TÁR, BROS OG TAKKASÍMAR

Jæja, umsókn um listamannalaun 2025 hefur verið lögð inn. Ég ýtti á „senda inn“ takkann í síðustu viku, eftir að hafa dútlað mér eins lengi og ég gat við að endurskrifa og styrkja ritsýnin sem ég lét fylgja umsókninni. Umsóknin sjálf var frekar lítið breytt frá því í fyrra, skiljanlega þar sem ég fékk enga úthlutun fyrir 2024 og tíminn til að skrifa hefur því verið takmarkaður undanfarið ár, á meðan ég hef verið í fullu starfi og notið góðs af öllum þeim fríðindum sem því fylgja að fá launaseðil í hverjum mánuði sem er nú þegar búið að borga alla skatta og öll gjöld af. Ég fékk meira að segja að kíkja í heimsókn til hans Jóa í Bara bækur um daginn til að ræða um dagvinnuna mína, og hann klippti samtalið okkar til eins og honum einum er lagið og lét mig til að hljóma eins og ég vissi alveg upp á 10 um hvað ég væri að tala. Því til viðbótar má nefna að ég var líka í Endastöðinni í þar síðustu viku, en þar var ég meira bara að gasa um listir og skrif almennt, svo ég sé það meira sem hluta af höfundastarfinu mínu (eða hobbíinu, eftir því hvar ég sæki laun mín hverju sinni).

Maður er samt farinn að vera ansi lunkinn í að stela klukkutíma hér og klukkutíma þar til þess að skrifa á kvöldin eða eftir vinnu. Ein blessunin sem fylgt hefur túristafaraldrinum er það að einhver af kaffihúsunum standa opin frá klukkan 7 á morgnanna um helgar, til að taka á móti túristunum áður en þeir fara í dagsferðirnar sínar, þannig að núna þegar maður er meira og minna hættur að drolla á barnum og farinn að fara snemma í bólið getur maður rifið sig á fætur fyrir allar aldir á laugardögum eða sunnudögum og náð góðri törn þar áður en borgin vaknar. Þetta eru samt allt bráðabirgðalausnir. Fyrr eða síðar þarf maður að finna leið til að eyða lengri samhangandi tíma með handritinu, svo maður missi ekki tilfinninguna á milli lotna. Og til þess þarf maður peninga.

Ætli ég verði ekki að viðurkenna að ég hafi mögulega verið aðeins of mikil Pollýana gagnvart óörygginu og brasinu sem því fylgir að þurfa að „sækja um vinnuna sína aftur á hverju ári“, eins og EÖN kallar það, í skrifum mínum hérna. Þetta er fyrirkomulag sem er ekki í boði fyrir neinn annan en örvæntingarfullt fólk sem hefur, meðvitað eða ómeðvitað, hagað lífi sínu á þann máta í gegnum árin að það er fært um að þrífast í þessu viðvarandi fjárhagslega óöryggi sem því fylgir að treysta á styrki fyrir afkomu sína og afköst.

Ég er þó bara að reyna að gera það besta úr stöðunni, finna einhverja sköpunargleði í þessu blessaða umsóknarferli, nota það sem vettvang til að plana bækurnar sem mig langar að skrifa í framtíðinni – eitthvað sem ég er almennt frekar ragur við að gera í sjálfu skrifferlinu af ótta við að gera út af við dulúðina og uppgötvunarferlið sem fylgja því að renna temmilega blint í sjóinn. Mér finnst nefnilega best að gefa sjálfum mér nægilegt svigrúm til að geta uppgötvað eitthvað óvænt í skrifunum sjálfum; eitthvað sem ég átti ekki von á og hef ekki hugmynd um hvaðan kom. George Saunders hefur skrifað mikið um þetta uppgötvunarferli, um að skrifa eins og maður sé lesandi sem er að uppgötva textann jafnóðum. Ég er með bút úr viðtali við hann vistaðan í einni af möppunum þar sem ég geymi hina ýmsu skjávara sem birtast tilviljanakennt á öllum átta desktoppunum sem ég nýti hérna í tölvunni í mismunandi tilgangi. Þar stendur:

…be open to whatever energy your text is actually presenting as opposed to what you think it’s presenting.

Í sömu möppu hef ég líka vistað þetta heilræði frá Rebeccu Solnit til þeirra sem vilja gerast rithöfundar:

Live below your means and keep your means low.

