ÞAÐ VAR SJÓNVARPIÐ ALLAN TÍMANN

Hið ótrúlega hefur gerst. Ég er byrjaður að skrifa á kvöldin. Ég hef alla tíð staðið fyllilega í þeirri trú að ég sé morgunpenni, að eini tíminn sem ég kann að skrifa á sé á morgnanna, þegar ég er nýkominn á fætur, ekki búinn að kíkja á neina frétta- eða samfélagsmiðla, og helst varla einu sinni búinn að tala við neinn. Þannig hef ég oft syrgt það við aðra, hálft í gamni, að vera ekki nógu mikill bóhem og geta ekki unnið seint á kvöldin þegar aðrir eru komnir í bólið, með viskíglas mér við hlið. Það kemur í ljós að vandamálið var ekki ég – eða a.m.k. ekki bara ég. Vandamálið var Netflix, allan þennan tíma.

Who knew!?

Síðan sjónvarpið okkar bilaði hef ég semsagt uppgötvað auka tvo tíma í sólarhringnum, plús mínus. Ekki að við séum ekki að horfa á sjónvarp, eða öllu heldur fartölvu. Lotualgrými streymisveitanna virðist bara vera heldur máttlausara á litla skjánum en hann var á þeim stóra sem er að safna ryki á veggnum hjá okkur og ég hef ekki enn nennt að drösla í Sorpu. Eða kannski er það bara að við erum búin að vera í smá raunveruleikasjónvarpssyrpu og allt þetta grey fólk sem er að leita að ástinni á meðan það sýpur á sínum gylltu kaleikum (ógagnsæum til að hægt sé að klippa til öll samtöl þeirra á sem dramatískastan máta, geri ég ráð fyrir) er annað hvort svo einlægt eða svo óþolandi eða svo óþolandi í því að reyna að vera svo einlægt að maður getur ekki annað en tekið sér pásu á tuttugu mínútna fresti eða svo.

Mögulega er þetta þó bara langþráður vinnukippur sem ég hef verið að hlaða í undanfarna mánuði, nú þegar haustið er gengið í garð og maður er aftur dottinn í samfelldari rútínu. Samband mitt við skjái hefur þó aldrei verið neitt frábært, alveg síðan ég keypti mitt fyrsta sjónvarp fyrir unglingavinnupeninginn í 8. bekk. Lítið 14 tommu túpusjónvarp með innbyggðu vídeótæki sem ég hafði inni í herbergi hjá mér og notaði til að horfa á eina nýja og eina gamla frá Bónusvídeó langt fram á nótt hverja einustu helgi.

Það er orðið æði langt síðan ég var síðast með einhverja samfélagsmiðla á símanum mínum, ef þú telur ekki með Strava, þ.e.a.s. Síðast var held ég eftir að Stol kom út, þegar ég ræsti hæp-lestina og hélt henni gangandi út árið og fram á það næsta í von um að láta alla vita að ég væri að gefa út mína fyrstu skáldsögu og að hún væri bara alveg rosa fín, sko. Ég var líka á Twitter þá en eyddi prófílnum mínum með öllu eftir að Möskarinn tók við, ekki endilega út af honum heldur líka bara af því að ég var alveg kominn með nóg af peppuðu, djúpt hugsandi týpunni sem ég brá fyrir mig þar, og var orðið nokkuð ljóst að það var eitthvað ekki alveg heilbrigt við dópamínið sem ég fékk út úr lækunum. Ef ég setti einhverja tjáningu þar inn kom ég engu í verk út daginn, of upptekinn við að fylgjast með hvort einhver ætlaði að klappa mér á kollinn eða ekki

Núna er ég ekki með neitt nema þessa Facebook-síðu, sem ég nota aðallega til að láta vita þegar ég hendi í blogg og til að fylgjast með prógramminu í hlaupahópnum mínum, og svo Instagram-síðu sem ég opna sjaldan eða aldrei. Ég ákvað þó að kíkja aftur á hana um daginn til að láta vita af því að ég yrði í útvarpinu. Það var huggulegt innlit, og gaman að sjá það sem allt þetta alvöru fólk sem ég hef hitt í eigin persónu er að gera dags daglega, en alveg eins og með Facebook þá virðist ekki vera nein leið til að stilla það þannig að það sýni manni ekki neitt annað en þann hóp, sem fer í pirrurnar á mér og vekur upp einhverja mótþróaröskun sem ég hef leyft mér að elta undanfarin ár. Mögulega er eitthvað af þessum aukaklukkutímum sem ég hef verið að uppgötva undanfarið tengt þessu samskiptamiðlaleysi, og kannski líka öllu því skemmtilega sem ég er að missa af af því að ég sé ekki invite-in lengur. Líklega snýst þetta þó bara um það að ég er í fullri vinnu þessa stundina og maður fer aldrei jafn vel með tímann sinn og þegar maður á lítið af honum.

Ég fann allavega tímann til að fara á tónleika í Iðnó á föstudaginn og hélt þar áfram að vinna í nýrri persónulegri áskorun sem ég hef verið að kljást við undanfarið, þ.e.a.s. að fara á tónleika án þess að drekka meira en svona tvo bjóra. (Óáfengir teljast ekki með.) Iðnó er eitt af mínum uppáhalds tónleikastöðum í Reykjavík og ein mín stærsta eftirsjá í lífinu er að hafa misst af því að sjá Converge spila þar einhvern tímann í kringum 2006 af því að ég var erlendis í námi, og ISIS líka um svipað leyti. (Eða ISIS: The Band eins og þeir heita víst núna, af skiljanlegum ástæðum.) Converge sá ég á Gauknum ca. 2011 en Isis sá ég aldrei og mun líklega aldrei sjá, enda þykja mér þeir ólíklegri til að taka saman aftur en Oasis. Sem sárabót náði ég að sjá SUMAC, nýju hljómsveitina hans Aaron Turners á St. Vitus í Greenpoint hér um árið, en djöfull hefði ég verið til í að sjá þessar tvær hljómsveitir í Iðnó í denninu þegar maður var ennþá nógu einlægur í þessu til að henda sér í mosh-pittinn án þess að fara hjá sér. Á dagskránni á föstudaginn voru samt Misþyrming, Vafurlogi, Forsmán og Vampíra – sem unnu Músíktrilraunir fyrir ekki alls löngu – svo það er ekki eins og maður hafi yfir neinu að kvarta.

