LISTFJANDSAMLEGAR ÞVÆLUR OG BLÁTT BÚRÓKRATABLÓÐ

Höfundur að vinna í sinni fyrstu listamannalaunaumsókn í háskólabókasafninu í Stony Brook fyrir einhverjum árum síðan

Enn einu sinni sit ég hér og reyni að setja saman raunsæja sýn á skrif og afköst komandi árs í von um að umsóknin mín um listamannalaun hljóti náð fyrir augum úthlutunarnefndarinnar. Það er mér þó til vinnusparnaðar að ég hlaut engin ritlaun í ár, svo að ég er mestmegnis að biðja um sama fjölda mánaða og síðast og fyrir sömu verkefni. Þótt sýn mín á þau verkefni hafi vissulega skerpst aðeins á undanförnu ári, og eitthvað hafi tínst til í orðafjöldann, þá eru ekki miklar breytingar frá því síðast í þetta sinn. Ég hef verið í fullu starfi allt þetta ár og því ekki haft jafnmikinn tíma til að sinna skrifunum og þegar ég hef verið í frjálsu falli frílansgeirans og listamannalaunanna. Í ár hef ég þannig látið duga þennan venjulega kvíða um að maður sé ekki að skrifa nóg, í stað þess að kvíða bæði því að skrifa ekki nóg og hvernig maður ætli sér að skrapa saman launaseðli komandi mánaðar.

Ég sé að umræðan um hið mannskemmandi skrifræði umsóknarferlisins er hafin. Auðvitað skil ég vel að eldri kynslóðin sakni þess tíma þegar það voru færri um hituna, og það getur ekki verið skemmtilegt að þurfa að réttlæta starfsumhverfi sitt og laun ár hvert þegar maður hefur fyrir löngu sannað sig færan um að koma út heillegri bók á nokkurra ára fresti. Sjálfur ólst ég upp í þessu kerfi og á erfitt með að ímynda mér neitt annað. Mér finnst ansi ólíklegt að ég hefði nokkurn tímann fengið ritlaun til að byrja með ef ég hefði ekki búið að sæmilega formföstu umsóknareyðublaði til að fylla út. Ég er enginn sérstakur snillingur, né er ég sérlega þekktur eða vinamargur. Ætli það sé ekki þess vegna sem ég fylli út þetta blessaða form möglunarlaust ár eftir ár, og finnst jafnvel bara ágætt að hafa eitthvað til að styðja mig við þegar ég reyni að koma skikkan á hvað ég ætla mér að gera á komandi ári. Eða kannski rennur bara í mér ískalt og blátt búrókratablóð.

Ég sótti fyrst um ritlaun árið 2017, haustið eftir að Smáglæpir, mín fyrsta bók, kom út. Ég gerði ráð fyrir að það myndi taka nokkrar tilraunir fyrir mig að fá eitt né neitt og því væri eins gott að byrja strax, núna þegar ég var allavega kominn með eina bók. Ég gramsaði í tölvunni og dró á endanum fram sögu sem ég hafði byrjað á fyrir lokamöppuna mína í ritlistarnáminu í Glasgow, nóvellu sem byggði á ferð sem ég hafði farið með föður mínum á Snæfellsnes árið áður en hann lést úr heilaæxli. Sagan var hálfskrifuð og hálfvonlaus. Ég hafði byrjað á henni á meðan sársaukinn við að missa föður minn var ennþá opið og vætlandi sár, og þar sem ég þorði ekki enn að dýfa mér í þann sársauka var sagan skrifuð í fjarlægri og tilgerðarlegri þriðju persónu, allar persónurnar nafnlausar og stirðar, hikandi í hverju orði. Eitthvað varð ég samt að senda, og þetta var eina sagan sem ég átti í fórum mínum sem virtist vera of stór til að rúmast í smásögu.

