#11 HIÐ NÆGJUSAMA LÍF

Það gerðist svolítið dásamlegt um daginn. Sjónvarpið okkar bilaði.

Við hjónin hlömmuðum okkur niður til að gleyma okkur yfir annarri seríu af White Lotus en á móti okkur tók bara svartur spegillinn. Svo virðist sem baklampinn sé farinn í gamla flatskjánum sem ég keypti fyrir einhverjum 10 árum síðan. Í staðinn enduðum við á að horfa á smá sjónvarp uppi í rúmi á einni af fartölvum heimilisins, eins og við áttum til að gera í þá daga þegar við áttum hvorki fasteign né sófa. Við gáfumst skjótt upp á því og tókum upp bækur í staðinn. Þetta var, í einu orði sagt, bústaðastemmning. Ég reyndi að láta ekki of mikið á því bera hve spenntur ég var yfir þessari nýju og hráu veröld – án töfragluggans í stofunni með allri sinni botnlausu, óþrjótandi afþreyingu. Ég sá í hendi mér að héðan í frá yrði það ekkert nema bóklestur, vínilplötur og fín vín á kvöldin. Kannski jafnvel kúltiveraður miðaldragöngutúr eftir kvöldmat.

Ég fór nefnilega að sjá Perfect Days um daginn í Bíóparadís. Reyndar var ég svo hrifinn að ég sá hana tvisvar. Myndin er hæg, og það mætti jafnvel alveg segja að það gerist ekki neitt í henni. Við fylgjumst með miðaldra hreinsitækni, Hirayama, sem geysist um Tokyo á sendibílnum sínum, hlustar á tónlist frá sjöunda og áttunda áratugnum á kassettum og þrífur almenningsklósett borgarinnar af einskærri natni og alúð. Eftir vinnu þvær hann sér í almenningsböðunum í hverfinu, þar sem það er engin sturta í litlu íbúðinni hans, og borðar kvöldmat á litlum núðlustað á neðanjarðarlestarstöð. Síðan fer hann tímanlega í háttinn og les sig í svefn.

Dagar hans eru einsleitir, vikurnar brotnar upp með helgum þar sem hann sinnir erindum og hjólar í bæinn til að kíkja í bókabúð og fá sér einn eða tvo á huggulegri barholu þar sem allir þekkja hann með nafni. Hann er einstaklega áhugasamur um tré og í kaffihléum sínum í vinnunni tekur hann myndir á gamla filmuvél af trjátoppum sem bera við himininn yfir borginni, og hirðir stundum heim með sér rótarskot af trjánum í almenningsgarðinum þar sem hann borðar sama nestið á sama bekknum alla virka daga.

Þannig líður tíminn. Við fylgjumst með nokkrum vikum í lífi Hirayama þar sem þessar einföldu rútínur endurtaka sig aftur og aftur, þó með eilitlum blæbrigðamun frá degi til dags og ýmsum minniháttar atvikum þar sem hans einfalda og einangraða tilvera nuddast upp við líf annarra íbúa Tokyo-borgar. Þessi augnablik sitja stundum eftir hjá okkar manni og fylgja honum jafnvel inn í draumalandið, sem birtist okkur í stuttum svarthvítum senum sem er varpað yfir myndskeið af Hirayama sofandi á fúton-dýnunni sinni. Sumir dagar eru betri en aðrir, en sjaldnast eru topparnir svo háir né lægðirnar það lágar, og flesta daga tekst Hirayama að halda í góða skapið og sjá fallegu og spaugilegu hliðina á tilverunni.