Vampíra
Forsmán
Misþyrming

Það var ótrúlega gaman að sjá hve vel salurinn tók krökkunum í Vampíru, og ljóst að fólk er himinlifandi að sjá að það er ný kynslóð mætt á svæðið, enda hefur meðalaldurinn a metaltónleikum farið síhækkandi undanfarin ár, sýnist mér. Þeir voru kannski smá óstyrkir þegar þeir voru að fara af stað en náðu manni alveg í síðustu tveimur lögunum.

Misyrming stendur alltaf fyrir sínu, þetta er í þriðja sinn sem ég sé þá í ár, eitt þéttasta tónleikaband sem ég veit um þessa dagana, hvert atriði úthugsað og þaulæft en engu að síður þessi óheflaða orka sem þeim tekst alltaf að leysa úr læðingi. Það var forvitnilegt að sjá að þegar þeir mættu á svæðið, síðasta band á sviðið, tóku að tínast inn nokkrar stífgelaðar týpur með Stetson-derhúfur og lummu undir vör, og er ljóst að þeir eru farnir að trekkja inn nýtt fólk í þessa frekar afmörkuðu senu – sem er auðvitað bara geggjað. Forsmán hef ég aldrei séð á sviði áður en hlakka til að sjá aftur, enda greinilega þeirra heimavöllur. Ég hef hingað til átt erfitt með að tengja við plötuna þeirra en ætla mér nú að gefa henni þann tíma sem hún á greinilega skilið, eða a.m.k. bíða spenntur eftir þeirri næstu. Vafurloga sá ég á Ascension taka sitt fyrsta gigg (að ég held) og var æstur í að sjá aftur, svo mjög að ég fjárfesti í bæði plötu og bol. Þar eru auðvitað algjörir reynsluboltar í fyrirrúmi, en það er líka eitthvað dálítið ferskt og öðruvísi við aðför þeirra að svartmálminum, eitthvað sem daðrar við póstrokk en þó með hetjugítar og annan fótinn kyrfilega í fortíðinni. (Þar að auki man ég varla hvenær ég sá síðast svona alklassískt svart-og hvítt Pagliacci-corpse paint á sviðinu.) Í miðju settinu þeirra hallaði félagi minn sér að mér og gargaði: „Það eru svona Motörhead-kaflar, en það er líka swing í þessu!“ Ég veit ekki hvort ég hefði alveg líst því þannig en leyfi því þó að standa. Ég gleymdi allaveganna alveg að smella af mynd á meðan þeir voru að spila, sem eru alltaf meðmæli í mínum bókum. Í staðinn læt ég eitt lag af plötunni þeirra fylgja hér að neðan, en hún er alveg brakandi fersk og nýmætt á Bandcamp og Spotify.

#8 RÚTÍNUHUNDADAGAR

Engin ritlaun í ár, sem er auðvitað svolítið svekkjandi en það er erfitt að vera að fussa og sveia þegar maður sér marga kunningja sína gleðjast á samfélagsmiðlum yfir að fá úthlutun í fyrsta sinn. Þetta þýðir meira hark á komandi ári og minna svigrúm, en ég er blessunarlega ekki lengur í þeirri stöðu að öll mín egg séu í ritlaunakörfunni og árið ónýtt og einskis virði án þeirra. Þótt ritlaunin séu í raun eina leiðin sem flestir íslenskir höfundar hafa til að geta einbeitt sér að skrifum langtímum saman án þess að þurfa sífellt að rjúka frá til að sinna öðrum störfum þá er það algjörlega hræðileg staða þegar maður er farinn að treysta á þau. Sjóðurinn er það lítill og umsóknirnar það margar að það segir sig sjálft að það meikar ekkert sens að reikna með þeim ár eftir ár. Samt borgar það sig nú alltaf, finnst mér, að setja saman umsókn í von og óvon og geta þá kannski nýtt sér aukaefnið og drögin sem henni fylgja þegar maður stendur uppi ritlaunalaus og þarf að lauma skrifunum inn á milli vinnu og fjölskyldu. Eða kannski er ég bara einn af þessum margumræddu höfundum sem eru víst bara góðir í að skrifa umsóknir en ekki bækur, og fæ því einhverja blætiskennda Excell-nautn við að setjast niður og spá í því hvað ég ætli mér að gera á komandi ári, frekar en að mæta á kontórinn og treysta því að andinn taki völdin eins og alvöru bóhem.

Ójæja. Öll höfum við okkar djöful að draga.

Í raun reyni ég að feta milliveginn, setja mér stefnu og áfangastað en skilja eftir nægan tíma og pláss fyrir ýmiskonar útúrdúra og vegasjoppur, og frelsi til að skipta um skoðun hvenær sem ég vill og halda í þveröfuga átt.

