#6 SMÁVEGIS UM VIÐBRAGÐSBÓKMENNTIR OG HUGARRÓ

Ég kláraði stóra bók um daginn og eins og stundum þegar ég klára stóra bók þá sat ég eftir og hugsaði: „Vá, hvort var þessi bók alveg æðisleg eða bara alltílæ?“ Eins og E.M Forster sagði þá er nefnilega erfitt að treysta stórum bókum fyllilega af því að lesandinn þarf að sannfæra bæði sjálfan sig og aðra um að hann hafi ekki sóað tíma sínum til einskis. Bókin sem um ræðir er Lessons eftir Ian McEwan, þykk skáldsaga sem spannar heila ævi venjulegs bresks meðaljóns, sem þrátt fyrir mikla hæfileika í æsku stendur uppi sem iðjuleysingi og einstæður faðir og endar síðan sem einangrað gamalmenni sem er búið að sættast við það að heimurinn haldi áfram án sín.

Ég er með mikil blæti fyrir öllum svona sögum og bíómyndum sem reyna að draga fram þá lágstemmdu dramatík sem einkennir daglegt líf „venjulegs“ fólks – svona Mike Leigh/Sally Rooney/Raymond Carver/kitchen sink drama-dót. Ég er samt ennþá að velta fyrir mér hvað McEwan ætlar sér að segja um samskipti kynjanna, en í bókinni er kunnuglegum stefjum snúið á haus. Þannig yfirgefur eiginkona Rolands hann og barnungan son þeirra til þess að gerast heimsfrægur rithöfundur, og í æsku er hann misnotaður kynferðislega af píanókennaranum sínum –  fullorðinni konu. Þá lífsreynslu notar hinn fullvaxta Roland til að útskýra (eða réttlæta) fyrir sjálfum sér hvernig hann fór út af sporinu sem ungur maður, lauk ekki námi og missti af þeim tækifærum sem stóðu honum til boða. Hann á þó erfitt með að fella sig við hlutverk þolanda eða fórnarlambs, allt þar til í seinni hluta bókarinnar þegar hann er kominn yfir fimmtugt og samfélagið er byrjað að takast á við #MeToo.

Líklega er það þó ósanngjarnt eða jafnvel arfavitleysa hjá mér að stilla því þannig upp að McEwan sé að reyna að „segja“ eitthvað ákveðið um samskipti kynjanna. Það getur vel verið að einhverjir lesendur sjái í bókinni endurspeglun á þeirra eigin heimssýn og hlakki yfir kvenpersónunum sem beita Roland tilfinningalegu og kynferðislegu ofbeldi („Sko! Konur líka!“) en sjálfur er Roland engan vegin viss um hvað honum finnst um þetta allt saman. Bókin fylgir honum frá barnæsku til æviloka og eins og við flest fær hann nýja sín á atburðina sem mótuðu líf hans eftir því sem tíminn líður, og kemst í raun aldrei að neinni endanlegri niðurstöðu. Hlutirnir gerðust bara eins og þeir gerðust og hann á erfitt með að sjá hvernig þetta hefði getað farið á annan veg. Á sama tíma fylgjumst við með því hvernig atburðir líðandi stundar setja mark sitt á líf hans. Við fylgjum honum í gegnum heimsviðburði á borð við Kúbukrísuna, Chernobyl, fall Berlínarmúrsins, upphaf og áframhaldandi hörmungar Íraksstríðsins, #MeToo, Brexit og að lokum einangrunina og óttann sem hann upplifir sem heilsulaus eldri borgari í heimsfaraldri Covid-19. Þessir atburðir móta allir að einhverju marki þá stefnu sem líf hans tekur, þótt áhrif þeirra séu kannski ekki eins áberandi og samskipti hans við konur, foreldra, fjölskyldu og vini.