Mér fannst þó ótækt að senda söguna eins og hún var. Ég henti fyrstu tveimur köflunum og eyddi heilum degi á bókasafni Stony Brook-háskólans á Long Island (þar sem við bjuggum á þeim tíma) við að endurskrifa þriðja kaflann í fyrstu persónu. Lá svo yfir umsóknareyðublaðinu frá Rannís og fabúleraði um allt sem ég ætlaði mér að gera í þessari skáldsögu, sem ég vissi vel að ég var í rauninni engan veginn tilbúinn að hella mér í að skrifa, eitthvað sem ég reyndi að hylma yfir með því að gefa í skyn allskyns djúpstæðar meiningar í seinni hluta handritsins – sem var í raun og veru ekki lengra en þessi eini kafli sem ég sendi.

„Gott mál! Þau munu þá kannski muna eftir mér þegar ég sæki um næst eða þarnæst,“ hugsaði ég með mér og sendi umsóknina án þess að pæla meira í þessu. Það kom mér gjörsamlega í opna skjöldu þegar ég fékk tölvupóst einhverjum mánuðum seinna um að mér hefði verið úthlutað þremur mánuðum. Ég átti ekki annarra kosta völ en að byrja að skrifa þessa bók sem ég taldi mig engan vegin tilbúinn að skrifa. Mér var það þó til happs að þegar ég renndi aftur yfir umsóknina, sem ég hafði ekkert skoðað né hugsað um undanfarna mánuði, þá reyndist þar vera eitt og annað gagnlegt sem ég gat nýtt mér sem haldreipi í þessu stóra verkefni sem ég hafði lofað upp á tíu fingur að taka að mér.

Sjö mánuðum seinna, þegar handritið var um það bil hálfnað, dró ég umsóknina aftur fram og notaði hana til að setja saman nýja umsókn fyrir komandi ár, leiðrétti eitt og annað sem hafði breyst frá því árið áður og dró upp eilítið skýrari mynd af framvindunni og fyrirætlunum mínum á komandi ári. Ýtti síðan á „senda inn“ og reyndi að hugsa ekki meira um hverju ég hafði lofað í þetta sinn.

Og þannig hefur þetta gengið síðan. Í september á hverju ári dreg ég fram umsóknina frá því árið áður og reyni að meta hvar ég er staddur núna, hvað er næst á dagskrá og hvað ég er búinn með af því sem ég sagðist ætla að gera síðast. Allar mínar umsóknir um listamannalaun (og allar áfanga- og lokaskýrslurnar líka) eru í raun bara framhaldsskrif. Stundum fæ ég einhverja mánuði, yfirleitt færri en ég sótti um, og stundum ekki. Samt sem áður nýtist umsóknin mér alltaf á einn eða annan hátt. Hún hjálpar mér að setja stefnuna þegar mig er tekið að reka af leið og veitir mér afmarkað rými til að fabúlera um bækur sem mig langar til að skrifa einn daginn.

Það eru örugglega til betri leiðir til að lifa af, og efalaust er alltaf hægt að betrumbæta kerfið sjálft, sem mér sýnist þó vera í sífelldri þróun og vera orðið talsvert skýrara og þægilegra í meðförum en þegar ég byrjaði fyrst að sækja um ritlaun, en þetta árlega stöðutékk hefur allavega virkað ágætlega fyrir mig hingað til.

En ætli ég sé ekki bara, þegar allt kemur til alls, einn af þessum hallærislegu og órómantísku höfundum sem eru „bara góðir í að skrifa umsóknir“.

#10 FLÓKNAR LAUSNIR VIÐ EINFÖLDUM VANDAMÁLUM

Nýja skrifbrettið ásamt nokkrum öðrum kvíðalyfjum.

Ég keypti mér nýja græju um daginn. Remarkable 2-skrifbretti. Þið kannist kannski við það úr auglýsingaalgóriþmunum ykkar.

Eins og iðulega þegar kemur að stórum útgjöldum þá var ég búinn að naga neglurnar og engjast í tölu­verðan tíma yfir því hvort ég ætti að leggja út fyrir þessu eður ei. Fyrir utan minn venjulegu fjármálakvíða – sem liggur reyndar í smá dvala núna þar sem ég er með fasta vinnu í augnablikinu og nýt þess lúxus að einhver annar borgi mótframlagið mitt – þá er ég almennt frekar skep­tískur varðandi tækni- og töfralausnir á vettvangi ritstarfa. Græjur eða forrit sem gera sig út fyrir að losa stífluna, beisla einbeitinguna og hreinsa rækilega úr cache-möppu hugans.

