leggjast yfir öll skilningarvitin og skyggja á heiminn. Þeim félögum er margt til listanna lagt en ég held einnig mikið upp á systurhljómsveit þeirra, Dead Neanderthals (viðeigandi að láta þá fylgja hér, samanber skáldsögu Golding). Ég læt Click, nýjustu plötu (eða „verk“) þeirra, fylgja hér að neðan líka; einhverskonar fútúrískt-synth-psychadelia-trance-death metal bræðingur sem enginn leið er að fitta í tiltekið form. René Aquarius, sem trommar að ég held í báðum hljómsveitum, er einnig með mjög djúsí bandcamp síðu þar sem má finna hverskyns ambient, synth og sóló-trommu-project.

Jæja. Komið gott af blaðri. Núna dýfi ég mér aftur í óreiðuna í handritinu.

#3 SVO BREGÐAST KROSSTRÉ…

Linsan á símanum mínum er biluð og getur ekki fókusað, sem kemur sér einstaklega vel til að taka blörrí stærilætismyndir af útkrotuðu handriti án þess að gefa neitt uppi

Ég heyrði í útvarpinu um daginn mann sem talaði um að janúar væri uppáhalds mánuðurinn hans þar sem hann væri yfirleitt besta myndin af sjálfum sér í janúar; færi út að hlaupa, notaði tannþráð og hætti að stúta rauðvínsflöskum fyrir framan Netflix. (Ókei, bætti við þessu síðasta.) Ég tengdi mikið við þessi orð. Sjálfur hef ég alltaf haldið upp á hverskyns þáttaskil – klippingar, nýir skór, nýtt hlaupa-eða to-do-lista-app – og haft mikla trú á því að á morgun, eða í næstu viku, eða á komandi ári muni ég loks finna jafnvægið til að taka upp nýja og betri siði og finna þessa sirka tvo tíma sem mig virðist skorta á degi hverjum til að ná að klára allt sem ég ætla mér.

Á árunum 2018-2021 hélt ég dagbók upp á hvern dag, allt þar til skrifin breyttust í hálfgerða áráttu sem ég hafði ekki lengur neina ánægju af. Ég varð að setjast niður og hripa eina blaðsíðu sama hvað, jafnvel þegar mér fannst ég hafa ekkert að segja, og stundum missti ég úr nokkra daga og þurfti að feta mig aftur á bak og reyna að rifja upp hvað (ef eitthvað) hefði gerst síðan síðast. Ég ákvað því í janúar 2022 að leggja þessi áráttukenndu skrif til hliðar og reyna að uppgötva aftur ánægjuna sem ég hafði áður af því að halda dagbók. Héðan í frá myndi ég bara skrifa í dagbókina þegar mér fyndist ég þurfa á því að halda, þegar ég fyndi fyrir löngun til þess, eða ef eitthvað virkilega merkilegt gerðist.

Síðan þá hefur mér að gengið bölvanlega að halda dagbók. Þetta blogg átti að vera leið til að finna gefandi vettvang fyrir reglubundin skrif í léttari kantinum, en virðist stefna í sömu átt og dagbókarskrifin, og hef ég varla litið hingað inn undanfarna mánuði á meðan ég hef verið með hugann við handritið að bókinni minni.

Ég er annars búinn að vera í hálfgerðu spennufalli síðan ég sendi handritið á ritstjórann minn hjá Forlaginu. Á hverjum morgni í a.m.k. tvö ár hef ég annað hvort sest niður og krukkað aðeins í því eða verið með samviskubit yfir að hafa ekki sest niður og krukkað aðeins í því. Suma daga var ég með ákvæði í to-do listanum mínum þar sem stóð einfaldlega “opna handritið”, til að tryggja að ég missti ekki tengslin við það, þótt ég væri að sinna öðrum verkefnum eða hlaupa á eftir daglegu amstri og áhyggjum. Nú er ég búinn að fá nokkra punkta hjá ritstjóra og nokkrum öðrum og er að undirbúa mig undir annað áhlaup, og er líka með einn-tvo yfirlesara tilbúna á hliðarlínunni sem ég er að “spara” fyrir næsta holl.