Rútínan á eflaust eftir að verða eitthvað flóknari á komandi ári, en almennt reyni ég að hafa það markmið að eini munurinn á því að vera á ritlaunum og að vera ekki á ritlaunum sé að bókin kemur fyrr út ef maður er á þeim. Ég er annars í ágætri stöðu ákkúrat núna til að takast á við það ærna verkefni að skrifa samhliða fullri vinnu. Endurskrifin á handritinu eru að verða búin og ég ætla mér að verða tilbúinn að afhenda það ritstjóra þegar þau hjá Forlaginu ná andanum eftir jólavertíðina. Undanfarna mánuði hef ég verið að vakna klukkan sjö til að blússa niður í Gröndalshús og ná þar tveimur tímum af skrifum áður en ég hoppa aftur á hjólið til að vera mættur í vinnuna um tíuleytið. Auðvitað væri gott að ná lengri dögum inn á milli, en að hafa svona takmarkað svigrúm til að skrifa hefur þó þann kost að þegar maður sest loksins við lyklaborðið er aldrei neinn tími til að stara út í loftið og skrifa ekki neitt. Þegar maður finnur svo loksins næði til að renna yfir allt handritið kemur það síðan yfirleitt á óvart hve mikið hefur breyst síðan maður súmmaði síðast út og skoðaði heildarmyndina.

Blessunarlega hefur tíðarfarið líka verið þannig að ég get notað hjólið, sem er á góðum nagladekkjum. Án þess veit ég ekki hvort ég hefði tíma til að ná inn þessum lotum fyrir vinnu.

Þessi rígfasta rútína hefur skilið lítið rými eftir fyrir tónleika eða annað útstáelsi, en mér tókst samt að fara að sjá Bongripper á Gauknum um daginn ásamt Larissu Kyzer, sem er eina manneskjan í íslensku bókmenntalífi sem nennir að fara á metal-tónleika með mér. Bongripper voru vægast sagt stórkostlegir. Sögðu ekki stakt orð við crowdið, byrjuð bara að spila og litu varla upp fyrr en klukkutíma síðar, þegar þeir kipptu úr sambandi og löbbuðu af sviðinu og gáfu dolföllnum áheyrendaskaranum lítinn gaum, þar sem við stóðum dösuð eftir og klöppuðum og öskruðum eftir meira. Síðan þá hef ég mikið verið að spila live-plöturnar þeirra, en það er nokkuð ljóst að hér er um að ræða live-band og töluverður munur á stúdíóplötunum og samspilinu og grúvinu sem þeir detta í á tónleikum. Þess utan er ég búinn að vera að hlusta mikið á tónlistarmanninn dgoHn, sem rambaði inn á Spotify hjá mér um daginn. (Ú á Spotify, samt, btw. Er að vinna í að losa mig aftur undan ánauð þeirrar þrælakistu.) Ég veit nákvæmlega ekkert um manninn, né er ég einu sinni viss hvað á að kalla þessa tónlist, hvort þetta sé dubstep eða drum’n’base eða (sem ég sá þetta einhvers staðar kallað) drumfunk – hvað sem það nú er. Helst minnir þetta mig á gömlu Droopy Butt Begone! plötuna með 1-speed-bike, sem ég á einhverstaðar á vínyl og hefur lengi verið í miklu uppáhaldi. Læt hlekki fylgja hér að neðan.

Keypti þessa bakpjötlu til minningar en veit þó ekki hvaða jakka ég fórna undir hana, kannski bara taupoka.

Jólabækur: Búinn með MEN, DEUS og Serratónínendurupptökuhemla og er að klára Armeló. Hæastánægður með þær allar og hissa að sjá engar þeirra tilnefndar, en hef auðvitað ekki enn haft tíma né fjárráð til að demba mér í tilnefndu bækurnar og á því erfitt með að fara í samanburð. Að öðrum ólöstuðum þótti mér MEN og Serratónínendurupptökuhemlarnir standa sérstaklega upp úr, kannski þar sem þar vottar fyrir einhverju nýju og fersku í höfundarverki beggja höfunda, en ég held ég hafi lesið allar bækur þeirra beggja til þessa (eða amk allar skáldsögur Sigrúnar). MEN býr að lúmskum húmor sem dregur þó engan veginn úr hættunum, siðferðislegum sem líkamlegum, sem steðja að aðalsöguhetjunni, uppgjafaflautuleikara sem gerist menningarblaðamaður til að koma sér undan þeirri kunnuglegu streitu sem fylgir skapandi líferni, og heldur svo áfram að gefa sjálfum sér afslátt á hugsjónir sínar af góðum og gildum ástæðum þar til hann endar á heljarþröm. (Það hefur líka verið einkar ánægjulegt að ræða bókina við fólk sem er eldra en ég og býr að meira slúðri um íslensk utanríkismál í kringum aldamótin en ég sjálfur, sem var að útskrifast úr menntaskóla á þeim tíma.) Í Serratónínendurupptökuhemlunum er minna um húmor en oft áður í verkum Friðgeirs. Sagan er lítil og lágstemmd, og segir frá venjulegri millistéttarfjölskyldu í Reykjavík þar sem allir eru bara einhvern veginn að reyna að gera sitt besta. Það er æði sérstakt andrúmsloft í bókinni.  Undirliggjandi þunglyndi heimilisföðurins (og fleiri, kannski) litar öll samskipti fjölskyldunnar og setur svip sinn á allt í umhverfi þeirra. Ógnin sem þunglyndinu fylgir er einhvern vegin svo ægileg og óstöðvandi að ég upplifði hana næstum eins og vonadakalla-týpuna sem oft má finna í kvikmyndum Coen-bræðra, ef það er ekki of einkennileg samlíking. Eitthvað óútskýranlegt og óumflýjanlegt afl sem sem eltir persónurnar á röndum og virðist fært um að slá þær í hel á hverri stundu.

