Ég kom við í Forlaginu í dag og skrifaði undir útgáfusamning fyrir mína aðra bók sem er jafnframt mín fyrsta útgáfa hjá Forlaginu, að undanskildum þeim smásögum sem birtar hafa verið í TMM. Bókin hefur verið í smíðum nokkurn veginn samfleytt síðan 2016 en hún á rætur að rekja allt aftur til ársins 2013 þegar fyrsta uppkast handritsins, í töluvert annarri mynd, mátti finna í lokamöppu minni fyrir MFA-nám í ritlist við Háskólann í Glasgow.
(Þess má geta að sú lokamappa innihélt einnig eldri uppköst af flestum sögunum í Smáglæpum, minni fyrstu bók sem kom út hjá Sæmundi árið 2017, og því er erfitt að segja hvað ég á að taka mér fyrir hendur nú þegar sá brunnur er þurrausinn.)
Ég er spenntur að fara að vinna með ritstjóra Forlagsins og hönnunarteymi þeirra og lýst vel á að bókin komi út að vori, frekar en að þurfa að hraða henni í gegnum allt ferlið sem fyrir liggur í von um að ná henni í tæka tíð inn í jólabókaflóðið. Ég hlakka líka mikið til að sjá hvaða aðra höfunda verður að finna í vorútgáfunni 2021.
Fylgist með þegar nær dregur og frekari upplýsingar koma í ljós varðandi titil, efni, kápu og nákvæma útgáfudagsetningu bókarinnar. Að þessu sinni læt ég nægja að segja að um skáldsögu er að ræða.