MÁLLEYSINGJARNIR Í BÓK VIKUNNAR

Ég var gestur í Bók vikunnar í síðustu viku, ásamt Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur. Þar ræddum við við Jórunni Sigurðardóttur um Málleysingjana eftir Pedro Gunnlaug Garcia.

Málleysingjarnir kom út skömmu fyrir jól og er fyrsta bók Pedro Gunnlaugs. Bókin er merkileg en jafnframt óvenjuleg skáldsaga, kannski einkum vegna þess hve stór og framsækin hún er, þrátt fyrir að vera fyrsta útgefna verk höfundar.

Þess má geta að ég skrifaði einnig fyrir stuttu bókadóm um Málleysingjana sem birtur var á Bókmenntavefnum.

LISTAMANNALAUN 2020

Þar sem ég sit hér og hjakka í tækniþýðingum til að eiga salt í grautinn fæ ég þær fréttir að mér hafi verið úthlutaðir 3 mánuðir úr Launasjóði rithöfunda fyrir árið 2020. Ég þakka sýnt traust.

Þessi styrkur mun koma að góðum notum við þau verkefni sem framundan eru. Skipulagsvinnan er þegar hafin: Að ákvarða hvenær og hvernig best sé að taka út styrkinn, sem og allskyns bókhaldspælingar um hvernig maður láti þetta allt ganga upp þannig að maður fái þetta ekki allt í bakið í reiknuðu endurgjaldi á næsta ári. Hvað sjálf skrifin varðar bý ég að góðri undirbúningsvinnu í því efni sem ég setti saman fyrir umsóknina í nóvember á síðasta ári. Þar er að finna textabrot og ýmiskonar yfirlitsgögn um stórt nýtt verkefni sem ég stefni á að byrja á í ár, á meðan handritið að minni fyrstu skáldsögu er í yfirlestri.

Mig hlakkar mikið til að hefjast handa enda hefur fátt annað komist að undanfarin þrjú ár en áðurnefnd skáldsaga. Tilhugsunin um að skrifa eitthvað „nýtt“ er orðin æði heillandi. Ég sendi hamingjuóskir til bæði þeirra sem fengu úthlutað og líka þeirra sem fengu ekki neitt ár. Ég hlakka til að fylgjast með afrakstrinum hjá báðum hópum á næstu misserum.

BÓKADÓMUR: STELPUR SEM LJÚGA EFTIR EVU BJÖRG ÆGISDÓTTUR

Ég tók að mér að skrifa bókadóm um spennusöguna Stelpur sem ljúga eftir Evu Björg Ægisdóttur fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Þetta er önnur bók Evu Bjargar en fyrsta bók hennar var fyrsti handhafi Svarfuglsins, bókmenntaverðlaunanna sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson komu á fót til að draga nýja íslenska glæpasagnahöfunda fram í sviðsljósið. Bókadóminn má lesa á Bókmenntavef Bókmenntaborgarinnar en þar er einnig hægt að finna eldri bókadóm minn um fyrstu bók Evu Bjargar, Marrið í stiganum.

BÓKADÓMUR: MÁLLEYSINGJARNIR EFTIR PEDRO GUNNLAUG GARCIA

Ég tók að mér að skrifa bókadóm um skáldsöguna Málleysingjarnir eftir Pedro Gunnlaug Garcia fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Þetta er fyrsta bók Pedros og lofar góðu um áframhaldandi feril hans sem höfundar. Bókadómurinn er í lengra lagi enda er hér um að ræða þykka bók með víðáttumikið sögusvið sem erfitt er að ná utan um í stuttu máli. Bókadóminn má finna á Bókmenntavef Bókmenntaborgarinnar.

BÓKMENNTAVIÐBURÐIR Í JÓLABÓKAFLÓÐINU

ATH! HKL – ástarsaga eftir Pétur Gunnarsson er ennþá á leiðinni til landsins.

