UPPLESTRARKVÖLD BWS Í COMMUNITY BOOKSTORE

Aðalinngangur Brooklyn Writers Space í Gowanis

Síðastliðinn föstudag, þann 15. febrúar, tók ég í fyrsta sinn þátt í upplestrarkvöldi á vegum Brooklyn Writers Space, sem haldin eru einu sinni á mánuði í Community Bookstore bókabúðinni á 7. Avenue í Park Slope. Brooklyn Writers Space býður upp á þögul skrifstofurými fyrir skrifandi fólk og rekur félagið tvö slík rými; annars vegar í Carroll Gardens og hins vegar í Gowanis hverfinu rétt við Park Slope, þar sem ég sæki mér þjónustu þeirra.

Community Bookstore er ein af mínum uppáhalds bókabúðum í Brooklyn og býður búðin upp á fjöldamarga viðburði og upplestra í hverjum mánuði

Á kvöldinu gerði ég dálítið sem að ég efast um að ég myndi nokkurn tímann leyfa mér a gera á upplestrarkvöldum heima á Íslandi, nema þá kannski í litum hópi kunningja: Ég las úr ókláruðu verki, þ.e.a.a. skáldsögunni sem ég er að vinna að þessa stundina. Heima fyrir myndi ég aldrei þora að gangast undir slíka berstrípun en hérna er töluvert auðveldara að hverfa inn í fjöldann. Ég neyddist auðvitað til að þýða textann yfir á ensku, þar sem að annars hefði ég þess vegna getað verið að lesa upp úr íslenskri símaskrá fyrir hópinn. Þótt að dýrmætur tími færi í það verk (meiri en ég ætlaði því) þá var engu að síður gott að finna átyllu til þess að setjast eilítið niður með textann, losa hann úr viðjum sínum og binda síðan aftur niður og hreinskrifa á nýju máli. Ég veit að mörgum höfundum er alveg meinill við upplestra, en ég er á því að maður komist sjaldan í jafn mikið návígi við lesendur og á upplestrarkvöldum—sem þó eru líka alræmd fyrir dræmar mætingar. Engu að síður hefur maður gott af því að þurfa að standa frammi fyrir lesendum, að þurfa að standa undir eigin texta og ákvörðunum sem maður tók á einhverjum tímapunkti þegar maður var orðinn gjörsamlega samdauna efninu.

Lestrinum var vel tekið og var gaman að sjá hve ólíkar sögurnar á kvöldinu voru. Hinir höfundarnir, Stephen Aubrey og Lena Valencia, voru eilítið á léttari nótunum í sínum sögum; annarsvegar með nútímafærðri uppfærslu á Þyrnirós með tilheyrandi samfélagsmiðlum og menntaskóladrama, og hinsvegar ungmennasaga um systkinaöfundsýki og hamskipti. Það var sérstaklega gaman fyrir mig hve margir góðir vinir sem við höfum kynnst hérna úti mættu á kvöldið, æst og uppvæg í að fá loks að heyra einhvern snefil af því sem ég fæst við að skrifa, en hingað til hef ég ekki haft úr miklu að ráða til að deila með þeim. Eftir upplesturinn rölti hópurinn niður á pöbbinn The Gate á horni 5. Avenue og 3. strætis og var þetta svo óvenjulega milt kvöld að við sátum úti í bjórgarðinum þar langt frameftir og spjölluðum.

READING IN COMMUNITY BOOKSTORE IN PARK SLOPE THIS FRIDAY

This Friday, February 15th, I will be doing a reading in the Community Bookstore on 7th Avenue in Park Slope. The reading is a part of the Brooklyn Writers Space Reading Series, and two other BWS authors, Stephen Aubrey and Lena Valencia, will also be reading that night.

Brooklyn Writers Space is a quiet communal space for writers to work their craft. I’ve been a member of BWS for the past 6 months and having a space where I can work in peace and quiet for a few hours each day has massively improved my productivity and focus. It doesn’t hurt that there is also a bottomless jar of french roast in the lounge.

Hope to see you at the Community Bookstore this Friday.

UPPLESTUR Í COMMUNITY BOOKSTORE 15. FEBRÚAR

Föstudaginn 15. febrúar næstkomandi mun ég taka þátt í upplestrarkvöldi á vegum Brooklyn Writers Space Í Community Bookstore á 7. Avenue í Brooklyn. Upplestrarkvöldið er hluti af upplestrarseríu BWS, sem rekur húsnæði á horni 1. stræti í Gowanis og á Court Street í Carroll Gardens fyrir fólk sem fæst við skriftir—rithöfunda, ljóðskáld, handritshöfunda, blaðamenn o.s.frv. BWS státar af því að bjóða upp á hávaðalaus rými þar sem hægt er að einbeita sér að textavinnu án nokkurra truflana—enda mikill skortur á slíku í New York borg. Þagnarskyldan sem gildir inni í BWS vinnurýmum er ekkert grín, og verður fólk að gjöra svo vel og fara fram ef það ætlar sér svo mikið sem að yrða á hvort annað eða fá sér tyggjó. Ég er búinn að vera meðlimur í BWS í að verða hálft ár og hefur það hjálpað mikið við skriftirnar að búa að rými sem ég get gengið að á hvaða tíma sólarhrings sem er, þar sem ég er umkringdur öðru fólki sem situr við textabasl allan liðlangan daginn. Ekki er verra að vinnurýminu fylgir kaffistofa þar sem hægt er að tylla sér og spjalla og þar sem er að finna ótæmandi kaffibauk og gamaldags uppáhellingarkönnu—eins og alvöru vinnustað sæmir.

Ásamt mér munu stíga á stokk höfundarnir Stephen Aubrey og Lena Valencia