STOL – BÓKADÓMUR Í VÍÐSJÁ

Um daginn flutti Gauti Kristmannsson mjög ígrundaðann og vel skrifaðan bókadóm um Stol, nýjustu skáldsögu mína, í Víðsjá á Rás 1. Bókadóminn er núna hægt að lesa á heimasíður RÚV en hef ég einnig afritað hann og birti hann hér að neðan til varðveislu

Gauti Kristmannsson skrifar:

Sorgin felur oft í sér það ósagða, við finnum í henni eftirsjá alls þess sem hefði mátt segja, en aldrei var fært í orð; orð ástar og reiði, en alltaf orð sem biðu í undirvitundinni og vildu koma fram, en komast ekki lengur. Það gerir hana sárari en ella, en er kannski grundvöllur hennar, án þess ósagða væri eftirsjáin ekki svona djúp. Missirinn er jafnvel sárari þegar hann kemur fram á meðan ástvinirnir eru enn á lífi, þegar þegar þau glata minni og vitund um sína nánustu, deyja andlegum dauða í viðurvist þeirra og eru dáin áður en líkami þeirra er endanlega dáinn. Þetta er viðfangsefni þessarar skáldsögu að einhverju leyti, sögumaður er ungur, samkynhneigður maður sem kominn er heim frá Bandaríkjunum úr óloknu námi og sambandi við annan mann sem fyllt hafði hann lífsgleði meðan á því stóð.

Söguformið er vegasaga, sögumaður og faðir hans eru á leið í útilegu og ætla að fara til Jökulsárlóns. Faðirinn er orðinn alvarlega veikur af heilaæxli og á ekki mikið eftir. Í ofanálag hefur aðgerðin sem gerð var til að fjarlægja æxlið haft mikil áhrif á hann, hann er haldinn málstoli og hefur einkenni sambærileg við Alzheimer eða elliglöp. Sagan er mikið til sögð í annarri persónu, sögumaðurinn er sífellt að tala við föður sinn, en þótt hann ávarpi hann „þú“, þá er hann ekki alltaf að tala við hann, heldur um hann. Fyrsta setning sögunnar er gott dæmi um þetta: „Við erum varla komnir úr bænum þegar þú þarft að pissa.“ Bein samtöl feðganna á milli eru hins vegar innan gæsalappa eins og hefðbundið er. Þessi aðferð gefur sögumanni færi á að segja margt sem hann hefur kannski átt erfitt með að segja, eða getur ekki sagt vegna ástands föður síns, hann er að reyna að nálgast föður sinn, en er um leið þrúgaður af samviskubiti vegna þess að það er orðið of seint, að því er virðist.

Þetta er þriðja feðrasagan sem ég les á þessum vetri, hinar voru Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson og Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur, en þar er einnig dauði föðurins eitt af meginviðfangsefnunum, og þótt allar þessar sögur séu ólíkar, þá er í þeim þetta tvíbenta uppgjör við föðurinn, í senn ásakandi og sakbitið. Án þess að ég vilji búa til eitthvert trend vöknuðu líka hugrenningatengsl við nokkur verk kvenna frá síðari árum sem snerust um uppgjör við móðurina. Foreldrar okkar eru slíkir áhrifavaldar í lífinu að engan skyldi undra að skrifað sé um þetta, þau hafa slíkt tök á lífi okkar frá upphafi, og við komumst að því á einhverjum tíma að þau eru hluti af okkur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Einhverju sinni skrifaði freudistinn Eric Berne eitthvað á þá leið, að í bernsku sæjum við foreldra okkar sem goðsögulegar verur, og að þessar verur skrifi handritið að sjálfi okkar með þeim sögum sem þær segja okkur.

Þessi saga snýst þó engan veginn um föðurmorðið í anda Freuds, jafnvel þó að rofið milli föðurins og sonarins á unglingsárunum hafi einmitt átt sér stað þegar þeir voru á leið í sína árlegu útilegu, rétt eins og sagt er frá í þessari sögu. Sjónarhornið er miklu fremur á missinn, stolið, og kannski er ungi maðurinn alveg eins í uppgjöri við sjálfan sig, hann áttar sig á því að þótt faðir hans „eigi“ eitthvað í honum, þá er strandið í hans eigin lífi honum sjálfum að kenna.

