UPPLESTUR Í GRÖNDALSHÚSI Á MENNINGARNÓTT

Kærar þakkir, þið sem sáuð ykkur fært að mæta í Gröndalshús á menningarnótt og hlýða á upplestur frá mér og fleiri höfunum. Dagskráin var á vegum Bókaútgáfunnar Unu og var ætlað að draga saman bækur og útgáfur úr grasrótinni, og var einstaklega gaman að sjá hvílíkt úrval er þar að finna af ungum höfundum og litlum útgáfum sem eru með báða olnboga úti við að skapa sér pláss á íslenskum bókamarkarði. Þetta er frekt fólk og ég dáist að því. Ekki veit ég hvort ég með mínar tradisjónir og háa elli teljist til grasrótar en ég var upp með mér að fá að vera með, svo mikið svo að ég ákvað að taka sénsinn og lesa eitthvað sem ekki hefur komið fyrir annarra augu áður. Las ég kafla úr skáldsögunni sem ég er að vinna að um þessar mundir og vonast til að senda frá mér á næsta ári. Upplestrinum var vel tekið og hefur það gefið mér góðan meðbyr í áframhaldandi vinnu við bókina. Vona ég að Una endurtaki leikinn á næsta ári og að ég verði aldrei of stór fiskur til að vera boðið að vera með á grasrótarkvöldum.