Annars verð ég með glæpasögukviss þann þrettánda desember hjá Sölku á Hverfisgötu klukkan 20:00 og vonast til að sjá einhver ykkar þar – þótt auðvitað beri ég fullan skilning á því að kvissið er á sama tíma og Ljóð og vinir í Mengi og kannski er fólk spenntara að sjá Gyrði og kompaní stíga á stokk á þessum einstaklega huggulegu upplestrarkvöldum en að hlusta á hnyttnar spurningar um mínar uppáhalds glæpasögur. Kvissið átti reyndar upphaflega að vera off-venue viðburður á vegum Sölku í tengslum við Iceland Noir, en blessunarlega mætti enginn í það skiptið, hvort sem það var einhverri sniðgöngu að þakka eða bara almennri þreytu gesta eftir langan dag af olnboganuddi og orðræðu. Ég slapp því að einhverju marki við að þurfa að vinda mér í viðlíka naflaskoðun og sumir samhöfundar mínir yfir þessari blessuðu hátíð, þótt ég væri í raun bara þarna sem launaður verktaki á vegum Sölku en ekki hátíðarinnar. Ég er enn að reyna að átta mig á því hvernig sauð svona hræðilega upp úr pottinum á íslenskum menningarsamfélagsmiðlum í kjölfar hennar. Það var einkennilegt hvernig sumum virtist þykja aðgerðirnar beinast gegn sjálfum sér persónulega, þegar mér þótti höfundarnir sem stóðu að upphaflegu sniðgöngunni ansi skýr í framsetningu sinni í fjölmiðlum, og kunni að meta að þau létu ekki glepjast til að dragast inn í samfélagsmiðlaumræðu sem fór skjótt að snúast um eitthvað allt annað en Hillary Clinton og þjóðarmorð í Gaza. Ég hef ekki komist að neinni niðurstöðu hvað þetta varðar annarri en þeirri að það sé ekki endilega hollt að horfa á umheiminn og orðræðuna eingöngu í gegnum prisma samfélagsmiðla, þar sem það er í eðli þeirra að magna upp allt það sem setur mann úr jafnvægi eða vekur viðbrögð í von um að halda manni eilítið lengur í auglýsingaumhverfi sínu. Ég hugsa að á komandi ári muni ég slökkva á facebook og öðrum samfélagsmiðlum í einhvern tíma og sjá til hvaða áhrif það hefur á heimssýn mína og andlega líðan. Ég viðurkenni þó fúslega að ég er engan veginn viss um hvort það sé í þeim tilgangi gert að gæta að geðheilsunni og efla samveru með mínum nánustu, frekar en bara í von um að stinga höfðinu í sandinn og kóa með átakafælninni. Örugglega smá af bæði, grunar mig.

#6 SMÁVEGIS UM VIÐBRAGÐSBÓKMENNTIR OG HUGARRÓ

Ég kláraði stóra bók um daginn og eins og stundum þegar ég klára stóra bók þá sat ég eftir og hugsaði: „Vá, hvort var þessi bók alveg æðisleg eða bara alltílæ?“ Eins og E.M Forster sagði þá er nefnilega erfitt að treysta stórum bókum fyllilega af því að lesandinn þarf að sannfæra bæði sjálfan sig og aðra um að hann hafi ekki sóað tíma sínum til einskis. Bókin sem um ræðir er Lessons eftir Ian McEwan, þykk skáldsaga sem spannar heila ævi venjulegs bresks meðaljóns, sem þrátt fyrir mikla hæfileika í æsku stendur uppi sem iðjuleysingi og einstæður faðir og endar síðan sem einangrað gamalmenni sem er búið að sættast við það að heimurinn haldi áfram án sín.

Ég er með mikil blæti fyrir öllum svona sögum og bíómyndum sem reyna að draga fram þá lágstemmdu dramatík sem einkennir daglegt líf „venjulegs“ fólks – svona Mike Leigh/Sally Rooney/Raymond Carver/kitchen sink drama-dót. Ég er samt ennþá að velta fyrir mér hvað McEwan ætlar sér að segja um samskipti kynjanna, en í bókinni er kunnuglegum stefjum snúið á haus. Þannig yfirgefur eiginkona Rolands hann og barnungan son þeirra til þess að gerast heimsfrægur rithöfundur, og í æsku er hann misnotaður kynferðislega af píanókennaranum sínum –  fullorðinni konu. Þá lífsreynslu notar hinn fullvaxta Roland til að útskýra (eða réttlæta) fyrir sjálfum sér hvernig hann fór út af sporinu sem ungur maður, lauk ekki námi og missti af þeim tækifærum sem stóðu honum til boða. Hann á þó erfitt með að fella sig við hlutverk þolanda eða fórnarlambs, allt þar til í seinni hluta bókarinnar þegar hann er kominn yfir fimmtugt og samfélagið er byrjað að takast á við #MeToo.

Líklega er það þó ósanngjarnt eða jafnvel arfavitleysa hjá mér að stilla því þannig upp að McEwan sé að reyna að „segja“ eitthvað ákveðið um samskipti kynjanna. Það getur vel verið að einhverjir lesendur sjái í bókinni endurspeglun á þeirra eigin heimssýn og hlakki yfir kvenpersónunum sem beita Roland tilfinningalegu og kynferðislegu ofbeldi („Sko! Konur líka!“) en sjálfur er Roland engan vegin viss um hvað honum finnst um þetta allt saman. Bókin fylgir honum frá barnæsku til æviloka og eins og við flest fær hann nýja sín á atburðina sem mótuðu líf hans eftir því sem tíminn líður, og kemst í raun aldrei að neinni endanlegri niðurstöðu. Hlutirnir gerðust bara eins og þeir gerðust og hann á erfitt með að sjá hvernig þetta hefði getað farið á annan veg. Á sama tíma fylgjumst við með því hvernig atburðir líðandi stundar setja mark sitt á líf hans. Við fylgjum honum í gegnum heimsviðburði á borð við Kúbukrísuna, Chernobyl, fall Berlínarmúrsins, upphaf og áframhaldandi hörmungar Íraksstríðsins, #MeToo, Brexit og að lokum einangrunina og óttann sem hann upplifir sem heilsulaus eldri borgari í heimsfaraldri Covid-19. Þessir atburðir móta allir að einhverju marki þá stefnu sem líf hans tekur, þótt áhrif þeirra séu kannski ekki eins áberandi og samskipti hans við konur, foreldra, fjölskyldu og vini.