Ég tók skyndiákvörðun um daginn og keypti mér takkasíma. Fyrr um daginn hafði ég snúið öllu við hér heima í leit að gömlum Nokia-síma sem ég vissi að ég ætti í fórum mínum, en þegar ég fann hann loksins reyndist batteríið vera svo úttútnað að það var ekki lengur hægt að loka bakhliðinni á honum. Ég rölti því niður í Elko úti á Granda og greiddi 12.990 kr. fyrir glænýjan takkasíma. Nýi síminn er líka Nokia, rauður, með Snake og Tetris og einhverjum fleiri leikjum, frumstæðum vafra sem rétt dugar (með töluverðri þolinmæði) til að fletta upp opnunartímum verslana, niðurteljara og vekjaraklukku, rafrænum skilríkjum, bluetooth, 0,2 mb myndavél og slotti fyrir sd-kort þar sem ég vistaði nokkrar plötur sem ég hef keypt af Bandcamp í gegnum tíðina og get spilað á frumstæða MP3-spilara sem er líka að finna á tækinu.

Nýja tryllitækið

Ég var svosem búinn að vera að gæla við þessa hugmynd lengi, en útslagið var þetta nýlega viðtal við Zadies Smith, sem sjálf hefur aldrei átt snjallsíma, ef undanskildir eru þrír mánuðir árið 2010, þegar hún sá í hendi sér að hún myndi aldrei skrifa aðra bók ef hún héldi áfram að ganga með þessa græju í vasanum.

Þetta var kannski svosem ekkert svo stórt stökk fyrir mig, þar sem ég hef ekki verið með neina samfélagsmiðla á símanum mínum í nokkur ár, en ég var farinn að taka eftir því að jafnvel án samfélagsmiðla var ég farinn að kíkja ótæpilega mikið á símann til þess eins að skoða fréttamiðla á borð við Vísi eða Guardian í leit að einhverju til að fanga athyglina. Þannig var ég ennþá að missa af litlu glufunum í deginum þegar maður hefði í eina tíð bara starað út í loftið og mögulega rifjað upp löngu gleymt samtal við einhvern sem manni er annt um, eða kannski bara munað eftir brandara úr gömlum Simpson-þætti sem maður skildi aldrei sem krakki en fattar allt í einu núna þegar honum er skyndilega endurvarpað í huganum á meðan maður bíður eftir græna gönguljósinu á Hringbrautinni.

Eins og Zadie Smith orðar það:

I don’t want to talk through emotional hysteria. I just talk about the facts, and the facts of this technology is that it was designed as and is intended to be a behavior modification system. That is the right term for it. When you wake up in the morning and you turn to your social app, you are being instructed on what the issue of the day is, what to be interested in. The news has always played some element in doing that but this is total. So I might wake up in the morning and what interests me is an idea I’ve had or something I see out my window or what’s happening locally in front of me, what’s happening in my country, but the phone tells me exactly what to think about, where to think about it and often how to think about it.

And it’s not even to me the content of those thoughts. Like, there’s a lot of emphasis put on the kind of politics that are expressed on these platforms to the right or to the left. To me it’s the structure. It’s not the content of what’s on them, it’s that it’s structured in a certain way. That an argument is this long, that there are two sides to every debate, that they must be in fierce contests with each other, is actually structuring the way you think about thought. And I don’t think anyone of my age who knows anyone they knew in 2008 thinks that that person has not been seriously modified in many different directions, but the fundamental modification here is the same.

And that’s okay. All mediums modify you. Books modify you, TV modifies, you, radio modifies you, the social life of a 16th century village modifies you. But the question becomes: who do you want to be modified by and to what degree? That’s my only question. And when I look at the people who have designed these things, what they want, what their aims are, what they think a human being is or should be, the humans I know and love, this machinery is not worthy of them. That’s the best way I can put it.

Ég er samt ekki svo heilagur að ég sé á leiðinni niður á höfn til að henda snjallsímanum mínum í sjóinn. Ég mun áfram notast við hann heima við og á ferðinni sem einskonar mini, mini-ipad/myndavél sem ég get tengt við wifi-net þegar þess þarf. Ef ég kem einhvern tímann þessari blessuðu bók út mun ég að sjálfsögðu poppa SIM-kortinu aftur í iPhone-inn og hefja mína sprelligöngu á samfélagsmiðlum í von um að vekja áhuga lesenda.