Eins og ég hef áður sagt þá er ég með eilítið blæti fyrir svona átakalitlum sögum um venjulegt fólk. Samt er Hirayama augljóslega ekki neitt sérstaklega venjuleg manneskja. Þegar systurdóttir hans á unglingsaldri birtist á dyraþrepinu hjá honum eftir að hafa flúið að heiman verður okkur ljóst að hann sjálfur er einnig á flótta. Þegar móðir stúlkunnar kemur að sækja hana í fylgd einkabílstjóra er augljóst að þrátt fyrir lífsstíl sinn þá kemur Hirayama af efnuðu fólki, og er í einskonar sjálfskipaðri útlegð í sínu verkamannslífi, kannski í von um að forðast sársaukann sem getur fylgt því að treysta öðrum fyrir hamingju sinni.

Því þrátt fyrir að vera hvers manns hugljúfi þá leggur Hirayama sig fram um að dragast ekki inn í líf samferðafólks síns. Þó má stundum sjá gárurnar á því hyldjúpa vatni sem liggur undir glaðlegu og áhyggjulausu yfirborði hans, einkum í lokasenu myndarinnar; langri samfelldri töku þar sem hann keyrir til vinnu í morgunsólinni og hlustar á tilfinningaþrunginn flutning Ninu Simone á laginu „Feeling Good“. Myndavélin dvelur langa stund við andlit Hirayama á bak við stýrið. Sólin brýst fram og hann er gráti næst, aleinn í sendibílnum sínum. Samt brosir hann og heldur fast í gleðina, hugfanginn af veröldinni og fegurðinni.

Einhverjir gagnrýnendur hafa bent á að Perfect Days dragi fram frekar rósrauða og óraunhæfa sýn af lífi láglaunaðs verkafólks. (T.a.m. sagði mér einhver að vinnugallinn sem Hirayama klæðist við störf sín sé hannaður af tískufyrirtækinu KENZO, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.) Þetta truflaði mig þó ekki þar sem mér þótti augljóst að myndin væri alls ekki að reyna að draga fram raunsæa sýn, heldur væri eins konar fantasía.

Flest höfum við held ég einhvern tímann látið okkur dreyma um að stíga út úr lífi okkar. Afsala okkur öllum okkar eigum, metnaði og lífsgæðum og fá okkur vinnu sem ekki krefst of mikils af okkur. Losa okkur við sjónvarpið og símann í von um að geta þá loksins fundið kyrrðina til að lesa bækur og hlustað á djass á síðkvöldum. (Eða atmospheric black metal eða dubstep trip-hop eða whatever.) Ná þannig loksins taki á þessari margumræddu hugarró sem sífellt er verið að reyna að selja okkur.

Leitin að þessari ró, eða þessu frelsi, gegnsýrði þær bækur sem ég las sem ungur maður rétt eftir aldamót. Bækur eins og Generation-X eftir Douglas Coupland, The Wind-up Bird Chronicle eftir Haruki Murakami og hinar og þessar bækur eftir Beat-skáldin. Bækur þar sem aðalsöguhetjurnar segja sig á einn eða annan hátt úr samfélagi manna, gefast upp á fjölskyldulífi og hvítflibbaframa og eyða dögum sínum í að eltast við dagdrauma og lesa bækur. Fara í göngutúra eða puttaferðalög, skipta sífellt um vinnu, elda pasta og hlusta á klassíska tónlist eða taka eiturlyf og fara í gjallgöngur. Gera síðan sitt besta til að vera vakandi fyrir fegurðinni sem verður á vegi þeirra í veröldinni.

Þetta er hvorki sérlega róttæk né raunsæ hugmynd, en það getur verið æði huggulegt að dvelja um stund í þessum dagdraumi um hið nægjusama og einfalda líf sem bíður manns þarna úti einhvers staðar, ef maður bara hefði hugrekki til að ganga skrefið til fulls, kasta öllu frá sér og leggjast á flótta.

Það er efalaust ekki langt í að við hjónin endurnýjum sjónvarpið okkar. Ég er nú þegar farinn að sakna Netflix og Disney-plús eins og gamalla vina. Í bili finnst mér þó allt í lagi að leyfa sjálfum mér að þykjast eilítið lengur að við séum á einhvern hátt að leysa öll okkar vandamál með því að eiga ekki sjónvarp.