Í ritdómi í nóvemberhefti New York Review ber Giles Harvey þennan stóra tímaskala bókarinnar saman við lensku sem hann nefnir „rapid response novels“ – sem mætti kannski útfæra sem „viðbragðsbókmenntir“ á íslensku. Þar á hann við skáldsögur sem eru svo kyrfilega staðsettar í pólitíska og andlega “núinu” að þær geta virkað hálf úreltar ef þú kemst ekki í þær fyrr en einu til tveimur árum eftir að þær koma út. Harvey aðgreinir Lessons frá þessum bókum sökum „dýpt“ persónusköpunarinnar og því hvernig bókin endurspeglar mannlegt eðli með því að gefa sig ekki út fyrir að búa að skýrum og skorinortum niðurstöðum um málefni líðandi stundar. Eins og hann orðar það sjálfur, kannski heldur hryssingslega:

Because of its formal fragmentation and ultra-contemporary subject matter, the rapid-response novel carries an aura of modernist innovation. Life itself has grown more manic and fractured (the implicit argument of these books seems to run), and novels ought to reflect this. Looked at another way, however, the genre could be seen as a capitulation. Working from the premise that readers today, conditioned by social media, have trouble focusing on anything for longer than thirty seconds at a time, the rapid-response novelist decides to cater to their ravaged attention spans by writing brief, topical books comprised of tweet-like fragments generously set off by quantities of white space.

Ég verð að viðurkenna að það er eitt og annað kunnuglegt við þessa háðsku lýsingu Harveys og kannski hefur maður einhvern tímann tautað eitthvað álíka ofan í fjórða bjórinn sinn þegar maður hefur setið við spekúlasjónir með öðru skrifandi fólki. Engu að síður hefur það verið mín reynsla að bækur séu alltaf í einhverskonar samræðum við samtímann, sama hvort það er viljandi af hálfu höfundar eður ei. Kannski er gagnrýni Harveys því heldur sú að fólk sé að flýta sér um of, en margir höfundar þekkja efalaust hvernig það virðist stundum eins og samtíminn sé að breytast mun hraðar en handritið þitt hefur tök á að gera. Ég er viss um að í þessum töluðu orðum situr einhver yfir handriti að óútgefinni samtímaskáldsögu og klórar sér í hausnum yfir því hvort eigi að breyta Twitter í X eða ekki.

Ég er þó sammála því að oft þykir mér skáldsögur sem bjóða upp á tilfinningalega sátt og skýrar niðurstöður eilítið tortryggilegar. Kannski er það bara vegna þess að sjálfur hef ég varla komist að neinni skýrri niðurstöðu í lífinu og ætlast ekki til þess af skáldskapnum sem ég innbyrði heldur. Orð Harvey minna mig einnig á nýlegan þátt af Offline-hlaðvarpinu þar sem kvikmyndagagnrýnandinn Maia Wyman (sem notast við nafnið Broey Deschanel á Youtube) ræddi um kvikmyndir á tímum samfélagsmiðla og áhyggjur sínar af því að nýjar kynslóðir væru farnar að skilgreina sjálfsmyndir sínar og annarra um of út frá því hvaða poppmenningu þau kjósa að innbyrða, og væru því ólíklegri til að horfa á kvikmyndir eða lesa bækur sem þeim fyndist ekki vera “fyrir sig“ eða sem þau bæru flóknar eða óþægilegar tilfinningar til. (Eða eitthvað svoleiðis, er örugglega ekki að fara alveg rétt með það sem hún sagði, hægt að hlusta hér.)

Annars er í dag síðasti dagur ritlauna hjá mér, og ætla ég að halda upp á það í lufsulegum lattelepjandi stæl með því að dandalast á kaffihúsum – sem ég hef reyndar varla þolinmæði til lengur, sérstaklega ekki eftir að ég flutti mig í Gröndalshús sem býr að svo rokna flottri kaffivél að meira að segja kaffi-amatör eins og ég getur brasað fram sæmilegasta espresso. (Ég er búinn að vera vægast sagt nötrandi af koffíni síðan ég tók við skrifstofu hérna.) Í kvöld er ég svo að fara að sjá hina goðsagnakenndu Graveslime spila suddarokk á Kexinu, sem mig grunar að eigi eftir að verða tónleikaupplifun ársins, og eru það stór orð þar sem ég fór að sjá Cave In á Gauknum á mánudaginn og hitti þar fyrir nánast alla reykvísku harðkjarnasenuna sem átti blómaskeið sitt um síðustu aldamót. Cave In voru reyndar svo þéttir að maður trúði því varla að hægt væri að flytja svona marglaga tónlist svona fumlaust, auk þess sem hljóðið á Gauknum var algjörlega til fyrirmyndar (sem er ekki alltaf endilega raunin þegar maður fer á metal-tónleika, þótt oftast sé það bara stemmning að fá smá suð og feedback inn á milli). Ótrúlega gaman líka að sjá bassafantinn Nate Newton slá strengi þarna á sama sviði (eða næstum því, þau færðu það aðeins til á einhverjum tímapunkti á árunum sem hornið á Tryggvagötu og Naustinni var sífellt að skipta um nafn) og ég sá hann spila með Converge, sinni meginhljómsveit, einhvern tímann í kringum (sjitt…) 2010.