Það er alltaf heillandi tilhugsun að kannski sé ástæða þess að ekkert hefur bæst í orðafjöldann einfaldlega sú að þú sért ekki að nota rétta pennann, réttu glósubókina eða rétta ritvinnsluforritið, frekar en bara að þú horfir á Netflix í tvo tíma á dag í staðinn fyrir að liggja yfir handritinu. Ég hef nokkrum sinnum hlaðið niður forritum á borð við Scrivener eða Freewrite eða Flow í örvæntingu þegar plottið er hætt að þokast áfram og persónurnar farnar að lyfta augnabrúnunum í sífellu og brosa og kinka kolli án sann­færingar. Oft hefur heill dagur farið í súginn í slíkum tilfæringum, eða í að eiga við týpógrafíuna í skjalinu, uppsetninguna, titilsíðuna, skáletrun, feitletrun og viðlíka dútl sem þegar allt kemur til alls er ekki það sama og að skrifa.

Að öllu þessu gefnu lét ég það þó á endanum eftir mér að festa kaup á þess­ari töflu, eða skrifbretti, eða hvað mætti kalla það. Von mín var að það myndi gera mér kleift að nýta betur glufurn­ar í deginum, núna þegar ég er í fullri vinnu, og stytta bil­ið á milli útkrotuðu glósubóka­nna sem ég hripa fyrsta uppkastið mitt í og fínpússaða ritvinnsluskjalsins sem ég skila að lokum af mér.

Niðurstaðan er hreint ekki svo slæm. Skrifbrettið er svolítið eins og prentari sem ég get komið fyrir í hliðartöskunni minni og verður aldrei uppiskroppa með blöð né blek. Ég er með takka í Word-forritinu á tölvunni (einhvern veginn enda ég alltaf aftur í Word) og ef ég klikka á hann birtist skjalið sem ég er að vinna í umsvifalaust á Remarkable-töflunni. Þar get ég svo krotað í spássíurnar og skotið inn hand­skrifuðum miðum með leiðréttingum, viðbótum og nýjum senum. Til viðbótar get ég síðan hripað niður á brettið skrif á borð við þennan bloggpóst og síðan umvarpað handskrifaða efninu yfir í (ekki alveg gallalausan) ritvinnslutexta sem ég klára í tölvunni.

Líklega er þetta samt bara dýrasta kvíðaglósubókin sem ég mun nokkurn tímann kaupa – þótt ég hafi reyndar ekki greitt fullt verð fyrir hana heldur keypt á bland af fasteignasala í Urriðaholtinu. Ég hef nefnilega mikla trú á heilunarmætti glósubóka og hugga mig með því að kaupa eina slíka í hvers kyns krísum og kvíðaköstum. Það getur líka verið gott að skipta um verkfæri og vettvang þegar maður þarf að koma sér aftur af stað við skáldskapinn eftir að hafa dvalið fulllengi í raunheimi.

Ekki er heldur verra hvað það er róandi að sitja fyrir framan sjónvarpið og dútla myndir á nýju græjuna:

#7 LISTAMANNALAUN SCHRÖDINGERS

Myndin tengist skrifunum ekki beint

Jæja, þá er ég búinn að senda inn umsókn um listamannalaun fyrir 2024.

Þetta er auðvitað fyrir löngu orðin fastur liður í árinu hjá manni. Ég kíki yfirleitt á formið um leið og pósturinn berst frá RANNÍS í byrjun september, til að svona mjaka mér af stað en líka til að ganga úr skugga um hvort einhverju hafi verið breytt frá því árið áður. Ég hef einu sinni lent í því að skrifa heila umsókn inni í Word-skjal (treysti aldrei RANNÍS-vefsvæðinu alveg) út frá umsókn sem ég gerði árið áður og uppgötva síðan á síðustu stundu að formið var gjörbreytt. Mér sýnist umsóknarformið í ár vera nokkuð svipað og í fyrra og minnir að það hafi verið eins í hitt í fyrra líka, svo kannski er þetta komið í fastar skorður hjá þeim.