Þann 21. nóvember, daginn eftir að ég sný aftur til Reykjavíkur eftir vikudvöl á Stykkishólmi, mun ég stýra höfundakvöldi á Bókasafni Mosfellsbæjar. Kvöldið hefst klukkan 20:00 og þar munu stíga á stokk: Auður Jónsdóttir með Tilfinningabyltinguna; Dóri DNA með Kokkál; Eva Björg Ægisdóttir með Stelpur sem ljúga; Pétur Gunnarsson með HKL – ástarsaga; og Vigdís Grímsdóttir með Systa – bernskunnar vegna. Boðið verður upp á piparkökur, kaffi og rauðvín og munu höfundarnir lesa eilítið úr bókunum sínum og síðan taka þátt í léttu spjalli. Efalaust munu einhverjir sakna Katrínar Jakobsdóttur sem hefur stýrt þessum höfundakvöldum hingað til en vonandi á ég nægilega mikið inni hjá áheyrendum (verandi gamall Mosfellingur) til að mér sé treyst til verksins.

Tveimur dögum seinna, þann 23. nóvember, mun ég síðan vera á Bókamessunni í Hörpu og mun þar aftur ræða við Pétur og Auði auk Björgu Guðrúnu Gísladóttur, sem var að gefa út bókina Skuggasól – minningasaga. Samtalið fer fram í Rímu A klukkan 15:00 og munu höfundarnir lesa úr bókum sínum og ræða um mörkin á milli ævisögu og skáldskapar o.fl.

Vonandi sé ég einhver ykkar á þessum viðburðum. Gaman að fá að vera með í jólabókaflóðinu í ár, og það án þess að þurfa einu sinni að gefa út bók.

JÓLALESTURINN SO FAR

Ég var gestur í Mannlega þættinum á Rás 1 í vikunni sem leið og var þar í hlutverki „lesanda vikunnar“. Því greip ég efsta lagið úr bunkanum á náttborðinu með mér upp í Efstaleiti til að hafa til taks á meðan ég ræddi við Gunnar Hansson um hvað ég væri að lesa þessa dagana.

Efst í þeim bunka var að finna Artful eftir skoska höfundinn Ali Smith. Smith er einn af þessum einstöku höfundum sem kemst upp með alls kyns óskunda sem fáir aðrir gætu leyft sér án þess að hljóma tilgerðarlega eða hreinlega kjánalega. Þannig sogar Artful inn í sig tilvísanir sem leiða í allar áttir og hræra saman Beyoncé, bresku súrrealistunum, ýmsum nýlegum og klassískum ljóðskáldum og Charles Dickens—en safnið dregur nafn sitt af félaga og læriföður Olíver Twists, hinum útsmogna og velklædda Jack Dawkins, öðru nafni The Artful Dodger.

Bókin er byggð á fyrirlestrarröð sem Smith gaf í St. Anne‘s College í Oxford og er í grunninn hér um að ræða ritgerðasafn þar sem rithöfundur reynir að skilja og skilgreina list sína, ekki ólíkt t.d. Negotiating with the Dead eftir Margaret Atwood. Smith fer þó heldur óhefðbundna leið til að halda utan um ritgerðirnar. Safnið er í formi skáldsögu sem rituð er í fyrstu persónu, þar sem mælandinn talar til elskuhuga síns, sem fallið hefur frá eftir áratuga sambúð. Elskhuginn tekur þó fljótt að birtast aftur heima hjá þeim, tómeygður og tormæltur, og þótt aðalpersónan geri sér fulla grein fyrir að hér sé bara um eigin ímyndun að ræða sér hún fram á að verða að vinna bug á sorginni og þar með draugnum sjálfum, og finnur leiðir til þess m.a. í gegnum lestur; með því að endurlesa Oliver Twist og lesa síðan fyrirlestrana sem elskhuginn var í óðaönn að undirbúa fyrir fráfall sitt. Þar eru komnar ritgerðir Smiths um ljóðlist, skáldskap o.fl.