Reyndar er ég ekki búinn að vera að hlusta á neitt sérstaklega mikið af tónlist undanfarið, eða ekki síðan ég uppgötvaði heimasíðuna Hljóðmynd, sem er hugarfóstur Magnúsar nokkurs Bergssonar sem stundar það óeigingjarna starf að koma sér fyrir á fáförnum stöðum úti í náttúrunni og taka upp hágæða hljóðupptökur fyrir okkur hin sem sitjum föst í voru daglega amstri. Upptökurnar eru opnar öllum sem á annað borð þurfa á smá hugarró að halda og læt ég eina mína uppáhalds fylgja hér – sæluhúsið í Brunnahæðum í miklu roki – ásamt sitthvoru uppáhalds laginu með Graveslime og Cave In.

DO YOU WANT TO DIEEEEE!!!???
Eitt gamalt og gott en nýjasta platan er reyndar líka alveg geggjuð, eiginlega..

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA? – PISTILL Í STUNDINNI

Vinnudagurinn í gær fór eiginlega í vaskinn. Ég átti að vera að ljúka við einhverja bókadóma en svo álpaðist ég til að kíkja á fréttirnar, og las þar um albönsku fjölskylduna sem vísað var úr landi þótt eiginkonan væri komin níu mánuði á leið, og síðan aðra frétt um útrás í íslenskum bókmenntum. Úr varð pistill sem birtist fyrst á Stundin.is en ég endurbirti hér í góðri trú.

FYRIR HVERN ERTU AÐ SKRIFA?

Á bókmenntaviðburðum undanfarið hefur borið æ oftar við að ég heyri einhvern muldra út undan sér að þessi eða hinn íslenski höfundur sé „bara að skrifa fyrir einhverja útlendinga“.

Eins og gengur og gerist með slíkt baktal er erfitt að setja fingur á hvort um sé að ræða gagnrýni eða öfund. Tekjur íslenskra höfunda hafa alltaf verið tvísýnar og starfsöryggi takmarkað. Þau búdrýgindi sem fást fyrir útgáfur á erlendum markaði geta verið töluverð og séð til þess að höfundar geti einbeitt sér að fullu að iðju sinni, án þess að þurfa að fórna samverustundum fjölskyldunnar fyrir skrifin. Það er því heldur ósanngjarnt, finnst mér, að hnýta í fólk fyrir að reyna eftir bestu getu að finna leiðir til að geta haldið áfram að gefa út bækur reglulega án þess að þurfa að fórna heilsu eða lífsgæðum fyrir.

Sjálfur hef ég í gegnum tíðina haft tekjur af því að skrifa um íslenskar bækur í ýmsum fjölmiðlum sem ætlaðir eru fyrir erlenda lesendur. Þar hef ég gert mitt besta til að vinna samkvæmt eigin samvisku og sannfæringu en óneitanlega hefur eðli verksins í sumum tilvikum fallið undir það sem við myndum kalla „landkynningu“, og því ekki endilega verið rétti vettvangurinn fyrir gagnrýn skrif. Engu að síður hefur þessi lævísa spurning smogið að mér endrum og eins: Fyrir hvern er ég að skrifa?

Þegar ég opnaði netgáttina í gær spruttu fram tvær fréttir sem í fljótu bragði virtust alls ótengdar en komu engu að síður illa við mig þegar ég sá þær samsíða á skjánum. Annarsvegar var þar frétt um að íslensk stjórnvöld hafi vísað úr landi ófrískri albanskri konu ásamt fjölskyldu hennar. Konan er komin níu mánuði á leið og aðfarirnar virðast eins ómannúðlegar og hugsast getur. Hin fréttin var öllu gleðilegri: Útgáfa á íslenskum bókum í þýðingu hefur þrefaldast á undanförnum tíu árum. Hátt í fjörutíu bækur eftir íslenska höfunda eru nú nýútkomnar eða rétt óútkomnar í Bandaríkjunum og á Bretlandi, sem gefur þessum tilteknu höfundunum aðgang að þeim mikla fjölda lesenda sem er að finna á þessum málsvæðum.