Í fyrra var einnig sú góða nýbreytni tekin upp að úthlutunin var tilkynnt í desember, sem ég vona að verði endurtekið í ár. Mér þykir það mun þægilegra en áður, þegar maður þurfti jafnvel að bíða fram í miðjan janúar með að segja vinnuveitendum sínum hvernig maður ætlaði sér að haga komandi ári. Ekki var verra að með því að tilkynna úthlutunina rétt fyrir jól sá RANNÍS við vatnsglasstorminum sem skellur venjulega á í gúrkutíðinni í byrjun árs, þegar vefmiðlarnir sjá sér leik á borði að hala inn nokkrum smellum með fyrirsögnum á borð við ÞESSIR [DJÖFULS AUÐNULEYSINGJAR] FÁ LISTAMANNALAUN Í ÁR, svo að þeir sem hlotið hafa úthlutun ná varla að kætast og hringja í mömmu áður en þeir eru komnir í gapastokka kommentakerfa fyrir að hafa fé af öryrkjum.

Ég reyni yfirleitt að vera í fyrra fallinu og forðast þannig heimasíðukrassið hjá RANNÍS á síðasta degi, en 13. september er nýtt met! Ég hef aldrei áður komið umsókninni frá mér svona snemma. Líklega skýrist það þó að einhverju leyti af allri vinnunni sem fór í síðustu umsókn, sem tók mig mánuð að ljúka við, sérstaklega allt aukaefnið og viðhengin sem snúa að nýju verkefni sem ennþá á ansi langt í land. Umsóknirnar mínar eru oftast einskonar framhaldsskrif, með milliköflum í formi áfanga- og lokaskýrsla. Hver umsókn inniheldur yfirleitt tvær bækur: bókina sem ég er að reyna að klára og bókina sem ég ætla að byrja á um leið og hin er búin.

Öll þessi bjúrókrasía er náttúrulega óttalegt maus en ég verð samt að viðurkenna að skrifin sjálf gera verið svo mikil þokuganga hjá mér að ég hef líklega gott af því að vera neyddur til að setjast niður einu sinni á ári til að reyna að átta mig á því hvað ég er að gera og hvað mig langar að gera. Þannig hafa umsóknirnar mínar oft breyst í einskonar vegvísa sem ég nýti mér þegar ég villist af leið og man ekkert lengur af hverju mér þótti þetta efni svona spennandi til að byrja með. Þá getur verið gott að fletta upp síðustu umsókn og sjá hverju ég lofaði þar; hversu stórhuga ég var síðasta september þegar veturinn var enn ekki skollinn á að fullu og ég var búinn að steingleyma hvernig bévítis reiknaða endurgjaldið gleypir megnið af upphæðinni.

Þannig reyni ég að fá eitthvað gagn úr allri þessari vinnu sem fer í umsóknina á hverju ári, sama hvort ég hljóti á endanum laun fyrir hana eða ekki. Það fyndna er að yfirleitt enda ég á að nýta þetta allt; öll uppköstin og fögru loforðin og persónulýsingarnar og hálfkláruðu beinagrindurnar sem ég hengi við umsóknina til að reyna að sýna fram á að ég sé nú voða duglegur strákur og traustsins verður. Ekki að ég sé endilega með þetta til hliðsjónar á meðan ég er að skrifa, en það er ágætt að glugga í þetta af og til, jafnvel bara til að sanna fyrir sjálfum sér að það sé nú alveg eitt og annað búið að gerast í handritinu síðan síðast og að það sé orðið lengra en það var.

Eða styttra. Það getur líka verið ansi gott stundum.