Ég var spurður um daginn hvort mér þætti það ekki óþægilegt að láta marga lesa yfir á sama tíma, en mér þykir það einmitt ágætt að standa fyrir framan sundurleitan kór frekar en einsöngvara, kannski einkum þar sem það sýnir þér hve ólíka sýn hver og einn lesandi hefur. Kórinn nær sjaldnast að stilla saman strengi og einn fyrirlítur það sem annar hefur til skýjanna, og báðir hafa eitthvað til síns máls. (Að því sögðu þá er líka alltaf eitt og annað sem allir eru sammála um að megi missa sín eða þurfi sárlega að laga.) Auk þess borgar það sig að vera með sæmilegan hóp af lesurum því að það eru alltaf einhverjir sem komast síðan aldrei í handritið eða ná ekki að klára yfirlesturinn sökum anna. Ekkert að því, að sjálfsögðu, þar sem sá yfirlestur sem ég skiptist á við með flestum mínum yfirlesurum snýst um greiðvirkni og að borga þeim til baka í sömu mynt frekar en í beinhörðum peningum. Ég hef sjálfur lent í því oftar en ég vill viðurkenna að svíkja einhvern um endurgjöf sem ég hafði lofað þeim vegna þess að skyldurnar í hversdeginum (eða skrifin sjálf) þvældust fyrir.

Annars er ég núna að lesa Mantel Pieces (mjög gott pönn) eftir Hilary Mantel; safn af gagnrýni hennar og skrifum fyrir London Review of Books, og er aðallega að hlusta á plötuna Suffocating Hallucination, sem er samstarfsverkefni death/sludge/doom hljómsveitarinnar Primitive Man og grindcore/noise hljómsveitarinnar Full of Hell.

Ég hef verið að vinna mig í gegnum slatta af Mantel undanfarið og átta mig á að ég er kannski heldur seinn á svæðið. Kláraði um árið Beyond Black, dásamlega gróteska skáldsögu hennar um draugagang og miðla. Hún er bæði húmorísk og hræðileg og full af ótrúlega skemmtilegum og ósympatískum persónum sem virka engu að síður svo breiskar og mannlegar. Það er eitthvað alveg sérstakt við það hvernig Mantel skrifar um ofbeldi, og sérstaklega kynferðisofbeldi í þeirri bók. Aðalpersónan neitar að skilgreina sig út frá hræðilegu kynferðisofbeldi sem hún mátti þola í æsku, en neitar jafnframt að takast almennilega á við ofbeldið og segir söguna af því á sama hátt og við myndum kannski lýsa því hve mikið við hötuðum að fara í leikfimi í barnaskóla. Bókin kom út 2005 og það er ansi merkilegt að skoða hana í dag, í samhengi við metoo-augnablikið sem við erum annað hvort ennþá í eða komin út úr eða loksins sloppin undan eða rétt byrjuð að takast á við – eftir því hvern þú spyrð. Mantel er líka einn af þessum höfundum – ekki ólíkt Jonathan Franzen og David Foster Wallace – sem mér finnst gaman að lesa skáldsögur eftir en sem ég hef hreina unun af að lesa þegar þau skrifa non-fiction. Þegar hún beitir eigin rödd til að takast á við bækur eða kryfja breska kóngafólkið er hún svo hárbeitt og óhrædd og um fram allt kýrskýr að maður fær gæsahúð

Talandi um gæsahúð: Primitive Man áttu að spila á Íslandi í fyrra á vegum Doomcember-hátíðarinnar, sem hafa einnig flutt inn stórgóð bönd eins og Conan og Vile Creature o.fl. Ég var búinn að tryggja mér miða og hlakkaði mikið til, en á síðustu stundu féll það í gegn út af einhverju Covid-klúðri. Mjög svekkjandi. Full of Hell gæfi ég líka mikið fyrir að sjá einhvern daginn á sviði. Einstaklega góðir og huggulegir strákar sem spila alveg hræðilega gróteska og ofsafengna tónlist. Samspil þessara tveggja banda – annað þeirra löturhægt og níðþungt og hitt yfirleitt á þvílíkri gandreið að maður finnur hreinlega til með þeim að leggja á sig aðra eins spilamennsku í þágu listar sinnar – er algjörlega magnþrungið; einhver ómennskur og Lovecraft-legur kraftur sem leystur er úr læðingi, handan við tungumál og hverskyns stæla. (Ef það er eitthvað sem gerir mig afhuga tónlist þá eru það stælar.) Læt ég lag af plötunni fylgja hér að neðan ásamt vídeóum með viðtölum við báðar hljómsveitir þar sem sést greinilega hve krúttulegt liðið sem spilar svona þunga og erfiða tónlist er yfirleitt í raun og veru, og hve vítt og breytt það sækir innblástur sinn, úr djassi og synth-tónlist og hipphoppi og bara hvaðan sem er.