Fyrir nokkrum árum mátti telja þá nýju íslensku titla sem komu út á ensku á annarri hendi. Gróskan er því umtalsverð og er sérstaklega ánægjulegt að sjá þann aukna fjölda skáldsagna eftir íslenska kvenhöfunda sem rata í enskar þýðingar. Í eina tíð var nær eingöngu hægt að finna í þeim flokki bækur eftir Yrsu Sigurðardóttur—jafnvel þótt framlag hennar einnar hafi þá jafngilt ríflega 40% af nýlegum íslenskum skáldsögum á enskri tungu. Það má því færa rök fyrir því að íslenskir rithöfundar séu að upplifa ákveðið „tækifæri“.

En tækifæri til hvers?

Fyrir hvaða útlendinga viljum við skrifa? Þá sem koma hingað á skemmtiferðaskipum eða þá sem koma hingað á fölsuðum vegabréfum? Viljum við segja frá kynngimögnuðu landslagi uppfullu af stóísku bláeygðu fólki sem bugtar sig fyrir álfum og rígheldur í þá trú að „þetta reddist“, eða viljum við nota þetta tækifæri til að segja hinar sögurnar? Sögurnar sem við skömmumst okkur fyrir. Sögur um það sem betur má fara. Sögur sem draga fram vankantana á þeirri glansmynd sem okkur er tamt að halda uppi fyrir erlenda gesti. Sögur sem myndu seint teljast til landkynningar.

Auðvitað er hræðilega ósanngjarnt að bera slíka plikt upp á íslenska höfunda. Að hætta sér út á ritvöllinn er nógu flókið fyrir, þótt fólk fari ekki að kryfja öll sín skrif með réttvísina í huga eða blanda pólitík í málið. Það forarsvað er líklegt til að drepa góða bók umsvifalaust. Þetta vissi George Orwell. Hann gekkst við því að hafa sjálfur óviljugur breyst í hálfgerðan „bæklingahöfund“ vegna skrifa sinna um þá heimsatburði sem hann upplifði. Mér kemur þó til hugar tilsvar hans til gagnrýnanda sem sakaði hann um að hafa í skrifum sínum um Spánarstyrjöldina breytt einhverju sem hefði getað orðið góð bók í eintóma blaðamennsku. „Það er rétt sem hann segir, en ég hefði ekki getað gert þetta á annan veg,“ segir Orwell. „Ef ég hefði ekki verið reiður þá hefði ég aldrei lagt í að skrifa bókina.“

Með þetta í huga getum við kannski horft á þessa hvimleiðu spurningu á nýjan leik og séð hvernig áherslur hennar hafa breyst án þess að ég hafi svo mikið sem fært til einn staf eða bætt við kommu:

Fyrir hvern er ég að skrifa?

NOKKUR ORÐ UM DVÍNANDI BÓKSÖLU Á ÍSLANDI

mbl.is/Þ​órður Arn­ar Þórðar­son

Þessi litli pistill birtist upphaflega á Facebooksíðu minni þann 17. ágúst 2017 og var skrifaður sem andsvar við frétt á ruv.is um að sala á íslenskum bókum hefði fallið um 30% undanfarinn áratug.

Margir vilja tengja þessa þróun við minnkandi lestur barna og unglinga. Ég er ekki alveg seldur á þá hugmynd. Í þau ár sem ég hef starfað í erlendu deildinni í Eymundsson hefur einn stærsti kúnnahópurinn minn alltaf verið unglingar. Fáir viðskiptavinir eru jafn einlægir og spenntir yfir bókunum sem þau eru að kaupa og þessir krakkar, og maður gleðst svo innilega þegar þau koma til manns og biðja um meðmæli. Maður man nefnilega hvernig þetta var. Það var á þessum aldri sem maður sjálfur kynntist þeim bókum sem mótuðu mann hve mest. Sjálfur byrjaði ég að lesa mjög mikið af bókum á ensku á unglingsárum, enda var í þá daga ekki til neitt á íslensku sem jafnaðist á við Terry Pratchett, Frank Herbert, Douglas Adams o.fl. o.fl. Það voru varla einu sinni til íslenskar glæpasögur, þótt vissulega gleypti maður líka í sig allar þær Jack Higgins og Alistair MacLean þýðingar sem maður fann á bókasafninu. (Já, ég er hræddur um að ég hafi eiginlega bara lesið karla sem unglingur, fyrir utan náttúrulega Lindgren og Blyton.)

