BISKOPS ARNÖ 2019

Í byrjun júní tók ég þátt í svokölluðu debutantseminar, eða nýliðanámskeiði, á eyjunni Biskops Arnö í Svíþjóð, ásamt hópi annarra norrænna höfunda. Námskeiðið er haldið ár hvert og er ætlað fyrir ljóðskáld og rithöfunda sem hafa nýlega sent frá sér sína fyrstu bók. Á meðan á námskeiðinu stendur fá þátttakendur tækifæri til að kynnast og læra af hvort öðru, ásamt því að vinna verkefni og hlýða á fyrirlesara sem skipuleggjendur hafa fengið til liðs við sig. Þannig skapar námskeiðið nýtt tengslanet ár hvert á meðal nýrra kynslóða norrænna höfunda; tengslanet sem oft varir áratugum saman. Fyrirlesararnir í ár voru danska ljóðskáldið Mette Moestrup, sænska listakonan og ljóðskáldið Makda Embaie og sænski rithöfundurinn Kristofer Folkhammar. Kajsa Sundin og Ida Linde sáu um að halda utan um námskeiðið og stýra því dag frá degi.

Íslenskt/færeyskt samstarf! Beinir Bergsson, Fríða Bonnie Andersen og ég. Fríða gaf út bókina „Að eilífu, ástin“ í fyrra og fyrsta ljóðasafn Beinis, „Tann lítli drongurin og beinagrindin“ er væntanlegt á íslensku í haust (mynd: Fríða Bonnie Andersen).

Það er Norðurlandaráð sem borgar brúsann en höfundarnir sem taka þátt ár hvert eru útnefndir af höfundafélögum hvers lands. Það er því Rithöfundasambandi Íslands að þakka að mér var boðið að vera með í ár—ásamt Fríðu Bonnie Andersen, sem gaf út sína fyrstu bók, Að eilífu ástin, í lok árs 2018. Aðrir gestir voru: Elin Wilows frá Finlandi; Beinir Bergsson frá Færeyjum; Balsam Karam, Nino Mick, Wera von Essen og Burcu Sahin frá Svíþjóð; Emma Bess, Andreas Eckhardt-Læssøe, Shosha Raymond og Tine Paludan frá Danmörku; Kristin Hauge, Martin Ingebrigtsen og Mads Rage frá Noregi; og Juvvá Pittja frá Lapplandi.

Villtir höfundar í skógarferð: Martin Ingebrigtsen, Nino Mick, Emma Bess, ég, Mads Rage og Elin Wilows (mynd: Fríða Bonnie Andersen).

Biskops Arnö er algjör paradís, og eru það mikil forréttindi að geta kúplað sig út í heila viku og ekki hugsað um neitt annað en að skrifa og ræða við aðra norræna höfunda um mismunandi aðferðafræði og hugmyndir. Námskeiðið sjálft var einstaklega krefjandi fyrir okkur útnárapésana, þar sem megnið af kennslunni og umræðunum fór fram á sænsku og dönsku—þótt hægt væri að grípa til enskunnar þegar til þurfti. Með einbeitningu og góðum vilja gat maður þó skilið megnið af því sem fram fór og jafnvel líka stundum tjáð sig á norðurlandamálunum. Gekk það æ betur eftir því sem leið á vikuna og gamla skóladanskan mín tók að krauma upp á yfirborðið, sem og sá slettingur af sænsku sem ég hef sankað að mér í seinni tíð.

Nokkra mismunandi baðstaði er að finna á eyjunni og var ljúft að láta sig fljóta í stöðuvatninu, þótt skandinavísku höfundarnir reyndu að skelfa mann með geddusögum.

Auðvitað gerir það manni erfitt um vik að geta ekki áreynslulaust lagt orð í belg hvenær sem maður vill, en líklega hafði ég þó gott af því að neyðast til að einbeita mér dálítið og leggja vel við hlustir. Ég á það til að vera óttaleg blaðurskjóða á svona samkomum, og stundum hef ég jafnvel fallið í þá gryfju að bera fram „spurningar“ sem snúa frekar að því að gera mig breiðan en að leggja eitthvað nauðsynlegt fram í umræðuna. („Hóhó! Stundum!?“ heyri ég einhvern muldra.) Er ég að reyna að venja mig af þeim ósið.

Upplestur í Biskopsköket (mynd: Fríða Bonnie Andersen).

Á síðasta degi á eyjunni skiptist ég á bókum við aðra höfunda. Hef ég undanfarinn mánuð verið að bisast við að liðka gömul málbein sem legið í hafa í dvala síðan einhvern tímann á síðustu öld með því að feta mig hægt og bítandi í gegnum þær bækur. Í flugvélinni á leiðinni heim tók ég pásu frá þessu púli og tók fram glósubók til að hripa niður nokkra punkta um hvað ég hefði lært eða uppgötvað á meðan ég var eyjarskeggi á Biskops Arnö. Eins og gengur og gerist voru flestar þær hugljómanir heldur augljósar eftir á, hvað þá þegar ég hafði sett þær niður á blað, en ég læt þær engu að síður fylgja hér á eftir.

Beðið eftir brottför: Juvvá Pittja, Shosha Raymond, Beinir Bergsson, ég, Emma Bess, Tine Paludan og Kristin Hauge.