ÓKEYPIS OG OPIN ÖLLUM – BÓKMENNTAHÁTÍÐ 2023

Pics or didn’t happen..

Víðsjá bað mig um að hafa augun opin á nýafstaðinni Bókmenntahátíð og skrifa eitthvað um hana, sem leiddi til þess að ég fór að hugsa um mína fyrstu heimsókn á hátíðina. Pistillinn er nú kominn á Menningarvef RÚV en ég læt hann líka fylgja hér að neðan:

Í fyrsta sinn sem ég fór á Bókmenntahátíðina í Reykjavík mætti ég á hjólabretti. Árið var 2003 og ég bombaði niður Skólavörðustíg með eintakið mitt af Wind-Up Bird Chronicle í annarri hendi, á leiðinni að sjá Murakami. Ég var á síðasta ári í menntaskóla og nýbyrjaður að heimsækja bókabúðirnar í miðbænum, þar sem ég eyddi sumarvinnupeningunum mínum í bækur sem ég valdi úr erlendu deildinni – oft einmitt út frá kápunni. Þannig rambaði ég á Murakami. Ég hafði tekið upp eintak af Hard-Boiled Wonderland and the End of the World, byrjað að lesa hana í búðinni og hugsað: Vá, hérna er alveg nýtt sjónarhorn á veröldina! Eitthvað sem ég hugsaði æði oft þegar ég opnaði bók á þessum árum og geri enn af og til í dag.

Það var alveg stappað þegar ég mætti í Iðnó. Ég hélt hjólabrettinu fyrir framan mig eins og skildi og þræddi mér leið í gegnum þvöguna, tókst að finna mér pláss í gættinni á salnum þaðan sem ég fylgdist með Murakami lesa hæglátlega upp úr Spútnik-ástinni á japönsku. Eftir upplesturinn var sett upp borð fyrir áritanir og ég kom mér fyrir í röðinni og vonaði að honum myndi þykja mikið til þess koma hve þvæld og lesin kilju-útgáfan sem ég hafði tekið með mér var – allt annað en stífu, nýju kiljurnar sem verið var að selja í anddyrinu.

Á meðan ég beið, klæddur í skopparabuxur og hettupeysu, með hjólabrettið klemmt á milli lappanna, og fylgdist með fólki ganga að borðinu og segja eitthvað gáfulegt við Murakami og taka í höndina á honum, var ekki laust við að mér liði eins og ég ætti ekki heima þarna. Ég hafði gengið úr skugga um það áður en ég mætti að það væri frítt inn og atburðurinn opinn öllum, en engu að síður var ég sífellt að bíða eftir að einhver myndi stoppa mig og fylgja mér út. Eins og venjulega reyndi ég að fela óöryggið undir kæruleysislegum töffarasvip unglingsins en var þó við það að láta mig hverfa þegar röðin kom loks að mér. Ég minnist þess ekki að hafa sagt neitt við Murakami. Hann kinkaði kolli við mér, brosti kannski eilítið við að sjá hjólabrettið og hripaði nafn sitt á titilsíðu bókarinnar. Svo steig ég til hliðar svo að næsti kæmist að. Ætlunarverkinu var náð og ég dreif mig út, feginn að sleppa aftur undir bert loft.

Ég á erfitt með að meðtaka að síðan þá séu liðin 20 ár. Á þeim tíma hef ég nokkrum sinnum tekið þátt í Bókmenntahátíðinni á einn eða annan hátt. Fyrst um sinn aðallega sem bóksali, fastur frammi í anddyri á meðan upplestrarnir og samtölin fóru fram, á milli þess sem ég barðist við að endurræsa posann og reikna út í huganum rithöfundaafsláttinn sem kúnnarnir voru ekki á því að láta slæda þótt ég væri ekki á kassanum í Eymundsson. Seinna meir tók ég að fara sjálfur upp á svið og stýra umræðum höfunda hátíðarinnar, og á endanum kom að því að ég varð einn af fullorðna fólkinu sem stendur þarna í þvögunni í anddyrinu og malar við hitt bransaliðið – þrátt fyrir að enn votti stundum fyrir snefil af þessari gamalkunnu tilfinningu að maður sé kannski bara að þvælast fyrir.