Ég gæti auðvitað eytt hér nægum orðum í allt það sem vantar upp á í þessu kerfi okkar, sem er langt því frá að vera fullkomið, en mér hefur þótt aðrir vera betri í því en ég, sem á oft og tíðum erfitt með að átta mig á því hvernig listageirinn gengur upp yfir höfuð hér á landi. Í lok hvers árs skil ég ekki hvernig mér tókst enn einu sinni að þrauka án þess að segja það gott og fá mér eina af þessum margumtöluðu “alvöru vinnum”. (Ég er nú reyndar með eina svoleiðis líka.) Þannig enda ég yfirleitt bara á því að umla eitthvað um að þetta sé nú bara það sem er í boði og lítið við því að gera, á meðan samhöfundar mínir steyta hnefann og útlista fyrir mér hvernig hlutirnir ættu að vera. Auðvitað er ég meira og minna sammála hnefasteyturunum og þakklátur þeim fyrir að standa í þessu pexi fyrir mig, en í gegnum tíðina hefur það ekki reynst mér neitt sérstaklega hollt að hugsa of mikið út í ritlaunin á meðan ég er ekki annað hvort að sækja um þau eða þiggja þau. Ég reyni helst að setja þau í sama flokk og veðrið; ég hef enga stjórn yfir því en get þó að minnst kosti reynt að búa mig vel.

Og núna er einmitt runninn upp sá ljúfi tími árs sem ég kalla “Schrödinger-mánuðina”. Þessir þrír mánuðir í lok árs þegar ég þarf ekkert að hugsa um listamannalaunin. Umsóknin er send og málið er úr mínum höndum. Ég veit ekki hvort ég verð með ritlaun á næsta ári eða ekki, og er þannig bæði með þau og ekki. (Eða eitthvað svoleiðis. Þekking mín á kettinum hans Schrödinger er mestmegnis fengin í gegnum einhverjar poppkúltúr hjáleiðir.) Þar til svar berst í desember (eða janúar) er ekkert sem ég get gert nema halda mínu striki og reyna að koma mér í góða stöðu til að koma bókinni út á næsta ári – hvort sem það verður gert með hjálp ritlauna eða ekki.

Annars hef ég undanfarið verið að reyna að taka upp heilbrigðari símavenjur. Síðan ég losaði mig við alla samfélagsmiðla af símanum hef ég staðið mig að því að opna visir.is í sífellu og lesa fréttir um minniháttar drama í hverfisgrúbbum á Facebook og daglegt líf hjá íslenskum selebum sem ég kann engin skil á. Til að reyna að gera eitthvað uppbyggilegra þegar ég finn að það eina sem geðheilsa mín vill er að ég gleymi mér um stund við að dútla í símanum náði ég mér í einfalt teikniforrit og hef verið að leika mér að því að rissa teiknimyndasögur. Ég er nokkuð ánægður með þessa. Hún heitir „Nýir vinir“.

Þeir eru sko báðir með monobrow, þúst..

Hvað varðar tónlist þá er ég aðallega að hlusta á Cloud Rat þessa dagana og naga mig í handarbökin yfir að hafa misst af þeim þegar þau spiluðu á Húrra fyrir nokkrum árum. Vonandi koma þau einhvern tímann aftur. Madison Marshall er með svakalegustu söngrödd sem ég hef heyrt lengi. Grindcore-band sem sprengir utan af sér alla þá kassa og stefnur sem reynt er að slá upp utan um þau. Set smá tveggja-mínútna-sturlun frá þeim hér undir fyrir þá sem nenna svoleiðis.

#4 HAKKABUFF Í ÖLLUM REGNBOGANS LITUM

Ég er loksins að finna fæturna í endurskrifunum, seinna en ég hafði vonast eftir en þó er ekki eins og ég hafi tekið mér langa pásu frá handritinu á meðan ég beið eftir punktum frá ritstjóra og yfirlesurum. Líklega var þörf á því, jafnvel þótt það setji þeim mun meiri pressu á mig núna ef ég ætla að gera mér vonir um að koma bókinni út í ár. Punktarnir hafa hingað til verið í jákvæðri kantinum en þó líka mjög krítískir, með ábendingunum um eitt og annað sem þarf að vaða í. Einna helst er þar um að ræða veikleika sem að ég vissi svosem að væru til staðar en var of ragur til að takast á við – þurfti smá tíma til að herða upp hugann og einhvern til að reka mig í verkið.