NOKKUR PERSÓNULEG LÆRDÓMSKORN FRÁ BISKOPS ARNÖ 2019

  • Það örlar enn á þeim vöðvum sem ég þarf til að lesa bækur á aðalnorðurlandamálunum þremur. Þessir vöðvar eru slakir og gamlir, með lélegt viðbragð, en þeir eru þó þarna. Með dálítilli þolinmæði og æfingu ætti ég að geta þjálfað þá upp að nýju.
  • Síðan á unglingsárum, þegar ég byrjaði að lesa á ensku, á hnotskóg eftir vísindaskáldsögum og annarri bókmenntaflóru sem ekki var í boði á íslensku í þá daga, hef ég verið einum of bundinn hinum enskumælandi bókaheimi. Hef ég þannig alfarið leitt hjá mér það sem er að gerast í norrænni bókaútgáfu (og íslenskri bókaútgáfu líka, a.m.k. framan af). Það er löngu kominn tími á að lagfæra þetta.
  • Þrátt fyrir það ætti ég að hætta að skammast mín fyrir færni mína í enskri tungu, sem mér hefur í gegnum tíðina verið talin trú um að sé hálfgert „spilliefni“, sem eigi á hættu að eitra eða útþynna íslenskuna mína. Ég er fullfær um að valda báðum þessum tungumálum og nota ólíka styrkleika þeirra eftir því hvaða verkfæri hentar best hverju sinni. Auk þess gerir enskufærni mín mér kleyft að tjá mig og eiga í samskiptum, skriflegum og munnlegum, við höfunda og annað fólk hvaðanæva úr heiminum.
  • Það eru til tvær tegundir af norsku skrifmáli: bokmål, sem er að miklu leyti byggt á dönsku, og nynorsk, sem er nátengdara gammelnorsk, og þar af leiðandi Íslensku. Þetta vissi ég ekki. Þegar norska ljóðskáldið Martin Ingebrigtsen las upp á fyrsta upplestrarkvöldinu í eyjunni skyldi ég ekki bofs í ljóðunum hans (líklega einkum sökum Þrándheimska framburðarins hans) en eftir að ég fékk að skoða ljóðabókina hans, Riv av seg ansiktet, sem og skáldsögu norska höfundarins Mads Rage, Og skibet siglar vidare, gekk mér mun betur að skilja þá báða, bæði í talanda og upplestri, og gat fikrað mig nokkuð vel í gegnum texta þeirra á blaði. Báðir gefa þeir út hjá norska forlaginu Samlaget, sem eingöngu gefur út bækur á nynorsk. Bokmåltextar reyndust mér hinsvegar töluvert torveldari.
  • Af samtali mínu við Martin fékk ég nýja sýn af Noregi, þessu stóra landi þar sem mismunandi þjóðarbrot hafast við, oft í mikilli einangrun og með litlu samneyti á milli bæjarfélaga (fyrr á öldum, allavega). Eitthvað við alla þessa víðáttu og einangrun, sem og staða þeirra sem fyrrum Dananýlenda (sem ég hafði steingleymt), útskýrði fyrir mér ýmislegt varðandi kirkjubrennurnar og ofsann í norsku black metal senunni á 9. áratugnum. Ég hef lengi verið áhugasamur um sögu þessarar senu og svolgrað í mig bækur og heimildarmyndir um Mayhem og Darkthrone o.fl. (sem og auðvitað allskyns svartamálmstónlist) en alltaf átt erfitt með að skilja hvernig allt þetta ofstæki spratt fram í Noregi, af öllum stöðum.
  • Hrökkkex er herrans morgunmatur, og dugar í raun sæmilega í og með öllum máltíðum.
  • Ég hef hingað til verið of spéhræddan við ljóðformið. Orðin eru eitthvað svo nakin á blaðsíðunni. Maður getur hvergi falið sig á meðal þeirra, líkt og maður getur í orðaflaumi prósatextans. Það er hollur ávani að gefa sjálfum sér leyfi til að leika sér og/eða mistakast með því að hripa niður styttri texta og tilraunir, sama hvort slíkt sé ætlað fyrir bækur og aðra útgáfu eða ekki. Slík hugarleikfimi getur verið jafn mikilvæg og að standa upp frá skrifborðinu og teygja úr sér, eða fara út í göngutúr. Þess utan þá saknar maður gífurlega fróunarinnar sem því fylgir að leggja lokahönd á eitthvað (eða að minnsta kosti að leggja það frá sér í bili) þegar maður er djúpt í viðjum stórs prósatexta, og ætti því ekki að láta sér úr greipum ganga tækifæri til að „rumpa af einu ljóði“.
  • Talandi um spéhræðslu og feluleik, þá virðist það vera mér tamt að fela mig í textanum, hvort sem er á bak við skáldskap eða með ýmiskonar leikjum og hömlum. Það þarf ekki endilega að vera slæmt; að setja sér takmarkanir til að vinna út frá gefur manni sterkan byrjunarpunkt og eitthvað til að spyrna á móti, og oft á tíðum sprettur út frá slíkum skollaleik eitthvað nýtt og ótamið. Engu að síður verður því ekki neitað að það er viss orka í einlægni. Textar sem sigla lygnan sjó og taka engar áhættur sem stefna höfundinum í voða eru oft á tíðum hrútleiðinlegir. Mér kemur til hugar það sem Kristofer Folkhammar sagði í fyrirlestri sínum: „Þegar þú skrifar út frá einlægni frekar en kaldhæðni, þá ertu berskjaldaður fyrir skömm.“
  • Þú skalt ekki sofa með opinn glugga í skóglendi Svíþjóðar að sumri, sama hversu heitt er úti. Opnaðu frekar gluggann að morgni og loftaðu út yfir daginn en lokaðu honum þegar líður á eftirmiðdag og moskítóflugurnar fara á stjá.
  • Ekki baða þig í sænskum stöðuvötnum þar sem er mikið af sefgrasi í kringum baðstaðinn. Inni í því geta leynst geddur sem liggja í felum og bíða eftir bráð. Ef þær bíta þig í tánna þá sleppa þær ekki.
Fyrir utan Biskopsköket, þar sem flest upplestrarkvöldin fóru fram (mynd: Fríða Bonnie Andersen).