Í ritdómi í nóvemberhefti New York Review ber Giles Harvey þennan stóra tímaskala bókarinnar saman við lensku sem hann nefnir „rapid response novels“ – sem mætti kannski útfæra sem „viðbragðsbókmenntir“ á íslensku. Þar á hann við skáldsögur sem eru svo kyrfilega staðsettar í pólitíska og andlega “núinu” að þær geta virkað hálf úreltar ef þú kemst ekki í þær fyrr en einu til tveimur árum eftir að þær koma út. Harvey aðgreinir Lessons frá þessum bókum sökum „dýpt“ persónusköpunarinnar og því hvernig bókin endurspeglar mannlegt eðli með því að gefa sig ekki út fyrir að búa að skýrum og skorinortum niðurstöðum um málefni líðandi stundar. Eins og hann orðar það sjálfur, kannski heldur hryssingslega:

Because of its formal fragmentation and ultra-contemporary subject matter, the rapid-response novel carries an aura of modernist innovation. Life itself has grown more manic and fractured (the implicit argument of these books seems to run), and novels ought to reflect this. Looked at another way, however, the genre could be seen as a capitulation. Working from the premise that readers today, conditioned by social media, have trouble focusing on anything for longer than thirty seconds at a time, the rapid-response novelist decides to cater to their ravaged attention spans by writing brief, topical books comprised of tweet-like fragments generously set off by quantities of white space.

Ég verð að viðurkenna að það er eitt og annað kunnuglegt við þessa háðsku lýsingu Harveys og kannski hefur maður einhvern tímann tautað eitthvað álíka ofan í fjórða bjórinn sinn þegar maður hefur setið við spekúlasjónir með öðru skrifandi fólki. Engu að síður hefur það verið mín reynsla að bækur séu alltaf í einhverskonar samræðum við samtímann, sama hvort það er viljandi af hálfu höfundar eður ei. Kannski er gagnrýni Harveys því heldur sú að fólk sé að flýta sér um of, en margir höfundar þekkja efalaust hvernig það virðist stundum eins og samtíminn sé að breytast mun hraðar en handritið þitt hefur tök á að gera. Ég er viss um að í þessum töluðu orðum situr einhver yfir handriti að óútgefinni samtímaskáldsögu og klórar sér í hausnum yfir því hvort eigi að breyta Twitter í X eða ekki.

Ég er þó sammála því að oft þykir mér skáldsögur sem bjóða upp á tilfinningalega sátt og skýrar niðurstöður eilítið tortryggilegar. Kannski er það bara vegna þess að sjálfur hef ég varla komist að neinni skýrri niðurstöðu í lífinu og ætlast ekki til þess af skáldskapnum sem ég innbyrði heldur. Orð Harvey minna mig einnig á nýlegan þátt af Offline-hlaðvarpinu þar sem kvikmyndagagnrýnandinn Maia Wyman (sem notast við nafnið Broey Deschanel á Youtube) ræddi um kvikmyndir á tímum samfélagsmiðla og áhyggjur sínar af því að nýjar kynslóðir væru farnar að skilgreina sjálfsmyndir sínar og annarra um of út frá því hvaða poppmenningu þau kjósa að innbyrða, og væru því ólíklegri til að horfa á kvikmyndir eða lesa bækur sem þeim fyndist ekki vera “fyrir sig“ eða sem þau bæru flóknar eða óþægilegar tilfinningar til. (Eða eitthvað svoleiðis, er örugglega ekki að fara alveg rétt með það sem hún sagði, hægt að hlusta hér.)

Annars er í dag síðasti dagur ritlauna hjá mér, og ætla ég að halda upp á það í lufsulegum lattelepjandi stæl með því að dandalast á kaffihúsum – sem ég hef reyndar varla þolinmæði til lengur, sérstaklega ekki eftir að ég flutti mig í Gröndalshús sem býr að svo rokna flottri kaffivél að meira að segja kaffi-amatör eins og ég getur brasað fram sæmilegasta espresso. (Ég er búinn að vera vægast sagt nötrandi af koffíni síðan ég tók við skrifstofu hérna.) Í kvöld er ég svo að fara að sjá hina goðsagnakenndu Graveslime spila suddarokk á Kexinu, sem mig grunar að eigi eftir að verða tónleikaupplifun ársins, og eru það stór orð þar sem ég fór að sjá Cave In á Gauknum á mánudaginn og hitti þar fyrir nánast alla reykvísku harðkjarnasenuna sem átti blómaskeið sitt um síðustu aldamót. Cave In voru reyndar svo þéttir að maður trúði því varla að hægt væri að flytja svona marglaga tónlist svona fumlaust, auk þess sem hljóðið á Gauknum var algjörlega til fyrirmyndar (sem er ekki alltaf endilega raunin þegar maður fer á metal-tónleika, þótt oftast sé það bara stemmning að fá smá suð og feedback inn á milli). Ótrúlega gaman líka að sjá bassafantinn Nate Newton slá strengi þarna á sama sviði (eða næstum því, þau færðu það aðeins til á einhverjum tímapunkti á árunum sem hornið á Tryggvagötu og Naustinni var sífellt að skipta um nafn) og ég sá hann spila með Converge, sinni meginhljómsveit, einhvern tímann í kringum (sjitt…) 2010.

Reyndar er ég ekki búinn að vera að hlusta á neitt sérstaklega mikið af tónlist undanfarið, eða ekki síðan ég uppgötvaði heimasíðuna Hljóðmynd, sem er hugarfóstur Magnúsar nokkurs Bergssonar sem stundar það óeigingjarna starf að koma sér fyrir á fáförnum stöðum úti í náttúrunni og taka upp hágæða hljóðupptökur fyrir okkur hin sem sitjum föst í voru daglega amstri. Upptökurnar eru opnar öllum sem á annað borð þurfa á smá hugarró að halda og læt ég eina mína uppáhalds fylgja hér – sæluhúsið í Brunnahæðum í miklu roki – ásamt sitthvoru uppáhalds laginu með Graveslime og Cave In.

