Mættur að nýju norður í Davíðshús til að vinna í handriti sem ég hófst handa við hér undir þessum kjallaraglugga síðast í nóvember – eftir nokkur ár af því að hripa hluti niður í glósubækur (hvenær sem tími gafst) og hugsa um persónurnar og afdrif þeirra (hvenær sem ég hafði ekki eitthvað annað og meira ákallandi til að hugsa um). Þetta mjakast.
RITLAUN 2022 OG VINNUAÐSTAÐA Í REYKJAVÍKURAKADEMÍUNNI
Ég er loksins byrjaður að taka ritlaunin mín, en mér var úthlutað 6 mánuðum úr launasjóði rithöfunda fyrir árið 2022. Ég ætla mér að nýta tímann til að vinna að nýrri skáldsögu sem ég vonast til að gefa út haustið 2023 og hef aftur tekið við skrifstofu í ReykjavíkurAkademíunni til að fá næði til að ná því markmiði.
PISTILL Í VÍÐSJÁ: (MÖGULEGAR) ÁSTÆÐUR ÞESS AÐ ÉG SKRIFA
Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer sex er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um pólitísk skrif og ópólitísk skrif og um George Orwell.
„Þannig hef ég reynt að bera fyrir mig að skrifin séu andsvar mitt við þeim áleitnu spurningum sem hvíla á okkur í dag, og að markmið mitt sem höfundur sé að sýna hvernig mannskepnan lifir og hrærist undir því álagi. Ég hef oft haft eftir orð George Orwell, sem sagði: „engin bók er í raun og veru laus við pólitíska slagsíðu.“ Gott og vel, hugsa ég, ég þarf þá ekki að hafa frekari áhyggjur af því.“
PISTILL Í VÍÐSJÁ: HÉR ER BANNAÐ AÐ TAKA MYNDIR
Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer fimm er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um myndatökur og dyravörslu og sundlaugar.
„Myndatökur hafa að einhverju leyti tapað hátíðleika sínum, núna þegar við erum umkringd myndavélum á alla kanta, og þær er að finna innbyggðar í ólíklegustu heimilistæki, en að sama skapi er líkt og myndavélarlinsan hafi breyst í enn eitt skynfæri sem við notum til að meðtaka heiminn og staðsetja okkur innan hans – skynfæri sem breytist í tjáningarfæri þegar við notum það til að miðla í gegnum samfélagsmiðla upplifun okkar á heiminum og okkur sjálfum.“
PISTILL Í VÍÐSJÁ: HVENÆR ER EITTHVAÐ „KAFKAÍSKT“ OG HVENÆR EKKI?
Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer fjögur er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um Kafka og frásagnir.
„En þannig er það líka með sögur Franz Kafka. Þær veita svo takmarkaða sýn af heimunum sem þær gerast í og persónunum sem þær hverfast um að lesandanum er frjálst að sjá í þeim nánast hvað sem hugurinn girnist og móta þær þannig að eigin túlkunum.“
PISTILL Í VÍÐSJÁ: TÍMINN OG NATNIN
Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer þrjú er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um tímann.
„Mér skildist á foreldrum mínum að úr væri bara eitthvað sem þú þurftir að ganga með, ekki ósvipað húslyklinum sem hékk í ól um hálsinn á mér. Líkt og húslykillinn var úrið tákn um bæði fríðindi og ábyrgð; lykillinn gerði mér kleift að vera einn heima eftir skóla, og úrið veitti mér rétt til að fara út að leika eftir kvöldmat – með því skilyrði að ég fylgdist með klukkunni og kæmi heim á skikkanlegum tíma.“
PISTILL Í VÍÐSJÁ: KARLAR SEM LESA EKKI KONUR
Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Pistill númer tvö er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um ómeðvitaða fordóma og lestur.
„Að uppgötva að ég læsi ekki konur var í alla staði óskiljanlegt. Það var eins og að uppgötva að ég læsi ekki bækur sem væru með oddatölufjölda af blaðsíðum; fáránlegt skilyrði sem ég hafði enga hugmynd um og gat ekki gefið neina rökrétta ástæðu fyrir“
PISTILL Í VÍÐSJÁ: TILFINNINGAR Á TORGUM SAMFÉLAGSMIÐLA
Ég er með pistlaseríu í Víðsjá á Rás 1 þessa dagana. Fyrsti pistillinn í seríunni er nú aðgengilegur á RÚV-vefnum. Hann er um tilfinningarými og Angelu Merkel.
„Hvað gerist þá þegar rýmið til að halda hamingju og harmi í hjarta okkar, þetta tilfinningarými sem við hleypum eingöngu okkar nánustu inn í, tekur að skreppa saman, samhliða því að líf okkar fer að sístækkandi hluta fram á opinberum vettvangi?“
VIÐTAL UM RITLIST Í MENNINGARSMYGLINU
Ásgeir Ingólfs bauð mér að mæta til sín í Menningarsmyglið og ræða um ritlist, harkið, vinnu- og útgáfuferlið og hvað ég er að lesa þessa dagana. Það er hægt að hlusta á samtalið okkar í hlekknum hér að neðan eða í næsta hlaðvarpsspilara með því að leita að “Menningarmygl”.
GREIN UM ÍSLENSKAR FURÐUSÖGUR Í ICELAND REVIEW
Ræddi við Hildi Knútsdóttur, Alexander Dan, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur og Sjón fyrir nýjasta hefti Iceland Review og fékk þau til að hjálpa mér að taka stöðuna á íslensku furðusagnasenunni, sögu hennar og framtíð.