TVEIR REFIR KEMUR ÚT Á ENSKU Í BRETLANDI

Sagan Tveir refir, sem birtist fyrst í smásögusafninu Smáglæpir (2017) er nú væntanleg á ensku í þessu fallega safni smásagna frá Íslandi sem breski útgefandinn Comma Press gefur út í haust. Tveir refir er þriðja sagan úr Smáglæpum sem gefin er út á ensku, en allar þrjár sögurnar voru þýddar af Larissu Kyzer.

Það er Sjón sem skrifar innganginn að The Book of Reykjavík og safnið inniheldur sögur eftir Fríðu Ísberg, Kristínu Eiríksdóttur, Auði Jóns, Friðgeir Einarsson, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Andra Snæ o.fl. o.fl. Það er mikill heiður að fá að vera með í svo fríðu föruneyti.

Útgáfu safnsins verður fagnað á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík í september og einnig verður haldinn rafrænn útgáfufögnuður þar sem rætt verður við höfunda sem eiga efni í safninu þann 31. september næstkomandi.

NEW SHORT FICTION IN ENGLISH

My story Two Foxes is being published in Comma Press‘s forthcoming collection of Icelandic short fictions. It is the third story from my 2017 collection Smáglæpir (Misdemeanours) to be published in English, all translated by Larissa Kyzer.

The introduction to The Book of Reykjavík is written by Sjón and the collection includes fiction from Fríða Ísberg, Kristína Eiríksdóttir, Auður Jóns, Friðgeir Einarsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Andri Snær and more. I feel humbled to be in such fine company.

The publication of the collection will be celebrated during the upcoming Reykjavík International Literary Festival, as well as through an online launch with live interviews with the contributors on 31 September.

GREIN Í WORLD LITERATURE TODAY

Bandaríska tímaritið World Literature Today bað mig um að skrifa um nokkrar íslenskar bækur sem eru væntanlegar í enskri þýðingu fyrir sumarheftið þeirra. Ég valdi af handahófi fyrstu fimm íslensku bækurnar sem ég fann sem væntanlegar eru í útgáfu hjá breskum eða bandarískum útgefendum og reyndust það vera:

1. Tíminn og vatnið (On Time and Water) eftir Andra Snæ Magnason
2. Korngult hár, grá augu (Red Milk) eftir Sjón
3. Stóri skjálfti (Quake) eftir Auði Jónsdóttur
4. Kvika (Magma) eftir Þóru Hjörleifsdóttur
5. Safnbók Svikaskálda (The Selected Imposter Poets) eftir Svikaskáldin; þ.e.a.s: Þórdísi Helgadóttur, Þóru Hjörleifsdóttur, Sunnu Dís Másdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Melkorku Ólafsdóttur og Fríðu Ísberg

Umfjallanirnar má lesa á heimasíðu WLT, sem leyfir lestur á allt að fimm greinum á mánuði fyrir þá sem ekki eru áskrifendur að tímaritinu.


HELGIDAGAR – NÝ SMÁSAGA Í TMM

Útgáfa smásögu fær, skiljanlega, hvorki sömu athygli né gagnrýni og skáldsaga eða bók. Því ætla ég að taka mér það bessaleyfi að segja sjálfur nokkur orð um söguna „Helgidagar“ sem kom út í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar.

Eins og flest sem ég sendi frá mér er „Helgidagar“ alls ekki ný saga heldur hefur legið ofan í skúffu lengi og gerjast. Ég sendi söguna fyrst á TMM einhvern tímann í kringum 2017 og fékk höfnun, enda var sagan ekki nógu sterk þá. Frekar en að ergja mig á því yppti ég öxlum, stakk sögunni ofan í skúffu og hófst aftur handa við skáldsöguna Stol – sem kom út hjá Forlaginu í byrjun þessa árs. Þegar Stol var svo komin úr prentun, og ég búinn að fylgja henni eftir hvað ég gat á ljósvaka- og samfélagsmiðlum, gerði ég það sem ég geri alltaf þegar ég er búinn að skila af mér, dró skúffuna mína út á gólf og rótaði í henni í leit að einhverju sem mér þótti geta staðist aðra atlögu.