DO YOU WANT TO DIEEEEE!!!???
Eitt gamalt og gott en nýjasta platan er reyndar líka alveg geggjuð, eiginlega..

#5 ÓÞARFA VESEN OG HIPSTERARÚNK

Ég setti nýtt batterí í ipodinn minn í gær. Ipodinn fékk ég að gjöf frá pabba í kringum 2004-5 og tók alfarið við af ferðageislaspilaranum sem ég var með í hliðartöskunni minni hvert sem ég fór á menntaskólaárunum – í þá daga þegar ég var ennþá of kúl til að nota bakpoka og of ungur til að fá bakverki. Ég man ekki hvað ég notaði ipodinn lengi. Í einhver ár, þar til hann hætti að virka. Einhvern tímann eftir að við Elín komum heim aftur frá Bandaríkjunum uppgötvaði ég hann ofan í kassa, og til gamans setti ég hann í hleðslu og fór enn einu sinni ég gegnum allar reset-leiðbeiningarnar sem ég fann á netinu. Mér til undrunar hrökk hann í gang, með þessu gamalkunna hvissi sem harði diskurinn gefur frá sér. Það var ansi sérstök tilfinning að renna yfir innihaldið; tímahylki fullt af allri tónlistinni sem ég hlustaði á upp úr aldamótum. Furðu mikið af poppi og lítið af metal – nema bara ISIS og Converge og auðvitað tímamótaplatan Behold the Fuck Thunder með The Great Redneck Hope.

Ég skemmti mér yfir þessari nostalgíu í dálitla stund en um leið og ég tók ipodinn úr sambandi dó hann aftur. Batteríið greinilega löngu kulnað. Upp á fönnið prófaði ég að panta nýtt batterí frá Ali Express – mín fyrstu samskipti við það bákn. Ég var ekki endilega að búast við miklu en tók sénsinn, borgaði ekki nema sirka 2000 kall fyrir batteríið og sendingarkostnaðinn, plús eitthvað álíka í tollinn og póstinn.

Batteríið skilaði sér mun fyrr en ég hafði vonað, kyrfilega falið á milli tveggja leikfangabíla sem höfðu verið teipaðir saman. Seljandinn ætlaði greinilega ekki að taka neina sénsa ef ske kynni að varan stæðist ekki evrópska staðla. Með þolinmæði, smjörhníf og góðu míkróskrúfjárni tókst mér að komast inn í ipodinn, fjarlægja gamla batteríið og koma því nýja fyrir án þess að skemma neitt. Hann virkar eins og hvers manns hugljúfi að nýju, og er ég nú þegar búinn að fylla hann af vel valinni tónlist. Einkum plötum sem ég hef verið að kaupa af Bandcamp undanfarin ár og hlaða niður af þeirri góðu síðu, og hef stundum dundað mér við að taka upp á kassettur til að hlusta á í gömlu græjunum í stofunni.

Einn af nokkrum uppáhalds Spotify-playlistum sem ég er að kasta eign minni á, þótt tæknilega sé sé ég bara að leigja þá af Spotify

Það eru góðar líkur á að ég missi allan áhuga á ipodinum, núna þegar ég er búinn að takast á við áskorunina við að skipta um batteríið í honum. Þannig vill það oft vera með svona dútl. Ég sá samt fyrir mér að ég gæti notað hann þegar mig langar að setjast niður í afskekktu horni með bók og vera ekki truflaður í einhvern tímann. Tónlistin sem ég valdi passar einkar vel við þá iðju. Lítið af hipphoppi og mikið af klassík, doom og electro stöffi sem dugar til þess að leggjast þykkt yfir heiminn í kringum mig, á meðan ég gleymi mér við lesturinn. Hellingur af Earth og Sunn O))) og Aphex Twin og annarri “heilatónlist”.

Ég er núþegar búinn að fara á Bandcamp og fjárfesta í nokkrum nýjum plötum sem ættu að passa vel við þá iðju. Tvær plötur frá Bell Witch, hin glænýja Future Shadow Part 1: Clandestine Gate og Four Phantoms frá 2015. Ef einhver tónlist á ekki heima á Spotify er það án efa hljóðverkin sem þeir í Bell Witch skapa. Plöturnar eru yfirleitt vel yfir klukkutími á lengd en samanstanda eingöngu af einu lagi. (Ætli þeir fái ekki borgað undir 50 kall per streymi, eins og við höfundarnir á Storytel?)

Til viðbótar forpantaði ég Systemic, nýju plötuna með áströlsku noise-sludge-stöllunum í Divide and Dissolve. Platan kemur reyndar ekki út fyrr en 30. júní, en miðað við þessi tvö lög sem eru nú aðgengileg er von á góðu. Fyrri plötuna þeirra, Gas Lit, keypti ég á vínyl og spila stundum í botni þegar ég er einn heima og finn loksins smá næði til að lesa á sófanum. Hnausþykkt og fallegt og níðþungt og alfarið orðalaust, ef undanskilið er ljóð frá Brooklyn-ljóðskáldinu Minori Sanchez-Fung, sem flutti líka ljóð á fyrstu plötunni þeirra, Abomination, og á efalaust líka eitt lag á nýju plötunni.