Þótt form sögunnar sé einfalt í sjálfu sér, vegasaga sem gerist á nokkrum dögum í réttri tímaröð, þá þjóna endurlit og vangaveltur sögumanns um sig og aðra hans nánustu þeim tilgangi að fylla upp í myndina af lífi aðalpersónunnar og fjölskyldu hans. Þetta er raunsæ og nokkuð geðþekk mynd, það eru engar drastískar persónur, engar misþyrmingar eða áföll, þetta er venjulegt miðstéttarfólk sem ekki stendur fyrir neinum ósköpum. Vissulega eru átök, foreldrar drengsins skildu þegar hann var ungur, og hugsanlega er það áfall, en það hendir meirihluta barna í þessu samfélagi, held ég. Einhvern tímann var sagt, að mig minnir, að stjúpfjölskyldan væri algengasta fjölskylduform samtímans á Íslandi.

Bygging sögunnar er vel og kunnáttusamlega gerð; endurlitin og vangavelturnar þjóna einnig sem frásagnartöf þar sem við bíðum eftir framvindu sögunnar, og það tekst að gera hana nokkuð spennandi, ekki síst í öðrum hluta af þremur, þegar þeir feðgar álpast á Fjallabaksleið syðri á heimleiðinni, og þar tengir höfundur frásögnina við þekkt minni í íslenskri sögu og býr til flækjur og drama sem næra allar góðar sögur. En sögubyggingin er þannig mjög klassísk, hún byrjar í miðjum klíðum, er með upphaf, ris í miðju og endi þar sem lokað er á ferlin sem vakin eru í frásögninni. Höfundur er ekki að spenna stílinn neitt upp og heldur sig við raunsæislega frásögn og reynir ekki mikið að vera með dramatískar lýsingar, þær eru fremur lágstemmdar, meira að segja þegar á bjátar og skynja má örvæntingu hjá sögumanni, þegar allt klúðrast sem klúðrast getur. Sagan er ekki mjög íronísk, þótt greina megi tungu í kinn í hrakfallahætti sögumanns og uppátækjum föðurins.

Þessi saga er alveg ágætis byrjun hjá ungum höfundi og hann er greinilega flinkur að vinna sannfærandi og trúverðugan söguþráð, en á móti fer kannski ekki mikið fyrir neinni tilraunamennsku, eða mjög mörkuðum persónum, eins og farið hafi verið að ráðum Rolands Barthes í frægri bók sem heitir Skrifað við núllpunkt, þar sem hann kallar eftir áreynslulausum stíl í skáldskap. Sú bók var hins vegar skrifuð á sjötta áratug síðustu aldar og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan. En mesta gjöf þessarar bókar er hins vegar að taka lesendur með í ferðalag í sorgina og missinn á foreldri, án þess að falla í gryfjur væmni og sjálfsvorkunnar. Dauðinn óumflýjanlegi lætur aldrei að sér hæða og í þessari sögu tekst sögumanni að vinna úr honum á augnabliki þar sem hann heldur að faðir sinn sé nánast að deyja og segir loksins allt við hann sem hann þurfti að segja. Þótt faðirinn hafi kannski ekki heyrt það allt, ef nokkuð, þá minnir hann okkur á að við þurfum að segja hið ósagða sem undir liggur til að geta sætt okkur við dauða foreldra okkar, einmitt til þess að geta skrifað handritið að okkar eigin sjálfi í framtíðinni.

STOL – BÓKMENNTAVEFURINN

Árni Davíð Magnússon skrifaði nýverið bókadóm um Stol sem var birtur á Bókmenntavefnum. Hef ég afritað skrif Árna og birti hér að neðan til varðveislu, en dóminn má einnig lesa á Bókmenntavefnum, þar sem hægt er að nálgast ýmiskonar gagnlegar og skemmtilegar umfjallanir um íslenskar bókmenntir.