Í svona handritaskrifum skiptast sífellt á óreiða og fínpúss. Maður byrjar á algjörri óreiðu og nýtur þess að grípa allt sem kraumar upp úr manni og setja niður á blað, allskyns óskunda og klisjur og léleg skrif sem maður hrúgar ofan á upphaflegu hugmyndina. Svo hefst maður handa við að slípa þetta til og pússa í von um að finna huggulegt harðviðargólf einhvers staðar undir öllu þessu teppalími og línólíumflísum. (Þessi myndlíking gengur nú varla upp en mér er skítsama.) Það getur því verið ansi erfitt þegar maður er búinn að vinna í handriti lengi og slípa það til að þurfa að rífa upp parketið og gólffjalirnar sem maður var komin niður á. (Hananú.) Dýfa sér að nýju í óreiðuna með útkrotað handrit og endalausar athugasemdafærslur og breytingatillögur sem breyta skjalinu í marglitt hakkabuff. Við því er þó ekkert að gera. Óreiðan er órjúfanlegur hluti af sköpuninni, og ég er smátt og smátt að uppgötva aftur gleðina sem felst í því að hleypa öllu í bál og brand; hrúga inn pælingum og hugmyndum sem ég mun reyna að flétta einhvern veginn inn í skjalið án þess að skemma það um of eða hreinlega ganga endanlega frá því. Kannski maður reyni næst að “write it clean”, eins og Stephen King talar um; reyna að koma þessu frá sér í sæmilega endanlegri mynd jafnóðum, frekar en að laga eftir á. Hingað til hafa allar tilraunir mínar til þess leitt af sér ekkert nema niðurrif og sjálfsefa, sem er einstaklega ógagnlegt þegar maður er að fara af stað með handrit, svo að í bili held ég mig við það að skrifa fyrst og lesa og laga eftir á.

Annars tók ég stóra ákvörðun um daginn og gekk í hlaupahóp og hitti nú hóp af fólki tvisvar til þrisvar í viku og fer út að hlaupa með þeim. Ég byrjaði fyrst að hlaupa einhvern tímann á þrítugsaldri, á meðan ég var í ritlistarnáminu í Glasgow. Það var mjög takmörkuð mætingarskylda í náminu (eins og allt háskólanám ætti að vera, ef þú spyrð mig) og því var ég meira og minna fastur heima allan daginn í skítkaldri skoskri Tenement-íbúð. Hlaupin voru þannig leið til þess að halda geðheilsu en líka til að halda á sér hita; að koma blóðinu á hreyfingu. Ég uppgötvaði skjótt að þau voru einstaklega gjöful þegar kom að þeim hluta allrar hugmyndavinnu sem fer fram í undirmeðvitundinni. Ef eitthvað var ekki að ganga upp í skrifunum um morguninn þá reddaðist það yfirleitt um eftirmiðdaginn, þegar ég var búinn að hlaupa einn hring í næsta almenningsgarði. Stundum lenti ég meira að segja í því að eitthvað poppaði upp í hugann sem þurfti að festa niður sem fyrst, og man ég sérstaklega eftir því þegar að ég fékk skyndilega hugmynd og varð að spretta heim þar sem ég skrifaði söguna „Marglyttur“ (sem er að finna í Smáglæpum) nánast í einum rykk, ennþá í hlaupagallanum.

Hlaupin hafa haldið áfram með hléum síðan, en ætíð frekar á forsendum andlegrar heilsu og afkasta, frekar en keppnisskaps eða líkamlegrar atorku. Þannig hef ég aldrei reynt að fá  yfirsýn yfir hluti eins og “pace” eða annað slíkt, heldur verið þeim mun meira umhugað að koma aftur inn með einhverjar nýjar hugmyndir og í betra skapi. Mig minnir að ég hafi byrjað á þessu áður en ég las maraþonsbókina hans Murakami en hver veit. Kannski er ég bara enn einn klisjukjáninn sem tók þá bók sem heilagt gospel og keypti sér hlaupaskó í von um að það myndi redda öllu veseninu sem þessu skriflífi fylgir. 