Hátíðinni í ár lauk eins og venjulega með trylltum dansi á Bókaballinu í Iðnó. Dagskráin var með sama sniði og áður. Höfundar skiptust á að stíga á svið og lesa úr verkum sínum og ræða um þá list að drattast í gegnum langa ferlið sem liggur á milli þess að fá óljósa hugmynd og að gefa út bók. Sumar pallborðsumræðurnar voru hlaðnar samfélagslegum þunga. Colson Whitehead og Natasha S. ræddu um pólitísku kringumstæðurnar í heimalöndum sínum sem verk þeirra eru sprottin úr. Aðrir lýstu yfir hollustu sinni gagnvart listinni sjálfri, líkt og Gyrðir Elíasson sem sagði um þá kröfu að list þurfi að hafa samfélagslegt gildi: „…það er líkt með það og plottið – ég er ekki sannfærður.“ Sumar samræðurnar vöktu mann til vitundar um bilið á milli þessara tveggja póla, líkt og þegar portúgalski höfundurinn Gonçalo Tavares talaði um skáldskapinn sem helsta vopn okkar gegn „ómeðvituðu einræði“ samfélagsmiðladrifinna fjölmiðla, sem segja til um hvað okkur ber að hugsa um hverju sinni, líkt og trúarbrögð gerðu áður fyrr. Aðrir viðburðir voru svo galsafullir að salurinn engdist um af hlátri, líkt og þegar Vigdis Hjorth lék með tilþrifum fyrstu kynlífsreynslu sína, sem hún lýsti sem vonbrigðum af verstu sort en upplifun sem hefði engu að síður kennt henni margt um mátt skáldskapsins, eða þegar Pedro Gunnlaugur Garcia reyndi að fá allan salinn til að syngja Abba-lag í miðjum panel til að draga athygli áhorfenda frá því að stjórnandi umræðunnar (undirritaður) væri gjörsamlega búinn að missa tökin á atburðarásinni á sviðinu.

Þó var líka eitthvað nýtt í loftinu í ár. Það er alltaf sægur af erlendum höfundum á hátíðinni en að þessu sinni var stór hluti þeirra með skráð aðsetur eða ríkisfang á Íslandi. Stuttu fyrir setningu hátíðarinnar mátti finna á efri hæðinni í Iðnó útgáfuhóf fyrir ritgerðasafnið Skáldreki (Writers adrift) sem gefið er út bæði á ensku og íslensku og inniheldur skrif eftir hóp aðfluttra höfunda á Íslandi. Þar mátti hlýða á höfunda á borð við Jakub Stachowiak og Ewu Marcinek lesa um upplifanir sínar af því að skapa sér rödd og rými á Íslandi. Einnig tók ég eftir að það var meira en oft áður af fólki með hreyfihamlanir á meðal áheyrendaskarans í Iðnó – sem þrátt fyrir allan sinn sjarma verður seint talið sérlega aðgengilegt hús fyrir fólk sem notar hjólastóla eða önnur stuðningstæki. Fremst í salnum var búið að reisa stæðilegan ramp svo að Jan Grue – einn af gestahöfundunum – gæti ekið hjólastól sínum upp á sviðið. Grue reyndist vera einn af eftirminnilegustu höfundum hátíðarinnar í ár. Sérstaklega sitja í mér orð hans við Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur um kröfuna sem samfélagið setur á fólk sem býr við fötlun um að segja „innspírandi“ sögu, áður en það fær leyfi til að segja söguna um allar þær sligandi áskoranir, þjark og fyrirhyggjusemi sem þau þurfa að takast á við á degi hverjum – ósýnilegu vinnuna sem fólk með fötlun vinnur alla daga. Vá, hérna er alveg nýtt sjónarhorn á veröldina, hugsaði ég þá, eins og forðum.