Ég held að ég komist ekki lengra án þess að útskýra að Smith greinir aldrei frá kyni karakteranna tveggja í bókinni, elskhugans og aðalpersónunnar, og gerir hún það af mun meiri natni en mér var fært í þessari stuttu klausu hér að ofan. Raunar tók ég varla eftir þessu tilbrigði við fyrsta lestur heldur gerði bara (á minn siss-heteró-hátt) ráð fyrir að hér væri kvenhöfundur að skrifa um konu sem væri að ávarpa karl. Við seinni lesturinn varð ég þó varari við þetta og dáðist að því hversu opin bókin er fyrir vikið. Í textanum geta lesendur tyllt sér í vitund þessarar ónefndu fyrstu persónu raddar og horft á heim bókarinnar út frá eigin upplifunum. Ég hef séð marga reyna að greina ekki frá kyni persóna sinna á svipaðan hátt og hef meira að segja leikið mér að því sjálfur í sögunni „Barnalæti“ (Smáglæpir, 2017). Ég hef hinsvegar aldrei séð þetta gert af annarri eins natni og sýnd er hérna, eða án þess að með fylgi einhverskonar „kynafhjúpun“ við lok bókar— líkt og í Smack My Bitch Up tónlistamyndbandinu með hljómsveitinni Prodigy, sem mér varð á að vísa til í umræðu minni við Gunnar.

Næst í bunkanum voru tvær bækur, eða í raun ein bók í tveimur útgáfum, önnur á færeysku og hin á íslensku. Ég kynntist færeyska ljóðskáldinu Beini Bergssyni þegar við vorum báðir gestir á nýliðanámskeiði norrænna rithöfunda á eyjunni Biskops Arnö í Svíþjóð í byrjun sumars. Þar heyrði ég hann fyrst lesa upp úr ljóðasafni sínu Tann lítli drongurinn og beinagrindin, sem kom út í Færeyjum árið 2017, þegar Beinir var tvítugur, og vann strax til nýstofnaðra færeyskra menningarverðlauna. Litli drengurinn og beinagrindin er nú komin út á íslensku hjá míkróútgáfunni Gin ljónsins og er þýðandi Guðrún Brjánsdóttir.

Í safninu finnur maður hvernig ljóðmælandinn styrkist og þroskast eftir því sem líður á bókina, en elstu ljóðin eru frá því þegar Beinir var um 15 ára gamall. Safnið hefst á þeim punkti í lífi hans þegar faðir hans var greindur með krabbamein, og varð að ferðast til Danmerkur í lengri tíma til að leita sér aðhlynningar. Ljóðin einkennast af trega og söknuði, og þá sérstaklega einkennilegri togstreitu við dauðann, þar sem barnið, litli drengurinn, getur ekki tekið þátt í dánarferli föður síns þar sem hann er svo langt í burtu frá honum. Þroskinn og sorgarferlið kemur inn frásögnina í formi beinagrindar sem rífur sig lausa úr drengnum og verður að annarlegri og hræðilegri veru sem flækist um smábæjarsamfélagið í Færeyjum.

Það sem snart mig mest við bókina er hvernig hún ávarpar þann hluta sorgarferlisins sem fólk vill hvað minnst tala um, þ.e.a.s. reiði. Reiði sem snýst jafnt að fjölskyldu og samfélagi og að sjálfum ástvininum sem fallið hefur frá og yfirgefið syrgjandann. Ljóðin eru angistarfull, líkamleg og reið, og eru t.a.m. lýsingar á því hvernig beinagrindin stingur höndunum upp í sig til að ná taki á óhljóðunum og rífa þau út úr sér svo að þau fossa út um munninn. Mér fannst íslenska þýðingin reyndar ekki alveg ná að fanga rödd Beinis, kannski sökum þess að Beinir er mjög góður upplesari og ég hef hlustað á hann lesa ljóðin sín á færeysku, og því mæli ég með að fólk nái sér í bæði eintökin og hafi færeyskuna til hliðsjónar, ef slíkt er í boði.

Þriðja bókin er fyrsta eiginlega „jólabókin“ í bunkanum og er það Málleysingjarnir eftir Pedro Gunnlaug Garcia, sem nýlega kom út í innbundinni útgáfu hjá Bjarti. Ég var viðstaddur þegar Pedro hlaut Nýræktarstyrk fyrir þessa bók fyrir að verða þremur árum—sama ár og Fríða Ísberg hlaut styrk fyrir Slitförin. Þar heyrði ég Pedro lesa upp úr handritinu, sem hann hafði þá unnið að undanfarin 3-4 ár, og vissi strax að hér var komið eitthvað alveg sérstakt. Málleysingjarnir er stór og þykk bók, yfir 400 blaðsíður, og held ég að þetta sé í fyrsta sinn í lengri tíma sem ég sé nýja íslenska skáldsögu sem reynir hvað hún getur að þrengja línubil og minnka spássíur til að koma sér fyrir, frekar en hitt sem verið hefur lenskan undanfarin ár, að „teygja eilítið á þessu“, eins og Ragnar Helgi orðar það í minningabókinni Bókasafn föður míns.