Ég fann loks sómasamlegan titil á söguna og endurvann hana frá grunni, hélt þó söguþræðinum nokkurn veginn eins og áður en styrkti og víkkaði persónurnar og breytti ýmsum áherslum. Í því starfi naut ég góðs af fyrsta flokks yfirlestri frá Pedro Gunnlaugi Garcia og Sigurjóni Bergþóri Daðasyni, sem hjálpuðu mér að að fá skýrari sýn á söguna og slípa verkið til, og neyddu mig til að svara fyrir, breyta eða fjarlægja eitt og annað. (Eins og alltaf gáfu þeir mér líka nokkur mjög góð og skynsamleg ráð sem ég harðneitaði að hlusta á eða einu sinni taka til umhugsunar).

Helgidagar á sér rót í sögunni „Reunion“ eftir John Cheever, þar sem sögumaður á stefnumót við föður sinn á Grand Central-lestarstöðinni í New York-borg, þar sem sonurinn er staddur í stuttu stoppi á milli lesta. Feðgarnir hafa ekki sést í mörg ár og er ætlunin að eiga huggulega stund saman í þessu stutta stoppi en í hvert sinn sem þeir setjast niður á veitingastað eða bar endar faðirinn á að móðga eða ganga fram af þjónunum og starfsfólkinu svo að þeim er vísað á dyr. Að lokum er tími þeirra uppurinn. Sonurinn þarf að halda ferð sinni áfram og þeir feðgar hittast aldrei aftur. (Ég veit það fyrir víst að Sverrir Norland hefur einnig gert sér mat úr þessari tilteknu sögu Cheevers í hinni gamansömu „Heimafólk“ sem birtist í samnefndu smásögusafni hans. Mér rennur einnig í grun að smásagan „In the Islands“ eftir Bret Easton Ellis, sem birtist í safninu The Informers, eigi sér einhverskonar tengingu við „Reunion“.)

Saga Cheevers sat lengi í mér, þá sérstaklega þetta ofsafengna framferði föðursins sem virðist gera hvað hann getur til að skemma samverustund þeirra feðga og koma í veg fyrir að þeir fái það næði sem þeir þurfa til að eiga í alvöru samtali. Það er auðvelt að lesa söguna og sjá föðurinn eingöngu sem tilfinningalausan hrotta og dóna en mér þótti stærilæti hans og ósvífni fyrir framan son sinn einnig bera merki um óöryggi; óttann við að standa ekki undir væntingum sem faðir. Það voru tilfinningarnar sem ég reyndi að kafa ofan í í Helgidögum.

Fyrir þá sem ekki eru áskrifendur má nú lesa Helgidaga á vefsvæði TMM.

STOL FÁANLEG SEM HLJÓÐBÓK

Stol er nú fáanleg sem hljóðbók á hljóðbókavef Forlagsins.

Ég fór þess á leit við Bjarna Snæbjörnsson leikara, frænda minn og sundfélaga, hvort hann væri til í að taka að sér upplesturinn fyrir mig, og eftir að hafa lesið bókina féllst hann á það. Var það mikill fengur fyrir bæði mig og bókina sjálfa þar sem Bjarni beitir sér af fagmennsku, alúð og nærgætni við að túlka rödd Badda á glæfraför hans um þjóðveginn, með dauðvona föður sinn í farþegasætinu.

Hægt er að hlusta á Stol í Forlags-appinu og heyra brot úr lestri Bjarna á sölusíður bókarinnar: https://www.forlagid.is/vara/stol/

THE BRIDGE REVIEWS GOES ONLINE

So, for the past year or so I have been working on a web forum dedicated to reviews of books by Icelandic authors that are available in English. The project is called The Bridge Reviews and is meant to increase the visibility of contemporary Icelandic literature and create a place where readers and industry people can find information about Icelandic books, authors, publishers and translators all in one place. The forum is hosted by the Literature Web in partnership with the Reykjavík City Library (Borgarbókasafnið) and Reykjavík City of Literature (Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO). The project is funded by the Icelandic Literature Center.

Currently, the forum is home to 70 reviews of Icelandic books in English translation, but the goal is to cover all Icelandic books available in English – funding willing.

Please click around, read, share etc. etc.

BRÚIN – UMFJÖLLUN UM ÍSLENSKAR BÆKUR Á ENSKU

Undanfarið ár hef ég verið að vinna að nýju vefsvæði sem er tileinkað umfjöllunum á ensku um bækur eftir íslenska höfunda sem eru fáanlegar á enskri tungu.