Ég er stundum inntur eftir því hvernig ég nenni öllu þessu veseni. Að brasa við kassettur og ipoda og eltast við plötur á Bandcamp og svo framvegis. Þetta er þó ekki neitt ólíkt og grúskið sem flestir á mínum aldri stunduðu í gamla daga, til að útvega sér tónlist. Spotify hefur gert okkur kleift að hugsa voða lítið um tónlistina sem við njótum. Við þurfum hvorki að fara út í búð að kaupa hana né hafa fyrir því að taka hana upp á spólu eða skrifa hana á diska og krota lagalistann á miðann í hulstrinu. Hvað þá að liggja yfir iTunes (sem heitir víst núna Music) til að gæta þess að lögin séu í réttri röð og allir hástafir á réttum stöðum, tengja síðan mp3-spilarana okkar við tölvuna með forneskjulegri snúru og stara út í loftið eins og idíótar í einhverjar mínútur á meðan tónlistin er afrituð. Við þurfum varla einu sinni að tala um tónlist lengur, rífast um hana, fá meðmæli frá vinum okkar. Hún er bara þarna þegar við þurfum hana, eins og vatnið í kalda krananum. Skrúfa frá, láta renna, skrúfa fyrir. Ég man ekki hvenær ég heyrði síðast spurninguna „á hvað ertu að hlusta núna?“ Fólk í dag er líklegra til að spyrja: „á hvað ertu að horfa?“.

Auðvitað er það í eðli sínu óttalegt hipsterarúnk að reyna að nýtast við svona úrelta tækni eins vínylplötur, kassettur og jafnvel ipoda – sem eru núna komnir með alveg jafn mikinn nostalgíublæ og úrelta tæknin sem þeim var ætlað að koma í staðinn fyrir. Ég átta mig alveg á því. Ég gæti allt eins farið að hjóla um bæinn á penny farthing-reiðhjóli og reynt að halda því fram að það sé bara hreinlega einfaldara og ánægjulegra farartæki en reiðhjól með jafn stórum dekkjum. Það breytir því ekki að það er eitthvað huggulegt við að eiga og spila tónlist á físísku formi. Einhver svona hugguleg mótþróaröskun. Mér finnst oft einmitt eins og flest það sem fær á sig stimpilinn “hipsterískt” í dag snúist að mestu um þá huggulegu mótþróaröskun sem fylgir svona óþarfa veseni.

Megin ástæðan fyrir ipodinum og kassettunum er þó sú sama og ástæðan fyrir því að ég fór aftur að ganga með úr og notast við vekjaraklukku fyrir nokkrum árum. Ég hef ekki trú á því að það sé hollt að láta símann sjá um allt fyrir mann, sérstaklega ekki mikilvægar þarfir á borð við svefn, tíma og tónlist. Þegar ég sest niður til að lesa og set tónlist yfir eyrun til að ekkert trufli mig – líkt og ég hef gert frá því ég var polli og fékk afhent mitt fyrsta vasadiskó (sem ég á líka ennþá, btw, og nota stundum) – þá vill ég helst geta gert það án þess að þurfa að hafa símann við höndina. Snjallsímar ganga út á truflanir. Jafnvel þegar maður er búinn að slökkva á öllum tilkynningum og stilla á do not disturb þá er erfitt að gleyma stað og stund með síma innan seilingar. Og fyrir mér hefur tónlist (líkt og lestur) alltaf að einhverju leyti snúist um að gleyma stað og stund.

Mestmegnis er þetta þó líklega bara hipsterarúnk.

Geturðu séð af einum og hálfum klukkutíma?
Af annarri plötu þeirra, Gas Lit. Hávaðinn kemur eftir smá.

#3 SVO BREGÐAST KROSSTRÉ…

Linsan á símanum mínum er biluð og getur ekki fókusað, sem kemur sér einstaklega vel til að taka blörrí stærilætismyndir af útkrotuðu handriti án þess að gefa neitt uppi

Ég heyrði í útvarpinu um daginn mann sem talaði um að janúar væri uppáhalds mánuðurinn hans þar sem hann væri yfirleitt besta myndin af sjálfum sér í janúar; færi út að hlaupa, notaði tannþráð og hætti að stúta rauðvínsflöskum fyrir framan Netflix. (Ókei, bætti við þessu síðasta.) Ég tengdi mikið við þessi orð. Sjálfur hef ég alltaf haldið upp á hverskyns þáttaskil – klippingar, nýir skór, nýtt hlaupa-eða to-do-lista-app – og haft mikla trú á því að á morgun, eða í næstu viku, eða á komandi ári muni ég loks finna jafnvægið til að taka upp nýja og betri siði og finna þessa sirka tvo tíma sem mig virðist skorta á degi hverjum til að ná að klára allt sem ég ætla mér.

Á árunum 2018-2021 hélt ég dagbók upp á hvern dag, allt þar til skrifin breyttust í hálfgerða áráttu sem ég hafði ekki lengur neina ánægju af. Ég varð að setjast niður og hripa eina blaðsíðu sama hvað, jafnvel þegar mér fannst ég hafa ekkert að segja, og stundum missti ég úr nokkra daga og þurfti að feta mig aftur á bak og reyna að rifja upp hvað (ef eitthvað) hefði gerst síðan síðast. Ég ákvað því í janúar 2022 að leggja þessi áráttukenndu skrif til hliðar og reyna að uppgötva aftur ánægjuna sem ég hafði áður af því að halda dagbók. Héðan í frá myndi ég bara skrifa í dagbókina þegar mér fyndist ég þurfa á því að halda, þegar ég fyndi fyrir löngun til þess, eða ef eitthvað virkilega merkilegt gerðist.

Síðan þá hefur mér að gengið bölvanlega að halda dagbók. Þetta blogg átti að vera leið til að finna gefandi vettvang fyrir reglubundin skrif í léttari kantinum, en virðist stefna í sömu átt og dagbókarskrifin, og hef ég varla litið hingað inn undanfarna mánuði á meðan ég hef verið með hugann við handritið að bókinni minni.