Bókin skiptist í þrjá hluta. Fyrsti hluti gerist alfarið í Rúmeníu á árunum 1989-1995. Þar segir frá drengnum Mihail og þeirri atburðarás sem hefst þegar faðir hans, Octav, snýr aftur inn á heimilið eftir að hafa verið í pólitískur fangi Ceaușescu hjónanna árum saman, en þau stýrðu landinu með harðri hendi allt þar til þau voru tekin af lífi í uppreisninni árið 1989. Seinni hlutinn virðist svo í fljótu bragði engin tengsl hafa við þann fyrri, en þar erum við djúpt sokkin í hversdagsleika íslenskrar vísitölufjölskyldu upp úr aldamótunum síðustu, og er sjónum sérstaklega beint að systkinunum Bergþóru og Finni, sem eru að þróast í sitthvora áttina eftir að hafa verið einstaklega samrýnd sem börn. Salvör, móðir þeirra, daðrar í sífellu við þá hugmynd að finna sér frelsi og yfirgefa fjölskylduna fyrir fullt og allt, og kannski þá sérstaklega manninn sinn, strætóbílstjórann Hannes, sem virðist hreinlega vera farinn að liðast í sundur. Á meðan týnist Finnur í villta vestri hins tiltölulega nýja veraldarvefs, og vafrar þar á milli klámsíðna og gore-efnis, jafnt því að hann fræðist um skotvopn og heimagerðar sprengjur og hrellir konur í fjarlægum löndum með aðstoð annarra nettrölla. Eftir fallvaltar tilraunir sínar í listaheiminum er Bergþóra hins vegar loks að finna sína hillu í lífinu: innan hins nýlega einkarekna heilbrigðisgeira, þar sem hún vinnur sem „upplifunarhönnuður“ fyrir hið nýstofnaða IHCR (International Health Clinic Reykjavík). Þar sér hún um að viðburðastýra hinstu augnablikum og öðrum náðarstundum sjúklinganna á spítalanum. Þriðji hlutinn gerist síðan á árunum 2017-2019 og bindur saman þessar tvær ólíku fjölskyldusögur.

Málleysingjarnir er einstaklega sérstök bók, kannski einkum vegna þess hve vítt og breytt hún leyfir sér að fara í persónusköpun. Þannig bindur hún sig ekki við tilteknar aðalpersónur heldur flakkar á milli, kafar ofan í sögu allra karakteranna og leyfir lesandanum að dvelja um stund með hverjum og einum þeirra og sjá heiminn frá þeirra sjónarhorni. Eins og ég minntist á við Gunnar þá sýnir Pedro einnig mikla natni við það að draga fram íbúa og götur hinnar fjarlægu Búkarest borgar, en slíkt er ekki á færi allra og eru mörg dæmi um íslenska höfunda sem ákveða að staðsetja bækur sínar í fjarlægum löndum og sökkva síðan í fen klisja og steríótýpa. Fyrir utan alla þá rannsóknarvinnu sem hann hefur augljóslega lagst í þá kemst Pedro hjá þessum örlögum með því að vera aðhaldssamur í götulýsingum og nota fáar en fínar línur frekar en breiða pensla. Í fyrirrúmi er þó hvernig hann gefur sér tíma við persónusköpunina og veitir fólkinu forsögu og innra líf, frekar en að beita þeim sem leiksoppum sem gegna litlu hlutverki öðru en að holdgera loðnar hugmyndir um framandleika eða endurkasta holri spegilmynd „Íslendingsins í útlöndum“. (Fyrir einstaklega fræðandi og hressandi greiningu á þessu tiltekna og algenga minni í íslenskum nútímabókmenntum mæli ég með grein Halldórs Xinyu Zhang í nýjasta heftir TMM; 3:2019.)

