SMÁGLÆPIR KEMUR ÚT Á HEBRESKU

Nú stendur til að smásögusafnið Smágæpir, mín fyrsta bók sem kom út hjá Sæmundi árið 2017, verði gefin út á hebresku af ísraelska útgefandanum Lesa Books. Lesa gefur út bækur frá ýmsum löndum en eins og nafnið gefur til kynna sérhæfa þau sig þó í íslenskum bókum. Hefur útgáfan tryggt sér útgáfurétt á verkum eftir Oddný Eir, Einar Kárason, Guðmund Andra, Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Sigríði Hagalín o.fl. o.fl. Shai Sendik hefur yfirsýn með öllu starfi útgáfunnar og ritstýrir þýðingunni, en þýðandi er Shirley Levi.

Hér að neðan má sjá kápuna á hebresku útgáfu bókarinnar:

ÞÝÐING Á REBECCU SOLNIT Í 19. JÚNÍ

Í nýútkomnu ársriti Kvenréttindafélags íslands, 19. júní, er að finna þýðingu mína á grein eftir Rebeccu Solnit sem upphaflega birtist á bókmenntasíðunni Literary Hub.

Forsíða heftisins er eftir Rán Flygenring

Greinin ber titilinn „Þegar hetjan er vandamálið“ og fjallar um þær hættur sem stafa af einsleitri hetjudýrkun sem oft má finna í kvikmyndum og á samfélagsmiðlum. Í skemmtilega afslöppuðum ritstíl fer Solnit um víðan völl og dregur inn í umræðuna t.d. kvikmyndina Kona fer í stríð, Hungurleikana, Robert Mueller o.fl. o.fl. til að sýna hvernig þessi orðræða dregur úr hvata fólks til að bindast tryggðarböndum og nota mátt fjöldans til að hrinda jákvæðum samfélagslegum breytingum í framkvæmd.

Heftið í ár er stútfullt af merkisgreinum og pistlum um sagnfræði, loftslagmál og listir og þótti mér einstaklega gaman að fá að leggja mitt af mörkum við samsetningu þess.

LISTAMANNALAUN 2020

Þar sem ég sit hér og hjakka í tækniþýðingum til að eiga salt í grautinn fæ ég þær fréttir að mér hafi verið úthlutaðir 3 mánuðir úr Launasjóði rithöfunda fyrir árið 2020. Ég þakka sýnt traust.

Þessi styrkur mun koma að góðum notum við þau verkefni sem framundan eru. Skipulagsvinnan er þegar hafin: Að ákvarða hvenær og hvernig best sé að taka út styrkinn, sem og allskyns bókhaldspælingar um hvernig maður láti þetta allt ganga upp þannig að maður fái þetta ekki allt í bakið í reiknuðu endurgjaldi á næsta ári. Hvað sjálf skrifin varðar bý ég að góðri undirbúningsvinnu í því efni sem ég setti saman fyrir umsóknina í nóvember á síðasta ári. Þar er að finna textabrot og ýmiskonar yfirlitsgögn um stórt nýtt verkefni sem ég stefni á að byrja á í ár, á meðan handritið að minni fyrstu skáldsögu er í yfirlestri.

Mig hlakkar mikið til að hefjast handa enda hefur fátt annað komist að undanfarin þrjú ár en áðurnefnd skáldsaga. Tilhugsunin um að skrifa eitthvað „nýtt“ er orðin æði heillandi. Ég sendi hamingjuóskir til bæði þeirra sem fengu úthlutað og líka þeirra sem fengu ekki neitt ár. Ég hlakka til að fylgjast með afrakstrinum hjá báðum hópum á næstu misserum.