Ég er annars búinn að vera í hálfgerðu spennufalli síðan ég sendi handritið á ritstjórann minn hjá Forlaginu. Á hverjum morgni í a.m.k. tvö ár hef ég annað hvort sest niður og krukkað aðeins í því eða verið með samviskubit yfir að hafa ekki sest niður og krukkað aðeins í því. Suma daga var ég með ákvæði í to-do listanum mínum þar sem stóð einfaldlega “opna handritið”, til að tryggja að ég missti ekki tengslin við það, þótt ég væri að sinna öðrum verkefnum eða hlaupa á eftir daglegu amstri og áhyggjum. Nú er ég búinn að fá nokkra punkta hjá ritstjóra og nokkrum öðrum og er að undirbúa mig undir annað áhlaup, og er líka með einn-tvo yfirlesara tilbúna á hliðarlínunni sem ég er að “spara” fyrir næsta holl.

Ég var spurður um daginn hvort mér þætti það ekki óþægilegt að láta marga lesa yfir á sama tíma, en mér þykir það einmitt ágætt að standa fyrir framan sundurleitan kór frekar en einsöngvara, kannski einkum þar sem það sýnir þér hve ólíka sýn hver og einn lesandi hefur. Kórinn nær sjaldnast að stilla saman strengi og einn fyrirlítur það sem annar hefur til skýjanna, og báðir hafa eitthvað til síns máls. (Að því sögðu þá er líka alltaf eitt og annað sem allir eru sammála um að megi missa sín eða þurfi sárlega að laga.) Auk þess borgar það sig að vera með sæmilegan hóp af lesurum því að það eru alltaf einhverjir sem komast síðan aldrei í handritið eða ná ekki að klára yfirlesturinn sökum anna. Ekkert að því, að sjálfsögðu, þar sem sá yfirlestur sem ég skiptist á við með flestum mínum yfirlesurum snýst um greiðvirkni og að borga þeim til baka í sömu mynt frekar en í beinhörðum peningum. Ég hef sjálfur lent í því oftar en ég vill viðurkenna að svíkja einhvern um endurgjöf sem ég hafði lofað þeim vegna þess að skyldurnar í hversdeginum (eða skrifin sjálf) þvældust fyrir.

Annars er ég núna að lesa Mantel Pieces (mjög gott pönn) eftir Hilary Mantel; safn af gagnrýni hennar og skrifum fyrir London Review of Books, og er aðallega að hlusta á plötuna Suffocating Hallucination, sem er samstarfsverkefni death/sludge/doom hljómsveitarinnar Primitive Man og grindcore/noise hljómsveitarinnar Full of Hell.

Ég hef verið að vinna mig í gegnum slatta af Mantel undanfarið og átta mig á að ég er kannski heldur seinn á svæðið. Kláraði um árið Beyond Black, dásamlega gróteska skáldsögu hennar um draugagang og miðla. Hún er bæði húmorísk og hræðileg og full af ótrúlega skemmtilegum og ósympatískum persónum sem virka engu að síður svo breiskar og mannlegar. Það er eitthvað alveg sérstakt við það hvernig Mantel skrifar um ofbeldi, og sérstaklega kynferðisofbeldi í þeirri bók. Aðalpersónan neitar að skilgreina sig út frá hræðilegu kynferðisofbeldi sem hún mátti þola í æsku, en neitar jafnframt að takast almennilega á við ofbeldið og segir söguna af því á sama hátt og við myndum kannski lýsa því hve mikið við hötuðum að fara í leikfimi í barnaskóla. Bókin kom út 2005 og það er ansi merkilegt að skoða hana í dag, í samhengi við metoo-augnablikið sem við erum annað hvort ennþá í eða komin út úr eða loksins sloppin undan eða rétt byrjuð að takast á við – eftir því hvern þú spyrð. Mantel er líka einn af þessum höfundum – ekki ólíkt Jonathan Franzen og David Foster Wallace – sem mér finnst gaman að lesa skáldsögur eftir en sem ég hef hreina unun af að lesa þegar þau skrifa non-fiction. Þegar hún beitir eigin rödd til að takast á við bækur eða kryfja breska kóngafólkið er hún svo hárbeitt og óhrædd og um fram allt kýrskýr að maður fær gæsahúð

Talandi um gæsahúð: Primitive Man áttu að spila á Íslandi í fyrra á vegum Doomcember-hátíðarinnar, sem hafa einnig flutt inn stórgóð bönd eins og Conan og Vile Creature o.fl. Ég var búinn að tryggja mér miða og hlakkaði mikið til, en á síðustu stundu féll það í gegn út af einhverju Covid-klúðri. Mjög svekkjandi. Full of Hell gæfi ég líka mikið fyrir að sjá einhvern daginn á sviði. Einstaklega góðir og huggulegir strákar sem spila alveg hræðilega gróteska og ofsafengna tónlist. Samspil þessara tveggja banda – annað þeirra löturhægt og níðþungt og hitt yfirleitt á þvílíkri gandreið að maður finnur hreinlega til með þeim að leggja á sig aðra eins spilamennsku í þágu listar sinnar – er algjörlega magnþrungið; einhver ómennskur og Lovecraft-legur kraftur sem leystur er úr læðingi, handan við tungumál og hverskyns stæla. (Ef það er eitthvað sem gerir mig afhuga tónlist þá eru það stælar.) Læt ég lag af plötunni fylgja hér að neðan ásamt vídeóum með viðtölum við báðar hljómsveitir þar sem sést greinilega hve krúttulegt liðið sem spilar svona þunga og erfiða tónlist er yfirleitt í raun og veru, og hve vítt og breytt það sækir innblástur sinn, úr djassi og synth-tónlist og hipphoppi og bara hvaðan sem er.

Eyðieyjulistinn

Ég er búinn að vera að hlusta voða mikið á Desert Island Discs undanfarið. Hérna eru mín níu lög. Hvað bókina varðar sem maður má taka með sér (fyrir utan Biblíuna og heildarverk Shakespeare sem manni er afhent þegar maður fer úr bátnum) þá myndi ég taka Cryptonomicon eftir Neal Stephenson, sem ég hef lesið svona sex sinnum og get vel séð fram á að lesa oftar.