Neðst í bunkanum eru svo tvær nýlegar íslenskar ljóðabækur. Ég er í hálfgerðri herferð gegn sjálfum mér þessa dagana; er að reyna að vinna bug á ímugust mínum og afturhaldsemi þegar kemur að ljóðlist. Í einföldu máli sagt þá les ég ekki nógu mikið af ljóðum; hef aldrei vanið mér það þrátt fyrir að hafa kynnst ýmsum ljóðskáldum persónulega og í gegnum bækur á meðan á háskólanámi mínu stóð og annarstaðar. Ekki kann ég skýringu á því aðra en að ég tamdi mér mikið af mínum lesvenjum snemma í æsku, þegar ég las allt sem að kjafti kom og kippti mér þá lítið upp við hvort um væri að ræða klassík eða bara Bob Moran og unga uppfinningamanninn Tom Swift, en á þeim tíma lærði ég aldrei að lesa ljóð mér til afþreyingar eða upplifunar. Ég hef því tamið mér undanfarið að vera með ljóðabækur innan seilingar svo að ég geti litið í þær endrum og eins, lært af þeim og reynt að skilja hvað mér þykir vel gert og hvað illa, og hvernig ég greini þar á milli.

Auk Beinis eru ljóðabækurnar sem að þessu sinni þvælast um stofuna heima Leðurjakkaveður eftir Fríðu Ísberg, gefin út af Forlaginu, og Okfruman eftir Brynju Hjálmsdóttur, gefin út af Unu útgáfuhúsi. Ég er ennþá að meðtaka Leðurjakkaveður. Hingað til hefur lestur minn á ljóðlist Fríðu svolítið verið á þann máta að alltaf þegar ég held að ég sé búinn að lesa ljóðið uppgötva ég eitthvað nýtt; einhverja nýja hlið eða tengingu sem ég hafði ekki séð móta fyrir áður og gerir það að verkum að ég sé ljóðið eða allt safnið í nýju ljósi. Þannig eru ljóðin hennar Fríðu algjör kvikindi; þau virðast ekki geta verið kyrr á blaðsíðunni heldur eru á sífelldu iði, svo að mér finnst þau hafa breyst eða skipt um ham í hvert sinn sem ég tek safnið upp til að fletta aftur í gegnum það.

Okfruman er hinsvegar bók sem mér þykir ekki hægt að blaða í heldur verður maður að teyga hana í sig í einni setu. Erindin eru svo listavel bundin saman frá byrjun til enda að ekki er hægt að leggja bókina frá sér í eitt augnablik til að kíkja á símann eða fara til dyra. Eins og ég nefndi kannski áður í tali mínu um Ali Smith þá hef alltaf kunnað að meta höfunda sem leyfa sér að taka áhættur; áhættur sem snúa ekki endilega að því að sjokkera heldur að því að hreinlega gera sig að fífli; með leik og gleði og jafnvel smá kæruleysi. (Þ.e.a.s. höfunda sem komast upp með hluti í sínum texta sem ég efast stórlega um að ég kæmist upp með í mínum.) Slík óskammfeilni sést meðal annars í því hvernig Brynja brýtur niður línurnar og leyfir þeim að leka á milli erinda, og hvernig hún leikur sér með típógrafíu, m.a. til að skipta safninu upp í hluta.

Þannig finnst mér þessi tvö söfn fara einstaklega vel saman vegna þess hve ólík þau eru: Leðurjakkaveður er hárnákvæm og öllu er haganlega fyrirkomið svo að maður greini vel háu nóturnar jafnt sem lágu nóturnar. Okfruman, hinsvegar, steypir línum og ljóðum saman svo að úr verður ein buna eða biða sem þarf jafnt á öllum sínum útlimum að halda.

Að lokum get ég ekki talið til þær ljóðabækur sem ég er að lesa án þess að minnast á Þvottadag eftir Jónas Reyni Gunnarsson, sem ég fékk ekki í hendurnar fyrr en eftir viðtalið. Í þessu safni heldur Jónas áfram á þeirri vegleið sem hann lagði af stað með í Leiðarvísir um þorp; landslag æsku og fortíðar í smábæ úti á landi. Engu að síður eru tónbrigðin sterkari en áður, sérstaklega hvað varðar endurtekningarnar sem draga lesandann sífellt aftur að tilteknum myndum eða atvikum.