Ég þoldi aldrei liðsíþróttir í æsku og vildi helst bara fá að vera í friði, kannski einmitt út af því að fólk átti það til að setja samasemmerki á milli þess hve ég var stór miðað við bekkjarfélaga mína og því að ég hlyti að vera góður í íþróttum, t.a.m. á línunni eða undir körfunni. Sú var aldrei raunin. Blessunarlega var ég þó skikkaður í sund sem barn þar sem ég var svo mikill sláni og fann mig þar. Sund er víst einkar gott til þess að kenna slánakrökkum að rétta almennilega úr sér, og er þar að auki ein sú mesta einstaklingsíþrótt sem þú getur stundað. Þú þarft ekki einu sinni að tala við neinn, því þú ert mest allan tíma á kafi. Þar undi ég mér vel fyrir utan þegar reynt var að fá mig til að keppa á sundmótum. Mér fannst ég hafa mikilvægari hnöppum að hneppa um helgar heldur en að hírast undir handklæði á framandi sundlaugarbakka og bíða eftir riðlinum mínum. Það þurfti til dæmis að lesa Hitch-hiker’s Guide to the Galaxy í fjórða sinn, eða panta kryddbrauð og Pepsi Twist á Pizza-bæ og leigja eina nýja og eina gamla í Bónusvídeó.

Hingað til hefur eina liðsíþróttin sem mér hefur hugnast verið að hjálpa fólki að flytja, og myndi ég glaður keppa í þeirri íþrótt, enda einkar fær um að koma sófum í gegnum dyragættir. Kannski er þó að verða einhver breyting þar á og ég að verða félagslyndari með aldrinum. Það hefur allavega verið huggulegt að fara út og hlaupa einn hring með öðru fólki og byrja í fyrsta sinn að pæla í hlutum eins og sprettum og hvíld og álíka. Mín eigin markmið í hlaupum (fyrir utan að koma kyrrð á hugann) hafa yfirleitt eingöngu snúist um að gæta þess að halda mér á skokki allan tímann og fara aldrei að ganga, líkt og okkur var skipað í útihlaupum í leikfimi forðum. Svo komst ég að því á minni annarri æfingu með hlaupahópnum þarna að það er víst voða hollt og gott að ganga inn á milli, og í raun mun betri æfing fyrir líkamann en að halda sér á stöðugu brokki langtímum saman.

Annars er ég núna að skoða bókahillurnar heima og vinna mig í gegnum ólesnar bækur. Ég er kominn sæmilega inn í Libra eftir Don DeLillo, sem ég tók á sínum tíma í kúrsinum The Great American Novel í UEA, þar sem kennarinn var Sarah Churchwell. Ég hélt mikið upp á þennan kúrs og allar bækurnar sem ég kynntist þar, og því hefur það alltaf setið í mér að vikuna sem við áttum að lesa DeLillo náði ég ekki að klára bókina í tæka tíð, annað hvort út af skiladag á einhverri ritgerð eða út af djammi – ég man ekki hvort. Bókin segir mjög skáldaða sögu af Lee Harvey Oswald og samsæri innan CIA sem leiðir til morðsins á JFK. Ég fór að hugsa um þessa ókláruðu bók eftir að við hjónin fórum á Prinsessuleikana í vikunni sem leið, þar sem Sólveig Arnarsdóttir leikur Jackie Kennedy með alveg svakalegum þunga sem sat í mér að sýningu lokinni og varð til þess að alla vikuna hef ég verið að raula gamla headbanger-slagarann Tire Me með Rage Against the Machine, af plötunni Evil Empire. Nánar tiltekið línurnar:

I wanna be Jackie Onassis
I wanna wear a pair of dark sunglasses
I wanna be Jackie O, oh, oh, oh, oh please don’t die!