Í viðtali hér á Rás 1 við setningu hátíðarinnar síðasta miðvikudag velti einn af höfundunum á hátíðinni upp þörfum spurningum um elítisma og klíkur. Hvort Bókmenntahátíðin væri yfir höfuð ætluð fyrir „Jón og Gunnu úti í bæ“, heldur væri kannski bara fyrir okkur höfundana og bransafólkið til að hella í okkur og slúðra og komast í tæri við erlenda kollega og útgefendur. Hátíðin sjálf hefur í raun ekki breyst mikið síðan ég heimsótti hana fyrst. Aðgangur er ókeypis og hver sem er á að geta labbað inn og hlýtt á upplestur og samræður höfundanna – líkt og ég gerði sjálfur fyrir tuttugu árum. Það að hún sé „opin öllum“ þýðir þó að sjálfsögðu ekki að öllum finnist þeir eiga rétt á að ganga inn í salinn, eða standa í þvögunni í anddyrinu og taka pláss frá öðrum. Þó er ekki laust við að mér finnist eilítið fjölbreyttari hópur hafa nýtt sér þann rétt í ár heldur en þá, þegar ég stóð þarna í gættinni sem óharðnaður unglingur og fannst ég vera að þvælast fyrir öllu alvöru fólkinu. Og það hlýtur að teljast góðs viti fyrir afkomu og áframhaldandi þróun íslenskra bókmennta.

#2: KANNSKI EITTHVAÐ

Ég lauk við handritið að nýju bókinni fyrir að verða tveimur vikum eða svo.

Þegar ég segi að ég hafi lokið við það, þá á ég í raun við að ég lauk við síðasta kaflann og setti niður síðustu línurnar. Þær höfðu verið að malla í hausnum á mér í einhvern tíma, eða frá því í kringum miðbik handritsins. Ég er haldinn hálfgerðri fóbíu við að setja niður á blað hluti sem ég er ekki ennþá tilbúinn til að skrifa. Flestar línurnar í lokakaflanum var ég búinn að ganga með í kollinum í nokkra mánuði og velta fyrir mér nokkrum sinnum í viku eða svo. Að minnsta kosti nógu oft til að gleyma þeim ekki.

Ég geri þetta stundum þegar ég dett niður á einhverja lausn á vandamálinu sem ég er að kljást við í handritinu eða eitthvað orðalag sem smellpassar við það sem ég er að reyna að koma til skila. Slíkar uppljómanir eiga sér yfirleitt stað þegar ég er að gera eitthvað allt annað en að skrifa; kannski að hjóla eða vaska upp eða úti í búð. Frekar en að hripa uppljómunina niður á post-it miða eða í stílabók, svo að ég geti hugsað um eitthvað annað, neyði ég mig til að leggja á minnið þetta tiltekna orðalag eða hreyfingu eða látbragð eða hvað-það-nú-er og held því þannig lifandi í huga mér.

Þegar ég byrjaði fyrst að skrifa af einhverri alvöru var ég haldinn þeirri vissu að plön og skemu dræpu allt flæði. Í hvert sinn sem ég reyndi að rissa upp einhverskonar beinagrind fyrir framvinduna áður en ég byrjaði að skrifa söguna þá brást ekki að ég missti umsvifalaust allan áhuga á sögunni sjálfri. Framan af reyndi ég að skrifa fyrsta uppkastið að hverri smásögu í einni lotu; setjast niður með óljósar hugmyndir eða tilfinningar í kollinum og neyða mig til að stoppa ekki fyrr en ég væri búinn að klína einhverskonar endi á söguna – sama hversu klisjulegur hann væri. (Það var hægt að laga það seinna.) Ef ég tók mér hlé þá dó sagan í höndunum á mér. Þegar ég opnaði skjalið næsta dag virkaði allt sem ég var kominn með svo líflaust og óspennandi, og mér tókst engan vegin að setja mig í sömu stellingar og daginn áður.

Það segir sig sjálft að þessi aðferðafræði hentar illa við skrif á lengri verkum – nema þá að maður geri eins og Kerouac, taki fullt af spítti og haldi sér vakandi dögum saman til að hamra á ritvélina. (Fyndið að 37 metra langa skrollan hans Jacks, sem þótti náttúrulega hálf galin árið 1951, á í raun margt sameiginlegt með ótæmandi Word-skjölunum sem við vinnum flest öll í í dag.) Ég skrifaði Stol í stigvaxandi lotum – skrifaði mig basically í strand og fór þá til baka á byrjunarreit og endurskrifaði og lagaði og fékk þannig nógu mikinn meðvind til að drífa eilítið lengra í hvert sinn.