Líkt og Okfruman hennar Brynju lætur safnið það almennt vera að skipta sér upp í tiltekin ljóð heldur líður maður í gegnum það í einum rykk, en þessi endurteknu stef í textanum gerðu það að verkum að ég upplifði ljóðin eins og hálfgert hugflæði þar sem allt er að gerast á sama augnablikinu. Þannig minnti ljóðmælandinn mig á köflum næstum á Billy Pilgrim í Slaughterhouse 5 eftir Kurt Vonnegut, sem flosnast upp í tímans rás og ráfar viðstöðulaust fram og til baka um ævi sína. Nærtækara dæmi væri kannski sögukona smásögunnar „Story of Your Life“ eftir Ted Chiang. Eftir kynni sín við verur frá öðrum heimi sér sögukonan tímann á allt annan máta, allan í einu frekar en línulega, en samt er hún ófær um að hafa áhrif á atburðarás eigin lífs. (Efalaust hljómar þessi lýsing kunnuglega enda var kvikmyndin Arrival, sem skartaði tónlist Jóhanns Jóhannssonar, byggð á sögu Chiangs.) Geta má að Jónas er að gefa Þvottadag út undir merki Páskaeyjunnar, nýlegu litlu útgáfufélagi sem rekið er af Kristinni Árnasyni, sem gaf út ljóðabókina sína Regntímabilið undir sama merki núna í vor. Útgáfuhúsið er jafnframt jógastúdíó og mæli ég með því að hafa áhugasamir hafi samband við höfund eða útgefanda til að kaupa eintök beint af kúnni.

Þannig liggur jólalesturinn þessa stundina. Á morgun byrja ég vikudvöl mína á Hótel Egilsen á Stykkishólmi, þar sem ætlunin er að ljúka við skáldsöguhandritið sem ég hef verið að vinna í undanfarin 2-3 ár. Nokkrum dögum eftir að ég kem aftur í bæinn er ég síðan að fara að stýra pallborðsumræðum á Bókamessunni í Hörpu, þann 23. nóvember, en þar mun ég ræða við Auði Jóns, Pétur Gunnarsson og Björgu Guðrúnu Gunnarsdóttur um nýútkomnar bækur þeirra: Tilfinningabyltingin, HKL – ástarsaga og Skuggasól. Þykir mér því líklegt að þær bækur komi með mér til Stykkishólms.

DVÖL Á HÓTEL EGILSEN

Ég var svo heppinn að vera úthlutað vinnudvöl á Hótel Egilsen á Stykkishólmi, núna í nóvember. Þar ætla ég að ljúka við skáldsöguhandritið sem ég hef verið að vinna í undanfarin tvö til þrjú ár. Mér þykir einkar vænt um að fá að klára þessa lokavinnu þarna á Stykkishólmi þar sem hugmyndin að bókinni fæddist að miklu leiti í ferð um Snæfellsnesið árið 2013—þótt ég hafi reyndar seinna fært sögusviðið til svo að ég hefði rúm og næði til að móta og skapa heim bókarinnar.

Hótel Egilsen hefur haft það til siðs undanfarin ár að bjóða rithöfundum og öðru iðjusömu fólki að dveljast á hótelinu í viku í senn yfir vetrartímann og þannig nýta sér kyrrðina á Stykkishólmi til að vinna að verkefnum sínum. Er þetta fyrirkomulag til algjörrar fyrirmyndar og er aldrei að vita nema fleiri íslensk hótel taki upp þennan sið á næstu árum—allavega miðað við það offramboð á hótelherbergjum sem allt virðist stefna í í Reykjavík.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA? – PISTILL Í STUNDINNI

Vinnudagurinn í gær fór eiginlega í vaskinn. Ég átti að vera að ljúka við einhverja bókadóma en svo álpaðist ég til að kíkja á fréttirnar, og las þar um albönsku fjölskylduna sem vísað var úr landi þótt eiginkonan væri komin níu mánuði á leið, og síðan aðra frétt um útrás í íslenskum bókmenntum. Úr varð pistill sem birtist fyrst á Stundin.is en ég endurbirti hér í góðri trú.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA?