Verkefnið ber heitið Brúin, eða „The Bridge Reviews” og er ætlað að auka sýnileika íslenskra nútíma bókmennta og skapa vettvang þar sem lesendur og fagfólk geta nálgast upplýsingar um íslenskar bækur, höfunda, útgefendur og þýðendur á einum og sama staðnum. Verkefnið er hýst á Bókmenntavefnum í samstarfi við Borgarbókasafnið og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og er styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta

Um þessar mundir inniheldur vefurinn 70 umfjallanir á ensku um íslenskar bækur en markmiðið er að bjóða upp á umfjallanir um allar íslenskar bækur í enskri þýðingu – þegar og ef frekara fjármagn fæst til að standa undir þeirri vinnu.

Endilega skoðið og deilið, hummið og ha-ið og svo framvegis!

“THE HUSBAND AND HIS BROTHER” PUBLISHED BY WORDS WITHOUT BORDERS

My story “The Husband and his Brother” is now featured at Words Without Borders in their new Icelandic Issue, along with recent works by authors Þórdís Helgadóttir, Fríða Ísberg, Haukur Ingvarsson, Eva Rún Snorradóttir, Þóra Hjörleifsdóttir, Steinunn Helgadóttir and Bergrun Anna.

I love how WWB have presented the work in such a way that by clicking around you can read the Icelandic and the English texts side by side and even listen to a recording of myself and the other authors reading an extract from their original texts.

“The Husband and his Brother” first appeared in my 2017 short story collection “Smáglæpir” (Misdemeanours), and I guess you might say that it is a fairly grim tale of family/nationality and how inaction leads to complicity.

All translations in the Icelandic Issue are by Larissa Kyzer and Meg Matich.

STOL – BÓKADÓMUR Í VÍÐSJÁ

Um daginn flutti Gauti Kristmannsson mjög ígrundaðann og vel skrifaðan bókadóm um Stol, nýjustu skáldsögu mína, í Víðsjá á Rás 1. Bókadóminn er núna hægt að lesa á heimasíður RÚV en hef ég einnig afritað hann og birti hann hér að neðan til varðveislu

Gauti Kristmannsson skrifar:

Sorgin felur oft í sér það ósagða, við finnum í henni eftirsjá alls þess sem hefði mátt segja, en aldrei var fært í orð; orð ástar og reiði, en alltaf orð sem biðu í undirvitundinni og vildu koma fram, en komast ekki lengur. Það gerir hana sárari en ella, en er kannski grundvöllur hennar, án þess ósagða væri eftirsjáin ekki svona djúp. Missirinn er jafnvel sárari þegar hann kemur fram á meðan ástvinirnir eru enn á lífi, þegar þegar þau glata minni og vitund um sína nánustu, deyja andlegum dauða í viðurvist þeirra og eru dáin áður en líkami þeirra er endanlega dáinn. Þetta er viðfangsefni þessarar skáldsögu að einhverju leyti, sögumaður er ungur, samkynhneigður maður sem kominn er heim frá Bandaríkjunum úr óloknu námi og sambandi við annan mann sem fyllt hafði hann lífsgleði meðan á því stóð.

Söguformið er vegasaga, sögumaður og faðir hans eru á leið í útilegu og ætla að fara til Jökulsárlóns. Faðirinn er orðinn alvarlega veikur af heilaæxli og á ekki mikið eftir. Í ofanálag hefur aðgerðin sem gerð var til að fjarlægja æxlið haft mikil áhrif á hann, hann er haldinn málstoli og hefur einkenni sambærileg við Alzheimer eða elliglöp. Sagan er mikið til sögð í annarri persónu, sögumaðurinn er sífellt að tala við föður sinn, en þótt hann ávarpi hann „þú“, þá er hann ekki alltaf að tala við hann, heldur um hann. Fyrsta setning sögunnar er gott dæmi um þetta: „Við erum varla komnir úr bænum þegar þú þarft að pissa.“ Bein samtöl feðganna á milli eru hins vegar innan gæsalappa eins og hefðbundið er. Þessi aðferð gefur sögumanni færi á að segja margt sem hann hefur kannski átt erfitt með að segja, eða getur ekki sagt vegna ástands föður síns, hann er að reyna að nálgast föður sinn, en er um leið þrúgaður af samviskubiti vegna þess að það er orðið of seint, að því er virðist.

Þetta er þriðja feðrasagan sem ég les á þessum vetri, hinar voru Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson og Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur, en þar er einnig dauði föðurins eitt af meginviðfangsefnunum, og þótt allar þessar sögur séu ólíkar, þá er í þeim þetta tvíbenta uppgjör við föðurinn, í senn ásakandi og sakbitið. Án þess að ég vilji búa til eitthvert trend vöknuðu líka hugrenningatengsl við nokkur verk kvenna frá síðari árum sem snerust um uppgjör við móðurina. Foreldrar okkar eru slíkir áhrifavaldar í lífinu að engan skyldi undra að skrifað sé um þetta, þau hafa slíkt tök á lífi okkar frá upphafi, og við komumst að því á einhverjum tíma að þau eru hluti af okkur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Einhverju sinni skrifaði freudistinn Eric Berne eitthvað á þá leið, að í bernsku sæjum við foreldra okkar sem goðsögulegar verur, og að þessar verur skrifi handritið að sjálfi okkar með þeim sögum sem þær segja okkur.