Þónokkur nýbreytni hefur átt sér stað í íslenskum bókastefnum síðan þá. Ungir höfundar hafa sérstaklega verið duglegir að koma inn á markaðinn með nýja bókaflokka í ætt við þá sem þau sjálf uppgötvuðu á sínum tíma í Austurstrætinu, Máli og menningu, Bókabúðinni á Hlemmi, Nexus og fleiri bókabúðum sem staðið hafa í ströngu við að bjóða úrval erlendra bóka síðustu þrjátíu ár eða svo. Því miður hefur það samt tíðkast allt of lengi að þær íslensku bækur sem þessi markhópur ungs fólk hefur áhuga á að lesa eru settar beint í barnadeild bókabúða, innan um bangsa og leikföng og nagbækur. Ekki hefði ég treyst mér til að ganga þangað inn í leit að einhverju að lesa á mínum eigin brothættu unglingsárum.

Ef við ætlumst til að krakkar haldi áfram að lesa, og sérstaklega að lesa á íslensku, þá þurfum við að upphefja og halda að þeim þeim bókum sem þau sjálf hafa áhuga á að lesa, í staðinn fyrir að vera sífellt að slá á puttana á þeim og segja: “Nei, þú ert að gera þetta vitlaust, lestu þetta frekar!” Þannig sköpum við þá venju hjá þeim að sækja sér afþreyingu, spennu og skemmtun í bækur. Látum í það skína að við virðum þær bækur sem þau kjósa sjálf að lesa, finnum þeim öndvegissess í íslenskum bókabúðum og veitum þeim bókum þá fjölmiðlaumfjöllun sem þær svo sárlega þarfnast. Síðan getum við farið að hafa áhyggjur af því að þau eigi eftir að lesa Njálu og Laxness.

Fjársjóðsfundur í bókasafnsbókabúðinni í Port Jeff

IMG_3467Bókasafnsbókabúðin í Port Jeff borgar sig enn og aftur. Tókum líka með af rælni eina rómansbók sem ber heitið Crossing Washington Square og er eftir Joanne Rendell. Hún einfaldlega seldi sig svo hrikalega vel á baksíðunni; með ástarþríhyrningi sem gerist við háskóla í New York þar sem prófessor í Silvíu Plath fræðum og prófessor í skvísubókmenntum berjast um hylli bresks og myndarlegs heimsóknarfyrirlesara.

„He made a herringbone sports coat look like one of the sexiest clothing items Rachel had ever seen.“

Conversation Guide Included.

Ann Patchett – This is a Story of a Happy Marriage

patchVið hjónin nældum okkur í notað eintak af þessari yndislegu bók eftir Ann Patchett á tvo dollara í bókasafnsbókabúðinni í Port Jeff um daginn. Bókin safnar saman helstu greinum Patchett en megnið af þeim skrifaði hún snemma á ferlinum fyrir hin og þessi blöð – Seventeen, Gourmet, jafnel Mercedes Benz Magazine – til að eiga í sig og á á meðan hún bisaðist við að skrifa skáldsögur og smásögur og annað efni sem gaf lítið eða ekkert í aðra hönd. Inngangur bókarinnar hefst á eftirfarandi orðum sem ég hugsa að ég eigi eftir að horfa til oftar en ekki þegar erfitt er að láta enda ná saman eða þegar ég bisast við að skrifa sögu eða annan texta án þess að hafa hugmynd um hvað ég muni gera við efnið og hvort ég fái vinnuna nokkurn tímann borgaða.
 
“The tricky thing about being a writer, or about being any kind of artist, is that in addition to making art you also have to make a living. My short stories and novels have always filled my life with meaning, but, at least in the first decade of my career, they were no more capable of supporting me than my dog was. But part of what I love about both novels and dogs is that they are so beautifully oblivious to economic concerns. We serve them, and in return they thrive. It isn’t their responsibility to figure out where the rent is coming from.” (Ann Patchett, This is the Story of a Happy Marriage, s. 3)