Á bókmenntaviðburðum undanfarið hefur borið æ oftar við að ég heyri einhvern muldra út undan sér að þessi eða hinn íslenski höfundur sé „bara að skrifa fyrir einhverja útlendinga“.

Eins og gengur og gerist með slíkt baktal er erfitt að setja fingur á hvort um sé að ræða gagnrýni eða öfund. Tekjur íslenskra höfunda hafa alltaf verið tvísýnar og starfsöryggi takmarkað. Þau búdrýgindi sem fást fyrir útgáfur á erlendum markaði geta verið töluverð og séð til þess að höfundar geti einbeitt sér að fullu að iðju sinni, án þess að þurfa að fórna samverustundum fjölskyldunnar fyrir skrifin. Það er því heldur ósanngjarnt, finnst mér, að hnýta í fólk fyrir að reyna eftir bestu getu að finna leiðir til að geta haldið áfram að gefa út bækur reglulega án þess að þurfa að fórna heilsu eða lífsgæðum fyrir.

Sjálfur hef ég í gegnum tíðina haft tekjur af því að skrifa um íslenskar bækur í ýmsum fjölmiðlum sem ætlaðir eru fyrir erlenda lesendur. Þar hef ég gert mitt besta til að vinna samkvæmt eigin samvisku og sannfæringu en óneitanlega hefur eðli verksins í sumum tilvikum fallið undir það sem við myndum kalla „landkynningu“, og því ekki endilega verið rétti vettvangurinn fyrir gagnrýn skrif. Engu að síður hefur þessi lævísa spurning smogið að mér endrum og eins: Fyrir hvern er ég að skrifa?

Þegar ég opnaði netgáttina í gær spruttu fram tvær fréttir sem í fljótu bragði virtust alls ótengdar en komu engu að síður illa við mig þegar ég sá þær samsíða á skjánum. Annarsvegar var þar frétt um að íslensk stjórnvöld hafi vísað úr landi ófrískri albanskri konu ásamt fjölskyldu hennar. Konan er komin níu mánuði á leið og aðfarirnar virðast eins ómannúðlegar og hugsast getur. Hin fréttin var öllu gleðilegri: Útgáfa á íslenskum bókum í þýðingu hefur þrefaldast á undanförnum tíu árum. Hátt í fjörutíu bækur eftir íslenska höfunda eru nú nýútkomnar eða rétt óútkomnar í Bandaríkjunum og á Bretlandi, sem gefur þessum tilteknu höfundunum aðgang að þeim mikla fjölda lesenda sem er að finna á þessum málsvæðum.

Fyrir nokkrum árum mátti telja þá nýju íslensku titla sem komu út á ensku á annarri hendi. Gróskan er því umtalsverð og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þann aukna fjölda skáldsagna eftir íslenska kvenhöfunda sem rata í enskar þýðingar. Í eina tíð var nær eingöngu hægt að finna í þeim flokki bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur—jafnvel þótt framlag hennar einnar hafi þá jafngilt ríflega 40% af nýlegum íslenskum skáldsögum á enskri tungu. Það má því færa rök fyrir því að íslenskir rithöfundar séu að upplifa ákveðið „tækifæri“.

En tækifæri til hvers?

Fyrir hvaða útlendinga viljum við skrifa? Þá sem koma hingað á skemmtiferðaskipum eða þá sem koma hingað á fölsuðum vegabréfum? Viljum við segja frá kynngimögnuðu landslagi uppfullu af stóísku bláeygðu fólki sem bugtar sig fyrir álfum og rígheldur í þá trú að „þetta reddist“, eða viljum við nota þetta tækifæri til að segja hinar sögurnar? Sögurnar sem við skömmumst okkur fyrir. Sögur um það sem betur má fara. Sögur sem draga fram vankantana á þeirri glansmynd sem okkur er tamt að halda uppi fyrir erlenda gesti. Sögur sem myndu seint teljast til landkynningar.

