Þann 2. júní síðastliðinn hlaut ég Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta ásamt Birtu Þórhallsdóttur og Vilhjálmi Bergmann Bragasyni. Styrkurinn er ætlaður til að stuðla að útgáfum nýrra höfunda, og sammæltumst við “ungu” höfundarnir um það hversu einstaklega gaman og spennandi það væri að verkin sem hlutu styrkina í ár væru jafn ólík og þau eru, en þau eru um leið mjög ólík þeim útgáfum sem hafa einkennt styrkina hingað til. Birta er með örsagnasafn sem ber titilinn Einsamræður, Vilhjálmur stefnir á að gefa út á prenti leikritið sitt Afhending og sjálfur er ég með smásögusafnið Smáglæpir sem mun koma út hjá Sæmundi næsta vor. Engar skáldsögur eða barnabækur hlutu styrkinn í ár.
Ég er einstaklega þakklátur og stolltur yfir að vera úthlutað þessum styrki, og hvað sérstaklega er ég þakklátur fyrir að vera nú loks kominn með fasta lokadagsetningu fyrir Smáglæpi, sem ég hef verið að færa til kommur í ansi lengi. Enn þarf að sitja yfir efninu um sinn og sumar sögurnar sé ég fram á að endurrita frá byrjun en beinagrindina á ég inni í skáp og núna er ekki annað á dagskrá en að draga hana fram og klæða hana kjöti.
Ég læt fylgja hér með viðtal við mig, Birtu og Vilhjálm í Víðsjá daginn sem styrkirnir voru tilkynntir þar sem einnig má heyra okkur lesa úr væntanlegum útgáfum, og að auki þá er að finna hér fyrir neðan umsagnirnar um verkin þrjú frá dómnefnd Miðstöðvar íslenskra bókmennta.
Þar segir eftirfarandi:
Birta Þórhallsdóttir – Einsamræður
Kröftugar örsögur skrifaðar í afgerandi og öguðum stíl sem höfundur hefur einkar gott vald á. Textinn grípur lesandann með spennandi möguleikum og mótsögnum þar sem kunnuglegar aðstæður umbreytast og taka á sig hrífandi ævintýrablæ.
Björn Halldórsson – Smáglæpir
Vel skrifaðar og fagmannlega mótaðar smásögur. Höfundur þekkir smásagnaformið augsýnilega vel og kann þá list að segja ekki of mikið en skapa á sama tíma forvitnilega stemningu og andrúmsloft í sögum sem ná gríðarföstu taki á lesandanum.
Vilhjálmur Bergmann Bragason – Afhending
Athyglisverður og ögrandi leiktexti sem fyllir lesandann óhug og efasemdum um þá þróun sem er sýnd í samskiptum persónanna. Höfundurinn þekkir leikhúsið og leikritun og sýnir athyglisvert vald á forminu, eins og sést mætavel á snörpum og vel skrifuðum samtölum þar sem dansað er á mörkum súrrealisma og óþægilegs raunsæis.