Ég skrifaði fyrstu fimm kaflana í þessari nýju bók á jafn mörgum dögum í dvöl í Davíðshúsi haustið 2021 – eftir að hafa framkvæmt ýmsar æfingar og tilraunir með persónurnar þegar tími gafst árið áður. (Æfingar sem enduðu í nokkrum útkrotuðum stílabókum sem hefðu sómað sér vel í creepy íbúðinni hans Kevin Spacey í Se7ev.) Kaflar bókarinnar eru í lengra lagi og var ég hálf sprungin eftir þennan sprett og átti ekki meira við handritið fyrr en nokkrum mánuðum seinna, þegar ég hafði loksins tíma og efni til að sinna því daglega – þökk sé úthlutun úr launasjóði rithöfunda.

Að þessu sinni var ég aftur kominn í hversdegið og þurfti því að finna mér rólegri vinnuhraða. Þótt það sé ágætt að loka sig af með handritinu í smá tíma annað slagið þá er slíkt ekki beint hollt fyrir heimilislífið til lengri tíma. Í staðinn hafði ég nú næði til að opna handritið svo gott sem daglega og vinna í því í 2-4 tíma í senn og stundum heilu dagana.

Til að halda í flæðið í þessum styttri lotum setti ég mér þá reglu að lesa einungis yfir það sem ég hafði skrifað daginn áður í hvert sinn sem ég settist niður, og reyndi almennt að stilla mig um að leggjast í endurskrif eða nákvæmnislestur á handritinu sem heild. Til að gera mér erfiðara um vik við að svindla notaðist ég við einfalt línubil við skrifin. (Auðvitað svindlaði ég endrum og eins, einkum þegar ég þurfti að lesa yfir einhverja eldri hluta til að fá aftur tilfinningu fyrir persónunum, og notaði þá tækifærið og endurraðaði smá eða skipti út klisjulegu orðalagi.)

Svo, eins og ég segi, fyrir rúmum tveimur vikum síðan – seinna en ég hafi ætlað mér – kom að því og ég setti niður þessar setningar sem ég hafði verið að væflast með í huganum alla þessa mánuði. Daginn eftir skipti ég yfir í eitt og hálft línubil, gaf mér smá stund til að njóta ánægjuhrollsins sem ég fann fyrir við að sjá skjalið tvöfaldast að lengd, og hóf lesturinn. Markmiðið núna er að gera handritið klárt fyrir yfirlesara og útgáfuna. (Ég bíð yfirleitt ansi lengi með að hleypa öðrum í skjölin mín, en samkvæmt minni reynslu er fátt meiri tímaeyðsla, bæði fyrir þig og fyrir yfirlesarann, en að biðja einhvern að lesa yfir handrit sem ekki er tilbúið til yfirlesturs. Slíkt getur jafnvel ruglað mann svo rækilega í rýminu að handritið nær sér aldrei að fullu aftur. )

Ég er sirka hálfnaður núna og hingað til hefur mig ekki rekið í rogastans yfir neinu, þótt að það sé ýmislegt sem þarf að eiga við og færa til og ansi mikið óþarfa spik sem má snippa aftan af setningum eða inni í þeim miðjum. Þegar best gengur fá heilu málsgreinarnar að fjúka. Reyndar fjúka þær ekki lengra en inn í tiltekna möppu í tölvunni.

Mér er sagt að flestir rithöfundar eigi eina svona möppu. Þær eru yfirleitt titlaðar eitthvað á borð við „glefsur“ eða „pælingar“ eða „kannski eitthvað“ og tilgangur þeirra virðist vera að halda utan um búta úr skáldverkum í vinnslu sem höfundur treystir sér ekki til að eyða en mun aldrei nokkurn tímann lesa yfir aftur né gera neitt annað við.

#1: ALLT ER DRASL

Ég byrjaði á ritlaunum núna fyrsta mars og af því tilefni ákvað ég að flikka aðeins upp á heimasíðuna.

Reyndar var meira sem kom til, þar sem ég uppgötvaði um daginn að heimasíðan mín var horfin. Þegar ég reyndi að opna hana var mér beint inn á síðu með huggulegri skjámynd og fyrirsögninni SUSPENDED PAGE. Ég fór umsvifalaust í panikk og gerði ráð fyrir að allt mitt slugs varðandi öpdeit og fleira hefði nú loks komið mér í koll. Ég hef nefnilega aldrei verið neitt sérstaklega fær í því að dútla við þessa síðu, þótt að hún sá að verða tíu ára á næsta ári. Lénið og síðan sjálf var gjöf frá systur minni, stuttu eftir að ég kom heim úr ritlistarnáminu í Glasgow.