Auðvitað er hræðilega ósanngjarnt að bera slíka plikt upp á íslenska höfunda. Að hætta sér út á ritvöllinn er nógu flókið fyrir, þótt fólk fari ekki að kryfja öll sín skrif með réttvísina í huga eða blanda pólitík í málið. Það forarsvað er líklegt til að drepa góða bók umsvifalaust. Þetta vissi George Orwell. Hann gekkst við því að hafa sjálfur óviljugur breyst í hálfgerðan „bæklingahöfund“ vegna skrifa sinna um þá heimsatburði sem hann upplifði. Mér kemur þó til hugar tilsvar hans til gagnrýnanda sem sakaði hann um að hafa í skrifum sínum um Spánarstyrjöldina breytt einhverju sem hefði getað orðið góð bók í eintóma blaðamennsku. „Það er rétt sem hann segir, en ég hefði ekki getað gert þetta á annan veg,“ segir Orwell. „Ef ég hefði ekki verið reiður þá hefði ég aldrei lagt í að skrifa bókina.“

Með þetta í huga getum við kannski horft á þessa hvimleiðu spurningu á nýjan leik og séð hvernig áherslur hennar hafa breyst án þess að ég hafi svo mikið sem fært til einn staf eða bætt við kommu:

Fyrir hvern er ég að skrifa?

SMÁGLÆPIR KOMNIR Á STORYTEL.IS

Núna er hægt að hlusta á Smáglæpi á hljóðbókaveitunni Storytel.is. Storytel er að uppruna sænskt fyrirtæki sem hefur verið að hasla sér völl á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár. Fyrirtækið býður upp á sívaxandi magn af nýjum og gömlum íslenskum hljóðbókum í upplestri íslenskra leikara, höfunda og annars fagfólks. Hægt er að hlusta á bækurnar á heimasíðu Storytel.is eða í Storytel appinu, og bjóða þau upp á prufutímabil áður en gengið er frá áskrift. Ég fór og heimsótti aðalskrifstofu fyrirtækisins á Íslandi og fannst mikið til fagmennsku þeirra og frágangs koma.

Það er Finnbogi Jónsson leikari sem les bókina og þakka ég honum og starfsfólki Storytel fyrir að hlúa svona vel að bókinni minni í framhaldslífi sínu á ljósvakamiðlum. Hægt er að hlusta á hljóðbrot úr lestri Finnboga hér að neðan.

„EF ÞIÐ HEFÐUÐ HRINGT“ KEMUR ÚT Í ICELAND REVIEW

Í nýjasta hefti Iceland Review er að finna söguna „Ef þið hefðuð hringt“, sem upphaflega birtist í Smáglæpum árið 2017. Í blaðinu ber sagan titilinn „If only you‘d called“ og er í enskri þýðingu Larissu Kyzer. Larissa hefur getið sér gott orð fyrir enskar þýðingar á íslenskum skáldverkum, þar á meðal fyrir þýðingu sína á verlaunaskáldsögu Kristínar Eiríksdóttur Elín, ýmislegt, sem nýlega kom út hjá Amazon Crossing undir titlinum „A Fist or a Heart“.

Við Larissa þekkjumst og höfum áður unnið saman, meðal annars á PEN World Voices Festival í New York fyrr á árinu. Var því gaman að verða vitni að aðförum hennar við textann minn. Þótti mér vænt um þá natni sem hún sýndi við að leysa ýmisleg tæknileg atriði sögunnar, en „Ef þið hefðuð hringt“ er ein flóknasta sagan í safninu hvað varðar sjónarhorn, tímatilfærslur og sögufléttu. (Ásamt mögulega sögunum „Eiginmaðurinn og bróðir hans“ og „Rekald“, sem báðar vinna með sögufléttu og upplýsingaskömmtun til lesanda á álíka máta.)

Einnig finnst mér aðdáunarvert að Iceland Review, sem á sér langa útgáfusögu á Íslandi og erlendis, sé að skipa sér í flokk með þeim örfáu tímaritum á íslenska markaðinum sem reglulega gefa út skáldskap. Öll umgjörð við birtingu sögunnar er til fyrirmyndar, en fyrir utan að ráða þýðanda fékk blaðið einnig listakonuna Helgu Páley Friðþjófsdóttur til að myndskreyta söguna. Finnst mér henni hafi tekist að fanga anda sögunnar minnar engu síður en Larissu.

Að sjá aðra höfunda, þýðendur og/eða listamenn vinna með verk sín á þennan máta eru mikil forréttindi og vona ég að ég fái frekari tækifæri til þess í framtíðinni.