Þessi saga snýst þó engan veginn um föðurmorðið í anda Freuds, jafnvel þó að rofið milli föðurins og sonarins á unglingsárunum hafi einmitt átt sér stað þegar þeir voru á leið í sína árlegu útilegu, rétt eins og sagt er frá í þessari sögu. Sjónarhornið er miklu fremur á missinn, stolið, og kannski er ungi maðurinn alveg eins í uppgjöri við sjálfan sig, hann áttar sig á því að þótt faðir hans „eigi“ eitthvað í honum, þá er strandið í hans eigin lífi honum sjálfum að kenna.

Þótt form sögunnar sé einfalt í sjálfu sér, vegasaga sem gerist á nokkrum dögum í réttri tímaröð, þá þjóna endurlit og vangaveltur sögumanns um sig og aðra hans nánustu þeim tilgangi að fylla upp í myndina af lífi aðalpersónunnar og fjölskyldu hans. Þetta er raunsæ og nokkuð geðþekk mynd, það eru engar drastískar persónur, engar misþyrmingar eða áföll, þetta er venjulegt miðstéttarfólk sem ekki stendur fyrir neinum ósköpum. Vissulega eru átök, foreldrar drengsins skildu þegar hann var ungur, og hugsanlega er það áfall, en það hendir meirihluta barna í þessu samfélagi, held ég. Einhvern tímann var sagt, að mig minnir, að stjúpfjölskyldan væri algengasta fjölskylduform samtímans á Íslandi.

Bygging sögunnar er vel og kunnáttusamlega gerð; endurlitin og vangavelturnar þjóna einnig sem frásagnartöf þar sem við bíðum eftir framvindu sögunnar, og það tekst að gera hana nokkuð spennandi, ekki síst í öðrum hluta af þremur, þegar þeir feðgar álpast á Fjallabaksleið syðri á heimleiðinni, og þar tengir höfundur frásögnina við þekkt minni í íslenskri sögu og býr til flækjur og drama sem næra allar góðar sögur. En sögubyggingin er þannig mjög klassísk, hún byrjar í miðjum klíðum, er með upphaf, ris í miðju og endi þar sem lokað er á ferlin sem vakin eru í frásögninni. Höfundur er ekki að spenna stílinn neitt upp og heldur sig við raunsæislega frásögn og reynir ekki mikið að vera með dramatískar lýsingar, þær eru fremur lágstemmdar, meira að segja þegar á bjátar og skynja má örvæntingu hjá sögumanni, þegar allt klúðrast sem klúðrast getur. Sagan er ekki mjög íronísk, þótt greina megi tungu í kinn í hrakfallahætti sögumanns og uppátækjum föðurins.

Þessi saga er alveg ágætis byrjun hjá ungum höfundi og hann er greinilega flinkur að vinna sannfærandi og trúverðugan söguþráð, en á móti fer kannski ekki mikið fyrir neinni tilraunamennsku, eða mjög mörkuðum persónum, eins og farið hafi verið að ráðum Rolands Barthes í frægri bók sem heitir Skrifað við núllpunkt, þar sem hann kallar eftir áreynslulausum stíl í skáldskap. Sú bók var hins vegar skrifuð á sjötta áratug síðustu aldar og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan. En mesta gjöf þessarar bókar er hins vegar að taka lesendur með í ferðalag í sorgina og missinn á foreldri, án þess að falla í gryfjur væmni og sjálfsvorkunnar. Dauðinn óumflýjanlegi lætur aldrei að sér hæða og í þessari sögu tekst sögumanni að vinna úr honum á augnabliki þar sem hann heldur að faðir sinn sé nánast að deyja og segir loksins allt við hann sem hann þurfti að segja. Þótt faðirinn hafi kannski ekki heyrt það allt, ef nokkuð, þá minnir hann okkur á að við þurfum að segja hið ósagða sem undir liggur til að geta sætt okkur við dauða foreldra okkar, einmitt til þess að geta skrifað handritið að okkar eigin sjálfi í framtíðinni.