Árni skrifar:

SÍÐASTA FERÐALAGIÐ

Hvernig förum við að því að kveðja okkar nánustu? Segjum við allt sem okkur hefur áður langað að segja, gerum við upp fortíðina, eða er kannski best að segja ekki neitt og dvelja í síðustu andartökunum? Stol er fyrsta skáldsaga Björns Halldórssonar og í henni er fjallað um kveðjustundina í sambandi föður og sonar. Björn hefur áður sent frá sér smásagnasafnið Smáglæpi, sem voru ísmeygilegar sögur og lofuðu góðu fyrir framhaldið. Það voru jafnframt afar raunsæislegar sögur og heldur höfundur sig við þann stíl í Stol.

Flétta sögunnar er einföld: Baddi er ungur, verðandi rithöfundur í ástarsorg sem er kominn heim til Íslands frá New York til þess að kveðja föður sinn, Hörð, sem er illa haldinn af heilaæxli og á stutt eftir ólifað. Þeir feðgar hafa ákveðið að fara í síðasta ferðalagið saman, tjaldútilegu, sem þeir hafa talað lengi um en ekki látið verða af þar til það er nánast orðið of seint. Þeir hafa ekki verið sérstaklega nánir og er ferðalagið í aðra röndina síðasta tækifæri þeirra til að ná saman. Tenging þeirra í ferðinni verður hins vegar á annan veg en þeir bjuggust við og snemma er ljóst að hún er enginn vettvangur fyrir einhvers konar uppgjör eða ósvaraðar spurningar. Því veldur sjúkdómur Harðar sem er óðum að ræna hann máli og sjálfstjórn.

Í það vísar titill sögunnar öðrum þræði en hún fjallar einnig um ‚stol‘ í víðfeðmari skilningi, stol á samveru, í samskiptum o.fl. Ferðin verður þess vegna óneitanlega svolítið torkennileg fyrir þá báða, fyndin á köflum, en kannski væri réttast að kalla hana angurværa, þar sem höfundi tekst vel að lýsa átakanlegum aðstæðum og sorg án þess að það verði yfirþyrmandi fyrir lesandann.

Stol er fyrstu persónu frásögn sem er vitaskuld takmarkað og persónulegt sjónarhorn, og jafnvel mætti á köflum segja að frásögnin sé í annarri persónu þar sem Baddi ávarpar föður sinn löngum stundum. Þetta er nokkuð sjaldséð frásagnaraðferð en vel heppnuð þegar henni bregður fyrir í Stoli. Sérstaklega má nefna byrjunina í þessu samhengi, en hún fangar með ágætum hlutverkaskipti feðganna í sögunni þar sem Baddi er lentur í umönnunarhlutverki gagnvart föður sínum. Myndirnar sem dregnar eru upp eru í senn broslegar og hlýlegar, angurværar eins og öll stemmning bókarinnar:

Við erum varla komnir út úr bænum þegar þú þarft að pissa.
[…]
Ég set stöðuljósin á. Stekk út og ríf upp hurðina þín megin. Losa sætisbeltið, sem þú átt alltaf svo erfitt með. Þú reynir að renna niður buxnaklaufinni en endar á að rykkja buxunum niður á hné. Ég rétt næ að víkja mér undan bununni. Þú ert valtur í brattanum við vegöxlina og ég bregð mér á bak við þig og held þér uppréttum. Við stöndum þarna í faðmlögum við þjóðveginn dálitla stund. (9)

Fyrsta orð sögunnar, „við“, er lýsandi fyrir þá hlýju sem ríkir á milli feðganna í sögunni sem er síðan  undirstrikuð með faðmlagi þeirra í síðustu málsgreininni að ofan. Orðið kallast sömuleiðis á við kápumynd bókarinnar þar sem bregður fyrir tveimur mannverum hlið við hlið í fjarska, innan í hring sem umlykur þær.