Ég man að ég var með miklar pælingar fyrst eftir að ég gerði síðuna public, eftir að hafa tekist að skjögra í gegnum uppsetningarferlið og bæta við einhverju template-i sem fylgdi frítt með. Ég ætlaði að byrja að blogga og vera með sérstakan flipa fyrir hverskyns örsögur og tilraunamennsku. Ég fylgdi engu af þessu eftir. Þess í stað breyttist síðan í einskonar ítarlega ferilskrá, þar sem ég hélt utan um nýjustu vendingar og það sem mér hafði tekist að gefa út eða koma í verk í gegnum tíðina. Það hefur reynst ágætt að hafa allt það efni á einum stað til að fletta í gegnum, ekki síst þegar ég er í viðjum septembers sálarinnar og efast um allt sem ég geri. Meginástæða þess að ég fór aldrei að pósta reglulega á þessa síðu er þó að ég er, og hef alltaf verið, óöruggur þegar kemur að því að tjá mig í rituðu máli á íslensku. Ég veit að þetta hljómar asnalega. Ég hef meira og minna fengist við nákvæmlega það síðustu árin, en þetta óöryggi er eitthvað sem hefur óneitanlega mótað mig og stíl minn sem höfundur.

Ég fór ungur að lesa á ensku. Pabbi narraði mig í það með því að segja mér alla bestu brandarana í Hitchhiker’s Guide to the Galaxy og láta mig síðan hafa slitna eintakið sitt svo ég gæti spreitt mig við enska textann. Þetta var nóta bene áður Kristján Kristmannsson tók sig til og þýddi bókina og gaf út með titlinum Leiðarvísir puttaferðalangsins um Vetrarbrautina. Ég hef verið svona kannski þrettán ára gamall þegar ég stautaði mig í fyrsta sinn í gegnum þessa frægustu bók Douglas Adams. Fyrir utan bækurnar sem mér var úthlutað í skólanum – Djöflaeyjan, Fátækt fólk og auðvitað Innansveitarkronika, sem var skyldulestur fyrir 9. bekk í Gaggó Mos – man ég varla eftir að hafa lesið bók á íslensku næstu tíu árin eða svo. Líklega hafði það eitthvað að gera með þá sérstöku blöndu af óöryggi og besservissma sem einkennir unglinga/ungt fólk – og sérstaklega stráka. Ég taldi víst og sannað að íslenskar bækur væru leim og leiðinlegar og að engir íslenskir höfundar jöfnuðust á við Palahniuk, Irwine Welsh, Italo Calvino, Neal Stephenson og William Gibson. (Já, ég las bara karla á þessum árum, eins og ég hef skrifað um áður). Ég kláraði menntaskóla, og las þar nokkrar íslendingasögur og meiri Laxness, en eftir það fór ég beint í nám í breskum og bandarískum bókmenntum í Englandi, og síðan, eftir nokkur góð auðnuleysingjaár þar sem ég fékkst mestmegnis við þjónustustörf og djamm, í ritlistarnám við háskólann í Glasgow. Það var ekki mikið um íslenskar bækur í þessu námi öllu.

Þegar ég sneri aftur heim til Íslands að náminu loknu og hugðist loks byrja að skrifa á íslensku þurfti ég því að byrja á núlli; taka sögurnar sem ég hafði haft svo mikið fyrir að pússa og slípa með ritlistarhópnum mínum í Glasgow og snara þeim yfir á óvandaða og kommuþvælda íslensku. Með hjálp frá vinum og vandamönnum og fleiri yfirlesurum tókst mér á endanum að koma ypsilonum á réttan stað og ná kommusetningunni, ja svona nokkurn veginn. Sögurnar enduðu að lokum í Smáglæpum, minni fyrstu bók, sem hlaut nýræktarstyrk og ég er ennþá mjög stoltur af, ekki síst vegna þess að ég veit hve ótrúlega langan tíma það tók að koma efni bókarinnar í útgáfuhæft form. Reyndar er ég viss um þetta fyrsta heila uppkast af Smáglæpum, sem ég handskrifaði upp úr ensku Word-skjölunum til að reyna að rjúfa algjörlega tengslin á milli tungumálanna, var efalaust ekki eins hræðilegt og ég upplifði það þá. Óöryggi mitt gagnvart íslenskunni lét allt líta út fyrir að vera tífalt verra en það var.