Undanfarið hef ég samt verið að skilja snjallsímann eftir heima yfir daginn og notið þess að vera allsótengdur við upplýsingamaskínuna á meðan ég trítla í vinnuna eða ráfa um matvörubúðir borgarinnar í leit að lífrænum banönum. Enn sem komið er hefur þetta ekki komið að sök, en ég er nokkuð viss um að einhver staðar þarna úti bíði mín eitthvað stórfenglegt samskipta- eða samgönguklúður sem auðveldlega hefði verið hægt að afstýra ef ég hefði haft snjallsíma við höndina.

Eins og og Zadie Smith drepur á síðar í þessu sama viðtali þá verð ég að spyrja sjálfan mig á því augnabliki: hvort er verra, þetta hrikalega klúður sem þú ert að díla við núna, eða það að ganga um með snjallsíma í vasanum alla daga og vera háður öllum hans duttlungum?

Lag dagsins er Get Well með Nothing. Ég er almennt ekki mikill shoegaze gaur en ég hef eilítið verið að hlusta á þá í fyrsta sinn undanfarið eftir að þeir sendu frá sér plötuna When No Birds Sang með uppáhaldsstrákunum mínum í Full of Hell. Plata ársins 2024, að mínu mati (þótt hún hafi reyndar komið út í desember 2023).

ÞAÐ VAR SJÓNVARPIÐ ALLAN TÍMANN

Hið ótrúlega hefur gerst. Ég er byrjaður að skrifa á kvöldin. Ég hef alla tíð staðið fyllilega í þeirri trú að ég sé morgunpenni, að eini tíminn sem ég kann að skrifa á sé á morgnanna, þegar ég er nýkominn á fætur, ekki búinn að kíkja á neina frétta- eða samfélagsmiðla, og helst varla einu sinni búinn að tala við neinn. Þannig hef ég oft syrgt það við aðra, hálft í gamni, að vera ekki nógu mikill bóhem og geta ekki unnið seint á kvöldin þegar aðrir eru komnir í bólið, með viskíglas mér við hlið. Það kemur í ljós að vandamálið var ekki ég – eða a.m.k. ekki bara ég. Vandamálið var Netflix, allan þennan tíma.

Who knew!?

Síðan sjónvarpið okkar bilaði hef ég semsagt uppgötvað auka tvo tíma í sólarhringnum, plús mínus. Ekki að við séum ekki að horfa á sjónvarp, eða öllu heldur fartölvu. Lotualgrými streymisveitanna virðist bara vera heldur máttlausara á litla skjánum en hann var á þeim stóra sem er að safna ryki á veggnum hjá okkur og ég hef ekki enn nennt að drösla í Sorpu. Eða kannski er það bara að við erum búin að vera í smá raunveruleikasjónvarpssyrpu og allt þetta grey fólk sem er að leita að ástinni á meðan það sýpur á sínum gylltu kaleikum (ógagnsæum til að hægt sé að klippa til öll samtöl þeirra á sem dramatískastan máta, geri ég ráð fyrir) er annað hvort svo einlægt eða svo óþolandi eða svo óþolandi í því að reyna að vera svo einlægt að maður getur ekki annað en tekið sér pásu á tuttugu mínútna fresti eða svo.

Mögulega er þetta þó bara langþráður vinnukippur sem ég hef verið að hlaða í undanfarna mánuði, nú þegar haustið er gengið í garð og maður er aftur dottinn í samfelldari rútínu. Samband mitt við skjái hefur þó aldrei verið neitt frábært, alveg síðan ég keypti mitt fyrsta sjónvarp fyrir unglingavinnupeninginn í 8. bekk. Lítið 14 tommu túpusjónvarp með innbyggðu vídeótæki sem ég hafði inni í herbergi hjá mér og notaði til að horfa á eina nýja og eina gamla frá Bónusvídeó langt fram á nótt hverja einustu helgi.