Þar sem sagan er sögð af Badda í fyrstu persónu (eða annarri eftir atvikum), er persóna hans auðvitað fyrirferðarmest, ásamt Herði. Fleiri aukapersónur koma við sögu, svo sem Magnea núverandi kona Harðar, móðir Badda og kærasti hennar og svo Ava, fyrrverandi kærasti Badda. Sagan tekur nokkur hliðarspor sem hefðu sum e.t.v. mátt missa sín, til dæmis um dvöl Badda í New York og samband hans við fyrrum kærasta, og nokkrum svipmyndum úr barnæsku hans bregður sömuleiðis fyrir. Þetta á auðvitað allt að eiga sinn þátt í að dýpka persónu Badda, en ég er ekki endilega viss um að brýn þörf hafi verið á því að gefa Badda mikla forsögu, enda fær persóna hans svo fjarska vel að njóta sín í ferðalaginu með Herði sem er mun sterkari saga.

Það er blátt áfram heillandi að fylgja feðgunum eftir á ferðalaginu, þar sem þeir líða hljóðlega um þjóðveginn og landið einir og yfirgefnir. Áhrifamesti hluti sögunnar er sviðsettur í þögulli kyrrð óbyggða, sem er vel við hæfi enda er máttur þagnarinnar eitt leiðarstef bókarinnar. Samskipti feðganna einkennast af löngum, merkingarþrungnum þögnum, enda á Hörður erfitt með að halda þræði í samræðum og svo hafa þeir oft og tíðum ekki um neitt sérstakt að ræða. Enda er annar og áhrifameiri strengur en samræðulist sem tengir feðgana saman,  eða eins og Baddi kemst að orði „að kannski skipti það ekki máli hvað við segjum lengur; hvort við skiljum hvor annan eður ei. Ég er að minnsta kosti hérna, sama hvernig það kom til. Kannski er það nóg“ (137).

Ferðalag Badda og Harðar í stórbrotnu en eyðilegu landslagi kallar einnig fram hugrenningartengsl við eina áhrifamestu „feðgasögu“ undanfarinna ára, Veginn (The Road) eftir bandaríska rithöfundinn Cormac McCarthy sem ég held að sé ekki alveg fráleitur samanburður. Í Veginum ferðast feðgar saman um rústir jarðar eftir heimsendi, eins konar eyðimörk, og eins og í Stoli þarf sonurinn að annast föður sinn í sögulok sem liggur þá fyrir dauðanum. Eins og feðgarnir í Veginum þurfa að fóta sig í nýrri heimsmynd þarf Baddi að læra það sama eftir að faðir hans er fallinn frá. Þótt heimsendirinn í Stoli sé ekki bókstaflegur þá er hann persónulegur.

Þögnin er sömuleiðis ríkjandi í Veginum eins og í Stoli; orð hafa glatað tengslum við merkingu sína því heimurinn er að hverfa allt í kringum feðgana sem kallast aftur á við málstol Harðar sem framandgerir fyrir honum þekkta hluti og mótar öll samskipti hans við Badda á ferðalaginu. Það verður þá kærleikurinn á milli feðganna sem hefur sig upp yfir mælt mál og fylgir þeim allt til söguloka þessarar fallegu bókar.
 

Árni Davíð Magnússon, febrúar 2021

STOL – MEÐMÆLI

Skáldkonan Linda Vilhjálmsdóttir fer fögrum orðum um nýju bókina mína á Facebook í dag (og líka Herbergi í öðrum heimi eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur).

Um Stol segir Linda:

„Það er margt átakanlegt í þessari sögu sem þó er þannig sögð að hún dregur lesanda aldrei niður. Birni tekst að létta andrúmsloftið inn á milli erfiðustu kaflanna þannig að lesandi er alltaf reiðubúinn í átökin á ný. Þarna er mjög sannfærandi lýsing á flóknu fjölskyldumunstri samtímans og því hvernig við reynum að forðast það sem við höldum að séu erfið samskipti við okkar nánustu í lengstu lög.“

BÓKADÓMUR: STELPUR SEM LJÚGA EFTIR EVU BJÖRG ÆGISDÓTTUR

Ég tók að mér að skrifa bókadóm um spennusöguna Stelpur sem ljúga eftir Evu Björg Ægisdóttur fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Þetta er önnur bók Evu Bjargar en fyrsta bók hennar var fyrsti handhafi Svarfuglsins, bókmenntaverðlaunanna sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson komu á fót til að draga nýja íslenska glæpasagnahöfunda fram í sviðsljósið. Bókadóminn má lesa á Bókmenntavef Bókmenntaborgarinnar en þar er einnig hægt að finna eldri bókadóm minn um fyrstu bók Evu Bjargar, Marrið í stiganum.