Ég fór svo einnig að hlusta á nokkra þætti sem ég hafði misst af með Backlisted Podcast, þar sem þau ræða merkisbækur sem eru gleymdar eða við það að falla í gleymsku og orðnar svo gott sem ófáanlegar. Eftir að hafa hlustað á þáttinn þeirra um The Inheritors eftir William Golding endaði ég á að snúa heimilinu á hvolf í leit að eintakinu sem pabbi keypti handa mér á sínum tíma þegar við fórum tveir saman í ferð til Norwich svo að ég kæmist í viðtal hjá UEA og gæti skoðað mig um áður en myndi hefja nám þar árið eftir. Ég hafði lesið Lord of the Flies fyrir enskutíma í MS og verið algjörlega heillaður, en einhvern veginn náði ég aldrei að tengja nið Neanderdalsmennina í The Inheritors, sem á yfirborðinu að minnsta kosti virðast eiga lítið sameiginlegt við skólastrákana í Lord of the Flies. Því miður virðist þetta eintak hafa tapast eða endað í gjafakassa á einhverjum tímapunkti en ég held í vonina um að það muni dúkka upp að nýju. Ef svo ólíklega vill til að það hafi ratað á gjafaborðið með bókum sem við Elín stilltum upp til að saxa á búslóðina á Kirkjuteignum á sínum tíma, í garðveislunni sem var um leið brúðkaups- og kveðjuveislan áður en við fluttum til USA, og einhver hafi haft það á brott með sér og eigi hjá sér upp í hillu, þá myndi ég gefa mikið fyrir að endurheimta bókina. Kannski ekki fúlgur fjár en að minnsta kosti einlægar þakkir.

Hún lítur svona út.

Þau í Backlisted-pod voru sammála um að það mætti án efa segja að Golding væri vísindaskáldsagnahöfundur út frá lestri þessarar bókar og ekki síður útfrá lestri The Spire, sem kom á eftir henni, en einnig er auðvitað margt í Lord of the Flies sem er ansi vísindaskáldsögulegt – eða a.m.k. heimsendasögu-legt. Gerir það hann að einum af að minnsta þremur vísindaskáldsagnahöfundum sem ég man eftir í fljótu bragði sem hlotið hafa Nóbelsverðlaunin, en hinir tveir eru Kazuo Ishiguro og að sjálfsögðu Doris Lessing. Þó er ég viss um að margir muldri nú með sjálfum sér: „Ja… ég veit nú ekki alveg hvort þau teljast sem vísindaskáldsagnahöfundar…“ líkt og lesendur sem hafa talið sér trú um að þeir lesi ekki vísindaskáldsögur segja alltaf þegar vísindaskáldsaga fær nógu mikla athygli til að hljóta viðurkenningu og verðlaun á vettvangi „fagurbókmennta“. Ég heyrði þetta sagt bara núna síðast um Merkingu eftir Fríðu Ísberg, sem ég myndi alveg hundrað og tíu prósent telja til vísindaskáldsagna.

Hvað varðar tónlist þá er ég núna að enduruppgötva hina stórkostlegu Nightmare Traversal með hollensku death metal minimalistunum í CRYPTAE; einstaklega gagnleg plata þegar þú ert í yfirlestri og endurskrifum og vantar eitthvað þungt og þykkt til að leggjast yfir öll skilningarvitin og skyggja á heiminn. Þeim félögum er margt til listanna lagt en ég held einnig mikið upp á systurhljómsveit þeirra, Dead Neanderthals (viðeigandi að láta þá fylgja hér, samanber skáldsögu Golding). Ég læt Click, nýjustu plötu (eða „verk“) þeirra, fylgja hér að neðan líka; einhverskonar fútúrískt-synth-psychadelia-trance-death metal bræðingur sem enginn leið er að fitta í tiltekið form. René Aquarius, sem trommar að ég held í báðum hljómsveitum, er einnig með mjög djúsí bandcamp síðu þar sem má finna hverskyns ambient, synth og sóló-trommu-project.

Jæja. Komið gott af blaðri. Núna dýfi ég mér aftur í óreiðuna í handritinu.