Það er orðið æði langt síðan ég var síðast með einhverja samfélagsmiðla á símanum mínum, ef þú telur ekki með Strava, þ.e.a.s. Síðast var held ég eftir að Stol kom út, þegar ég ræsti hæp-lestina og hélt henni gangandi út árið og fram á það næsta í von um að láta alla vita að ég væri að gefa út mína fyrstu skáldsögu og að hún væri bara alveg rosa fín, sko. Ég var líka á Twitter þá en eyddi prófílnum mínum með öllu eftir að Möskarinn tók við, ekki endilega út af honum heldur líka bara af því að ég var alveg kominn með nóg af peppuðu, djúpt hugsandi týpunni sem ég brá fyrir mig þar, og var orðið nokkuð ljóst að það var eitthvað ekki alveg heilbrigt við dópamínið sem ég fékk út úr lækunum. Ef ég setti einhverja tjáningu þar inn kom ég engu í verk út daginn, of upptekinn við að fylgjast með hvort einhver ætlaði að klappa mér á kollinn eða ekki

Núna er ég ekki með neitt nema þessa Facebook-síðu, sem ég nota aðallega til að láta vita þegar ég hendi í blogg og til að fylgjast með prógramminu í hlaupahópnum mínum, og svo Instagram-síðu sem ég opna sjaldan eða aldrei. Ég ákvað þó að kíkja aftur á hana um daginn til að láta vita af því að ég yrði í útvarpinu. Það var huggulegt innlit, og gaman að sjá það sem allt þetta alvöru fólk sem ég hef hitt í eigin persónu er að gera dags daglega, en alveg eins og með Facebook þá virðist ekki vera nein leið til að stilla það þannig að það sýni manni ekki neitt annað en þann hóp, sem fer í pirrurnar á mér og vekur upp einhverja mótþróaröskun sem ég hef leyft mér að elta undanfarin ár. Mögulega er eitthvað af þessum aukaklukkutímum sem ég hef verið að uppgötva undanfarið tengt þessu samskiptamiðlaleysi, og kannski líka öllu því skemmtilega sem ég er að missa af af því að ég sé ekki invite-in lengur. Líklega snýst þetta þó bara um það að ég er í fullri vinnu þessa stundina og maður fer aldrei jafn vel með tímann sinn og þegar maður á lítið af honum.

Ég fann allavega tímann til að fara á tónleika í Iðnó á föstudaginn og hélt þar áfram að vinna í nýrri persónulegri áskorun sem ég hef verið að kljást við undanfarið, þ.e.a.s. að fara á tónleika án þess að drekka meira en svona tvo bjóra. (Óáfengir teljast ekki með.) Iðnó er eitt af mínum uppáhalds tónleikastöðum í Reykjavík og ein mín stærsta eftirsjá í lífinu er að hafa misst af því að sjá Converge spila þar einhvern tímann í kringum 2006 af því að ég var erlendis í námi, og ISIS líka um svipað leyti. (Eða ISIS: The Band eins og þeir heita víst núna, af skiljanlegum ástæðum.) Converge sá ég á Gauknum ca. 2011 en Isis sá ég aldrei og mun líklega aldrei sjá, enda þykja mér þeir ólíklegri til að taka saman aftur en Oasis. Sem sárabót náði ég að sjá SUMAC, nýju hljómsveitina hans Aaron Turners á St. Vitus í Greenpoint hér um árið, en djöfull hefði ég verið til í að sjá þessar tvær hljómsveitir í Iðnó í denninu þegar maður var ennþá nógu einlægur í þessu til að henda sér í mosh-pittinn án þess að fara hjá sér. Á dagskránni á föstudaginn voru samt Misþyrming, Vafurlogi, Forsmán og Vampíra – sem unnu Músíktrilraunir fyrir ekki alls löngu – svo það er ekki eins og maður hafi yfir neinu að kvarta.

Vampíra
Forsmán
Misþyrming

Það var ótrúlega gaman að sjá hve vel salurinn tók krökkunum í Vampíru, og ljóst að fólk er himinlifandi að sjá að það er ný kynslóð mætt á svæðið, enda hefur meðalaldurinn a metaltónleikum farið síhækkandi undanfarin ár, sýnist mér. Þeir voru kannski smá óstyrkir þegar þeir voru að fara af stað en náðu manni alveg í síðustu tveimur lögunum.

