Þjófasaga, sem kom út í Meðgöngumálaseríu Partus útgáfunnar árið 2016 undir ritstjórn Elínar Eddu Pálsdóttur, var nýverið gefin út í sjöunda og nýjasta hefti ítalska bókmenntatímaritsins Effe. Effe er á vegum Flanerí útgáfunnar þar í landi og heitir sagan á ítölsku Storia di una ladra. Heftið er helgað þýðendum og er þar að finna sögur hvaðanæva úr heiminum sem hafa verið þýddar yfir á ítölsku en auk mín eru höfundar frá Bandaríkjunum, Brasilíu, Tékklandi, Frakklandi og Úrúgvæ.
Sérstaklega skemmtilegt er að fólkið á bak við útgáfuna vildi láta myndskreytingu frá heimalandi höfundarins fylgja hverri sögu. Ég var því svo heppinn að þau hjá Effe höfðu samband við Sunnu Rún Pétursdóttur sem bjó til þessa fallegu mynd hér fyrir neðan út frá efni sögunnar.
Annars kom ég lítið að þýðingunni og vinnunni á bak við að koma sögunni inn í tímaritið. Það framtak er að fullu á vegum Francescu Ritu di Berardino sem þýddi söguna. Ég þurfti varla að skipta mér neitt af því starfi nema þá að svara einstaka spurningum hennar um efnið og áferð og útlit hins ímyndaða heims sögunnar. Ég gæti ekki verið ánægðari og montnari af frágangi verksins, en tímaritið er augljóslega rekið af miklum metnaði og það er mikill heiður að hafa fengið að vera með.
Ef einhver hefur áhuga á að festa kaup á eintaki af Effe þá er hægt að nálgast það hér.