BÓKADÓMUR: MÁLLEYSINGJARNIR EFTIR PEDRO GUNNLAUG GARCIA

Ég tók að mér að skrifa bókadóm um skáldsöguna Málleysingjarnir eftir Pedro Gunnlaug Garcia fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Þetta er fyrsta bók Pedros og lofar góðu um áframhaldandi feril hans sem höfundar. Bókadómurinn er í lengra lagi enda er hér um að ræða þykka bók með víðáttumikið sögusvið sem erfitt er að ná utan um í stuttu máli. Bókadóminn má finna á Bókmenntavef Bókmenntaborgarinnar.

BÓKADÓMUR: EITRAÐA BARNIÐ EFTIR GUÐMUND S. BRYNJÓLFSSON

Ég tók að mér að skrifa bókadóm um Bókina Eitraða barnið eftir Guðmund S. Brynjólfsson fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Mætti segja að hér sé um að ræða spennusögu í sagnfræðilegum stíl þar sem sannar persónur stíga fram úr Íslandssögunni til að leysa flókið morðmál, en Guðmundur er þó lítið fyrir að fara í flokkadrætti þegar kemur að bókmenntastefnum. Bókadóminn má finna á Bókmenntavef Bókmenntaborgarinnar.

BÓKADÓMUR: MARRIÐ Í STIGANUM EFTIR EVU BJÖRG ÆGISDÓTTUR

Ég tók að mér að skrifa bókadóm um spennusöguna Marrið í stiganum eftir Evu Björg Ægisdóttur fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Bókin er fyrsti handhafi Svartfuglsins, nýstofnaðra glæpasagnaverðlauna sem Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson standa á bak við og eru ætluð nýjum íslenskum glæpasöguhöfundum. Bókadóminn má finna á Bókmenntavef Bókmenntaborgarinnar.

BÓKADÓMUR UM SMÁGLÆPI Í KILJUNNI

 

Smáglæpir voru til umræðu í Kiljunni í gærkvöldi. Ég er bara býsna sáttur við það sem Kolbrún Bergþórs og Sigurður Valgeirsson höfðu fram að færa um bókina. Þau voru sammála um að sem fyrsta bók teljist þetta vera mjög vel gert. Sigurður minntist sérstaklega á söguna „Eiginmaðurinn og bróðir hans“ og hrósaði myndmáli hennar og sagði meðal annars:

„[Björn] sprettur fram sem mjög fær höfundur í þessari bók … Maður getur fullyrt að hann á eftir að skrifa fleiri og betri bækur.“

Kolbrún tók í sama streng og sagði meðal annars:

„Það er svo margt undir yfirborðinu. Það eru brotnar fjölskyldur, það er grimmd og það eru glæpir, og stundum engir smáglæpir … Honum tekst vel að lýsa fólki. Það er margt þarna sem er dálítið sjokkerandi. Þetta virðist vera frekar kyrrt á yfirborðinu en svo koma svona lítil atvik … og maður allt í einu hrekkur við og hugsar: „Hvað er ég að lesa!?““

SMÁGLÆPIR FÁ ÞRJÁR OG HÁLFA STJÖRNU Í DV

Smáglæpir fékk þrjár og hálfa stjörnu í helgarblaði DV núna á föstudaginn. Stjörnunum fylgdi heilsíðu bókadómur og þessi spekingslega mynd af sjálfum mér sem tekin var í bókasafnssal Þjóðmenningarhússins. Dómurinn og stjörnugjöfin er mér að sjálfsögðu mikið gleðiefni, en sérstaklega finnst mér skemmtilegt að Ágúst Borgþór nefnir söguna “Ef þið hefðuð hringt” og hrósar henni. Enn og aftur hefur fólk skiptar skoðanir um sterkustu sögur safnsins, sem þýðir vonandi að lesendur séu að upplifa ólíka hluti við lestur sagnanna. Rithöfundur getur ekki óskað sér betra hóls.