Misyrming stendur alltaf fyrir sínu, þetta er í þriðja sinn sem ég sé þá í ár, eitt þéttasta tónleikaband sem ég veit um þessa dagana, hvert atriði úthugsað og þaulæft en engu að síður þessi óheflaða orka sem þeim tekst alltaf að leysa úr læðingi. Það var forvitnilegt að sjá að þegar þeir mættu á svæðið, síðasta band á sviðið, tóku að tínast inn nokkrar stífgelaðar týpur með Stetson-derhúfur og lummu undir vör, og er ljóst að þeir eru farnir að trekkja inn nýtt fólk í þessa frekar afmörkuðu senu – sem er auðvitað bara geggjað. Forsmán hef ég aldrei séð á sviði áður en hlakka til að sjá aftur, enda greinilega þeirra heimavöllur. Ég hef hingað til átt erfitt með að tengja við plötuna þeirra en ætla mér nú að gefa henni þann tíma sem hún á greinilega skilið, eða a.m.k. bíða spenntur eftir þeirri næstu. Vafurloga sá ég á Ascension taka sitt fyrsta gigg (að ég held) og var æstur í að sjá aftur, svo mjög að ég fjárfesti í bæði plötu og bol. Þar eru auðvitað algjörir reynsluboltar í fyrirrúmi, en það er líka eitthvað dálítið ferskt og öðruvísi við aðför þeirra að svartmálminum, eitthvað sem daðrar við póstrokk en þó með hetjugítar og annan fótinn kyrfilega í fortíðinni. (Þar að auki man ég varla hvenær ég sá síðast svona alklassískt svart-og hvítt Pagliacci-corpse paint á sviðinu.) Í miðju settinu þeirra hallaði félagi minn sér að mér og gargaði: „Það eru svona Motörhead-kaflar, en það er líka swing í þessu!“ Ég veit ekki hvort ég hefði alveg líst því þannig en leyfi því þó að standa. Ég gleymdi allaveganna alveg að smella af mynd á meðan þeir voru að spila, sem eru alltaf meðmæli í mínum bókum. Í staðinn læt ég eitt lag af plötunni þeirra fylgja hér að neðan, en hún er alveg brakandi fersk og nýmætt á Bandcamp og Spotify.

#9 ÚTI Í KULDANUM

Ég lokaði Facebook og Instagram rétt fyrir jól. Markmiðið var að setja aðgangana mína á pásu þar til í haust, þegar ég verð (vonandi) með í jólabókaflóðinu. Þá ætlaði ég mér að kveikja aftur og hamast við sprellið í von um að einhver tæki yfir höfuð eftir því að ég væri að gefa út bók. Þið vitið: eitthvað quality content við undirritun samningsins, titla-reveal, kápu-reveal, kokteil drykkur þegar bókin er farin í prentun, Spotify-playlistinn af tónlistinni sem ég hlustaði á á meðan ég var að skrifa, auðmjúkur þakkarpistill, flipp í útgáfufögnuði, í fína jakkanum að lesa upp einhvers staðar o.s.frv. o.s.frv. Stemmning stemmning stemmning. Svo þegar ég væri orðinn viss um að bókin væri komin í huggulegan farveg, kannski í byrjun febrúar eða svo, þá var ætlunin að slökkva á þessu aftur, þangað til næst þegar ég þyrfti að ræsa út kóklestina.

(Ég er löngu búinn að eyða Twitter, btw. Twitter selur ekki bækur. A.m.k. ekki íslenska Twitter. Og ég nennti ekki öllu Musk-egó-rúnk-contentinu.)

Reyndar misfórst þetta eitthvað hjá mér. Á einhverjum tímapunkti loggaði ég mig inn í Messenger í browser (er ennþá að nota það fyrir vini og fjölskyldu) og Facebook hefur greinilega túlkað það þannig að ég væri mættur að nýju. Ég uppgötvaði ekki fyrr en löngu seinna að prófíllinn minn hefði birst aftur. Ég hef leyft honum að vera í friði síðan en hef ekkert opnað Facebook.

Staðan.

Ég get ekki annað sagt en að breytingin hafi verið til batnaðar. Það er eilítið meiri tími afgangs á hverjum degi til þess að lesa bækur, renna yfir to do listana, skrifa einhverja vitleysu (eins og þetta raus hér, og stundum kannski eitthvað merkilegra) og jafnvel bara stara út í loftið. Best af öllu er að mér hefur loksins tekist að venja mig af þeim leiða ávana að vera með símann við höndina þegar ég er að horfa á sjónvarp, og er aftur farinn að horfa á bíómyndir í einni lotu og standa upp þegar ég nenni ekki lengur því sem er á skjánum. 

Það er náttúrulega hálfgerð klisja að gera svona mikið mál úr þessu. Það minnir mig á gamla brandarann: Hvernig veistu að einhver á ekki sjónvarp? (Svar: Hann segir þér það.) Líklega er kominn tími á að uppfæra þennan brandara og spyrja frekar: Hvernig veistu að einhver er ekki á Facebook? Að minnsta kosti ætti það betur við á Íslandi.