Þetta sama óöryggi gerði það að verkum að mér hraus hugur við að hrista saman smá texta á íslensku og henda honum sísvona út í algleymið. Í hvert sinn sem ég settist niður til að sjóða saman eitthvað sem kalla mætti “blogg” var ég svo hræddur um að það kæmist upp um mig sem “ekki nógu góðan íslensku mann” að ég eyddi jafn miklum tíma í yfirlestur og lagfæringar og ég gerði við sögurnar sem ég var að reyna að koma inn í TMM. Ég var skíthræddur við að skrifa illa. Sem er fyndið, þar sem ég hef oft básúnað mikilvægi þess að skrifa illa. Allt er drasl til að byrja með. Eini munurinn á höfundinum sem klárar handritið og höfundinum sem yfirgefur það er að sá fyrri þorði að skrifa illa lengur.

Ég hef því ákveðið að fari í dálítið átak við að skrifa illa á næstu mánuðum og æfa mig í að rumpa hlutum af. Mér er nú þegar að mistakast það herfilega. Ég er búinn að lesa textann hér að ofan allt of oft yfir og slá upp hinum og þessum orðum í BÍN og nútímamálsorðabókinni og eyða þannig góðum skerf af þeirri takmörkuðu orku sem ég hef í mér til að skrifa á degi hverjum. Orku sem hefði efalaust verið betur varið í yfirlestur á handritinu að nýju skáldsögunni sem ég er að vonast til að geta lagt inn til Forlagsins á næstu vikum.

Hér finnst mér ég knúin til að setja inn einhverja niðurstöðu; einhvern punkt sem mér þykir draga snyrtilega saman allt sem ég hef verið að impra á hér að ofan.

En ég ætla ekki að gera það.

Bókamessan 2022

Bókamessan var loksins haldin aftur í Hörpu í ár, í fyrsta sinn eftir Covid. Það var synd að þessi árlegi viðburður, sem virtist vera rækilega kominn á kortið þegar ég mætti þar síðast, virtist aðeins hafa dottið út úr haustrútínunni hjá fólki, og maður heyrði oft kvartað á básunum um að það væri ekki eins góð mæting og síðast. Engu að síður var fullt af fólki þarna og mikil stemmning. Ég náði þó einungis að njóta hennar litlum hluta þar sem helgin reyndist vera hálfgerð vinnutörn fyrir mig.

Á laugardaginn ræddi ég við heilann flota af höfundum og leikurum/lesurum fyrir Storytel á básnum þeirra, þ.á.m. Júlíu Margréti, Emil Hjörvar og sjálfan Ólaf Ragnar Grímsson. Þetta var um þriggja tíma törn með tuttugu mínútna spjalli eða svo við hvern höfund og lesara, og segja má að ég hafi verið alveg útkjaftaður í lok dags. Ég þurfti þó að hrista það af mér og mæta aftur daginn eftir til að sjá um smásögupanel fyrir Bókmenntaborgina, þar sem ég ræddi við höfundana Maríu Elísabet Bragadóttur, Örvar Smárason og Guðjón Baldursson, sem öll hafa nýlega gefið út smásögusöfn, og Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur, sem hefur þýtt fjöldann allan af smásögum og ritstýrt söfnum og sýnisbókum um smá- og örsögur frá öðrum menningarheimum. Panellinn gekk vel og fór vel á með okkur, en hægt er að horfa á hann í heild sinni á Facebook.

BÆ BÆ DAVÍÐSHÚS

Höfundur í hlaupagallanum

Kveð hús Davíðs Stefánssonar með handrit sem er nokkrum köflum lengra en það var þegar ég mætti fyrir 7 dögum síðan. Dvölin hefur verið ljúf þótt það hafi verið erfitt að halda sig innandyra við tölvuskjáinn í veðurblíðunni, en amk var hægt að verðlauna sig í lok dags með því að fara út að hlaupa eða sóla sig í sundi – eða með því að drekka rauðvín á sófanum og horfa á Mike Leigh myndir. Bæði var gert í réttum hlutföllum.