Það er eiginlega ótrúlegt hvað þessi miðill er alltumlykjandi í menningunni okkar. Ekki bara í menningarumræðunni, heldur líka þegar kemur þörfum upplýsingum eins og tímasetningunni á barnaafmæli frænda þíns eða opnunartímanum í búðinni sem þú ætlar að reyna að ná í eftir vinnu. Í hvert sinn sem ég opna forritið í leit að einhverjum svoleiðis krúsjal smáatriðum sem ég get því miður ekki fundið neins staðar annars staðar finnst mér eins og algóritmarnir séu að gera allt sem þeir geta til að afvegaleiða mig. Þeir vilja miklu frekar sýna mér vídeó af bílum og dude-bros að lyfta og éta prótínstykki.

Í sannleika sagt þá var það einmitt þessi sjálfspilandi vídeófítus sem var síðasta hálmstráið. Ég þoli ekki að hafa svona takmarkaða stjórn á því hvað skellur á sjónhimnunni þegar ég opna miðilinn. Ég reyndi allt hvað ég gat að slökkva á vídeóunum en Facebook tók það ekki í mál. Ég veit ekki hvað ég hef gert af mér á internetinu til að eiga þetta content skilið, nema kannski bara að vera karl og hafa orðið fertugur um árið. Markmiðið er augljóslega að fá mig til gleyma hvað ég ætlaði mér að gera og eyða í staðinn meiri tíma í ráf og skroll. Ráf + skroll = auglýsingatekjur.

Þar fyrir utan verð ég að segja að ég er farinn að vera hálf móðgaður yfir því hverskonar týpa algóritmarnir virðast halda að ég sé. Þeir eru sífellt að bjóða mér upp á að versla ljótustu og hallærislegustu föt allra tíma.

Nei takk.
WTF!?

Síðan ég uppgötvaði að prófíllinn minn er ennþá á sínum stað hef ég sætt mig við það að líklega þurfi ég á honum að halda og hef leyft honum að hanga uppi. Ég fæ stundum skilaboð á Messenger frá fólki sem hefur fundið mig í gegnum Facebook um upplestra eða viðtöl eða álíka fjör sem ég vil ekki missa af. Kannski set ég þennan bloggpóst þangað inn líka, þótt að tilhugsunin um að halda úti bloggi sem enginn les eða veit af þar sem það er hvergi sjáanlegt á samfélagsmiðlum kitli mig vissulega smávegis. (Það er samt subscribe-takki þarna uppi í hægra horninu einhver staðar, nóta bene.)

Mest óttast ég samt að þetta sé allt saman bara einhver roluháttur hjá mér, að ég sé að stinga höfðinu í sandinn, fara undan flæmingi, koma mér undan því að þurfa að taka þátt í umræðunni. Það er mikið tilkall til þess að maður taki afstöðu þessa dagana, sem er gott og blessað og eitthvað sem ég vill glaður gera. Mér þykir bara leitt að stundum er eins og samfélagsmiðlarnir séu eini vettvangurinn sem er í boði til þess. Þegar manni líður þannig er eins gott að gefa sér tíma til að drífa sig út að mótmæla, eða gefa fé í góðan málstað, eða taka gott kaffistofuspjall um málefni líðandi stundar, eða leggjast í einhverja álíka jaðarstarfsemi. Kannski er það ekki eins áhrifaríkt og að koma með harðorða yfirlýsingu á Facebook, en að minnsta kosti finnst mér þá eins og ég sé á staðnum sjálfur, frekar en að þarna úti einhvers staðar sé avatar af sjálfum mér sem ég er tilneyddur til að vakta og endurhugsa í sífellu. Sú furðulega tilfinning á það til að fokka gjörsamlega upp vinnudeginum mínum, eins og ég eigi mér hliðarsjálf sem ég hef bara takmarkaða stjórn á og er í þokkabót í eigu bandarísks stórfyrirtækis.

Líklega er ég þó að ofhugsa þetta. Ég á það til.

Að minnsta kosti á ég þó alltaf þann örlitla skika internetsins sem er þessi heimasíða, sem ég borga fyrir í beinhörðum en ekki með skrolli og ráfi. Hér get ég þó tekið afstöðu í friði frá öllum algóritmum, eins tilgangslaust og það er hér í eyðimerkurlendum veraldarvefsins.

Kannski er ég líka bara búinn að vera að hlusta á of mikið Godspeed og Silver Mt. Zion undanfarið.